08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

202. mál, Laxárvirkjun

Frsm. (Magnús Jónsson fjmrh.):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta mál, og mælir n. sameiginlega með því, að það verði samþ. Hins vegar hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. öðrum en þeim, sem n. flytur sameiginlega, og í samræmi við þá afstöðu hefur einn nm., hv. 4. þm. Norðurl. e., flutt eina brtt. við málið.

Frv. þetta er útbúið í samráði við stjórn Laxárvirkjunarinnar og Akureyrarkaupstað og felur í sér þá heimild, að Laxárvirkjunin fái rétt til þess að virkja viðbótarvirkjun í Laxá, ef henta þykir og nánari athuganir leiða í ljós, að það sé heppilegasta lausnin á raforkumálum nyrðra. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að við Laxárvirkjunina verði tengdar línur til Austurlands og til Norðvesturlands, eftir því sem henta þykir og ef þær athuganir leiða í ljós, að þær leiðir séu heppilegri, en sérstakar virkjanir á þessum stöðum.

Þær brtt., sem n. flytur sameiginlega, eru efnislega á þann veg, að í fyrsta lagi vantar í upptalningu í 1. gr. nokkuð af mannvirkjum, sem Laxárvirkjunin á og það er gert ráð fyrir að taka það upp í gr., til þess að gr. verði tæmandi.

Í öðru lagi þótti nauðsynlegt að umorða nokkuð 2. mgr. 2. gr., til þess að það yrði ekki eingöngu á valdi stjórnar Laxárvirkjunarinnar, heldur einnig ríkisstj., að taka ákvörðun um það, hvort orkuveitur yrðu lagðar frá Laxá til Austurlands og Norðurlands vestra, sem að sjálfsögðu er þó gert ráð fyrir, að verði að gerast með samningum við Laxárvirkjun.

Og í þriðja lagi er tekið upp sama orðalag um réttindi og skyldur starfsmanna Laxárvirkjunar og er í l. um Landsvirkjun og hafði aðeins af gáleysi fallið niður úr frv. um Laxárvirkjun.

Varðandi brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. er hún í sama anda og brtt. hans um ákvörðun á verðlagi frá Landsvirkjun og tel ég fyrir mitt leyti, án þess að n. hafi formlega tekið afstöðu til þeirrar brtt., að ekki sé auðið að fallast á till., þar sem ekki sé séð fyrir því með henni, að nægilega tryggur grundvöllur sé fenginn undir rekstur Laxárvirkjunarinnar og eflingu hennar. Það er, eins og hv. þm. er kunnugt, haft opið með sérstöku ákvæði í frv. um Landsvirkjun, að Laxárvirkjunin geti, ef hún óskar þess og þegar hún óskar þess, orðið sameigandi að Landsvirkjuninni, hvort sem það verður án tengingar eða með tengingu við Búrfellsvirkjun og það hlýtur að koma til athugunar, áður en endanlega verður afgert um það, hvort í Laxárvirkjun verður ráðizt með því að virkja strax í Laxá, þegar til kemur, eða með því að leysa það í bili með olíutúrbínum. Það er atriði, sem að sjálfsögðu verður á ákvörðunarvaldi Laxárvirkjunarstjórnar og skal ég ekki um það ræða hér. Það skiptir ekki meginmáli í sambandi við þetta frv. En frv., eins og það er orðað, er í samræmi við vilja Laxárvirkjunarstjórnar og bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar og gert ráð fyrir áframhaldandi samvinnu á svipuðum grundvelli og nú er, en þó þannig, að ríkið verði helmingaeigandi að þessari virkjun, en það er raunar það sama og gert er ráð fyrir í núverandi l. um Laxárvirkjun, að þegar næst verður virkjað í Laxá, breytast hlutföllin úr 35% á eignarhluta ríkisins í 50% , þannig að hér er í rauninni ekki annað en verið að staðfesta það, sem nú er gert ráð fyrir í lögum.

Að svo mæltu, herra forseti, vil ég mæla með því fyrir hönd n., að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem n. flytur sameiginlega, en tel ekki auðið að mæla með því, að brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. verði samþykkt.