12.05.1965
Efri deild: 91. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er nú sýnilegt, að hér á enn að hafa í frammi þá frekju, sem síðustu daga þessa þings hefur mjög einkennt vinnubrögð ríkisstj. og þingmeirihl. Það er ætlazt til þess, að þessi umr. standi aðeins eina og hálfa klst. og er af því sýnilegt, að þd. er ekki ætlaður langur tími til umr. um það atriði þessa lagafrv., sem breytt var í Nd. Það er enn fremur sýnilegt, að það er ekki ætlazt til þess, að n. gefist kostur á að fjalla um það atriði, sem þar var breytt. Það er í þriðja lagi sýnilegt, að þd. er ætlaður sérlega naumur tími til þess að undirbúa og koma með brtt. við þetta atriði, ef þeir vildu hafa þann hátt á til þess að fá að greiða sérstaklega atkv. um þá brtt., sem samþykkt var í Nd.

Um þá brtt. og um það atriði er það að segja, að þó að það sé að vísu ekki mikið að vöxtum, er það þó þess háttar, að það getur dregið býsna langan slóða á eftir sér og það er þess eðlis að það er full ástæða til þess að hyggja í ýmsar áttir og athuga, hverjar afleiðingar það geti haft á ýmsum sviðum, þannig að það er að mínum dómi engan veginn hyggilegt að afgreiða það atriði á svo stuttum tíma og með svo skjótum hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Hæstv. fjmrh. hafði að vísu stutta framsögu um það atriði hér áðan, en gerði ekki ýkjamikla grein fyrir því, hvers efnis þessar breytingar eru, sem gerðar voru á frv. við síðustu umr. þess í Nd. En efni þeirra er á þá lund, að með þeim er heimilað að gefa skattsvikurum upp skattsektir, ef þeir gefa skýrslu af sjálfsdáðum, eins og það er orðað, um þau atriði, sem máli skipta um tekjuskatt þeirra og eignarskatt; fyrir 1. marz 1966. Og í annan stað felst í þessari breytingu sams konar heimild gagnvart söluskattssvikurum, að ef þeir gefa rétta skýrslu af sjálfsdáðum, að kallað er, fyrir 1. júlí þetta ár, þá má gefa þeim upp sakir.

Það er ákaflega óskemmtilegt að þurfa að vera að tala á síðasta degi þingsins um skattsvikara og skattsvik, en það verður ekki hjá því komizt að eyða nokkrum orðum að þessu efni. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hæstv. fjmrh., að aðalatriði þessara mála er það, að hægt sé að koma þeim í sæmilegt horf í framtíðinni. Um það erum við sammála. En hins vegar er spurningin, hvort sú breyting, sem gerð hefur verið á frv. að till. hæstv. fjmrh., þjónar þeim tilgangi eða ekki. Styrkir hún réttarvörzluna í skattamálum eða gerir hún það ekki? Það er höfuðspurningin út frá þeirri forsendu, sem hæstv. fjmrh. telur málið á flutt.

