11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kom af máli hv. síðasta ræðumanns, varð ekki samstaða í fjhn. um afgreiðslu frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Ég hef gefið út nál. um málið, ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v., sem prentað er á þskj. 725.

Þegar rætt er um tekjuskatt og eignarskatt nú, verður að hafa það í huga eins og löngum áður, að í upphafi valdatímabils núverandi hæstv. ríkisstj. voru gerðar gagngerðar breytingar á innheimtu ríkissjóðstekna, þar sem horfið var að verulegu leyti, eða a.m.k. hét það svo, frá beinum sköttum, en ríkissjóðstekjurnar í vaxandi mæli innheimtar með óbeinum sköttum, söluskatti og aðflutningsgjöldum. Síðari hluti þessarar stefnuyfirlýsingar hefur verið rækilega framkvæmdur, því að á þessu tímabili hefur söluskattur einn hækkað um 510% og önnur skattheimta ríkissjóðs með óbeinum sköttum vaxið stórkostlega, bæði þeir tekjustofnar, sem fyrir voru, þegar ríkisstj. kom til valda og auk þess hafa verið lagðir á fleiri gjaldaliðir, en ég man hér að nefna. En það hefur ekki að sama skapi gengið vel að framkvæma fyrri hluta loforðsins, þ.e. að lækka beinu skattana. Þegar skattalögin voru hér til meðferðar í fyrra, var svo ástatt, að verðbólgan hafði vaxið gífurlega árið 1963 og þar með tekjur manna. Þá var þegar augljóst, að skattalögin frá 1960 mundu verða gersamlega óframkvæmanleg vegna þessarar tekjuhækkunar og vegna þeirrar miklu hækkunar á skattstigum, sem í þeim lögum var að finna. Hæstv. ríkisstj. sá þetta eins og allir aðrir og hún lagði fram frv. hér á hv. Alþ., sem hún taldi að ætti að bæta úr þessum ágöllum, en aðrir, sem fjölluðu um það mál hér, sáu og bentu á, að þessi lagfæring mundi engan veginn duga til þess að leiðrétta þá afskræmingu, sem verðbólgan hafði á þessum reglum gert og við meðferð málsins á hv. Alþ. bárum við fulltrúar Framsfl. þess vegna fram brtt., sem fjölluðu um það að hækka persónufrádráttinn til samræmis við það, sem tilkostnaður hafði vaxið, að breikka þrepin í skattstiganum og að taka upp umreikning bæði á persónufrádrætti og tekjutölum skattstigans, eins og verið hafði í lögum fram að 1960. Þessum till. okkar var engu svarað nema skætingi. Þær voru taldar óraunhæf yfirboð, sem ekki ættu við neinn veruleika að styðjast og m.a. var boðið upp á það sem eins konar svar við þessum brtt. okkar, að skattalög frá eldri tímum, áður en breytingin á tekjuinnheimtunni hafði átt sér stað, yrðu látin gilda, ef einhver vildi það heldur. Þetta var náttúrlega mislukkuð gamansemi, sem ég held að enginn hafi haft gaman að, nema þá helzt þeir, sem fóru með hana hér og efast ég þó um, að þeir hafi haft það sjálfir, en a.m.k. var þetta svo fjarri öllum veruleika, að ekki var svara vert.

En svo skeði það, eins og alltaf gerist á ári hverju, að nefndir ljúka störfum og einnig skattanefndirnar luku störfum. Þó að það væri mjög seint, þá kom að því í fyrra og þá blasti þessi veruleiki við, að ríkisgjöldin og opinberu gjöldin urðu svo há, að allir voru sammála um það, að þar væri of langt gengið. Og þegar ég segi allir, þá meina ég ekki bara stjórnarandstöðuna hér á hv. Alþ. og annars staðar, heldur einnig stjórnarliða sjálfa, sem í blaðakosti sínum voru þar fremstir í flokki og þar kom, að hæstv. fyrrv. fjmrh. sá sér ekki annað fært en að játa það, að út úr þessu skattadæmi hefði komið allt önnur niðurstaða en hann hefði átt von á. Þessi játning átti sér stað í útvarpsþætti, sem stofnað var til 17. ágúst í fyrra, sem sagt þrem mánuðum eftir að till. okkar framsóknarmanna höfðu verið dæmdar yfirboð og óframkvæmanlegar hér á hv. Alþ. Það tók 3 mánuði þá að komast að því, að þær hefðu ekki verið eins rangar og þá var látið í veðri vaka.

