04.05.1965
Efri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það getur víst engum dulizt, sem íhugar skattamálin, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. undir þeirri svokölluðu viðreisn hefur orðið gerbreyting á skattakerfinu í landinu. Þessar breyt. hafa í fyrsta lagi lýst sér í því, að skattar og tollar hafa hækkað gífurlega og meira en á nokkru öðru tilsvarandi tímabili um langan aldur a.m.k. og breytingin hefur svo í öðru lagi verið fólgin í því, að grundvallarbreytingar hafa orðið á því, hvernig skattanna og tollanna hefur verið aflað, þ.e.a.s. það hafa jafnframt orðið eðlisbreytingar á skattheimtunni og í stuttu málí má segja, að þessar breytingar á skattakerfinu hafi verið einn allra gildasti þáttur viðreisnarinnar, sérstaklega að því leyti, að til þessara breytinga má rekja að miklu leyti þær gífurlegu verðlagshækkanir, sem orðið hafa í landinu og einnig að hinu leytinu má rekja til þess að verulegu leyti þá kjararýrnun, sem orðið hefur í landinu á sama tíma, en þetta hvort tveggja er mjög samtvinnað og verður varla sundur skilið.

Þegar frv, sem þetta er til umr., þá fer varla hjá því, að menn leiði hugann að því, hvernig þessar breytingar hafa átt sér stað, hvað þær séu miklar og hvert eðli þeirra hefur verið. Þetta hefur að vísu verið rakið oft hér í hv. d., m.a. af mér, og ég ætla ekki að hafa um það langt mál, en ég kemst þó ekki hjá því að benda á nokkrar staðreyndir í þessu sambandi og það er þá í fyrsta lagi, hvernig magn skattheimtunnar hefur aukizt. Frá 1959 hefur það gerzt, að heildarskattheimta ríkissjóðs í tollum og sköttum hefur vaxið úr tæpum 800 millj, í röskar 3.000 millj. eða nákvæmlega talið úr 778 millj, kr. skv. fjárl. 1959 í 3.348 millj. skv. fjárl. á yfirstandandi ári og er þá tekið með nokkuð af þeirri tekjuöflun, sem nú fer fram utan ríkissjóðs, en áður var innifalið í heildarfjárl., þ.e.a.s. að á þessu tímabili hafa skattar og tollar hækkað um rösk 330% eða meira en fjórfaldazt og hygg ég þó, að ekki sé allt talið, sem nú fer fram af raunverulegri sköttun utan ríkissjóðs.

Önnur skattheimta, þ.e.a.s. skattheimta bæjarfélaganna og sú skattheimta, sem fram fer í gegnum tryggingakerfið, mun hafa vaxið viðlíka eins og skattheimta ríkissjóðs og sennilegt,mað skattheimta bæjarfélaganna hafi ekki vaxið minna.

Nú hafa að vísu orðið miklar verðlagsbreytingar á þessu tímabili, þannig að tölur eru ekki algerlega sambærilegar, en við sjáum þó, að verðlagsbreytingarnar hafa ekki þrátt fyrir gífurlegan vöxt dýrtíðarinnar orðið meiri en það, að um nálega tvöföldun er að ræða á almennu verðlagi í landinu. Það er því auðséð, að tekjuöflun ríkisins gegnum tolla og skatts hefur ekki aðeins fylgt verðlaginu eftir, því að þá hefði hún aðeins átt að tvöfaldast, heldur hefur hún fjórfaldazt eða vaxið helmingi meira en verðlagið. Ef þetta er svo borið saman við þann grundvöll, sem allt þetta hvílir á, þ.e.a.s. launin, laun þess fólks í landinu, sem stendur undir skattakerfinu og gerir það í enn þá ríkari mæli nú orðið, en nokkru sinni áður, þá kemur í ljós, að samningsbundin laun fyrir eðlilegan vinnudag hafa aðeins vaxið í kringum 60% t.d. hjá almennum verkamönnum og varla meir en 60–70% að meðaltali hjá vinnandi fólki.

Það er því strax auðsætt, að bilið á milli launanna og þeirra tekna, sem ríkissjóður aflar með tollum og sköttum, hefur farið vaxandi ár frá ári, eða m.ö.o., að skattheimta hefur vaxið a.m.k. sex sinnum meira, en laun hafa hækkað í landinu á sama tíma.