Ég vil strax lýsa skoðun minni á þessum breytingum, sem gerðar hafa verið á frv. í Nd., að ég tel þær ekki réttmætar og álít, að á þeim sé engin þörf. Hæstv. fjmrh. vildi svara þeirri spurningu, sem ég aðeins drap á, játandi. Hann telur, að það muni verka styrkjandi fyrir réttarvörzluna, hafa þau sálrænu áhrif, að skattsvikurunum séu gefnar upp sakir, gefinn kostur á að hreinsa sig, að skattaskilin verði betri í framtíðinni og skattalöggæzlan skilvirkari. Ég er á gagnstæðri skoðun. Það má að vísu deila um þýðingu refsinga. En ég held, að það sé almennt ekki talið styrkja réttarvörzluna að gefa upp alveg þær refsingar, sem til hefur verið unnið. Ég held, að það sé ekki almennt talið. Ég held, að þessi regla, sem þarna er upp tekin, verði til þess að veikja réttarvörzluna í skattamálum og deyfa framkvæmdina í þeim efnum. Og hvers vegna skyldi það ekki gera það, þegar þeir, sem gerzt hafa brotlegir í þessum efnum, sjá, að þeim helzt það uppi án þess að verða að gjalda nokkur viðurlög. En svo er líka önnur hlið á málinu, en það er viðhorfið gagnvart þeim, sem talið hafa fram rétt til skatts á undanförnum árum og greitt sína skatta eins og vera ber. Af því að einhverjir, — margir eða fáir eftir atvikum, — hafa dregið undan skatti og ekki greitt það, sem þeim bar, þá hafa skattar og gjöld þess fólks, sem réttilega hefur talið fram og réttilega hefur greitt sín gjöld, orðið hærri en ella hefði orðið. Ég held, að það sé ekki réttlátt gagnvart því fólki og það sé ekki í samræmi víð þá almennu réttlætiskennd, að þeim, sem þannig hafa verið brotlegir og valdið því, að þeir, sem rétt gerðu í þessu efni, báru hærri gjöld en ella hefði orðið, sé sleppt með öllu. Ég held, að það sé ekki í samræmi við réttarvitund fólks. Sem sagt, ég held, að þetta styrki ekki réttarvörzluna og sé í ósamræmi við réttarvitund.

En þá er önnur spurning: Er þörf á þessari sakaruppgjöf af sanngirnisástæðum vegna þeirra brotlegu? Kemur þetta þeim eitthvað á óvart? Hafa ekki refsiákvæði slík sem þessi verið í lögum?

Jú, þessi refsiákvæði hafa verið í lögum um langa hríð og a.m.k. þau tíu ár, sem þessum sektarákvæðum, sem fjallar um í þessum lögum, er ætlað að taka til. Þau ákvæði voru a.m.k. áreiðanlega í tekjuskattslögunum nr. 46 frá 1954 og á refsiákvæðunum í l. hefur engin breyting orðið frá þeirri tíð önnur en sú, að samkv. l. frá 1954 var heimilt að reikna aftur í tímann 10 ár, en því var aftur á móti breytt með löggjöfinni frá 1962 og ákveðið, að aðeins mætti fara 6 ár aftur í tímann. Það, sem gerzt hefur í þessum efnum, er því það, að þessi ákvæði hafa verið gerð vægari, en ekki þyngri, á umliðnum árum. Á þeim tíma, sem menn hafa gerzt brotlegir, hafa því verið í gildi refsiákvæði, sem taka til þessara brota. Þeir, sem gerzt hafa brotlegir, hafa því alveg vitað, á hverju þeir máttu eiga von. Það er ekki að neinu leyti verið að koma aftan að mönnum í þessu efni. Lögin frá 1962, skattalögin, þyngdu ekki að neinu leyti þær refsingar, sem lágu við þessum brotum. Það nýja í þeim lögum var það, að sett var á stofn hin svokallaða skattalögregla, þó að það hafi nú kannske ekki verið fyrr en með l. frá 1963, — jú, ég held, að það hafi verið með lögunum frá 1962 sett upp þessi nýja skattalögregla og henni gefið meira vald til rannsókna í skattamálum en áður var, sem sagt gerð betri skipan á rannsóknunum, en refsiákvæðunum ekki að neinu leyti breytt nema að þessu leyti, að það var takmarkað meir en áður var, hversu langt mætti fara aftur í tímann. Ég fæ þess vegna ekki séð, að það séu nein sanngirnissjónarmið gagnvart þeim mönnum, sem gerzt hafa brotlegir við skattalögin, sem geri það að verkum, að það sé nauðsynlegt að gefa þeim upp sakir.

