11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

181. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég gat ekki mætt við umr. málsins í hv. heilbr.- og félmn., eins og nál. meiri hl. ber með sér, en ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti strax, að ég er samþykkur þeirri till., sem meiri hl. ber fram á þskj. 742 um sektir og viðurlög, sem leggja megi á þá aðila, sem svíkja undan útsvari og þykist sjá, að þau viðurlög og þær sektir, sem hér er um að ræða, séu í samræmi við sams konar sektir og viðurlög, sem þeir eiga að geta orðið fyrir, sem telja ranglega til skatts.

En mér þykir það mjög miður að sjá þess vott og heyra líka á framsöguræðu frsm. meiri hl:, að n. hefur ekki getað fallizt á till. þær, sem við í 1. minni hl. flytjum. Ég geri ráð fyrir, að þær hafi komið fram á fundinum, efni þeirra hafi verið kunnugt. Ég leyfi mér þó að fullyrða, að ef till. okkar yrðu samþ., yrði á þessu ári stýrt hjá þeim ófögnuði, sem varð s.l. ár við beitingu útsvarsálagningar samkv. gildandi l. um tekjustofna sveitarfélaga. En verði hins vegar frv. óbreytt, tel ég, að nokkuð sé víst, að steyti á sama skeri og í fyrra í þessum efnum, þó að hv. frsm. virtist vera æði bjartsýnn í þessum efnum.

Afstöðu minni til frv., eins og það liggur fyrir, lýsti ég að nokkru við 1. umr. málsins og tel mig þess vegna geta verið fáorðan nú.

Tekjuöflun ríkisins hefur á síðustu árum verið meira og meira færð yfir á óbeina skatta, sem menn greiða með neyzlu sinni, innifalda í verði hennar undir huliðshjálmi. Söluskattur á þjónustu og viðskipti hefur verið stórkostlega færður í aukana. Söluskattar voru samkv. fjárl. 1960 102 millj., en samkv. fjárlögum 1965 eru þeir áætlaðir 923 millj. kr. og hafa því nífaldazt.

Nýr og aukinn lífskostnaður margvíslegur hefur komið til sögunnar. Verðbólga í sambandi við framangreint og af ótal ástæðum öðrum í þjóðlífi okkar hefur lagzt á sömu sveif til þess að umturna grundvelli fyrir álagningu útsvara til sveitarsjóða og auðvitað grundvelli fyrir tekjuskatti til ríkisins líka, en hann er bara miklu vægari, en tekjuútsvar í flestum sveitarfélögum, enda ekki beinlínis til umr. hér við þetta tækifæri. Þurftartekjur, sem kalla má lífskostnað, hafa vaxið svo ört, að menn hafa ekki við að gera sér fullkomna grein fyrir því, hvaða tölum sá kostnaður tekur nú orðið. Í því sambandi ber fyrst að líta á hver sú fjárhæð eigi að vera, sem fólk eigi að hafa útsvarsfrjálsa, eins og nú er komið, vegna óhjákvæmilegs lífskostnaðar. Frv. gerir ráð fyrir hækkun persónufrádráttar, en of lítilli hækkun að mínu áliti. Við, sem í minni hl. erum teljum, að það verði að hækka hann meira, ef nálgast eigi, svo að vit sé í, hlutföll lífskostnaðarhækkunarinnar. Við leggjum til, að persónufrádráttur fyrir hvern einstakling verði 45 þús. kr., eða 10 þús. kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir, frádráttur fyrir hjón verði 63 þús. kr., eða 13 þús. kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir, frádráttur fyrir hvert barn verði 12 þús. kr., eða 2 þús. kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir. Minna má ekki gera úr óhjákvæmilegum lífskostnaði í þessu sambandi, eins og nú er komið. Frádráttur fyrir börn er 1/6 hærri eftir okkar till. en frv. og sú hækkun er ekki sízt nauðsynleg vegna þess, að á barnafjölskyldum bitnar vitanlega óbeina skattaálagningin, neyzluskattarnir, sérstaklega hart. Þessar hækkanir persónufrádráttarins eru okkar fyrsta till. á þskj. 734.