Þessi samanburður verður þeim mun eðlilegri á vissan hátt, þegar þess er gætt, hvers eðlis breytingarnar hafa orðið í sjálfri skattheimtunni. Þá blasir það fyrst við augum, að beinir skattar til ríkisins, þ.e.a.s. tekju- og eignarskattur, hafa rýrnað hlutfallslega úr því að vera um 20–21% af heildartollum og sköttum árið 1959 og er þá miðað við ríkisreikning, í það að verða í kringum 11% nú skv. fjárl. fyrir yfirstandandi ár, þ.e.a.s. að hlutfali beinu skattanna, tekjuskatts og eignarskatts, hefur lækkað um nálega helming og er nú orðið miklu lægra en a.m.k. alls staðar annars staðar á Norðurlöndum, þar sem þessir skattar munu nema yfirleitt í kringum 25% af tekjum ríkjanna eða þannig er það a.m.k. í Noregi.

Þá hefur sú breyting orðið á, að í stað söluskatta, sem voru fremur óverulegur hluti af skattheimtunni 1959, þá hefur orðið þar um gífurlega hækkun að ræða eða rösklega sexföldun. Þó að ekki sé reiknað með þeim hluta söluskattsins, sem bræddur var inn í tollalögin og hefur haldizt þar, þó að undir öðru nafni sé, þá er samt um að ræða sexföldun eða rösklega sexföldun á söluskattinum á þessu tímabili.

Í fjórða lagi hafa svo skattar á öllum rekstri í landinu, þ. á m. á öllum rekstri þeirra félaga, sem líkleg eru til þess að græða fé og hafa tekjur af sínum rekstri, farið síminnkandi. Þar hafa verið gerðar mjög verulegar aðgerðir með tekjuskattsbreytingunni, sem framkvæmd var 1962, í þá átt að gera gróðafélögin í landinu svo að segja skattfrjáls. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. vildi halda því fram, að það, sem ég sagði um þetta í mínu nál., væru öfgar, það væri nú síður en svo hægt að segja, að gróðafélögin væru skattfrjáls hér á landi og skattstigar hér gagnvart félagsrekstri mundu vera svipaðir og annars staðar á Norðurlöndum.

Ég hefði gaman af að athuga þetta nánar, þó að ég hafi ekki aðstöðu til þess að koma með tölur um þetta annars staðar frá. En ég verð að segja það, að mér finnst þetta harla ólíklegt, þegar þess er gætt, að tekjuskattur félaga er aðeins 2% af öllum tollum og sköttum, sem ríkissjóður innheimtir, aðeins 2% og eignarskatturinn er hvorki meira né minna en 20/00, — tveir af þúsundi, sem er innheimt með eignarskatti af öllum þeim tekjum, sem ríkissjóður tekur til sín í tollum og sköttum.

Það, sem hefur fyrst og fremst komið hér til og orðið veruleg breyting á, er það, að tekjuskattsstiginn var lækkaður um 20%, skattfrjálsar arðgreiðslur voru auknar um 25% og síðast, en ekki sízt voru settar nýjar fyrningarreglur, sem koma beinlínis í veg fyrir það, að félagareksturinn þurfi eiginlega nokkur gjöld að bera, eins og kemur greinilega fram í þeim hlut, sem félagaskattarnir eiga nú í heildartekjum ríkisins.

Þá er þess að geta til þess að átta sig aðeins á því, hvers eðlis þessar breytingar hafa allar orðið, að aðrir skattar, sem utan við ríkissjóðinn standa að mestu leyti, eins og nefskattarnir í tryggingagjöldunum, þeir hafa aukizt stórkostlega og eru orðnir geysilega þung byrði á fjölskyldunum í landinu.

Eins og ég sagði áðan, hafa höfuðdrættirnir í þeirri breytingu, sem orðið hefur á þessu tímabili, verið þeir, að bilið á milli aukningar skattheimtunnar og launahækkana hefur farið síbreikkandi og í öðru lagi, að beina skattheimtan hefur farið síminnkandi og þannig verið horfið frá því í ríkara og ríkara mæli að nota skattakerfið til auðjöfnunar og tekjujöfnunar á milli landsmanna.

