06.05.1965
Efri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og ég boðaði við 2. umr. málsins, hefur fjhn. haft til meðferðar ýmis atriði varðandi þetta frv. milli 2. og 3. umr. og hefur nefndin orðið sammála um það að leggja fram nokkrar brtt., sem hún stendur að í heild. Þar sem ekki hefur gefizt tími til þess að útbýta þessum brtt. sem þskj., ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lýsa þeim.

Í fyrsta lagi flytur nefndin brtt. við 13. gr. laganna, þannig að við hana bætist nýr liður, sem verður f-liður:

„Slysadagpeningar samkv. 35. gr. og sjúkradagpeningar skv. 50. gr. laga nr. 40 1963, um almannatryggingar, svo og greiðslur svipaðs eðlis vegna veikinda eða slysa úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga.“

Hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði flutt brtt, um það að undanþiggja bætur vegna slysa eða veikinda úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga tekjuskatti. Við athugun á þessu í nefndinni komumst við að þeirri niðurstöðu, að ef inn á þessa braut yrði farið, yrði ekki komizt hjá því að undanþiggja svipaðar greiðslur á vegum almannatrygginganna tekjuskatti. Hefur hv. 4. þm. Norðurl. e. fallizt á það að draga til baka þann lið brtt. sinna, sem þetta efni varðar.

Aðrar brtt. nefndarinnar snerta skattaeftirlitið og miða allar að því að gera það áhrifameira, en verið hefur. Skal ég nú lýsa þeim till.

Það er í fyrsta lagi brtt. við 7. gr. Greinin orðist svo:

„Við 1. mgr. 51. gr. bætist: Um sektir þær, sem ákveðnar verða skv. 48. gr., gilda þó sömu reglur, að því er innheimtu varðar og um tekjuskatt, eftir því sem við á, þ. á m. um lögtaksrétt.“

Þetta eru brtt. við 7. og 13. gr.

Þá er brtt. við 4. mgr. 36. gr. laganna, hún orðist svo:

„Vegna rannsókna skv. lögum þessum hefur ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri og þeir menn, sem þeir fela rannsóknarstörf, aðgang að bókum og bókhaldsgögnum, þar með talin verzlunarbréf og samningar framtalsskyldra aðila, svo og allra stofnana, félaga og annarra aðila, sem ekki eru framtalsskyldir, þar með taldir bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, enn fremur aðgang að starfsstöðvum og birgðageymslum þessara aðila og svo heimild til þess að taka skýrslur af hverjum þeim, sem ætla má geta gefið upplýsingar, er máli skipta.“

Við 42. gr. laganna, 3. mgr., er þessi brtt. Málsgr. orðist svo:

„Við embætti ríkisskattstjóra skal starfa rannsóknardeild, er hafi með höndum rannsóknir skv. lögum þessum, sbr. 4. mgr. 36. gr. og 2. mgr. þessarar gr. Forstöðumaður deildarinnar, skattrannsóknarstjóri, stýrir rannsóknarstarfi hennar í samráði við ríkisskattstjóra.“

Áður var gert ráð fyrir því, að skattrannsóknarstjóri heyrði undir ríkisskattstjóra, en þessu er nú breytt þannig, að hann starfi í samráði við ríkisskattstjórann, eins og það er orðað.

Þá er það í þriðja lagi, að 48. gr, skattalaganna orðist svo:

„Nú skýrir skattþegn af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt frá einhverju því, er máli skiptir um tekjuskatt hans eða eignarskatt og skal hann þá sekur um allt að tífaldri skattupphæð þeirri, sem undan var dregin. Einnig er heimilt að sekta skattþegn, sem ekki hefur talið fram til skatts, um allt að tífaldri skattupphæð þeirri, sem áætlun var of lág, ef skattur er reiknaður að nýju skv. 2. mgr. 38. gr. Eigi má þó reikna skattsekt sk., þessari mgr. lengra aftur í tímann en 6 ár, sbr. 38. gr.

Nú verður slíkt uppvíst við meðferð dánarbús og skal þá greiða úr búinu tvöfalda þá upphæð, er á vantar.

Hver sá, sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi gefur skattayfirvöldum rangar eða villandi upplýsingar um atriði, sem varða skattframtöl annarra aðila, eða gegnir ekki skyldu sinni samkv. 36. gr., skal sekur um allt að helmingi þeirrar fjárhæðar, sem undan skyldi draga með hinum röngu eða villandi upplýsingum eða fellt var undan að gefa upplýsingar um.

Hver sá, sem í atvinnuskyni aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda, skal sekur um allt að helmingi þeirrar fjárhæðar, sem undan skyldi draga með hinni röngu eða villandi skýrslugjöf.