Önnur till. okkar er sú, að við leggjum til, að þrepin í útsvarsstiganum reiknist þannig, að 10% álag verði heimilt að leggja á, hreinar tekjur upp að og með 40 þús. hreinna tekna. Þá komi til 20% álagið á bilinu upp í 90 þús. kr., en 30% álagið ekki fyrr en tekjurnar eru komnar yfir 90 þús. Með þessari breikkun þrepanna mildast álagningin mikið, af því að hækkanirnar koma með því ekki eins fljótt, og það er nauðsynlegt réttlætismál.

Vel er okkur ljóst, að lækkun útsvarsálagningarinnar leiðir það af sér, að fjöldi sveitarfélaga þarf að nota hækkunarheimild þá, sem er í 34. gr. gildandi tekjustofnalaga, ofan á útsvörin, eftir að þau hafa verið reiknuð út samkv. fullnotuðum útsvarsstiga. Það munu þau þurfa, hvort sem okkar till. verða samþ. eða ekki. Hækkunarheimildin er 20%. Nú má öllum ljóst vera, að hækkun persónufrádráttar og lækkun stiga frá því, sem var í fyrra, kemur gjaldendum ekki að fullum notum, ef áhrifin eru eyðilögð með ofanálagi. Þess vegna leggjum við til, að heimildin í 34. gr. sé lækkuð úr 20% ofan í 10%. Þetta er 3. till. okkar.

Við göngum ekki að því gruflandi, að frv. þrengir mjög tekjuöflunarmöguleika sveitarfélaganna og till. þær, sem ég hef gert grein fyrir frá okkur í 1. minni hl., gera það enn meir. En hjá því verður ekki komizt vegna gjaldendanna, ef ekki á að endurtaka sig hjá þeim sagan frá því í fyrra, en öllum hlýtur að koma saman um, að svo megi ekki verða. Þess vegna þarf jafnframt að finna ráð til þess að sjá hag sveitarfélaganna borgið. Annað væri að fara úr ösku í eld. Samkv. gildandi l. á jöfnunarsjóður sveitarfélaga samkv. b–lið 15. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga að greiða aukaframlag til sveitarfélaga, sem fá ekki nægileg útsvör álögð eftir þeim heimildum, sem lögin ákveða. Vitað mál er, að jöfnunarsjóðurinn hefur ekki nægilegt fé til að anna þessu hlutverki 1965, eins og nú horfir með umræddar lagabreytingar, nema hann fái sérstaklega nýja fjárveitingu til þess. Hv. frsm. meiri hl. sagði réttilega frá því, að jöfnunarsjóðurinn ætti að taka 3% af tekjum sínum til þessara hluta, og raunar á hann að gera meira með þær tekjur, þ.e.a.s. hann má nota 3% af tekjunum til annarra hluta en til skiptingar milli sveitarfélaganna miðað við mannfjölda. Þessi 3% eru sýnilega allt of lítil fjárhæð til þess að mæta áföllum af mikilli lækkun útsvarsálagningar. Þess vegna leggjum við til í 4. till. okkar, að ríkissjóður leggi jöfnunarsjóðnum á þessu ári fé, er nægi. Ef fjárlögin gefa ekki þann tekjuafgang, að til þess hrökkvi, tel ég svo mikilsvert, að þetta verði gert, að ríkissjóður verði þá að nota lánstraust sitt til þessarar úrlausnar.