Með aukningu söluskattanna og öðrum þeim breyt., sem ég hef nú nefnt, hefur skattþunginn verið færður í síauknum mæli yfir á almenna neyzlu og um leið og verðlagið hefur þannig verið spennt upp samhliða því, sem kaupgjaldinu hefur verið haldið niðri og árangurinn af þessu hefur m.a. orðið sá, að verðlagshækkanirnar hafa orðið mestar á þeim neyzluþáttum almennings, sem eru óhjákvæmilegastir, þ.e.a.s. á matvöru, en vísitala matvöru, verðlags á matvöru, stendur nú í 205 stigum og í öðru lagi á húsnæðiskostnaði.

Ég álít, án þess að ég færi að því kannske fullgild rök að þessu sinni, að þessar skattbreytingar séu ein höfuðorsökin til þeirrar dýrtíðar og verðbólgu, sem átt hefur sér stað hér á síðustu árum og átt mjög ríkan þátt í þeirri tilhneigingu til versnandi launakjara, sem verið hefur á þessu tímabili og á ég þar bæði við raunveruleg laun og laun í hlutfalli við þjóðartekjur.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að minna á það, að til þess að samningsbundin laun væru nú í samræmi við verðlagsbreytingar, þá þyrfti kaupgjald núna að hækka a.m.k. um helming og þar að auki ættu svo launastéttirnar að sjálfsögðu rétt á því að fá sinn hluta af auknum þjóðartekjum á þessu tímabili, sem munu vera nálægt því að hafa aukizt frá 1959 um 20% á mann.

Það má e.t.v. segja, að það þurfi nú frekari athugunar við, hvort launastéttirnar ættu raunverulega rétt á því að fá hlutfallslega hækkun á launum, ef þjóðartekjur vaxa, e.t.v. sé málið þannig vaxið, að aukningin kosti svo mikla fjárfestingu, að það þurfi ekki að gefa neitt tilefni til slíkra hækkana eða væri röksemd fyrir þeim. En ég bendi á í því sambandi, að t.d. í Noregi og þannig hefur það verið víða í Vestur–Evrópu á síðustu árum, þá hafa raunlaun, þ.e.a.s. heildarlaun deilt með vinnustundafjölda, farið töluvert miklu meira hækkandi heldur, en vöxtur þjóðarteknanna hefur orðið á sama tímabili og kemur það í raun og veru heim við það, að með þeirri nýju tækni, sem hvarvetna ryður sér til rúms, verði fjárfesting yfirleitt hagkvæmari, en áður og á að geta skilað meiri arði til þeirra, sem að framleiðslunni vinna. Ef ekki er unnt að hækka launin í fullu samræmi við aukningu þjóðarteknanna, er það vegna þess, að illa er stjórnað í landinu. Þá er það vegna þess, að sú stjórn er ekki höfð á fjárfestingu og öðrum þáttum þjóðarbúskaparins, sem til þess þarf, að þeir, sem starfa að framleiðslunni, fái notið þeirra ávaxta, sem þeim ber af henni.

Það má líka segja í sambandi við skattastefnu hæstv. ríkisstj., að þar hafi í raun og veru myndazt nokkurs konar vítahringur, þ.e.a.s. auknir verðhækkunarskattar hafi orsakað meiri útgjöld ríkisins og meiri útgjöld ríkisins hafi síðan orsakað það, að leita hefur þurft nýrra leiða til þess að auka skattaálögurnar. Og kannske er nú svo komið, að þessi vítahringur sé að lokast, eftir þeim fregnum, sem fara þó ekki hátt, en grunur leikur nú á, að þrátt fyrir allar þessar gífurlegu hækkanir á sköttum, sem orðið hafa á tímabili viðreisnarstjórnarinnar, sé nú síður en svo vel komið hag ríkissjóðs. Og það er full ástæða til þess að taka undir þá ósk hv. 6. þm. Sunnl., sem hann flutti hér áðan, að í sambandi við þetta frv. séu gefnar fullnægjandi upplýsingar um afkomu ríkissjóðs bæði á s.l. ári og á því tímabili, sem liðið er af þessu ári, því að það væru vissulega tíðindi, sem Alþingi bæri að taka með í reikninginn og alþjóð á raunar heimtingu á að vita, ef það gífurlega skattaflóð, sem duníð hefur yfir almenning á undanförnum árum, hefur svo einnig endað með því, að ríkissjóður sé í fjárkröggum. En það er rétt, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, að það hefur á undanförnum árum flóið út úr hverju trogi og það er vissulega ástæða til að spyrja: Er það ekki svo enn eða hefur hér einhver gerbreyting orðið á?

