15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

6. mál, þingsköp Alþingis

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v., síðasti ræðumaður, vitnaði hér til samtals, sem átt hafði sér stað af mér sem formanni allshn., þegar þetta mál var til umræðu eftir 1. umr. þess hér í deildinni hjá hv. n., — vitnaði til þess viðtals, og hann skýrði réttilega frá, að ég hefði gert hlé á fundinum til að eiga viðtal við hæstv. forsrh. um þetta mál vegna fyrirspurnar, sem fram kom á fundinum. Og það er einnig rétt eftir haft, að það var hv. 9. þm. Reykv., sem spurðist fyrir um það, hvort ég vissi til þess, að sömu flutningsmenn, þ.e.a.s. hæstv. forsrh. eða ríkisstj., mundi ætla sér að flytja frv. sama efnis, varðandi fjölgun í þfkn. Þessi aðdragandi er rétt rakinn. Hins vegar er ekki alls kostar rétt með farið það, sem ég hafði eftir forsrh., þegar á nefndarfundinn kom aftur. Ég taldi rétt að verða við óskum nm. um að grennslast fyrir um þetta og spurði forsrh. sömu spurningar. Hann sagði mér þá, og ég tel rétt, að það komi fram hér á þingi, þar sem til þessa viðtals hefur þegar verið vitnað, þá komi það fram efnislega rétt. Það var á þann hátt, að eftir að ég hafði borið upp þessa fyrirspurn, þá svaraði hann því, að hann teldi, að hann hefði ekki að svo stöddu hugsað sér að flytja slíkt frv., enda hefði nýlega farið fram breyting á þessum lögum. Ég hygg, að ég hafi skilað þessu rétt til n. Hann sagði það hins vegar vera á valdi n., hvort hún flytti slíkt frv., hvort það væri meiri hluti n., sem flytti það, eða n. öll. Það væri hennar mál, og við það hefði hann ekkert að athuga. Það var hins vegar eðlileg fyrirspurn, sem fram kom frá hv. 9. þm. Reykv. í n. um þetta mát, því að það er eina n., sem eftir er eftir þessa breytingu, sem er 5 manna nefnd, hefur ekki verið breytt, en það er vegna þess, að ákvæði um hana eru í sérstökum lögum, l. um þingfararkaup.

Ég hygg, að með þessu hafi ég skilað því rétt, sem á milli mín og hæstv. forsrh. fór um þetta efni, og ég tel mig hafa gert þessu sömu skil í n. Það er ekki rétt með farið, að ég hafi gefið nokkra vísbendingu um það, að forsrh. eða einhverjir ráðh. mundu flytja þetta frv. Til þess lágu þær ástæður, sem ég gat um á nefndarfundinum og hef þegar greint frá hér eftir hæstv, forsrh.

Það, sem mér virðist einkennilegt í þessari síðustu ræðu hv. þm. og einnig við 2. umr. málsins, er, hvað honum er heitt í hamsi, þegar hann ræðir þetta mál, sem annars er mjög gæfur maður hér í umræðum yfirleitt, og leggur á það meginþunga í öllu sínu tali um þetta mál, að þarna hafi gerzt einhverjir hlutir, sem sjaldan áður hafi gerzt, þ.e.a.s. að um málið hafi verið samið utan þings og áður en þing kom saman. Mín skoðun á þessu máli er, að það sé í beinu framhaldi af því, sem var farið að tíðkast á síðasta hv. Alþ. Þá áttu Alþb.-menn ekki sæti í 5 manna n., og þá var komin sú hefð á, að þeir sátu flesta nefndarfundi sem áheyrnarfulltrúar. Þá var búið að viðurkenna þá lagabreytingu, sem hér er um að ræða, í reynd í sjálfum störfum þingsins á s.l. ári. Það var talið óeðlilegt þá að neita þeim um aðgang að þessum nefndarfundum, og eftir að þeir höfðu öðlazt þann aðgang, sem þeir höfðu þá þegar gert með því að vera áheyrnarfulltrúar, þá er a.m.k. mín skoðun, að eðlilegra væri að hafa það beint ákvæði í l., að þessir aðilar sætu þar með fullum rétti.

Tíðrætt hefur hv. þm. einnig orðið út af þeim ummælum hæstv. félmrh. á síðasta fundi, þá við umr. um mál utan dagskrár, sem áttu sér stað hér, að hann hafi látið þá skoðun sína í ljós, að ástæðan til þess, að utanmrn. væri ekki starfhæf, væri seta ákveðinna manna þar í n. eða ákveðinn aðili þar í n. Það er rétt eftir ráðh, haft, að hann lét þessa skoðun sína í ljós. En ég minnist þess ekki, að hann gæfi neinar yfirlýsingar um það, hverjir þessir nefndarmenn væru, þannig að það er enn þá óupplýst.

Varðandi málið í heild vil ég endurtaka það sem mína skoðun, sem ég lét einnig í ljós á tilgreindum nefndarfundl, að ég tel eðlilegra, þegar búið er að viðurkenna það í reynd, að ákveðinn þingflokkur hafi fulltrúa í störfum n., eins og hann hafði á síðasta þingi, þá séu það gerðir löglegir fulltrúar eftir þeirri lagabreytingu, sem hér hefur átt sér stað, enda vita allir, sem einhver kynni hafa haft af þingstörfum, að meginhluti þingstarfanna fer fram í n., og er því óeðlilegt, að jafnfjölmennur þingflokkur og hér er um að ræða, eigi þar ekki fulltrúa. Það er af þeim ástæðum engin þörf á því að leggja á það sérstaka áherzlu, að hér hafi verið gerðir einhverjir sérstakir samningar utan þings. Ég tel þetta frv. vera beint framhald af því, sem var búið að viðurkenna í reynd á síðasta þingi.

Ég vil einnig upplýsa það, að á umræddum nefndarfundi kom það glögglega í ljós, að þá var sá sami meiri hluti, sem studdi frv. óbreytt, einnig reiðubúinn til þess að flytja sams konar breytingu á l. um þingfararkaup varðandi nefndarmannafjölda í þfkn. Þeim mönnum, sem létu skoðanir sínar í ljós á nefndarfundinum, var ljóst, að meiri hl. n. var á þeirri skoðun, að þetta ætti einnig að gera, þó að frv. hafi enn ekki verið flutt.