05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

202. mál, Laxárvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fara mikið út í þessi mál nánar við þessa umr. Málið fer í n., og þar verða gefnar nákvæmar skýringar á ýmsum atriðum, sem óskað hefur verið eftir og tel ég því ekki ástæðu til þess að fara nákvæmlega út í málið við þessa 1. umr. Öðru máli er að gegna við 2. umr., þegar málið kemur úr n., ef þá verður enn óskað eftir svörum, vegna þess að upplýsingar hafa ekki fengizt nægilegar í sambandi við nefndina.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. minnti á það, að eftir mér hefði verið haft í blaði, að ekki mundi verða byrjað á Laxárvirkjun fyrr en eftir 4 ár. Mér hnykkti við, þegar ég sá þetta í blaðinu, og kannaðist ekki við, að ég hefði sagt þetta, vegna þess að það hefur ekkert verið um það rætt eða ákvörðun um það tekin í ríkisstj., hvenær þessi virkjun mundi byrja fyrir norðan, ef ákvörðun yrði tekin um það og heimildin notuð, sem ætlað er að gefa með þessu frv. En það er áreiðanlega einhver misskilningur í því,og ekki dettur mér í hug að ætla, að blaðamaðurinn hafi vísvitandi komið með þessa fullyrðingu, en ég hef aldrei sagt það, vegna þess að það hefur engin ákvörðun verið um það tekin. Og það er rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði hér, það er raforkuskortur á Laxárveitusvæðinu. Úr því hefur verið bætt með dísilvélum og það er vitanlega hreint reikningsdæmi, hvort það borgar sig að bæta úr því með dísilvélum enn um skeið eða hefjast handa sem allra fyrst með virkjun. Þetta vildi ég taka fram að gefnu tilefni, og mér hnykkti við og var mjög óánægður með þetta, þegar þessi fullyrðing kom í blaðinu.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði um aðstoð og fyrirgreiðslu í sambandi við það, sem gert er ráð fyrir með Laxárvirkjunarfrv. Ég ætla, að það sé algerlega í samræmi við það, sem er í Landsvirkjunarfrv., lántökuheimildir eru í samræmi við kostnaðinn, aðstoð ríkissjóðs á að vera einnig hlutfallslega hin sama, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður láni 20 millj. kr. með þeim kjörum, sem fjmrh. ákveður, en í Landsvirkjunarfrv. er gert ráð fyrir 100 millj. Hér er sýnilega nokkuð hærra hlutfall fyrir Landsvirkjun heldur en Laxárvirkjunina. Og í sambandi við tollaeftirgjöf er einnig sama ákvæði og í Landsvirkjunarfrv. Um það, hvernig stjórn fyrirtækisins er skipuð, hvort þessir tveir menn eru skipaðir af ríkisstj. eða kosnir af Alþ., þá er það rétt, að til þess að það verði samræmi, ættu þeir að vera kosnir af Alþ. og tel ég, að það sé vel til athugunar. Ég ætla þá, að því, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, ætti að vera að nokkru svarað.

Hv. 3. þm. Norðurl, v., Ólafur Jóhannesson, minnti hér á frv. um virkjun Reykjafoss í Skagafirði og er það eðlilegt, því að það frv. liggur fyrir og það er einnig rétt, að miðað við smávirkjanir sýnist þetta vera nokkuð hagstæð virkjun. Strax þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. ræddi um þetta mál við mig og óskaði eftir að flytja það, sagði ég honum, að ég amaðist ekkert við, að málið væri flutt. Það ætti að sýna það og það ætti að gera nákvæman samanburð á því, hvort væri hentugra að virkja Svartá eða fá streng frá Akureyri. Það virðast nú vera nokkrar fullyrðingar í sambandi við þau fskj., sem prentuð eru með frv. um það, að það sé hagstæðara að virkja, en að fá streng. En ég hygg, að raforkumálastjóri sé á annarri skoðun og ég tel sjálfsagt, að hann geri fulla grein fyrir því. Ég hef lagt fyrir hann að leggja fram grg. um það því máli til stuðnings, sem hann fullyrðir rétt vera, að það sé hagkvæmara að leggja streng heldur, en að virkja í Svartá.

Nú benti ég á það hér í fyrri ræðu minni, að 2. gr. þessa frv., Laxárvirkjunarfrv., þyrfti að athuga nánar og ég sé ekki, að þó að það væri heimilað í Laxárvirkjunarl. að leggja streng frá Akureyri til Norðvesturlandsins, þyrfti það á nokkurn hátt að loka leiðinni fyrir því, að Svartá væri virkjuð. Það væri jafnt möguleiki á því að velja þann kostinn, sem hagkvæmari er og það tel ég sjálfsagt, að verði gert og fá alveg úr því skorið hreinlega af kunnáttumönnum, þannig að ekki sé um það að villast.