Það er auðsætt á þessu frv., sem ríkisstj. hér flytur, að hún vill engar breytingar, sem því nafni geta talizt, á því skattakerfi, sem hún hefur komið upp í landinu, enda er þar örugglega um hennar ástfóstur að ræða, sem hún vill ekki gera neinar breytingar á. Og ég held, að óhætt sé að segja það, að engar umbætur af nokkru tagi fylgja þessu frv. Hér er aðeins um að ræða lélegar bætur á gamalt fat, en ekki neinar endurbætur. Og það er reyndar næsta athyglisvert, að þó að þetta frv. sé í raun og veru mjög í stíl við það frv., sem flutt var hér á s.l. ári og var þá útbásúnað af stjórnarblöðunum sem geysileg lækkun á sköttum og réttarfarsbót, þá fer ekki neitt fyrir slíkum fullyrðingum núna eða slíkum áróðri, og hæstv. fjmrh. var svo sanngjarn, eftir því sem blað hans segir frá, á landsfundi, að það mætti eiginlega segja um þetta frv., að það væri hvort tveggja í senn hækkun og lækkun, eftir því, við hvað væri miðað. Slík orð hafði hæstv. ráðh. hins vegar ekki á s.l ári, þegar bæði hann og sérstaklega einkamálgagn hans settu upp tveggja tommu fyrirsagnir um það, að geysileg skattalækkun væri á ferðinni. Enda er það líka auðsætt, þegar þetta frv. er athugað, að hér er ekki um neina skattalækkun að ræða. Hér er um það að ræða, að menn með hliðstæðar tekjur þurfa að greiða nú fleiri krónur, en áður í tekjuskatt og það verður mjög greinilegt af þeim töflum, sem látnar hafa verið í té af hæstv. ráðh. í viðræðum við hann og aðra ráðh, um þessi mál.

En það er ekki einasta, að hér sé um að ræða beina hækkun í krónutölu á tekjuskattinum frá því, sem hann var á s.l. ári, heldur er um mjög verulega hækkun að ræða einnig hlutfallslega af tekjum frá 1960, — mjög verulega hækkun.

Það ber svo að sjálfsögðu að taka tillit til þess í sambandi við mat á þessu frv., hverjar aðrar staðreyndir liggja fyrir í sambandi við skattamálin. Söluskatturinn, eins og hann er, og sú byrði, sem hann er fyrir allan almenning, er staðreynd. Tollarnir, eins og þeir eru, eru staðreynd og nefskattarnir, eins og þeir eru, eru staðreynd og allt slíkt verður að metast í sambandi við þetta. Og vissulega væri afstaðan til frv. sem þessa, sem ákveður þá skattheimtu, sem er um að ræða, a.m.k. frá minni hálfu allt önnur, ef stefnan almennt í skattamálunum væri önnur, en hún er og þessar staðreyndir, sem ég hef nefnt, væru öðruvísi.

Það kæmi auðvitað vel til mála, að beinir skattar væru meiri á einstaklinga heldur en þeir nú eru, jafnvel niður í þær lægstu tekjur, sem þeir ná nú til, ef óbeinu skattarnir og nefskattarnir t.d. væru stórum léttari, en þeir eru. En hér er sem sagt ekki um neinar breytingar að ræða almennt á skattastefnunni, og minar till. a.m.k. varðandi þetta mák hljóta að mótast af því.