Vitanlega er alls ekki hægt eða vit í að byggja framtíð á svona úrlausn. Þetta á að vera aðeins úrlausn fyrir árið 1965, af því að ekki er nú ráðrúm til að komast hjá ófögnuði með skárri hætti. Aftur á móti verður samhliða að gera ráðstafanir til að endurskoða þessi mál og koma á þau betri skipan strax á næsta ári. Þess vegna leggjum við til, að stofnað sé nú þegar til endurskoðunar á þessum málum. Og till. okkar um það er á þá leið, að ríkisstj. skuli, strax eftir að frv. þetta hefur hlotið lagagildi, skipa 5 manna n. til þess að endurskoða öll lagaákvæði, er gilda um útgjaldaskyldur sveitarfélaga og tekjuöflun þeirra. Skal n. leggja sérstaka áherzlu á það með till. sínum að leggja grundvöll að eðlilegri skiptingu þjóðfélagslegra verkefna milli sveitarfélaganna og ríkisins í samræmi við breytta þjóðarhætti, svo og grundvöll að skiptingu tekna, ef þær eru innheimtar í einu lagi af sama stofni fyrir sveitarfélög og ríki. Jafnframt rannsaki n., hvernig hægt verði að komast í álögum hjá því mikla ósamræmi, sem núverandi reglur um gjaldskyldu þegna þjóðfélagsins leiða af sér miðað við efni og ástæður. N. verði þannig skipuð, að þingflokkarnir 4 tilnefni í hana sinn manninn hver, en ríkisstj. skipi fimmta manninn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. N. er heimilt að fá sér aðstoð við störf sín,og hafa skal hún samráð við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. N. skili áliti og till. svo fljótt, að næsta reglulegt Alþ. geti fjallað um það. Með þessari nefndarskipun er reynt að koma málum þannig fyrir, að fyrst og fremst eigi þar allir flokkar fulltrúa, enn fremur, að ríkisstj. hafi þar oddamann og svo, að sveitarfélagasambandið geti átt aðild að starfinu, með því að n. sé lagt á herðar að hafa samráð við stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Verkaskiptingin milli ríkis og sveitarfélaganna þarf sannarlega endurskoðunar og tekjustofnaskiptingin milli sömu aðila um leið. Þar eru rætur þeirra meina, sem við erum með frv. þessu að fást við, — meinanna, sem tóku svo herfilega að blæða á fyrra ári. Alþ. getur ekki sagt við sveitarfélögin: Annizt þið þetta og þetta og þetta — nema ætla þeim tekjuöflunarleiðir til þeirra hluta í samræmi við verkefnin. Það má ekki skera niður tekjuöflunarheimildir til sveitarfélaganna, nema þeim sé bætt það upp með fjárstuðningi, eins og till. okkar gera ráð fyrir, að ríkissjóður verði látinn gera 1965, aðeins til bráðabirgða fyrir það ár eða með því að létta verkefnum af sveitarfélögum ellegar að ætla þeim eðlilega tekjustofna til þess að standa undir verkefnum, eins og síðasta till, okkar gerir ráð fyrir, að gaumgæft verði með nefndarstarfi.

Ég þykist hafa sýnt fram á það, að till. eru heilsteyptar. Þær taka eðlilegt tillit bæði til gjaldendanna og sveitarsjóðanna, en það þarf Alþ. að gera. Ef það er ekki gert í máli þessu, verður úr því botnleysa og þá koma fram nýjar blæðingar. Nú grunar mig af reynslunni, að hv. meiri hl. hér muni fella till. okkar. Um það ætla ég að sjálfsögðu ekki að fárast. Meiri hl. ber auðvitað ábyrgð á afleiðingum þess. En ég vil leyfa mér að skora á hv. meiri hl. að athuga samt rólega, hvort ekki sé viðurhlutamikið að taka ekki til greina till. um endurskoðun eða ef hann fellir hana, þá hvort ekki sé ástæða til að gera samt skynsamlegar ráðstafanir til þess eftir öðrum leiðum, að slik endurskoðun fari fram. Bót á þessum málum verður ekki ráðin nema með rækilegri endurskoðun í þessum efnum.