Fyrir endurtekin og stórfelld brot skv. 1., 3. og 4. mgr. þessarar gr. má dæma menn í allt að tveggja ára varðhaldsvist, enda liggi ekki þyngri refsing við brotum skv. hinum almennu hegningarlögum.

Nefnd, er í eiga sæti ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri og lögfræðingur, er fullnægir embættisskilyrðum héraðsdómara og ráðh. skipar, ákveður sektir skv. 1., 3. og 4. mgr., nema ríkisskattstjóri eða sökunautur óski, að málinu sé vísað til dómstóla. Ríkisskattstjóri skal vera formaður nefndarinnar. Nefnd þessi ákveður og sektir skv. 25. gr. laga nr. 10 1960, um söluskatt, nema fjmrh. eða sökunautur óski, að máli sé vísað til dómstóla.“

Við 50. gr. skattalaganna flytur nefndin brtt., að við hana bætist ný mgr., sem verður 3. mgr., svo hljóðandi:

„Nú er svo ástatt sem í 1. mgr. segir og dagsektir teljast eigi einhlítar til að knýja fram skýrslur eða önnur gögn; er þar greinir og getur ríkisskattstjóri eða skattrannsóknarstjóri þá vísað sökinni til dómara (sakadómara) til meðferðar. Dómari skal taka slíkt mál án tafar til rannsóknar að hætti opinberra mála og er ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra rétt að vera staddir við þá rannsókn eða láta fulltrúa sína vera það. Að rannsókn lokinni sendir dómari rannsóknargerðir sínar ríkisskattstjóra, er hlutast til um frekari meðferð máls að lögum.“

Við 54. gr. skattalaganna flytur nefndin enn fremur brtt., að við hana bætist ný gr., sem verður 2. mgr., svo hljóðandi:

„Ráðh. getur og í reglugerð kveðið á um sérstakt bókhald, þar á meðal birgðabókhald, skattskyldra aðila og svo um löggildingu þess, færslu og geymslu.“

Þessar till., sem eru samdar í samráði við ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, miða allar að því að auðvelda þessum aðilum það skattaeftirlit, sem þeir eiga að hafa með höndum. Þar sem nefndin stendur öll að þessum till., sé ég ekki ástæðu til þess að rekja þær nánar.

Að öðru leyti mun ég ekki fjölyrða um þetta mál að þessu sinni. Ég vil þó leyfa mér að víkja með fáeinum orðum að ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) við 2. umr. málsins. Hann ræddi þar nokkuð, svo sem ég hafði gefið tilefni til og grg. þessa frv. raunar gefur líka tilefni til, hin almennu vandamál, sem nú eru fram undan í sambandi við kjarasamninga. Ýmislegt í því, sem hann sagði, kemur mér að vísu öðruvísi fyrir sjónir. Hins vegar ber að mínu álíti mjög að virða, að hann leitast við að líta á þessi mál frá hærri sjónarhól, en almennt hefur verið um verkalýðsleiðtoga fram að þessu og ef aðstæður væru aðrar en þær eru nú, að svo mjög þarf að hraða þeim störfum, sem þingið á eftir, hefði ég gjarnan viljað gera þessu ýtarlegri skil, því að fátt er að mínu álíti gagnlegra í sambandi við þau vandamál, sem hér er við að etja, en málefnalegar umr. um þau, hvort sem er utan þings eða innan. Ég get þó ekki af áðurgreindum ástæðum gert þessu efni ýtarlegri skil.

En það var þó aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm., sem ég get ekki stillt mig um að leiðrétta. Hann sagði, sem rétt var, að ég hefði farið lofsamlegum orðum um þá viðleitni til þess að gera kjarasamninga á breiðari grundvelli en áður, sem upp var tekin með júnísamkomulaginu á s.l. ári, en taldi það í mótsögn við þá afstöðu, sem ég áður hefði haft í þessum málum, þegar ég hefði gagnrýnt vinstri stjórnina fyrir það samráð, sem hún hefði haft við hagsmunasamtökin á sínum tíma. Þetta vil ég algerlega bera af mér. Ég minnist þess ekki að hafa tekið þátt í því að gagnrýna vinstri stjórnina fyrir það, þó að hún hafi haft samráð um ýmis mál við verkalýðssamtökin og önnur hagsmunasamtök. Það eru aðrir, sem það eiga. Það eina, sem mér er minnistætt, að ég hafi gagnrýnt vinstri stjórnina fyrir í því sambandi, var m.a. það, að þegar hún ákvað vísitöluskerðinguna sumarið 1956, virti hún ekki fjölmenn launþegasamtök, sem ég var þá formaður fyrir og áttu mikilla hagsmuna að gæta ekki síður, en aðrir aðilar í sambandi við það mál, þess að ræða þetta við þau. Nú er það annað mál, að það hefði verið auðsótt mál af minni hálfu að samþykkja þessa ráðstöfun, því að ég leit þannig á, að hún væri nauðsynleg með tilliti til ástands efnahagsmálanna, eins og það var þá og studdi hana bæði innan þings og utan. En mér fannst, að vinstri stjórnin hefði átt að virða þessi samtök, sem að ýmsu leyti áttu, miðað við aðstöðu þá, meiri hagsmuna þarna að gæta en verkalýðssamtökin, þess að ræða, við þau um þetta atriði. Ég hef gagnrýnt vinstri stjórnina fyrir margt annað, en minnist þess ekki að hafa gert það í sambandi við þetta.