Ég gat áðan um það, hversu hlutur félaganna í landinu, rekstrarins, væri orðinn rýr, þ.e.a.s. að það væri um það að ræða, að félögin öll í landinu, bæði sameignarfélögin, samvinnufélög og hlutafélög, greiddu samtals 2% af heildarskattheimtunni og aðeins 20/00 í gegnum eignarskattinn. Og skv. þessu frv. á þetta að verða óbreytt áfram. Það á jafnframt að haldast óbreytt, að þessi réttarform fyrir rekstur, þ.e.a.s. hlutafélögin og samvinnufélögin, þau eiga að njóta sérstakra hlunninda fram yfir einkarekstur og það verð ég að segja, að sé kaldhæðni örlaganna, þegar Sjálfstfl. leggur sérstaka áherzlu á, að það sé yfirleitt ekki möguleiki vegna skattalaga, að einstaklingur reki nokkurt fyrirtæki í landinu. En það er ekki það, eins og nú er, vegna þess að einstaklingarnir búa við allt annan rétt, en hlutafélögin. Það má þess vegna segja, að Sjálfstfl. gangi hér sérstaklega fram fyrir skjöldu í því að ofsækja einstaklingsframtakið, sem hann hefur svo mjög gumað af, að hann væri einstakur málsvari fyrir.

Þegar sleppt er sjálfri skattheimtunni og því, að félögin eiga áfram að vera skattfrjáls, er ekki heldur um neinar aðrar breyt. til bóta að ræða í sambandi við þetta frv. T. d. er ekki um það að ræða að setja skatteftirlitið neitt í betra horf, en það hefur verið, heldur er ekki orðið við margítrekuðum óskum launafólks um það, að skattar séu innheimtir jafnóðum af tekjum og þær falla til, en það er í raun og veru grundvallarforsenda fyrir því, að almenningur sætti sig við beina skatta.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., að nokkrar viðræður hafa átt sér stað við hæstv. ríkisstj. af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við skattamálin, þ.e.a.s. það er ekki aðeins í sambandi við tekjuskattsmálin, heldur einnig útsvörin, og það hafa verið látnar í ljós ákveðnar óskir um breyt., sem í flestum greinum eru mjög líkar þeim till., sem ég hef leyft mér að flytja hérna. Og ég tel rétt, þar sem engar undirtektir hafa enn þá orðið undir það að breyta ákvæðum þessa frv. í sambandi við þessar áminnztu umr., að þá gefist hv. þd. kostur á að taka afstöðu til þeirra hugmynda, sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram. En ég vil taka það skýrt fram og það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., að í þessum efnum skiptu útsvörin að sjálfsögðu miklu meira máli en tekjuskatturinn. En þó er þess að gæta m.a. að ýmis ákvæði skattalaga eru oft og tíðum einnig yfirfærð í sambandi við álagningu útsvara og breytingar ýmsar hafa þess vegna tvöfalda þýðingu. Ef þær komast í gegn í sambandi við skattalögin, mundu þær einnig að meira eða minna leyti verða gildandi gagnvart útsvörunum.

Ég mun þá með örfáum orðum gera grein fyrir þeim till., sem ég flyt til breyt. á þessu frv., og er þá fyrst að nefna það, að ég legg til, að undanþegnar verði skattlagningu þær tekjur, sem menn hafa vegna greiðslu úr sjúkrasjóðum verkalýðsfélaga. Hér er ekki um stórfellda breyt. að ræða, en þó breyt., sem ég tel að mundi verða mjög vel séð hjá verkalýðsfélögunum. Það þykir ekki skemmtileg sú aðferð, sem hefur verið tekin upp núna í fyrsta skipti á s.l. vetri, að elta uppi nokkur þús. kr. greiðslur úr þessum sjúkrasjóðum, sem verkalýðsfélögin hafa komið sér upp og gera menn að hálfgerðum sakamönnum, ef það hefur láðst að telja fram. Og ég sem sagt tel ekki, að það muni hafa nein veruleg áhrif til lækkunar, því að þarna er yfirleitt um það fólk að ræða, sem hefur lágan eða engan tekjuskatt, en hins vegar er þessi eltingaleikur hvimleiður og meðan skattaeftirlitið í landinu er ekki betra en það er, virðist ekki ástæða til þess að vera að sleikja þessar smávægilegu greiðslur frá verkalýðsfélögunum til þeirra meðlima sinna, sem eiga í erfiðleikum vegna veikinda eða slysa. Ég legg ekki til, að þetta verði undanþegið framtalsskyldu, en hins vegar, að það verði skattfrjálst.

