15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

6. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er rétt eftir mér haft, að ég hélt því fram við 2. umr. þessa máls, að það hefði verið samið um þetta mál utan þings. Og ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun áfram, hvað sem hæstv. forsrh. segir um þetta hér. Það liggur fyrir, og öllum þm. er það kunnugt, að á fyrsta degi þingsins eða öðrum var leitað afbrigða um það, að fjölgað yrði í nefndum. Hvernig átti að hafa orðið samkomulag um það á þingi, þegar þetta gerðist fyrsta daginn? Það sér hver heilvita maður, að það gat ekki átt sér stað öðruvísi en þetta samkomulag hefði átt sér stað utan þings.

Og í annan stað vil ég benda á það, hvað fram kom á fundi allshn. Ed., sem um þetta fjallaði. En þar var á það bent af hv. 9. þm. Reykv., að í þetta frv. vantaði ákvæði um eina þn., þ.e.a.s. þingfararkaupsnefnd, og hann taldi, að það hefði verið ætlunin, að hún ætti að vera þarna með. Formaður allshn. gerði þá hlé á störfum n. og hafði símleiðis samband við hæstv. forsrh. og kom síðan og lýsti því yfir í allshn., að það væri ætlunin, að ákvæðunum um þingfararkaupsnefnd yrði einnig breytt. Og ég verð að segja það, að ég gat ekki skilið hans tal þá á aðra lund en þá, að það væri liður í samkomulagi, sem gert hafði verið. Það skal játað, að það kom ekki fram þá hjá formanni, hvort það samkomulag hefði verið gert fyrr eða síðar, en samkomulag hafði verið gert. Og svo man ég loks ekki betur en því væri lýst æði greinilega af hv. framsögumanni meiri hl. allshn. hér fyrir nokkrum dögum, en að sjálfsögðu er skylt að hafa þar það, sem sannara reynist, og má fletta upp í ræðu hans og athuga það, hvað hann sagði, ef ég fer þar ekki með rétt mál, en ég man ekki betur en hann legði á það nokkuð mikla áherzlu, og ég man reyndar ekki betur en allt hans mál hnigi aðallega að því að ræða um þessa þingfararkaupsnefnd, sem hefði orðið út undan, og hann lagði á það áherzlu, ef ég man rétt, að það væri vissulega meiningin að standa við allt, sem hefði verið heitið í því efni. Ég er fús til að biðjast afsökunar á því, ef ég fer hér með rangt mál. En að öllu þessu samanlögðu held ég að sú ályktun verði ekki vafasöm, sem ég dró, að það hefði verið samkomulag um þetta mál utan þings.

En það er kannske ekkert höfuðatriði í þessu máli, hvort það hefur orðið samkomulag um að breyta í þessum nefndum utan þings eða á þingi. Aðalatriðið er, að það er komið á alveg fullt samkomulag um það, hvort sem það samkomulag hefur gerzt utan þings eða innan. Þeir eru sammála um það, stjórnarflokkarnir og Sósfl. eða Alþb., eins og það heitir hér á þingi, — mér varð sú skyssa á hér síðast að gleyma þeirri ummyndun, sem á sér stað á þeim þm. við dyr þessa þinghúss, þar sem þeir koma að dyrunum eins og Stalínistar eða Maóistar eða kommúnistar eða sósíalistar, ég veit ekki hvað og hvað, en ummyndast svo í dyrum þinghússins og eru svo í þingsölunum sem saklausir Alþb.-menn, — en það er komið á samkomulag milli þessara aðila. Þeir eru sammála um að fjölga í n., og það er aðalatriðið. Ég benti á það síðast, svona í leiðinni, hvílíkt ósamræmi væri í málflutningi þeirra hæstv. forsrh. og félmrh., þar sem hæstv. forsrh. hafði fært þau rök fyrir nauðsyn á fjölgun nm., að mér skildist, að það væri nauðsynlegt, til þess að hér væru lýðræðis- og þingræðislegir stjórnarhættir, eða a.m.k. sagði hann, að það hefði sýnt sig á þinginu í fyrra, að það hefði þótt ástæða til þess að kalla á fulltrúa þessa flokks í mikilvægum málum, og manni skildist a.m.k., að það væri ekki heppilegt til frambúðar, að það v æri skipað þannig á Alþ., að þeir ættu ekki fulltrúa í n., föstum þn., þegar fjallað væri um málin. Látum það gott heita hjá hæstv. forsrh., að hann hefur þessa skoðun á þessum hv. þm. nú, hann hefur ekki alltaf talað hlýlega um þá. Það væri vissulega hægt, og ég gæti vissulega nefnt nokkuð mörg dæmi um það, þar sem hann hefur ekki gert mjög mikið úr hæfni þeirra eða úr þeirra þingræðislegu starfsháttum. En það, sem ég benti sérstaklega á, var þetta, að á sama tíma og hæstv. forsrh. er með svona yfirlýsingar, svona rökstuðning fyrir nauðsyn á því, að þessir menn fái fulltrúa í fastanefndum, sem ég hef út af fyrir sig ekkert á móti og ég skal koma að á eftir, — ég hef aldrei skammað sérstaklega kommúnista, það hafa aðrir gert, — á sama tíma og þetta átti sér stað eða fyrir eitthvað tveimur dögum lýsti hæstv. félmrh. yfir, að utanrmn. væri óstarfhæf og hefði verið óstarfhæf af ástæðum, sem alkunnar eru. Það fór ekkert á milli mála, hverjar þær ástæður voru. Það voru þær ástæður, að þessi þingflokkur átti þar fulltrúa. Og svo leyfði ég mér í leiðinni að rifja upp það, sem hæstv. viðskmrh. ritaði um þessi málefni 29. júní 1963 í Álþýðublaðið, þar sem hann lýsti því, að örlagaríkasta afleiðingin og sú happasælasta að hans dómi af síðustu alþingiskosningum væri sú, að nú gæti þessi þingflokkur ekki fengið fulltrúa í fastanefndum þingsins. Það er svo stórkostlegt atriði, að hann hafði yfirskriftina yfir greininni: „Aldan er hnigin.“ Það var ekkert smáræði, sem um var að tefla.