Varðandi aðrar brtt. frá þeim hv. nm., sem skilað hafa minnihlutaálitum, get ég í meginatriðum vísað til þess, sem ég sagði um þau við 2. umr. Ég tók þá neikvæða afstöðu til þessara till., þó að ég teldi það rétt vinnubrögð af n. að hafa þær áfram til athugunar á milli 2. og 3. umr. Ég get endurtekið það, sem ég sagði þá, að ég tel, að það beri að kanna, alveg eins og gert var á s.l. sumri, þegar kjarasamningar voru gerðir þá, hvaða möguleika ríkisvaldið hefur á því að koma til móts við verkalýðsfélögin og leggja fram fjármuni til þess að auðvelda framgang ákveðinna hugðarefna þeirra, sbr. það, sem gert var á s.l. sumri, þegar 40 millj. kr. voru lagðar fram til húsnæðismála. En ég álít, að það sé skilyrði fyrir því, að slik fjárframlög úr ríkissjóði, — að því leyti sem þau af öðrum ástæðum kunna að vera möguleg, — nái tilgangi sínum, að slíkar fjárhæðir komi eingöngu verkalýðnum og áhugamálum hans til góða, en þetta renni ekki að verulegu leyti til annarra. Einmitt á þessum grundvelli hef ég ekkert breytt um skoðun á því, að ég er andvígur þeim till. minnihlutamanna, sem ganga út á það að lækka tekjuskattsstigana. Það gefur auðvitað auga leið, að ef ríkið á að leggja fram fé í þessu skyni, þá verður með einhverju móti að afla fjár til þess og auðvitað verður að sjá þannig fyrir fjáröfluninni, að ekki sé tekið af verkalýðnum aftur með annarri hendi það, sem gefið var með hinni. Eitt af fleira, sem vitanlega kemur til athugunar í því sambandi, mundi vera, hvort rétt er að hækka félagaskatt eins og hv. þm. leggur til, en allt þarf það mál þó nánari athugunar við, heldur en unnt hefur verið að framkvæma í sambandi við þetta frv. Get ég því ekki lagt til, að till. hans um það efni verði samþ., þótt hitt beri mjög að virða, að hv. þm. bendir á tekjuöflunarleiðir á móti þeim lækkunum, sem hann leggur til að verði framkvæmdar. Aðalatriðið er þó hitt, sem ég benti á í framsöguræðu minni við 2. umr., að það er nú einu sinni þannig, að það, sem eftir er af tekjuskattinum nú, hvílir fyrst og fremst á hátekjum. Það gerir það að verkum, að lágtekjufólki, sem mesta þörf hefur fyrir kjarabætur, verður ekki hjálpað á þennan hátt, en á s.l. ári voru það, eins og ég upplýsti við 2. umr., rúmlega 60% framteljenda, sem alls engan tekjuskatt greiddu og helmingur þeirra skattgreiðenda, sem komst í tekjuskatt, greiddi í mesta lagi 3 þús. kr., þannig að gera má ráð fyrir því, að á móti hverri einni krónu, sem verkalýðurinn kynni að fá við það, að þessi leið væri farin, rynnu 10 kr. eða meira í vasa allt annarra aðila. Ég tel því, að það sé að fara út á blindgötu að ætla sér að fara þessa leið og get því ekki stutt tillögu um frekari lækkun á skattstiganum eða hækkun persónufrádráttar.

Athyglisverðari eru hins vegar í þessu sambandi að mínu álíti þær till., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. bar fram, í fyrsta lagi um það að heimila frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna sjúkra- og slysabóta úr sjóðum verkalýðsfélaga og í öðru lagi till. hans um að veita vissum aðilum sérstakan frádrátt frá tekjuskatti. Eins og ég þegar hef lýst, hefur n. fallizt á fyrri till. hans og flytur hana nú sameiginlega með þeim breytingum, sem nauðsynlegt var að gera á henni.