Nú þýddi náttúrlega ekkert út af fyrir sig að játa það, að mistök hefðu verið gerð. Það varð einhverju að lofa til þess að bæta úr þeim og það var líka gert. Þau úrræði, sem ríkisskattstjóri og hæstv. fyrrv. fjmrh. komu auga á til þess að lagfæra þau mistök, sem þarna höfðu átt sér stað, voru aðallega þrjú. Það var að hækka persónufrádráttinn, að breikka þrepin í skattstiganum og að taka upp umreikning, eins og verið hafði í lögum fyrir 1960, — sömu þrjú atriðin og hér höfðu verið felld með öllum atkvæðum stjórnarliða á Alþingi þrem mánuðum áður. Þar að auki var svo hugsanlegt, að til bóta mundi vera að innheimta gjöldin, um leið og tekjurnar féllu til og er það vissulega alveg rétt.

Nú liggur hér aftur fyrir frv. til breytinga á tekjuskatti og eignarskatti, og í samræmi við það, sem þegar hefur verið sagt, þá hefur verið látin fara fram lagfæring á persónufrádrættinum. Hann hefur verið færður til samræmis við vísitöluhækkun, sem orðið hefur síðan 1960, svona nokkurn veginn. Hann er hækkaður um 60%, og það hygg ég, að muni svara nokkurn veginn til þeirrar hækkunar á vísitölu, sem átt hefur sér stað frá árinu 1960 til meðalvísitölu ársins 1964. Til viðbótar því hefur skattþrepunum verið breytt aðeins um 10%, sem er náttúrlega allt of lítið og á næsta ári er talað um að taka upp umreikning, að vísu miðaðan við eitthvað, sem enginn veit enn þá, hvað er og kallað er í þessu frv. skattvísitala, án þess að nokkur maður viti, um hvað þar er verið að ræða, eða nokkur skýring fylgi því í aths. frv., hvað þar sé átt við, svo að enn þá a.m.k. er ekki séð, hvort þar er nokkur lagfæring á ferðinni eða ekki.

Sú breyting, sem gerð er á skattstiganum, er allt of lítil til þess að vega á móti þeirri tekjuaukningu, sem átt hefur sér stað og hún lagfærir ekki nema að mjög litlu leyti þá breytingu, sem gerð var á tekjustigunum árið 1960.

Sams konar tillögur og ég er hér að tala fyrir og hef borið fram brtt. um á þskj. 726 hafa þegar verið bornar fram í hv. Ed. og þar felldar. Ég óttast, að nú sé verið af hálfu hæstv. ríkisstj. að gera sömu mistök og gerð voru í fyrra, þ.e.a.s. að afgreiða úrbótartillögur okkar sem óraunhæf yfirboð og að það muni ekki líða nema kannske þrír mánuðir, þangað til hæstv. núv. fjmrh. hefur áttað sig á því, að betra hefði verið að fara eftir því, sem hér er lagt til og ég vildi mjög óska þess, að hann íhugaði það vandlega, vegna þess að ég óska þess ekki, að hann þurfi að lenda í því að koma í útvarpið þremur mánuðum síðar til þess að afsaka þau mistök, sem átt hafi sér stað.

