05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

202. mál, Laxárvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um heimild til l um Laxárvirkjun, er í megindráttum byggt á núverandi l. um Laxárvirkjun, l. nr. 54 25. maí 1949, sbr. l. nr. 64 25. maí 1950, um breyt. á þeim lögum. Breytingarnar, sem gerðar eru frá gildandi l. um Laxárvirkjun, miða einkum að því að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, til þess að unnt sé að stækka vatnsaflsstöðvarnar við Laxá við Brúar eins og orkuþörfin á Norðurlandi gefur tilefni til. Er í megindráttum gert ráð fyrir í frv., að Laxárvirkjunin verði sá aðili á Norðurlandi, sem eigi og reki þau raforkuver, sem þörf er á, á svæðinu, og eigi jafnframt og reki aðalorkuveitur um Norðurland til að tryggja samræmda og hagkvæma framleiðslu og dreifingu á raforku á þessu svæði. Til skýringar á frv. að öðru leyti vísast til þeirra aths., sem með frv. eru prentaðar og hv. alþingismenn væntanlega hafa fyrir sér.

Samkv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að Laxárvirkjun sé sameignarfyrirtæki ríkisins og Akureyrarkaupstaðar og rétt sé að breyta þeim eignarhlutföllum, þegar næst verður hafin aukning vatnsaflsstöðvar í Laxárvirkjun. En eins og kunnugt er, á ríkið nú 35% eignarhluta í virkjuninni, en Akureyrarkaupstaður 2/3, 65%, en gert er ráð fyrir, að með næstu virkjun aukist eignarhlutur ríkisins þannig, að það verði helmingaeign á staðnum.

Samkv. 2. gr. er stefnuyfirlýsing um tilgang Laxárvirkjunar og beina yfirlýsingu um þetta efni er að finna í gildandi l. um virkjunina. Megintilgangur Laxárvirkjunar er að vinna raforku fyrir núverandi orkuveitusvæði og selja raforku til dreifiveitna. Í 2. mgr. er því lýst yfir, að það sé verkefni Laxárvirkjunar að leggja aðalorkuveitur frá Laxárvirkjun til Norðvesturlands og til Austurlands, þegar, henta þykir.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um málið. Það liggur fyrir og er tekið fram í 4. gr., að ráðgerð stækkun er um 12 þús. kw. Það er miðað við orkuþörfina á næstur árum, en Sigurður Thoroddsen hefur gert nákvæma áætlun um kostnað við þessa stækkun. Gerir Sigurður Thoroddsen ráð fyrir, að 12 þús. kw virkjun kosti 160 millj. kr. og er það án, nýrrar línu til Akureyrar, gert ráð fyrir, að gamla línan geti flutt þessa orku. Hins vegar hefur einnig verið reiknað út, hvað 22 þús. kw. virkjun mundi kosta og er gert ráð fyrir, að hún kosti 294 millj. og er þá reiknað með, að ný lína hafi verið byggð til Akureyrar. Í frv., þessu er ekki gert ráð fyrir heimild til þess að virkja meira en 12 þús. kw og þykir það nægilegt að sinni, enda tæplega gerandi ráð fyrir því, að á heimildum standi til þess að virkja, eftir því sem þörf er á, ef Norðlendingar eða eigendur Laxárvirkjunar telja það hagkvæmara að virkja við Laxá, heldur en ganga sem fyrst inn í Landsvirkjun og leggja línu frá Búrfelli norður í Eyjafjörð, en lína frá Búrfelli norður í Eyjafjörð, sem flytur 30 þús. kw, er áætlað, að kosti um 90 millj. kr. En eins og gert er ráð fyrir í landsvirkjunarfrv., geta Norðlendingar valið um þessa tvo kosti, þ.e. að gerast aðilar að Landsvirkjuninni nú þegar eða að notuð verði heimild, sem ætlað er að gefa samkv. þessum l. um virkjun Laxár. Og það er vitanlega nýmæli og stefnubreyting að gera ráð fyrir því, að í stað þess að virkja á Austurlandi verði lögð lína frá Laxárvirkjuninni austur og sömuleiðis, að í stað þess að virkja strax í Skagafirði verði lögð lína frá Akureyri til Norðvesturlandsins.

Ég geri ráð fyrir því varðandi orðalagið í 2. gr. þessa frv., 2. mgr., að ýmsir hv. þm. vildu gera aths. við hana, og ég verð að viðurkenna, að eftir að hafa lesi frv. nægilega vel yfir, þá sýnist mér, að það sé þörf á að breyta orðalaginu, þar sem segir í 2. mgr.: „Sýni áætlanir stjórnar Laxárvirkjunar og eigenda hennar, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitur frá Laxárvirkjun til Norðurlands, Skeiðsfossvirkjunar og Austurlands, skal það vera í verkahring Laxárvirkjunar að leggja og eiga slíkar aðalorkuveitur og selja raforkuna í heildsölu til rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna í þessum landshlutum.“ Það væri, að mér sýnist, eðlilegt að breyta þessu, því að ef það reynist ekki hagkvæmt að leggja þessar orkuveitur frá Laxá austur og vestur, frá sjónarmiði Laxárvirkjunarstjórnar, þarf eitthvað annað til að koma. Hins vegar er enginn vafi á því, að frá sjónarmiði raforkumálastjórnarinnar er það hagkvæmara að leggja þessar veitur, heldur en að virkja smávirkjanir á fyrrgreindum stöðum. Þetta mál þarf að athuga í hv. fjhn. og mun ég gera ráðstafanir til þess, að raforkumálastjóri og rafmagnsveitustjóri hafi eitthvað um það að segja. En þess má geta, að það eru til lög nr. 16 frá 1956, sem heimila að leggja veitu frá Laxá til Austurlands og veitu frá Akureyri til Norðvesturlands, þannig að sú hugmynd um að gera þetta er ekki alveg ný af nálinni, þótt ekki hafi úr framkvæmdum orðið. En ég man eftir því, að 1954 eða 1955, þegar rætt var um að virkja Grímsá á Austurlandi, var mikið um það rætt, að það væri heppilegra að leggja línu frá Laxárvirkjun austur, en þá sóttu Austfirðingar það fast að fá sérvirkjun. En ég gæti bezt trúað því, að Austfirðingar litu þannig á nú, að það væri aðalatriðið að fá nægilega orku frekar en það, hvort þeir fá virkjun heima hjá sér eða ekki og þannig held ég, að sjónarmið manna hljóti að verða eftirleiðis, það verði það, sem spurt er um: Fáum við nægilega orku og fáum við orkuna á sanngjörnu verði? — En ekki hvaðan aflið kemur. Og þess vegna er það, að þeir, sem hafa mest með þessi mál að gera, hafa sannfærzt um það, að það hljóti að vera rétta stefnan að virkja á hinum hagkvæmustu stöðum og tengja svo hinar ýmsu veitur saman, þannig fái landsmenn öruggasta orku og þannig verði verðið jafnast og ódýrast.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.