05.11.1964
Efri deild: 11. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

45. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi voru samþ. lög um ferðamál. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að á þeim lögum verði gerðar tvær breytingar.

Í lögum um ferðamál láðist að taka skilmerkilega fram, hver skyldi greiða kostnað við störf ferðamálaráðs og því er lagt til í þessu frv., að hann skuli greiddur af fé því, sem veitt er til ferðamálasjóðs úr ríkissjóði samkv. 1. mgr. 27. gr. laganna.

Hin breytingin, sem felst í þessu frv., er sú, að lán úr Ferðamálasjóði skuli vera með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu framfærslukostnaðar. Ég geri að vísu ráð fyrir því, að vísitölubinding muni hafa í för með sér breytt vaxtakjör hjá sjóðnum, en það er augljóst, að það er tryggara fyrir sjóðinn að lána með vísitölukjörum, þannig að sú fjárhæð, sem hann veitir til lána á hverjum tíma, rýrni ekki, þegar árin líða, ef verðbólgan heldur áfram að vaxa.

Þetta frv. er flutt af samgmn. d. eftir beiðni samgmrh. Einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., er fram kynnu að koma. Það er að vísu ekki venja, að frv., sem flutt er af nefnd, sé vísað til n., en samt sem áður vil ég taka það fram, að það er meining samgmn. að taka þetta frv. til athugunar á milli 1. og 2. umr.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.