10.12.1964
Efri deild: 29. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

6. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef ekki minnstu löngun til þess að leggja út í deilur við hv. 9. þm. Reykv. út af þessu máli, því að ég hef fulla samúð með málstað hans í þessu efni og hefði heldur kosið að eiga orðastað við annan eða aðra um þessi mál. En hv. þm. beindi til mín ákveðnum spurningum, sem ég vil ekki láta undir höfuð leggjast að svara.

Hann spurði, hvort mér væri kunnugt um, að það hefði verið gert samkomulag utan þings um þetta efni á milli Sósfl. og stjórnarflokkanna, og hv. þm. virtist í því efni koma eins og af fjöllum. Ég veit ekki betur en það væri gengið á milli þingflokkanna fyrsta daginn, sem Alþingi kom saman, og skýrt frá þessu samkomulagi, sem átt hefði sér stað um þessa fjölgun. Og ég veit ekki betur en það væru á fyrstu dögum þingsins, 2. eða 3. degi, veitt afbrigði hér á þingi fyrir því, að þetta næði fram að ganga, að þetta gæti átt sér stað. Hvar átti þetta samkomulag að hafa átt sér stað? Auðvitað utan þings. Hv. þm. þarf ekki að láta svona. Það má vel vera, að það sé gengið svo mjög fram hjá honum í þessum flokki, sem hann telur sig hálfpartinn tilheyra, að hann viti ekki, hvað fer fram þar, og honum sé ekki frá því skýrt. Mér þykir alveg furðulegt, að hv. þm. skuli koma hér upp og spyrja um svona atriði, eins og það sé ekki vitað mál, að það hafa verið gerðir um þetta samningar, enda fór hæstv. forsrh., að mér virtist, ekki dult með það í sinni ræðu, þegar hann mælti fyrir frv., svo að það er engum blöðum um það að fletta, og það eru fullgildar sannanir fyrir því, að það var gert samkomulag um þetta utan þings á milli stjórnarflokkanna og Sósfl.

En hitt, sem hv. þm. drap á, að ég hefði ekki farið hér alls kostar rétt með, þegar ég hefði sagt, að Sósfl. ætti sæti í utanrmn., þá má það til sanns vegar færa. En það verð ég að hafa mér til afsökunar, að ég er ekki vel heima í því, hvernig málum er skipað á þessu heimili. En það mun rétt vera, að utan þings sé um að tefla Sósfl., en að Alþb. sé ekki til sem stjórnmálaflokkur utan þings, en þegar þeir sömu menn eru komnir hingað inn á þing, þá heiti það Alþb. Þess vegna skal ég taka það til greina og leiðrétta það, að það sé Alþb., sem á sæti í utanrmn. En eitt er víst, að að áliti hæstv. félmrh. var sá fulltrúi, sem þar á sæti, engu óskaðlegri fyrir þá sök, þótt hann væri Alþb.-maður þegar á þing var komið.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur hlýtt á mitt mál, en ég gerði þar alveg glögga grein að mínu viti fyrir því, að framsóknarmenn eða við a.m.k., — ég gerði raunar ekki grein nema fyrir afstöðu okkar hv. 1. þm. Vestf., að við skrifuðum ekki undir nál. og sætum hjá. Hún var alveg glögg og byggðist á þessu, sem ég get gjarnan endurtekið, úr því að hv. þm. skildi það ekki áðan, að það hefði verið gert samkomulag um þetta utan þings, þeir hefðu hælt sér af því hvað eftir annað og einkanlega hv. stjórnarflokksmenn, að Framsfl. hefði þar hvergi nærri komið, honum hefði ekki verið boðið að vera með, það hefði ekki verið þörf að hafa hann með, og þegar málið er svona vaxið, teldum við réttara að láta stjórnarflokkana bera bæði á því ábyrgð og hafa heiðurinn af að hafa komið þessari breytingu á. En ég tók það líka fram, að við vildum ekki vera á móti því af samúð með Alþb. á þingi, af því að það ætti sæti með réttu í 5 manna nefndum, en stjórnarflokkarnir hefðu hrifsað hað sæti til sín með kosningabandalagi. Ég bætti því svo við sem minni persónulegu skoðun, en ekki sem rökum flokksins fyrir því að sitja hjá, að ég persónulega teldi þessa breytingu, sem hér er um að tefla, síður en svo horfa til bóta á starfsháttum þingsins. Eg get bætt því við, að ég álít það satt að segja hreina fjarstæðu, að 20 manna deild sé að skipta sér niður í átta 7 manna nefndir. Ég veit, að það þekkist hvergi nokkurs staðar í víðri veröld.