Ég verð svo til viðbótar þessu að segja það, að mér finnst, að þessar brtt., sem samþ. hafa verið, beri þess nokkurn vott, að þær séu gerðar í flaustri og nokkuð vanhugsaðar, og vil ég nú reyna að finna þeim orðum mínum stað með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi má spyrja um það, hver það sé, sem eigi að fella þessar sektir niður. Samkv. frv. er það sérstök n., sem á að leggja á sektirnar, en hins vegar er það ekkert tekið fram í þessum l., hver á að beita þeirri heimild til niðurfellingar sektarinnar. Þar er um tvennt að tefla: annaðhvort sú nefnd, sem leggur sektirnar á, en það er nú ekki venjulegt, að sá, sem dæmir, hafi náðunarvaldið jafnframt í sinni hendi, eða þá að það er fjmrh., sem á að hafa þetta sem yfirstjórnandi þessara mála allra. Nú spyr ég: Hver er meiningin? Það hlýtur hæstv. fjmrh. að hafa gert sér ljóst, og það er æskilegt að hans viljayfirlýsing liggi fyrir um þetta hér, þó að það sé að sjálfsögðu ekki bindandi fyrir dómstólana, þegar þeir á sínum tíma kynnu að þurfa að skera úr því, hver hefur þetta vald, því að í l. stendur ekkert um það, hver hafi vald til þess að gefa upp þessar sektir.

Í annan stað vildi ég benda á, að það er samkv. þessari breytingu heimilað að fella niður þær skattsektir, sem fjallað er um í 1. málsgr., þ.e.a.s. skattsektir þess skattþegns sjálfs, sem brotlegur hefur gerzt og á að greiða skattinn. En það er ekki aðelns, að í þessum l. séu skattsektir lagðar á þann mann, á skattþegninn, heldur eru í 3. málsgr. þessarar sömu gr. ákvæði svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sá, sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi gefur skattyfirvöldunum rangar eða villandi upplýsingar um atriði, sem varða skattframtöl annarra aðila, eða gegnir ekki skyldu sinni samkv. 36. gr., skal sekur um allt að helmingi þeirrar fjárhæðar, sem undan skyldi draga með hinum röngu eða villandi upplýsingum eða fellt var undan að gefa upplýsingar um.“

Og í 4. málsgr. segir:

„Hver sá, sem í atvinnuskyni aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda, skal sekur um allt að helmingi þeirrar fjárhæðar, sem undan skyldi draga með hinni röngu eða villandi skýrslugjöf.“

Það er samkv. þeirri brtt., sem samþ. hefur verið í hv. Nd., ekki veitt nein heimild til þess að fella skattsektir þessara aðila niður. Þeir skulu samkv. þessu ákvæði greiða sektir. Og nú skulum við taka dæmi. Það er dálítið talað um það hjá fólki, að skattundandráttur hafi dálítið þekkzt með þeim hætti, að menn hafi verið teknir í vinnu og þeir hafi kannske því aðeins fengizt til vinnu, að atvinnuveitandi þeirra gæfi ekki upp allt það, sem þeir hefðu í laun. Og við getum hugsað okkur ýmis fyrirtæki, sem svona væri ástatt um. Þá eiga þessir launþegar samkv. þeirri breytingu, sem nú hefur verið gerð, að hafa möguleika til þess að fá skattsekt sína alveg niður fellda, en fyrirtækið og vinnuveitandinn á að greiða sekt eftir sem áður og sú sekt á að vera allt að helmingur þeirrar skattupphæðar, sem undan var dregin og þegar um stór fyrirtæki er að tefla, þá gæti þetta verið dálítil upphæð, sem fyrirtækið ætti þannig að greiða, og það mætti hugsa sér, að þetta kannske kæmi betur á daginn, eftir að þessi ákvæði verða komin í framkvæmd og eftir að einhverjir af vinnuþegunum gæfu sig af sjálfsdáðum fram og gæfu réttar skýrslur og fengju sína skattsekt eftir gefna, þá er ekki ómögulegt, að það upplýstist um dálitlar fjárhæðir hjá atvinnufyrirtækinu.

Mér finnst þetta óeðlilegt, ekki af því, að ég í sjálfu sér vorkenni þessum fyrirtækjum svo mjög, heldur af hinu, að eins og ég sagði áðan, þá eru þessi ákvæði varðandi sjálfa skattþegnana gömul í lögum, en þessi ákvæði varðandi samábyrgð t.d. launagreiðanda eru ný. Þau eru sett inn 1962. Og alveg sama máli gegnir um 4. málsgr. um þann, sem aðstoð veitir við rangar skýrslur. Og nú er spurningin, — auk þess, sem mér finnst þetta óeðlilegt, — hvort þetta hefur verið athugað og hvort þetta þá bjargar því, sem bjarga á með þessum ákvæðum, úr því að þetta er nú svona?

