13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Fyrir einu ári voru gerðar nokkrar breytingar á skattalögunum. Þær breytingar skyldu miða að því að létta skattbyrðinni á mönnum og þá fyrst og fremst á mönnum með lágar tekjur og miðlungstekjur. Þá var persónufrádrátturinn aukinn, enda ekki þá orðin vanþörf á eftir alla dýrtíðaraukninguna síðan í ársbyrjun 1960, í fyrra var persónufrádrátturinn hækkaður um 30%, og sú hækkun átti ásamt fleira að tryggja láglaunafólki stórkostlega skattalækkun. Þessi verulega hækkun persónufrádráttar í fyrra, leit engan veginn illa út, a.m.k. ekki á pappírnum. En það skyldi fleira gert láglaunafólki til hagsbóta. Sjálfum skattstiganum var breytt, og einnig það var gert í þeim yfirlýsta tilgangi að lækka verulega skatta á lágtekjum og meðaltekjum og sér í lagi hjá fjölskyldufólki. Skattþrepunum var í fyrra fækkað úr 6 niður 3. Raunar var það ekki gert í þeim tilgangi að létta byrðar skattborgaranna, heldur til þess að gera skattálagninguna einfaldari í framkvæmd og þægilegri. Með fækkun þrepanna breikkuðu þau lítið eitt, en aðallega náðist þessi fækkun með því að setja hámarksálagninguna, 30%, langtum neðar en áður var. Nú komust menn í hámark með það, sem var umfram 50 þús. kr.; en áður þurfti til þess 90 þús. kr. En hvað sem um þetta var, skyldu skattar lækka á árinu og sérstaklega skyldu þeir lækka á lágtekjufólki. því var lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að þetta væri megintilgangurinn með breytingunum, sem þá voru gerðar. Stjórnarandstæðingar hér á þingi leyfðu sér þá að hafa uppi gagnrýni og draga í efa, að svo mundi reynast í framkvæmd sem hæstv. ríkisstj. boðaði. En aðvörun stjórnarandstæðinga var í engu anzað og hv. stjórnarlið fór sínu fram. Það var slegið á bumbur og almenningi tilkynnt, að nú væri að vænta mikilla skattalækkana á árinu 1964. Almenningur trúði þessu og gerði sér miklar vonir um léttbærari skattheimtu, enda var áróður hafður í frammi óspart af málgögnum hæstv. ríkisstj. Svo rann upp sá stóri dagur á s.l. sumri, þegar álagningu skatta var lokið og skattborgurum gerð kunn úrslitin. Þá brá svo við, að gleðivíman hvarf hjá flestum og þeir þóttust hér illa sviknir. Skattarnir lækkuðu nefnilega ekki, heldur stórhækkuðu þeir. Fyrst í stað reyndu málgögn hæstv. ríkisstj. að lægja þessa óánægjuöldu almennings, og þau reyndu meira að segja að telja fólki trú um, að raunverulega væri um lækkun að ræða, en ekki hækkun á sköttunum. En fólkið hafði skattseðlana fyrir framan sig, og þetta tókst ekki.

Óánægjan með þessa skattpíningu á árinu 1964 fór vaxandi, eftir því sem leið á sumarið og haustið, og að lokum sáu hæstv. ráðh. sig tilknúða að viðurkenna opinberlega mistök sín í þessu efni og lofa bót og betrun. Eitthvað hlfði farið úrhendis í sambandi við skattalagabreytinguna í apríl 1964, og hæstv. fjmrh. lofaði því hátíðlega og opinberlega, að þetta skyldi leiðrétta á næsta þingi. Þannig er þessi saga, og nú er komið fram loks á þessu þingi frv., sem eiga að fela í sér efndir þeirra loforða, sem hæstv. ríkisstj. gaf landsmönnum á s.l. ári. Þessi frv. voru lögð fram á Alþ. í gær, svo að enn hefur ekki gefizt mikill tími til athugunar á því, hvernig nú verði við stóru orðin staðið.