Til viðbótar því að játa það, að mistök hefðu átt sér stað í fyrra, þá var lengi fram eftir árinu talað um það, að eitthvað þyrfti að gera til þess að lagfæra þessi mistök, ekki bara í framtíðinni, heldur á yfirstandandi ári og ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða það, að fólk hafi búizt við því lengi fram eftir öllu sumri, að það mundi verða eitt fyrsta verk, sem Alþingi gerði, þegar það kæmi saman að nýju, að koma á einhverjum úrbótum á þessu, sem átt hefði sér stað á miðju sumri fyrir mistök, af því að menn áttuðu sig ekki á því, að tekjurnar voru miklu hærri en árið áður og eins og hæstv. viðskmrh. sagði, fólk hafði haft svo miklar verðbólgutekjur, að skattarnir ruku upp af þeim ástæðum. En sumarið leið og þingsetningardagurinn einnig og ekki sást þetta lagfæringarfrumvarp. Þegar sýnt var, að það mundi ekki koma frá hæstv. ríkisstj., þá báru nokkrir þm. úr stjórnarandstöðunni fram frv. til þess að reyna að fá einhverja lagfæringu fram á þessu máli og tvö frv. voru borin fram, annað af okkur framsóknarmönnum, sem gerði ráð fyrir endurgreiðslu á tiltekinni fjárhæð, þar sem reynt var að komast eins nærri því að leiðrétta mistökin og hægt var með þeirri aðferð, sem hafði þann kost að vera fljótvirk og framkvæmanleg og svo hins vegar frv. frá hv. 5. þm. Austf. o.fl., þar sem farið var fram á endurreikning allra gjalda og hefði vitanlega leitt til réttari niðurstöðu, en hafði þann ókost að taka alllangan tíma og kosta mikla fyrirhöfn. Bæði þessi frv. hafa legið fyrir hv. Alþingi í allan vetur, án þess að þau hafi nokkurn tíma verið rædd nema við 1. umr. og vísað til n. og þaðan hafa þau ekki komið. En samningaumleitanir stærstu launþegasamtaka áttu sér stað lengi fram eftir vetri og enduðu þannig, eins og alkunnugt er, að ekkert var hægt að gera, þegar til kom.

Þannig hefur engin leiðrétting farið fram á því, sem misgert var í fyrra af misgáningi. Þeim mun meiri ástæða væri til þess nú að gera það frv., sem hér er til umr., þannig úr garði, að það byggði ekki á þeirri skekkju, sem leidd var inn í fyrra, heldur leiðrétti hana, fyrir utan það, að það tæki tillit til þeirrar verðbólguhækkunar, sem orðin er síðan og þarf að leiðrétta jafnframt.

Þess vegna er það, að ég flyt ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. brtt. um það, að 4. gr. orðist eins og þar segir, að þrepin verði fleiri og að byrjað verði lægra. Ef frv. verður samþ. óbreytt núna, þá verður skatturinn hærri, en hann var 1960. Það stafar af því, að prósentutalan, sem ákveðin var í fyrra, var of há, miðað við það, sem hún var 1960. Til þess að fá fram sama ástand og þá var, þarf að lækka þessa prósentu, eins og ég hef þegar gert grein fyrir og fyrsta brtt. okkar fjallar um það.

Þá erum við einnig með brtt. um það, að í stað orðsins „skattvísitölu“, sem miðað er við í 10. gr. og er eins og ég áðan sagði, algerlega ótiltekin bæði í frv. og aths. þess, þannig að enginn veit, hvað verið er að samþ., ef þetta orðalag er viðhaft, — að í stað þess komi „kaupgjaldsvísitala“, eins og var í lögum, áður en umreikningurinn var afnuminn. Í fyrra gátum við ekki miðað okkar brtt. við kaupgjaldsvísitölu, vegna þess að hún var þá ekki reiknuð. Það átti að vera eitt af snjallræðunum til þess að koma efnahagsmálunum í viðunandi horf að kúpla frá, sem kallað var, samhenginu milli launa og vísitölu. En þegar það sýndi sig, að þá fyrst tóku launin verulegan sprett, þegar hætt var að tengja þau við vísitöluna, var eins og kunnugt er, aftur horfið að því ráði að koma þarna á sambandi á milli á ný, svo að nú er reiknuð út kaupgjaldsvísitala og þess vegna teljum við eðlilegast, að það verði nú eins og áður umreikningur á persónufrádrætti og tekjutölum miðað við þá vísitölu, vegna þess að það er eðlilegast, að skattarnir séu í hlutfalli við launin.