Svo vildi ég aðeins spyrja hæstv. fjmrh., hvernig hann hugsar sér framkvæmdina á þessu. Fresturinn, sem er settur, er til 1. marz 1966. Ekki getur verið ætlazt til þess, að skattrannsóknarstjóri haldi að sér höndum á þessu tímabili. Hann hlýtur að halda áfram rannsóknum á þessu tímabili. Nú skulum við segja, að hann finni einhverjar misfellur hjá aðila 1. febr. 1966. Mundi þá sá aðili ekki geta sagt, að hann hefði ætlað að gefa rétta skýrslu af sjálfsdáðum í febrúarmánuði 1966 og sleppa? Ég held, að þetta sé allt heldur afsleppt, ég fæ ekki, annað séð. Og varðandi þetta, að það eigi að gefa réttar skýrslur af sjálfsdáðum, það má svo sem nærri geta, hvort A, B og C fara af sjálfsdáðum að arka niður á skattstofu og gefa það upp, að þeir hafi dregið eitthvað undan skatti. Nei, auðvitað gerist þetta með þeim hætti, að skattrannsóknarstjóri og skattlögreglan fer að rannsaka einhver ákveðin tilvik og þá kemur það fram, að þar eru einhverjar misfellur og þá gefa þeir seku væntanlega rétta skýrslu og fá uppgefnar sakir. Ég ætla aðeins að skjóta því inn, að það er talað talsvert mikið hér um skattsvik og sagt, að þau séu nokkuð almenn. Það er nú spurning, hvort það er réttmætt að tala svona. Það er fjöldi fólks, sem betur fer, sem hefur enga aðstöðu til þess að skjóta sínum tekjum undan skatti og hefur talið og telur réttlátlega fram. Það er í öðru lagi stór hópur skattþegna, sem kannske er eitthvað sekur í þessu efni, en þó um svo mikið lítilræði, að það dettur engum í hug, að skattalögreglan fari að eltast sérstaklega við þau tilfelli. En það er loks þriðji flokkurinn og það eru skattþegnar, sem hafa dregið undan í stórum stíl og það er auðvitað við þá aðila; sem skattalögreglunni og skattrannsóknarstjóra er ætlað að fást og ég held, að t.d. hér í Reykjavík sé ekki svo erfitt að finna það, að ef maður færi yfir skatta- og útsvarsskrá Reykjavíkur, þá mætti benda á nokkra þeirra og leiðbeina þannig skattalögreglunni, ef hún væri í vafa um það, hvar hún ætti að bera niður, sem ég veit, að hún er ekki, enda hefur skattalögreglan þegar nokkuð starfað. Það hefur hins vegar ekki verið enn gefin nein skýrsla um hennar störf, en ekki efast ég um það, að einhver árangur liggi þegar fyrir af hennar störfum og það hafi verið teknir einhverjir til athugunar og ég veit, að við þessi störf, skattarannsóknir, eru svo glöggir menn, að þeir þurfa engra leiðbeininga við í þessu efni. Þeir munu vinna verk sitt vel og dyggilega, ef drengilega verður að þeim staðið af æðri stjórnarvöldum. Það væri náttúrlega æskilegt að fá að heyra upplýsingar fjmrh. um það, hver störf skattalögreglunnar hefðu verið á þeim tíma, sem hún hefur starfað, hve mörg tilfelli hún hefur tekið til rannsóknar og svo loks það, sem ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. fjmrh. um: Er ekki meiningin, að þeir aðilar, sem þegar hafa verið teknir til rannsóknar af skattalögreglunni, njóti góðs af þessum niðurfellingarákvæðum? Mér skilst, að það sé varla hægt annað, því að auðvitað mundu þeir segja, að þeir hefðu þegar í stað gefið réttar skýrslur af sjálfsdáðum fyrir þann tíma, sem þeim er settur í þessum lögum, ef þeim hefðu verið boðnir þeir kostir, áður en þeir voru teknir til athugunar.