Báðar þessar till. hafa þann kost, að það, sem vinnst með slíku, kemur verkalýðnum eingöngu til góða eða þeim aðilum, sem hjálpa á með þessu móti. Hvað snertir hins vegar seinni till., um sérstakan frádrátt til handa þeim aðilum, sem þar um ræðir, hafnarverkamönnum og fólki, sem vinnur að fiskiðnaði, þá hefur sú till. samt þá galla frá mínu sjónarmiði, að ég treysti mér ekki til þess, — og sú er líka afstaða meiri hluta n., — að mæla með henni. En gallarnir á því að fara þessa leið eru að mínu álíti tveir. í fyrsta lagi kemur þetta að tiltölulega litlu haldi, ef aðeins er um að ræða frádrátt vegna tekjuskatts, vegna þess að mjög lítill hluti af þessu fólki mun yfirleitt komast í það að greiða tekjuskatt. Hitt er rétt, að þetta mundi hafa miklu meiri þýðingu í sambandi við útsvörin. En ég hygg, að með þeim breytingum á útsvarslögunum, sem nú þegar hafa verið ákveðnar í Nd., sé svo hart gengið að sveitarfélögunum, að það mundi ekki vera raunhæft að lækka tekjur þeirra verulega með því að fara þessa leið. Hér gæti aðeins orðið um heimildarákvæði að ræða. En það hygg ég, að muni hv. flm. fullkomlega ljóst, að með tilliti til þess, hvað tekjumöguleikar sveitarfélaganna hafa þegar verið skertir með ráðstöfunum, sem þegar hafa verið ákveðnar, þá er ólíklegt, að a.m.k. á þessu ári mundi slík heimild, þó að fyrir hendi væri, verða notuð sem neinu næmi.

Annað kemur líka til og það tel ég jafnvel þýðingarmeira í þessu sambandi, en það er þetta, að hér er ekki um að ræða frádrátt vegna tiltekins kostnaðar, sem þessir aðilar hafa, á sama hátt eins og þegar heimilaður er frádráttur vegna hlífðarfata sjómanna, heldur aðeins um það, að þessar starfsstéttir fái heimild til sérstaks frádráttar, eins og hann er nánar ákveðinn. Nú má að vissu leyti segja, að fyrir þessu sé fordæmi í þeim skattalögum, sem nú gilda, vegna þess að heimilaður er sérstakur frádráttur sjómönnum til handa. En mín skoðun hefur ávallt verið sú, að það hafi verið hið mesta neyðarúrræði að gera þetta á sínum tíma, það hefði átt að fara aðrar leiðir. Hitt er svo annað mál, að þegar þetta einu sinni er komið inn í lög, þá er ekki svo auðvelt að kippa því til baka. En telji maður þessar reglur óheilbrigðar, ber auðvitað að varast að ganga lengra á sömu braut og það, sem skoðanir mínar í þessu efni byggjast á, er þetta, að hér er um það að ræða að leggja tekjuskatta á ekki í samræmi við tekjur manna, heldur eftir því, hvaða starfsstétt þeir tilheyra. Það var að vísu hér áður fyrr, fyrir 200 árum, eða svo, mjög algengt, að skattaálagningin fór eftir stéttum, þannig að bændum var gert að greiða tiltekinn skatt, kaupmönnum tiltekinn skatt, prestum o.s.frv., en þetta brýtur algerlega í bág við þá grundvallarhugmynd, sem tekjuskattinum liggur að baki, að tekjuskatta eigi menn að greiða eftir hæð teknanna, en ekki því, í hverjum störfum teknanna er aflað.

Það má auðvitað um það deila, hvort tekjuskatturinn sem skattstofn eigi rétt á sér og hvað háan sess hann eigi að skipa í skattakerfinu. En ég álít þó, að ef lagt er fyrir alvöru inn á þessa braut, að láta tekjuskatt vera mismunandi eftir störfum, þá hlýtur það að leiða til afnáms tekjuskattsins. Nú getur það auðvitað verið álítamál út af fyrir sig, hvort það eigi ekki að gera af öðrum ástæðum, en mér finnst, að það eigi þá að vera á grundvelli annars mats en þessa, sem slík ráðstöfun væri gerð. Af þessum ástæðum sé ég mér ekki fært og það er skoðun okkar, sem að meirihlutaálitinu stöndum, að styðja þessa till.

Herra forseti, Ég læt svo máli mínu lokið, en afstaða okkar, sem að meirihlutaálitinu stöndum, er sú, að við leggjum til, að þær till., sem n, sameiginlega ber fram hér við 3. umr., verði samþykktar, en aðrar brtt. felldar.