3. brtt., sem við berum fram, er um rannsókn skattyfirvalda. Í fyrra var nokkuð hert á möguleikum ríkisvaldsins til þess að fylgjast með undandrætti frá skatti, með því að stofnuð var sérstök deild, sem með þau málefni skyldi fara. Um þetta var alger samstaða á Alþingi og ég tel, að það hafi allir fagnað því og veit, að það hafa allir fagnað því, að á þetta ráð var brugðið, því að það er löngu Ijóst, að verulegur hluti af misræminu og óánægjunni, sem á sér stað vegna greiðslu opinberra gjalda, stafar einmitt af því, hvað menn vita til þess, að mikil brögð eru að því, að menn telji misjafnlega fra, og að mikið sé af tekjum, sem ekki komi til skila, þegar verið er að leggja á ríkisgjöldin og sveitarfélagsgjöldin. Nú hafa þau ákvæði, sem um þetta voru sett í fyrra, nokkuð verið skýrð, og það hefur verið fjallað um eldri ákvæði og þau einnig nokkuð skýrð og gerð ákveðnari, þar sem þess hefur þótt þurfa, þannig að fyllstu vonir eru til þess, að þarna verði verulega tekið á.

Enn þá er það þó þannig, að það er algjörlega eftir mati viðkomandi yfirvalda, hvaða framtöl eru tekin til athugunar og enda þótt það sé fyllilega hægt að treysta þeim embættismönnum, sem um þessi mál eiga að fjalla, til þess að láta þar réttlæti og sanngirni ríkja, þá er það þó skoðun okkar, að það sé gott, ekki sízt fyrir þessa menn, sem að málunum eiga að starfa, að jafnframt því að þeir taki til athugunar þau framtöl, sem þeim finnast sérstaklega grunsamleg af einum eða öðrum ástæðum, að þá sé líka látið fara fram úrtak úr öllum framtölum landsins, sem komi til athugunar alveg án tillits til þess, hvort nokkur ástæða er til þess af framtalinu sjáanleg að athuga það eða ekki. Sams konar till. mun hafa verið borin fram hér í fyrra og fékk þá ekki stuðning, en þess er freistað nú í annað sinn að fá þingheim til þess að fallast á þessa aðferð með því að bera fram brtt. um það, að umfram þau framtöl, sem að dómi skattyfirvalds gefa sérstaka ástæðu til rannsóknar, skuli árlega fara fram rannsókn á 3% allra framtala þeirra aðila, sem bókhaldsskyldir eru og á 2% annarra framtala. Það er eðlilegast, að útdráttur þessi verði framkvæmdur af óvilhöllum aðila, t.d. Hagstofu Íslands, eins og við leggjum til og að hún setji um það nánari reglur, hvernig þeim útdrætti skuli hagað. Til þess er henni fyllilega treystandi og treyst með þeim tillöguflutningi, sem hér um ræðir.

Þetta mun nú vera í fjórða skipti, sem því er lýst yfir við meðferð skattamála á Alþingi, að meðaltekjumenn skuli vera skattfrjálsir, en það var tekið fram af frsm. meiri hl. fjhn. áðan, að með þessu væri tryggt, að allir meðaltekjumenn væru skattfrjálsir. Reyndin hefur hins vegar fram að þessu verið sú, að meðaltekjumennirnir, sem við verðum að kalla svo, þeir hafa ekki verið skattfrjálsir nema frá því að lögin voru sett á Alþingi og þangað til skattskráin kom út, því að það hefur ævinlega sýnt sig, að það hefur ekki tekizt, þetta sem alltaf hefur staðið til, að ákveða skattstigana þannig, að þeir, sem geta kallazt meðaltekjumenn, beri engan tekjuskatt.***

Til þess nú að hægt sé að gera sér rökstuddar vonir um það, að þessi tilraun mætti takast í fjórða sinn, er alveg nauðsynlegt að samþ. 1. brtt. okkar á þskj. 726, vegna þess að fyrr er ekki búið að færa skattareglurnar til þess horfs, sem var hér 1960, þegar breytingin mikla var gerð, þegar allir óbeinir skattar voru stórhækkaðir og síðan margfaldaðir í því skyni, að hægt væri að sleppa meðaltekjumönnum við það að greiða tekjuskatt. Þetta vonast ég til, að verði sérstaklega athugað af þingheimi til þess að reyna að koma í veg fyrir, að sagan frá því í ágúst í fyrra þurfi að endurtaka sig.