Það er ljóst, að persónufrádráttur á að hækka að þessu sinni um 23% frá í fyrra. Reynslan sýndi, að þá var hann ákveðinn allt of lágur, allt að 30%, og með hliðsjón af því efast ég nú stórlega um, að 23% hækkun dugi til leiðréttingar. Raunar skiljum við ekki, hvers vegna persónufrádrátturinn í því frv., sem hér liggur fyrir, skuli ekki hafa verið hækkaður um 30%, eins og tilfellið er þó með persónufrádrátt við útsvarsálagningu samkv. nýframlagða frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Ég hefði talið fulla þörf á því, að persónufrádrátturinn hefði orðið jafnhár eða a.m.k. 30%. En einhverra hluta vegna er hér gerður skilsmunur á og hækkun persónufrádráttarins höfð lægri hér. En hvað sem er um þessa hækkun á persónufrádrættinum, tel ég þó breytinguna, sem fyrirhuguð er á skattstiganum, enn þá hæpnari. Skattþrepunum er haldið óbreyttum að tölu í þessu frv., þau voru 3 síðan í fyrra og eiga að vera það áfram. Álagningarprósentan er lækkuð lítið eitt á öllum þrepum og einnig á hæstu tekjunum. Þrepin eru breikkuð örlítið, og þó komast menn, að ég hygg, nærri jafnfljótt í hámark álagningarprósentu og í fyrra, a.m.k. ef miðað er við dýrtíðaraukninguna, sem síðar hefur orðið. Þegar allt kemur til alls, hygg ég, að það muni koma í ljós, að þessi skattstigabreyting, sem fyrirhuguð er í frv., verði skattgreiðendum ekki til mikilla hagsbóta og sízt þeim, sem hafa lágar tekjur eða miðlungstekjur. Að mínum dómi hefði þurft að fjölga þrepunum og það helzt upp í 6 aftur, hafa lága álagningarprósentu, mjög lága álagningarprósentu á lægstu tekjur og hækka hana síðan smám saman í mörgum þrepum. Það er ekki ósennilegt, að það hafi verið fækkun þrepanna að kenna, frekar en nokkru öðru einstöku atriði, að skattar hækkuðu á síðasta ári í stað þess, að þeir áttu að lækka.

Ég verð að segja, að við fyrstu sýn gefur þetta frv, ekki tilefni til mikillar bjartsýni, og verði það að lögum óbreytt, er skattgreiðendum áreiðanlega hollast að gera sér ekki miklar vonir í ár um léttari skattabyrði, en á síðasta ári. Frá því segir í aths. við lagafrv. þetta, að hæstv. fjmrh. hafi falið ríkisskattstjóra að endurskoða nokkra þætti gildandi l. um tekju- og eignarskatt í því skyni að gera lagfæringar til hagsbóta fyrir gjaldendur. Ríkisskattstjóri varð við þessu, og niðurstaðan er þetta frv. En mér er nú spurn í þessu sambandi: Var ekki ástæða til að athuga fleiri þætti í skattalöggjöfinni en gert var í þessu sambandi? Ef tilgangurinn var sá að bæta hag tekjulágra gjaldenda, var vissulega ástæða til að mínu áliti að endurskoða fleiri þætti en gert var. Hvað er t.d. um sköttun fyrirtækja og félaga? Tvívegis eða oftar í tíð hæstv. ríkisstj. hefur fyrirtækjum og félögum verið ívilnað stórlega í skattálagningu. Í bæði skiptin eða öll skiptin gerðist það að sjálfsögðu á kostnað hins almenna gjaldanda. Hefði ekki verið ástæða til fyrir hæstv. fjmrh: að biðja ríkisskattstjóra að endurskoða þann þátt laganna og kanna, hvort fyrirtæki og félög séu þess ekki umkomin nú að bæta á sig örlitlu af skattabyrðinni? Mér hefði ekki fundizt óeðlilegt, að þessi þáttur hefði verið athugaður samtímis hinum öðrum þáttum, sem rannsakaðir voru.

Það þarf ekki að dyljast neinum,, að ef ætlunin er að létta skattaálögur á hinum efnaminni í þjóðfélaginu, verða einhverjir að taka á sig auknar byrðar. Félög og fyrirtæki eiga a.m.k. ekki að gera það samkv. þessu frv. Hátekjumenn eiga ekki heldur að gera það. Þeir eiga frekar að lækka í sköttum, en hækka, eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum. Þetta vekur hjá mér illan grun um að nú, líkt og í fyrra, sé verið að leika sér að tölum frekar, en að gera alvarlegar ráðstafanir til lækkunar á sköttunum. Skattstiga er breytt, skattþrepum er breytt, aðrar tölur eru settar í staðinn fyrir hinar gömlu. Þetta er allt og sumt, sem gerist. Þess er hins vegar vandlega gætt, að skattar lækki ekki á miðlungsborgaranum né á hinum fátæka. Þannig reyndist þetta í fyrra og mér sýnist fljótt á litið, að sama leikinn eigi að leika í ár.