Þetta var um tekju- og eignarskattinn. En það er ekki öll sagan sögð með því, heldur er líka í þessu ákvæði eða annarri breytingunni, sem gerð var í Nd., um að ræða uppgjöf til þeirra aðila, sem eiga að standa ríkissjóði skil á söluskatti. Fresturinn, sem þeim er gefinn, er að vísu nokkru styttri. Nú má segja, að það sé í sjálfu sér alvarlegt brot að draga undan skatti almennt, en það er þó vitaskuld engan veginn sambærilegt brot við það að taka á móti fé og skila því ekki aftur, en það er það, sem hér er um að tefla. Það er það, sem hér er um að ræða í því tilfelli, þegar um söluskattinn er að tefla. Þar eru aðilar, sem hafa tekið á móti söluskatti og ekki skilað því fé af sér og nú á að gefa þeim kost á því, — að vísu væntanlega með því að greiða söluskattinn um leið, sem þó verður ekki séð af þessari grein, en ég geri nú ráð fyrir því, að það sé glöggt í öðrum lögum, sem um söluskattinn fjalla, að það sé þó gert ráð fyrir því, að þeim sé ætlað að greiða söluskattinn, — en það á að gefa þeim upp sektir. Hvaða brot er hér um að tefla? Er ekki hér um hrein fjársvik að ræða? Því miður hafa ýmis fjársvik „flórerað“ hér í þjóðfélaginu að undanförnu. Á þá að fara að beita svipaðri reglu þar, gefa þeim kost á, sem gerzt hafa brotlegir við lögin af einhverjum ástæðum, að greiða það, sem þeir hafa ranglega dregið sér og vera þar með lausir allra mála? Er þetta það siðgæði, sem líklegt er að ýta undir góð skattaskil? Ég segi nei.

Það kannast allir við söguna af Magnúsi Ólafssyni Noregskonungi. Eftir að hann var setztur að völdum, þá gekk hann fyrst í stað nokkuð hart fram í skattheimtu og fylgdi þar raunar fordæmi föður síns, Ólafs konungs Haraldssonar. En Ólafur konungur Haraldsson var fyrir þær sakir felldur af bændum á Stiklastöðum. Nú óttuðust vildarvinir Magnúsar konungs, að hann mundi fara þá hina sömu för, og þess vegna var til fenginn Sighvatur Þórðarson skáld til þess að kveða bersöglisvísur í eyra Magnúsar konungs og segja honum til syndanna og það gerði Sighvatur og við það brá Magnúsi svo, að hann breytti um sína háttu og var eftir það manna mildastur í skattheimtu og hlaut viðurnefnið „hinn góði“.

Nú er spurningin sú, hvort það hafi ekki einhverjir galað einhverjar bersöglisvísur í eyru hæstv. fjmrh. Mér dettur að vísu ekki í hug, að það hafi verið nein skáld, en það mættikannske láta sér detta í hug, að þeir, sem mikið eiga í húfi í sambandi við þessi mál, hefðu sent einhverjar dúfur, sem setzt hefðu á öxl hæstv. fjmrh. og skotið einhverju að honum um þessi efni. En að slepptu öllu gamni, þá er sjálfsagt að spyrja um það: hvar eiga þessar till. upptök sín? Nú dettur mér ekki í hug að efast um það, að hæstv. fjmrh. sé svo hugkvæmur maður, að honum hefði getað dottið þetta í hug af sjálfsdáðum. En ég verð hins vegar að ætla, að þetta muni vera einhvers staðar annars staðar frá. Og þá gæti það verið komið einhvers staðar annars staðar frá með eðlilegum hætti, frá tilteknum aðilum. Það gæti verið komið frá skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra. Því spyr ég: Eru þetta till. ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, sem hér er um að tefla? Ef það eru ekki till. þeirra, hvaðan hafa þá till. um þessi efni komið fram?