Hv. 4. þm. Austf. flutti hér alllanga ræðu og ræddi um raforkul. og þessi tvö frv., Laxárvirkjunarfrv. og Landsvirkjunarfrv. og skildist mér á honum, að þessi frv., ef þau verða að l., upphefji að ýmsu leyti raforkul. Það má segja það á vissan hátt, að svo miklu leyti sem þessi lög eru framkvæmd. Það er sagt í 2. gr. Landsvirkjunarfrv., að það sé stefnt að þeim atriðum, sem nánar eru tilgreind og það er enginn vafi á því, að það tekur langan tíma að ná því, sem þeirri löggjöf er ætlað og kannske næst það aldrei nema að nokkru leyti, þannig að raforkulögin verða vitanlega ekki í gildi, nema því aðeins að Landsvirkjunarlögin yfirtaki allt það, sem raforkulögunum var ætlað að gera, en það held ég, að hljóti að líða mjög langur tími og áratugir, áður en það gæti átt sér stað.

Ég skil það, að hv. 4. þm. Austf. hefur áhyggjur af raforkuskorti á Austurlandi, því að hann er vissulega fyrir hendi. Hv. þm. spyr um það, hvað raforkumálastjórnin hafi gert til þess að tryggja raforku á Austurlandi og raforkumálastjórnin hafi vitanlega vitað um heimildarlög til þess að leggja línu frá Laxá austur að Egilsstöðum, vitað um þál. frá 1961, sem samþ. var einnig um þetta efni. Þetta er alveg rétt, þetta er allt saman vitað. Nú gerist það, að Grímsárvirkjunin skilar minna afli en ætlað var, þegar ráðizt var í virkjunina. Og það gerist annað, sem er vissulega ánægjulegt fyrir Austurland og fyrir þjóðina alla, að það hefur orðið mikil gróska í atvinnulífinu á Austurlandi hin síðari ár og raforkuþörfin vaxið mjög ört þess vegna. En þetta mál hefur verið leyst með dísilafli, þannig að þótt Grímsá hafi ekki skilað meiru en þetta, þá hafa raforkumál Austurlands verið leyst með dísilvélum að undanförnu og nú s.l. ár mun olíueyðsla hafa numið um 11/2 millj. kr. á Austurlandi vegna dísilvéla. Þetta sýnist vera há upphæð, en áreiðanlega eru það ekki vextir eða fyrning af því, sem leiðsla frá Laxá til Austurlands mundi kosta. Ég skil það, að Austfirðingar vilja annaðhvort fá vatnsaflsvirkjun hjá sér eða línu frá Laxá og þeir eiga annað hvort að fá, en ég hygg, að það sé ekki eðlilegt að ásaka raforkumálastjórnina um aðgerðarleysi í raforkumálum þessa landshluta, þótt enn hafi ekki verið virkjað þar til viðbótar og þótt enn hafi ekki verið lagður þessi strengur, vegna þess að það er verið að vinna upp raforkumarkað. Raforkumarkaðurinn fram að þessu hefur verið það litill, að það hefði ekki svarað kostnaði fram undir þetta a.m.k. að leggja línu eða virkja.

Ég hygg því, að það sé alveg óhætt að fullyrða það, að raforkumálastjórnin hefur skilning á þessu og vill, að Austurland verði ekki sett hjá og það er einmitt þess vegna, sem ég vakti athygli á því, að 2. gr. þessa frv. þyrfti að umorða að nokkru leyti, og varð ég var við, að hv. þm, var ánægður með, að skilningur var fyrir því.

Hv. þm. talaði um stjórn Laxárvirkjunar, að Austfirðingar mundu ekki eiga neina hlutdeild í henni. En þó er það nú svo, að ef hluti þessarar stjórnar yrði þingkjörinn, 2/5 þingkjörnir og oddamaðurinn ráðinn með samkomulagi beggja eignaraðila, þá vitanlega gætu Austfirðingar ekki sagt, að þeir ættu enga hlutdeild í stjórninni. Ég skal viðurkenna, að það horfir öðruvísi við, ef ríkisstj. skipaði tvo menn, og þegar var verið að semja frv. um Landsvirkjun, datt sumum í hug, að það væri eðlilegt, að ríkisstj. skipaði þessa þrjá menn. Ef svo hefði verið, hefði ég talið sjálfsagt, að þessir þrír menn væru skipaðir af þremur flokkum og ef það hefði verið gert einu sinni í fyrstu, hefði sá siður haldizt, vegna þess að stjórn fyrirtækja eins og svona virkjunar verður að vera alhliða og sjónarmið allra flokka koma fram í slíkri stjórn. Þetta eru þjóðarfyrirtæki og það væri hreinn misskilningur, ef einhver einn flokkur ætlaði sér að taka þar öll völd. Ég teldi það ekki heilbrigt og ekki á neinn hátt eðlilegt. En það er nú annað mál.

Ég ætla að láta þessi fáu orð nægja við þessa umr., en að sjálfsögðu verð ég hér viðstaddur, þegar málið kemur til 2. umr. Ég vil taka það fram, eins og í gær í sambandi við Landsvirkjunarfrv., að þetta frv, þarf að verða að lögum á þessu þingi eins og það. Tíminn er takmarkaður. En með góðum vilja og dugnaði n. hygg ég nú, að það megi takast að fá þessi mál afgreidd, þótt tíminn til þingloka sé væntanlega ekki langur.