Ég hafði satt að segja ekki búizt við því, að ummæli mín um daginn mundu gefa tilefni til mikilla umræðna, hafði ekki ætlazt til þess. Ég benti að vísu á þetta ósamræmi, sem væri í málflutningi hjá þessum fyrirsvarsmönnum ríkisins og ég taldi rétt að vekja athygli á. Ég lýsti þeirri skoðun, að vísu frá mér persónulega, að ég teldi fastar þingnefndir sízt verða starfhæfari fyrir þá sök, að í þeim sætu 7 menn í stað 5. Og ég taldi það raunar óeðlilegt, að í fámennri deild, eins og þessari hv. deild hér, 20 manna deild, sé svo komið, að það séu kjörnar 8 þn. með 7 þm. hver. Ég býst við því, að það sjái flestir, þegar þeir athuga það í rólegheitum, að þetta eru ekki skynsamleg vinnubrögð. En látum það liggja á milli hluta. Eins og ég tók þá fram, gerði ég þá grein fyrir atkv. okkar, að við mundum láta þetta afskiptalaust, við vildum ekki leggjast á móti því, að Alþb.-menn fengju sæti í n. með þessum hætti, þar sem þeim hafði verið fyrirmunað það með öðrum hætti.

Hæstv. forsrh. gefur þá yfirlýsingu hér, að það hafi ekki verið neitt samið um þetta. En það er þó mála sannast og alþjóð kunnugt, að um margt hefur verið samið utan þings. Ekki getur hæstv. forsrh, neitað því, að mörg þau mál, sum allþýðingarmikil, sem lögð hafa verið fyrir þetta þing og fengizt hefur verið við að undanförnu, eru árangur samninga, sem gerðir voru utan þings á milli stjórnarflokkanna og Alþb. eða einstakra manna í þeim flokkum, það má vel vera, ég er því ekki svo kunnugur. Það má vel vera, að þessir samningar hafi átt sér stað aðeins á milli fyrirsvarsmanna flokkanna, en hafi ekki verið bornir undir flokkana, það veit ég ekki. En ég bendi bara á staðreyndir, sem tala sínu máli, þ. e. að það liggur fyrir, að þetta á að gera, þegar þing kemur saman. Hvernig mátti það gerast og liggja fyrir, ef ekki var orðið samkomulag um þetta þá? Það verður hæstv. forsrh. að útskýra. Hvenær varð samkomulag um þetta? Var það hér á þingsetningardag, þegar þeir hittust? Ég hef leyft mér að halda, en það er að vísu ekki nema mín skoðun, sem ég get ekki fært neinar sannanir að, að samkomulag um þetta atriði hafi veríð einn af þáttunum í víðtækara samkomulagi, sem gert var eða þessir flokkar a.m.k. hafa hælt sér af öðru hverju að hafa gert sín í milli.

Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að taka neitt aftur af því, sem ég hef um þetta sagt. Ég skil það vel, að hæstv. forsrh. vill helzt, að þessu sé ekki mjög á loft haldið. Það væri vissulega í beztu samræmi við hans afstöðu og stefnu gagnvart þessum flokki áður fyrr og að undanförnu og eins og hún hefur birzt í ýmsum skrifum frá hans hendi, að hann gerði ekki slíkt samkomulag, því að ég verð að álíta, að út frá hans skoðunum í þessu efni sé þar um mjög vafasama ráðstöfun að ræða, svo að ekki sé meira sagt. En ég get hins vegar tekið það fram enn, að ég hef aldrei haft neitt sérstaklega á móti því, að þessi flokkur fengi fulltrúa í n., og mín ummæli voru ekki á þá lund. En þar sem hæstv. forsrh. var ekki við um daginn, þegar þessi mál voru rædd, og ekki heldur neinn af þessum hæstv. ráðh., sem ég vitnaði þá lítillega í, þá er náttúrlega ágætt, að hann geri nú nánari grein fyrir því, hvernig skoðunum þessara, hæstv. ráðh. um þetta efni má ekki saman koma. En allra helzt vildi ég biðja hann um skýringu á því, hvernig þetta fær staðizt, sem hann staðhæfir, að það hafi ekkert samkomulag orðið um þessi atriði utan þings, en að jafnskjótt sem þingmenn koma hér saman á þingsetningardag, þá er farið að undirbúa það að leita eftir afbrigðum frá þingsköpum á þá lund, að kosning í þessar nefndir megi strax fara fram með þeim hætti, að 7 menn skuli kjörnir í þær. Það þótti ekki fært, það þótti ekki ástæða til að bíða eftir því, að þessi lagabreyting kæmist í gegn og það væri kannað, hverjar undirtektir þessi tilmæli fengju í þinginu. Það var vitað þá strax, að þetta mundi verða samþykkt.