Ég verð að segja það, að ég álít ákaflega óviðeigandi að afgreiða svona efni eins og þetta, án þess að n. sú, sem fjallar um þessi mál, kveðji á sinn fund ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra og krefji þá sagna um það, hver áhrif þeir ætla að þetta muni hafa á þeirra framtíðarstörf. Það væri það minnsta, sem ætti að liggja fyrir í þessu máli. Tíminn er takmarkaður og ég skal ekki vera að halda uppi neinu málþófi um þetta, úr því sem komið er, þar sem það er sýnilegt, að þessu er ætlað hér að ganga í gegn með þessum hætti, en ég hef ekki viljað láta þetta fara fram hjá mér án þess að vekja athygli á þessum atriðum, sem ég hef hér nefnt og gera grein fyrir því, hvers vegna ég er ekki fylgjandi þessum brtt. Og ég vil minna á það, að í þeirri reiðiöldu, sem reis á s.l. sumri út af álögðum sköttum, þá var látið skína í viss fyrirheit, en það kom aldrei fram neitt fyrirheit þá frá stjórnarvöldum, að þeim, sem dregið hefðu undan skatti, skyldu sérstaklega gefnar upp sakir.

Það var farið fram á það á s.l. sumri, að það væru veittar sérstakar ívilnanir þeim skattþegnum, sem hart urðu úti við álagningu þeirra skatta, sem þá dundu yfir. Það taldi ríkisstj. sér ekki fært. En nú telur hún sér það hins vegar fært að fara þá götu, sem lögð er í þessu frv. Ég býst við því, að mörgum þeim, sem harðast urðu úti við skattkveðjuna s.l. sumar, þyki þetta heldur köld kveðja, sem þeir fá með þessum hætti.

Og að lokum vildi ég svo minna á það, að hæstv. ríkisstj. og einkum fyrirrennari núv. hæstv. fjmrh. hefur státað mjög af því, að skattamálunum öllum hafi verið kippt sérstaklega mikið í liðinn og í lag í sinni ráðherratíð, framtölin hafi verið stórkostlega bætt. Það voru gefnar margar yfirlýsingar um það 1962 og síðan látið að því liggja, að skattsvikin þau hin illu, er áður höfðu tíðkazt, þegar slæmir menn sátu í ráðherrastólum, væru mikið til úr sögunni. Það er sjálfsagt hægt að fletta upp í mörgum blöðum og ræðum, þar sem þessi tónn kom fram. En hvers vegna þá ekki að takmarka eitthvað þessar skattsektir, að takmarka þær á þann veg að láta þær aðeins gilda um þetta góða tímabil, sem þessir ágætu menn hafa farið með stjórn þessara mála og reikna ekki skattsektina lengra aftur í tímann, en til stjórnartímabils þeirra eða til upphafs viðreisnar t.d. eða binda það bara við þessi nýju skattalög 1962, þar sem allt átti að vera komið í lag? Þá ætti ekki að vera mikil hætta á ferðum, ef þetta hefði verið rétt, sem sagt var um þetta efni.

Herra forseti. Eins og ég sagði, skal ég ekki vera að halda uppi málþófi frekar um málið, enda til þess enginn tími, þar sem hann er skammtaður svo naumt. En ég endurtek mótmæli mín gegn því að afgreiða svona mál með svona hætti, af því að það var auðvitað fullkomið tilefni til þess að koma með þessa brtt. fram fyrr og á fyrri stigum málsins, ef hana átti að gera á annað borð og sérstaklega af því, að hér voru samþ. í þessari hv. d. á sínum tíma alllangar till. varðandi skattaeftirlit og þá hefði auðvitað verið kjörið fyrir hæstv. ráðh. að koma þessari till. að í sambandi við það. Þá hefði verið meiri tími til að athuga hana, ná í umsögn þeirra aðila, sem eðlilegt hefði verið að bera hana undir. Og að lokum vil ég lýsa því yfir, að ég er andvígur þessari breytingu og það hefur það í för með sér, að ég mun sitja hjá við afgreiðslu þessa frv., þegar það verður afgreitt hér að lokum í einni heild.