06.05.1965
Neðri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Maður verður líklega að brýna raustina til þess að hafa betur, en efrideildarþingmaðurinn, sem er að flytja mál sitt núna.

Hér liggur fyrir frv. um tekjustofna sveitarfélaga og í hv. Ed. er á sama tíma frv. um tekju- og eignarskatt eða breyt. á þeim lögum. Í báðum frv. eru ákveðin gjöld á landsmenn. Ég hygg, að segja megi, að þetta kerfi okkar, sem notað er við álagningu gjalda, sé orðið úrelt og það þurfi að koma nýtt í staðinn, einfaldara, ódýrara í framkvæmd og réttlátara. Hér eru t.d. í þeim l., sem hér er lagt til að breyta, ákvæði um aðstöðugjöld, sem sveitarfélögin fá. Hins vegar innheimtir ríkið söluskatt. Hvort tveggja er þetta lagt á það sama, ýmiss konar framleiðslu og viðskipti. Og sveitarfélögin fá hluta af söluskattinum. Hví ekki að sameina þessa skatta í einn, sem síðan væri skipt milli ríkis og sveitarfélaganna? Þetta væri stórum einfaldara. Sama má segja um útsvör á tekjur og eignir og tekju- og eignarskatt. Það væri miklu einfaldara og ódýrara í framkvæmd að sameina þetta í einn skatt, sem síðan væri skipt á milli þeirra, sem eiga að njóta hans.

Einn af göllunum á núgildandi skattafyrirkomulagi er sá, að gjöldin koma mjög misjafnlega þungt á gjaldendur eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Þetta veldur miklu ranglæti. Ég hef gert athugun á því, hvernig aðstöðugjöldin voru á lögð árið 1964. Þar kemur fram, að þau eru mjög misjöfn. Til dæmis um þetta vil ég greina frá álagningu aðstöðugjalda á iðnaðar- og verzlunarfyrirtæki. Í Reykjavík voru á næstliðnu ári lögð 0.9% á iðnaðarframleiðslu yfirleitt. Í 5 kaupstöðum öðrum er álagningin á iðnaðinn 1.5% eða 67% hærri en í Reykjavík, og í 12 kauptúnahreppum er álagning á iðnaðinn einnig 1.5%. Þetta segir ljóta sögu um það ranglæti, sem iðnaðarfyrirtæki utan höfuðborgarinnar eiga við að búa. Þau verða að taka á sig langtum hærri aðstöðugjöld, en hliðstæð fyrirtæki í höfuðborginni, og samkeppnisaðstaða þeirra er verri sem því nemur, það sjá allir. Nú er það þó kunnugt mál, að þau iðnaðarfyrirtæki, sem eiga heima utan þéttbýlustu staðanna, þar sem markaðurinn er mestur fyrir iðnaðarvörurnar, hafa að öðru leyti lakari aðstöðu á margan hátt við að reka sína atvinnu en hin, sem búa þar, sem markaðurinn er mestur, þó að þau hefðu sömu gjöld, hvað þá ef þeim er íþyngt með opinberum gjöldum fram yfir aðra. Margir munu líta svo á, að mikil nauðsyn sé að dreifa iðnaðarframleiðslunni um landið, m.a. til þess að afstýra því, að fólkið þyrpist á eitt takmarkað svæði, en byggileg héruð leggist í auðn. En með því að láta fyrirtæki utan höfuðstaðarins bera langtum þyngri opinber gjöld en þau, sem þar eru rekin, er verið að vinna á móti því, að iðnaður geti þrifizt annars staðar, en í Reykjavík. Fréttir hafa borizt af því, að nágrannaþjóðir okkar styrki stofnun iðnaðarfyrirtækja í fámennum byggðarlögum til þess að stuðla að jafnvægi. Hér er farið öfugt að. Á þessu þarf að verða breyting og sú breyting þarf að gerast fljótt.

Ég hef hér gert álögurnar á iðnaðarfyrirtækin að umtalsefni. Um aðstöðugjöldin á verzlanirnar er sömu sögu að segja. Í Reykjavík voru aðstöðugjöld lögð á almennar verzlanir árið 1964 0.7% af viðskiptaveltu þeirra. Í tveimur öðrum kaupstöðum voru aðstöðugjöldin 2% eða nærri þrisvar sinnum hærri. Og í fjórum kaupstöðum var álagningin á verzlanirnar 1.5%, eða 114% hærri, en í höfuðborginni. Í þrettán kauptúnum voru aðstöðugjöldin einnig 1.5% af veltunni og enn hærri í þremur kauptúnum. Í mörgum kauptúnum og kaupstöðum voru aðstöðugjöldin 1%, eða rúmlega 40% hærri, en í Reykjavík.

Og nú vil ég spyrja: Hvers eiga þau verzlunarfyrirtæki að gjalda í kaupstöðum og kauptúnum víða um landið, sem eru látin borga tvisvar til þrisvar sinnum hærri aðstöðugjöld en verzlanir í höfuðborginni? Og það verða menn að gera sér ljóst, að þetta ranglæti bitnar á fólkinu, sem býr á þeim landssvæðum, þar sem háu aðstöðugjöldin eru. Háu gjöldin verða til þess að gera verzlunarviðskiptin óhagstæðari fyrir þetta fólk en höfuðstaðarbúana.

Þetta má ekki svo til ganga. Meðan aðstöðugjöld eru innheimt, eiga þau að vera hin sömu um land allt. Annað er óþolandi ranglæti. Þau sveitarfélög, sem hafa meiri þörf fyrir tekjur en önnur, eiga að fá framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaganna til þess að mæta hallanum.

Hv. 5. þm. Vestf. bar fram brtt. um jöfnun aðstöðugjalda við 2. umr. þessa frv. Ég taldi till. hans um suma gjaldaflokkana of háa og gat því ekki greitt till. hans atkv., þótt ég sé samþykkur stefnunni, sem þar kom fram. Aðstöðugjöldin hefðu hækkað mjög víðast hvar, ef hans till. hefði verið samþ. En þetta mál þarf að undirbúa fyrir næsta þing og því hef ég leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 655. Hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný mgr., þannig:

Á árinu 1965 skal ríkisstj. undirbúa þá breyt. á III. kafla laganna, að framvegis gildi sömu reglur um álagningu aðstöðugjalda í öllum sveitarfélögum.“

Ég vildi mega vænta þess, að hv. d. sjái sér fært að fallast á þessa till. mína.