Þá legg ég í öðru lagi til, að þeim tveimur stéttum, sem búa við einna lengstan vinnutíma og að mörgu leyti erfiðust starfsskilyrði, verði gefinn sérstakur skattfrádráttur svipaður þeim, sem sjómenn hafa notið. Till. mín er þess efnis, að ég legg til, að verkafólki, sem vinnur við fiskiðnað og hafnarverkamönnum skuli veittur sérstakur frádráttur, 700 kr. fyrir hverja viku, sem þeir vinna að viðkomandi störfum og jafnframt að sérstakur sjómannafrádráttur, sem áður hefur numið 3.000 kr. á mánuði, verði felldur inn í þetta og þetta lúti hvort tveggja sömu reglu.

Það er kannske eðlilegt — og þó ekki að öllu leyti eðlilegt, að í skattlagningu almennt er ekki tekið neitt tillit til þess, hvernig teknanna er aflað, hvort t.d. verkamaður hefur þurft að leggja nótt við dag til þess að komast í þær tekjur, sem t.d. meðalvel launaður embættismaður kemst með stuttum vinnudegi og góðri starfsaðstöðu. Það er sem sagt ekkert tillit tekið til þess, þó að vissulega væru til þess ríkar ástæður og í raun og veru alls ekki réttmætt að skattleggja þá vinnu, sem unnin er á helgum dögum og að nóttunni og með ýtrustu áreynslu, jafnt líkamlegri sem andlegri, alveg eins og þær tekjur, sem aflað er með léttara hætti. Þannig virðist mér, að slíkur sérstakur frádráttur varðandi þessar starfsstéttir væri ákaflega sanngjarn. En ég held líka, að hann sé ekki aðeins sanngjarn, heldur væri hann mjög praktískur fyrir viðkomandi atvinnugreinar. Það þekkja allir og ekki sízt hér á Suðvesturlandi, hvernig kapphlaupið hefur verið um vinnuaflið og hvernig aðstaða hinna ýmsu atvinnugreina hefur verið misjöfn til þess að ná til sín nægjanlegu vinnuafli. Það er t.d. kunnugt, að verkamönnum og iðnaðarmönnum í byggingarvinnu hér í Reykjavík er yfirborgað mjög mikið, þannig að verkamenn munu almennt ekki vera á lægra kaupi í byggingariðnaði heldur en 50 kr. á klst., þegar samningsbundna kaupið í fiskiðnaðinum er 36 kr., en hafnarvinnumennirnir og þeir, sem vinna í fiskiðnaðinum, verða að búa við sína samninga nákvæmlega eins og þeir eru án nokkurra yfirborgana. Þarna væri því um það að ræða að jafna ofurlítið meti og að mínu viti, ef þetta væri einnig látið ganga í gegn í útsvarslögunum, væri um mjög mikilsvert atriði að ræða í sambandi við kjarasamningana í vor, sem gæti orðið til þess að létta verulega fyrir þeim og ég tel einnig, að þarna væri um stórkostlegt hagsmunamál fiskiðnaðarins að ræða og það er nú gjarnan til hans vitnað, þegar verið er að reyna að færa fram rök fyrir því, að atvinnuvegirnir þoli ekki hærra kaupgjald, það sé ekkert vit í því að hækka launin, — þá er það jafnan fiskiðnaðurinn, sem hafður er fram á. En þarna væri sem sagt unnt að veita þeim, sem við þessi störf fást, nokkra kjarabót og þá náttúrlega sérstaklega ef þetta væri jafnframt heimilað í útsvarslögum, án þess að um greiðslur yrði að ræða eða aukin útgjöld þeirra, sem við þennan rekstur fást.

Skv. 15. gr. núgildandi l. um tekjuskatt og eignarskatt eru ákveðnar sérstakar fyrningarheimildir fyrir allmargar atvinnugreinar og innihald þessarar gr. er það, að það megi afskrifa um 20% á ári í 3 ár, frá því að tekin eru í notkun fiskiskip og önnur veiðiskip, flutningaskip, flugvélar til farþega- og vöruflutninga, síldarverksmiðjur, dráttarbrautir og vinnslustöðvar fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir. Það er hvorki um meira né minna en það að ræða, að langsamlega veigamestu atvinnugreinum þjóðarinnar er leyfður þarna alveg sérstakur og stórfelldur frádráttur í 3 ár, frá því að eignir þeirra eru teknar í notkun. En það er ekki nóg með það, heldur má færa reikningslegt tap, sem verður af þessum afskriftum, til eilífðar, ef svo vill verkast eða þangað til það tap er greitt upp, milli ára, þannig að heimildin er raunverulega miklu víðtækari, en þessum 3 árum nemur. Ég tel, að þetta ákvæði sé alveg vafalaust eitt af því, sem hefur verkað mest í þá átt að gera allan reksturinn í landinu skattfrjálsan og einnig, að þessar afskriftareglur séu með öllu ástæðulausar.

