05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

202. mál, Laxárvirkjun

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða virkjunarmálin hér almennt, hvorki Landsvirkjunarmálið né Laxárvirkjunarmálið. En ég vildi aðeins leyfa mér í sambandi við þetta mál við þessa umr. og vegna þeirra ummæla hæstv. ráðh., að gert væri ráð fyrir því að fullnægja raforkuþörf Norðurlands vestra með því að leggja línu frá Laxárvirkjun, minna á það, að fyrir Nd. liggur frv. á þskj. 432 um virkjun Svartár í Skagafirði. Það frv. er flutt af öllum þeim þm. Norðurl. v., sem sæti eiga í Nd. og er einnig flutt í samráði við okkur þm. þess kjördæmis, sem eigum sæti í þessari hv. d. Það frv. er flutt samkv. eindreginni ósk sýslunefndar Skagafjarðarsýslu og bæjarstjórnar Sauðárkrókskaupstaðar.

Það frv. er um virkjun Svartár í Skagafirði eða nánar tiltekið Reykjafoss í Svartá. Flutningur þess byggist á ýtarlegum athugunum, sem fram hafa farið á þeim virkjunarstað. Þær athuganir hafa gert nú síðast þeir Steingrímur Jónsson fyrrv. rafmagnsstjóri, einn fróðasti maður um þessi efni hér á landi, og Ásgeir Sæmundsson iðnfræðingur. Og það fylgir með þessu frv. sem fskj. grg. þeirra um þessa Reykjafossvirkjun. Í þessari grg. sinni taka þeir m.a. það fram, að framkvæmdastjórn væntanlegrar Reykjafossvirkjunar hafi fengið Knút Otterstedt rafveitustjóra á Akureyri til þess að gera kostnaðar samanburð á mismunandi leiðum til orkuöflunar fyrir Norðvesturland. Og leiðirnar, sem hann athugar, eru aukning dísilvéla, tenging við Laxárvirkjun og virkjun Svartár við Reykjafoss. Ég skal nú ekki fara út í það að rekja neitt nánar þessa grg. þeirra og álitsgerð, sem er mjög fróðleg og að mínu viti mjög vel gerð, en ég tek það þó fram, að ég hef að sjálfsögðu mjög takmarkað vit á þessum efnum, sem þarna er um fjallað. En ég vil aðeins, vegna þess hve naumur tíminn er, leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp niðurstöður þessara mætu manna. Þeir segja:

„Niðurstöður þessara athugana eru því þær, að virkjun Svartár við Reykjafoss sé hagstæðasta lausnin á orkuöflunarþörf Norðvesturlands næstu árin. Notkun dísilvéla er dýrari leið og óheppileg vegna olíukaupa og olíuflutninga. Tenging við Laxá er einnig dýrari leið, en virkjun Svartár og gefur ekki héraðinu sömu tekjur af orkuöfluninni og skapar ekki verðmæti í héraðinu sjálfu. Öryggi notenda er einnig minna með línu yfir Öxnadalsheiði.“

Þetta voru orð þeirra. Og til viðbótar og rökstuðnings þessari niðurstöðu eru svo birtar ýmsar töflur með útreikningum. Út í þær skal ég ekki nánar fara, en þetta vildi ég láta koma fram. Ég er að sjálfsögðu með Laxárvirkjun og tel sjálfsagt, að það frv. með þeim breytingum, sem réttmætar þykja um Laxárvirkjun, nái hér fram að ganga og mun fylgja því. En ég vildi um leið taka fram, að það er með því fororði af minni hálfu, að með því vil ég ekki á neinn hátt loka leiðinni fyrir Reykjafossvirkjun í Skagafirði. Ég álít, að það verði að líta á það mál og athuga, með hverjum hætti, ódýrustum og hagkvæmustum fyrir íbúa Norðurl. v., raforkuþörf þeirra verði leyst. Og ef það verður álítið, að það sé með virkjun Reykjafoss, ber vitaskuld að fara þá leið. Og ég mundi álíta það mjög eðlilegt og sanngjarnt, að í sambandi við þessi virkjunarmál, sem hér eru á ferðinni, verði líka einmitt litið á þetta frv., sem liggur að vísu ekki hér í þessari hv. d., heldur fyrir Nd. og það athugað um leið.

En sem sagt, aðalatriðið var þetta, að ég vildi ekki láta það líta svo út, að ég með mínu atkv. eða fylgi við þetta mál, Laxárvirkjun, á nokkrurn hátt sleppti af þeim kosti eða möguleika, sem fyrir hendi er varðandi Reykjafossvirkjun.

Í sambandi við þetta Laxárvirkjunarfrv., úr því að ég stóð upp, vildi ég benda á eitt atriði. Og það er varðandi skipun stjórnarinnar til athugunar fyrir n. Í 6. gr. Laxárvirkjunarfrv. er sagt, að stjórnin skuli skipuð 5 mönnum, 3 skuli skipaðir af bæjarstjórn Akureyrar, en 2 af ríkisstj. Ég vil benda á það, að ef samræmi á að vera í þessu og í Landsvirkjunarfrv., á að kjósa þessa tvo fulltrúa ríkisins af Alþ., en ekki skipa þá af ríkisstj., því að svo er ráð fyrir gert í Landsvirkjunarfrv. Þá er eðlilegt, að sami háttur sé hér á hafður, að fulltrúar ríkisins, sem eru kosnir í Laxárvirkjunarstjórn, séu kosnir af Alþ., en ekki skipaðir af ríkisstjórninni.