13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þær meginbreytingar, sem þetta frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt felur í sér, eru þessar:

Í fyrsta lagi, að persónufrádráttur er hækkaður um 23%. Það þýðir, að persónufrádráttur fyrir einstaklinga, sem nú er 65 þús., hækkar um 15 þús. upp í 80 þús., fyrir hjón, sem nú er 91 þús., hækkar um 21 þús. upp í 112 þús., fyrir hvert barn, sem er á framfæri skattþegns og ekki fullra 16 ára, sem nú er 13 þús., hækkar um 3 þús. upp í 16 þús.

Í öðru lagi verður hliðstæð breikkun á þrepum í tekjuskattsstiganum. Tekjuskattsstiginn er nú 10%, 20% og 30%. Fyrsta þrepið er nú samkv. 25. gr. tekjuskattsl. 30 þús., það hækkar upp í 37 þús., annað er frá 30 þús. upp í 50 þús., það hækkar í frá 37 þús. til 62 þús. kr. tekjur, og þriðja þrepið er nú af 50 þús. og þar yfir, breytist í 62 þús. kr. tekjur og þar yfir. Þessi breyting á skattþrepunum nemur milli 23 og 24%.

Við ákvörðun þessara breytinga hefur verið höfð hliðsjón af tvennu, annars vegar því, hverjar breytingar hafa orðið á vinnutöxtum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna milli áranna 1963–1964. Efnahagsstofnunin áætlar, að þessar breytingar hafi að meðaltali numið um 23% hækkun launa þessara stétta á tímabilinu. Ef hins vegar litið er á framfærsluvísitöluna og tekin meðalvísitala áranna 1963 og 1964, var hún fyrra árið 134.67 stig, síðara árið 160.67 stig og hafði því hækkað milli áranna um 19.3%. En fyrir því er þessi samanburður gerður milli áranna 1963 og 1964, að samkv. þessu lagafrv., ef að lögum verður, er lagður á tekjuskattur miðað við tekjur manna á árinu 1964.

Þriðja breyting skv. frv. er sú, að hundraðstölur hvers skattþreps lækka um 10%, þ.e.a.s. 10% skattur lækkar í 9%, 20% í 18 og 30% í 27%. Eins og tekið er fram í grg., má hafa til hliðsjónar um það, hvernig þessar breytingar mundu verka, að skattþegn með 23% tekjuaukningu milli áranna 1963 og 1964 mundi greiða hlutfallslega 1% lægri tekjuskatt en hann gerði 1964 og er þá miðað við hlutfall af nettótekjum hans hvort árið.

Í fjórða lagi er það nýmæli í 8. gr. frv., að skylt sé frá og með gjaldaárinu 1966 að hækka eða lækka þær fjárhæðir, sem ræðir um í 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr., svo og þrepin í skattstiga þeim, sem um ræðir í 4. gr., þ.e.a.s. það er skylt að hækka eða lækka þær fjárhæðir, sem snerta persónufrádráttinn og skattþrepin, í samræmi við skattvísitölu. Hér er því tekin upp svokölluð umreikningsregla. Það var ætlunin að ákveða í þessu frv., við hvaða vísitölu skyldi miða. Þá kom til greina kaupgreiðsluvísitala, framfærsluvísitala, þ.e.a.s. samkv. a-lið vísitölunnar og fleiri möguleikar komu til greina. Nú er svo ástatt, að vísitalan er í endurskoðun hjá hagstofunni og kauplagsnefnd og töldu þeir sérfræðingar, sem til var leitað, sér ekki unnt að gera ákveðna till. um það, hvernig skattvísitalan, sem þessi umreikningur skyldi á byggður, skyldi byggð upp, treystu sér ekki til þess að svo stöddu. Það varð því niðurstaðan að ákveða annars vegar, að skattana skuli umreikna frá og með árinu 1966, en sú skattvísitala, sem eftir skuli farið, skuli ákveðin síðar af fjmrh. að fengnum till. kauplagsnefndar, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra.

Aðrar breytingar í þessu frv. eru bein afleiðing af þeim, sem ég hér hef getið og eru skýrðar í grg. frv.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.