Það er auðvitað svo, að sé hér um rekstur að ræða, sem berst í bökkum, kemur ekki til, að hann þurfi að greiða neinn tekjuskatt. En fjöldinn allur af þeim fyrirtækjum, sem þarna eiga hlut að, er rekinn með gróða og stundum með ofsalegum gróða, jafnvel svo að mörgum milljónatugum skiptir hjá einstökum fyrirtækjum og ég sé ekki, að það séu nein rök fyrir því, að þessar reglur séu látnar haldast óbreyttar. Ég tel, að það eigi í sambandi við þetta frv. að sýna ofurlítinn lit á því að létta annars vegar af einstaklingunum og þyngja að sama skapi á rekstrinum og þar sem þarna er um eina höfuðástæðuna að ræða fyrir því, að reksturinn í landinu er skattfrjáls, legg ég til, að d-liður 15. gr. falli niður, þannig að þessi fyrirtæki, sem talin eru þarna upp, megi aðeins afskrifa eignir sínar miðað við áætlaðan endingartíma, eins og önnur fyrirtæki í landinu verða að sætta sig við að gera.

Þá legg ég til, að persónufrádrátturinn verði aukinn um 30%. Það er sama aukning og hæstv. ríkisstj. hefur lagt til að yrði á persónufrádrættinum í útsvörunum og það er einnig svipuð prósentutala og áætlað er, að meðaltekjuhækkun hér í höfuðborginni hafi orðið á s.l. ári, þannig að þetta ætti að verka í þá átt, að menn með hliðstæðar tekjur, þ.e.a.s. menn, sem hafa aukið tekjur sínar eins og meðaltal tekjuhækkunar segir til um, verði í svipuðum skala og áður.

Þá geri ég aðallega tvær brtt. varðandi varasjóði félaga, þ.e.a.s. að skattfrjálst varasjóðstillag verði 1/5 í stað 1/4 og enn fremur legg ég til, að skattstigi félaganna verði færður upp í 30%, þ.e. það sama og einstaklingar verða að greiða, þeir sem komast í verulegan skatt. Þetta mundi þýða, að í staðinn fyrir það, að félögin geta nú í hæsta lagi greitt 15% af hreinum gróða sínum, mundi verða um almenna skattlagningu á hreinum gróða að ræða, sem næmi 24% eða tæplega 1/4 af hreinum gróða, sem rynni þá til ríkisins. Það yrði að vísu gert eftir mínum till. við ofurlítið þrengri skilyrði hvað fyrningarákvæði áhrærir heldur en áður, þannig að breyt. er kannske nokkru meiri, en ég hygg, að þessi skattstigi fyrir félögin sé mjög nálægt því að vera sá, sem algengastur er á Norðurlöndum.

Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að athuga, hvað þetta gæfi mikið í ríkissjóð, þessar hækkunartill., sem ég geri varðandi reksturinn. Ég get þó vel trúað því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta sé varla undir 40–50 millj., og gæti ég þó trúað, að þarna gæti orðið um hærri upphæð að ræða, sérstaklega ef skatteftirlitið væri hert og till. mínar um það efni væru samþykktar.

Þá flyt ég till. um það, að skattstiginn breytist nokkuð og í staðinn fyrir, að lagt er til, að hann verði 9, 18 og 27%, þá verði hann 5, 10, 20 og 30. Þetta þýðir nokkra beina lækkun á lægstu gjaldendum tekjuskatts, en hins vegar enga lækkun á þeim, sem í verulegan skatt komast eða nálega enga lækkun á þeim og raunar hækkun, þegar komið væri nokkuð upp í tekjustigana, því að ég geri ráð fyrir, að það haldist óbreytt, að hámarkið verði 30%, en frv. gerir ráð fyrir að lækka það í 27.

