11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar, en hefur ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed.

Ég skal ekki rekja efni frv., það hafa hv. þm. áreiðanlega þegar kynnt sér rækilega. Ég vil aðeins benda á það, að með óbreyttum lögum er gert ráð fyrir, að skattar þessir hefðu á þessu ári numið um 500 millj. kr., en voru í fjárl. ákveðnir 375 millj. vegna þeirrar fyrirhuguðu lækkunar, sem hér er á ferðinni. Frv. gerir ráð fyrir að framkvæma lækkunina með talsverðri aukningu á persónufrádrætti, breytingu á skattþrepum og lækkun skattprósentu á hverju þrepi og er talið, að breytingarnar til lækkunar séu eins miklar og fjárlagaupphæðin, 375 millj. kr., frekast leyfir. Margir eru sjálfsagt þeirrar skoðunar, að æskilegt hefði verið að ganga lengra en gert er, en þá hefði orðið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að mæta frekari lækkunum. Ég held þó, að fullyrða megi, að fjölskyldumenn með lágtekjur og lægri miðlungstekjur verði skattfrjálsir samkv. frv. og tekjuskattar verða varla teljandi, fyrr en tekjur eru orðnar talsvert miklar. Skatturinn verkar fyrst og fremst til tekjujöfnunar og er ekki nema gott um það að segja út af fyrir sig.

En þó að háir skattar séu vondir, er annað verra og það er það óréttlæti, sem falizt hefur í skattsvikum. Frv. hefur að geyma ýmis ákvæði til þess að auðvelda skattyfirvöldum eftirlit með framtölum og eru í því sambandi ýmsar vonir bundnar við nýtt embætti skattrannsóknarstjóra og er þess að vænta, að hér sé stigið skref til leiðréttingar á miklu ranglæti, sem orðið geti til lækkunar skatta í framtíðinni, er byggist á betri og réttlátari skattheimtu.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.