Loks flyt ég svo brtt. um viðbót við þá einu setningu, sem fjallar um rannsóknardeildina, þ.e.a.s. að rannsóknardeildinni verði ákveðið það verkefni auk annarra, sem hún að sjálfsögðu héldi áfram að hafa, að taka til sérstakrar og gaumgæfilegrar rannsóknar 3% af framtölum allra einstaklinga og 5% allra félaga skv. útdrætti og að þessi framtöl skuli sannreynd a.m.k. 2 ár aftur í tímann. Ég hef áður flutt till. svipaða þessari og gert grein fyrir því í hv. deild, að hvarvetna, þar sem skattaeftirlit er í nokkuð sæmilegu lagi erlendis, er ekki lögð í það vinna geysilegs fjölda fólks að krota niður í hvert einasta framtal, sem aldrei getur orðið annað en kákið eitt og raunverulega einskis nýtt, heldur eru framtöl yfirleitt tekin trúanleg, eins og frá þeim er gengið frá framteljanda og síðan ákveðinn hluti framtalanna athugaður skv. útdrætti, þannig að allir eigi það á hættu að geta komið til greina um það að verða rannsakaðir niður í kjölinn. Ég tel, að þessi breyting mundi geta haft mjög verulega þýðingu í sambandi við það, að framtölin séu betri og tekjur bæði ríkissjóðs og sveitarfélaganna gætu vaxið og þá um leið léttust skattar á þeim, sem rétt telja fram. Ég álít að vísu, að varðandi rannsóknardeildina þyrfti miklu víðtækari breytingar, en ég hef lagt til og það séu margir hlutir í sambandi við þau mál, skattaeftirlitið og hvernig með brot er farið, margt, sem þyrfti að breyta, en aðstöðu hef ég ekki haft til að geta flutt fleiri till. um þetta efni og er enda í athugun í n. að ræða þetta mál frekar við forstöðumann rannsóknardeildarinnar og ríkisskattstjóra og kynni það þá að bíða betri tíma að flytja frekari till. um þessi efni.

Ég vil svo aðeins segja það í sambandi við þessar till. mínar, af því að þær eru flestar í samræmi við þær óskir, sem verkalýðshreyfingin hefur lagt fram, — vil ég aðeins bæta nokkrum orðum við út af ummælum hv. frsm. meiri hl. n., sem ég hafði reyndar mjög gaman af, þar sem hann var að gera grein fyrir því, að júnísamkomulagið hefði verið að sínu viti eiginlega dagsbrún nýs tíma að því leyti, að verkalýðshreyfingin og ríkisvaldið hefðu þar ræðzt við um vandamálin og m.a. vandamál, sem löggjafarsamkomuna varða. Mig minnir nefnilega, að fyrir fáum árum hafi þetta verið kallað Alþingi götunnar og verið farið lítils virðingarorðum um það, þegar slík samvinna var reynd, t.d. á dögum vinstri stjórnarinnar, þannig að hér er áreiðanlega um stefnubreytingu að ræða hjá hv. þm. frá því, sem áður var, álit hans á þessum efnum. Ég er honum alveg sammála um það, að slík samráð milli verkalýðshreyfingar og ríkisvalds séu nauðsynleg. En það er náttúrlega ekki ánægjan einber, ef ríkisvaldið sér, sér ekki fært að verða að neinu leyti við þeim óskum eða reynir ekkert til þess að mæta þeim óskum, sem fram hafa komið og niðurstaðan af bollaleggingum hv. þm. um þetta efni var sú, að það væri ekki hægt að verða við neinum óskum verkalýðshreyfingarinnar og sýnist þá ljóminn vera að minnka varðandi þetta, ef hæstv. ríkisstj. sýnir ekki á nokkurn hátt að hún vilji koma til móts við kröfur og óskir verkalýðshreyfingarinnar varðandi skattamálin, hversu sanngjarnar sem þær annars eru.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, að ég tel sjálfsagt að verða við óskum hv. frsm. meiri hl. n. um að taka brtt. til baka til 3. umr. í þeirri veiku von, að þær finni við frekari athugun að einhverju leyti náð fyrir augum hv. meiri hl. og hæstv. ríkisstj.