16.12.1964
Neðri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

45. mál, ferðamál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í lögum um ferðamál, nr. 29 frá 1964, segir, að ferðamálasjóður fái starfsfé sitt með framlagi ríkissjóðs, sem eigi sé lægra en 1 millj. kr. Auk þess er ferðamálasjóði heimilt með samþykki ráðh. að taka lán allt að 20 millj. kr. og fjmrh. heimilt að ábyrgjast slíkt lán. Þá segir einnig í þessum l., að ferðamálaráð skuli beita sér fyrir því, að þeir, sem hagsmuni hafi af ferðamannastraumi til landsins, greiði árlega frjáls framlög til sjóðsins. Á þennan hátt er séð fyrir tekjum til ferðamálasjóðs.

Nú er sagt í frv. því um ferðamál, sem komið er til þessarar hv. d., að lán sem sjóðurinn veitir, sem eru fyrst og fremst til gistihúsa og annarra slíkra framkvæmda í þágu ferðamála, skuli vera með vísitölukjörum, þannig að greiðslur afborgana og vaxta séu bundnar vísitölu. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 169 við þessa gr. frv. Er hún samhljóða till., er flutt var í Ed. og er efni till. það, að því aðeins skuli lánin vísitölutryggð, að ferðamálasjóður sé með vísitölutryggt fé, sem hann lánar svo aftur út. Lánin skulu því ekki vera að öðru leyti tryggð með vísitölu. Ég ætla, að það sé alveg óvenjulegt, að lánsstofnun, sem hefur óvísitölutryggt fé til sinnar starfsemi, sé að lána það út aftur með vísitölutryggingu. Ég minnist þess ekki, að það sé nein stofnun í landinu, sem gerir það. En skv. þessu frv., eins og það er nú, á þessi sjóður að gera þetta. Þetta verð ég að telja fremur óeðlilegt og eiginlega alveg nýr háttur upp tekinn, ef þannig á að fara að.

Þá segir svo í frv., að greiðslur afborgana og vaxta skuli bundnar vísitölu. Það er ekkert nefnt, hvaða vísitala það er. Það eru orðnar nokkuð margar útgáfurnar af vísitölunum í landinu og heldur er það ágalli á frv., að menn vita ekkert, hvaða vísitölu á að nota þarna. Eins og frv. var lagt fyrir hv. Ed., var tekið fram, að þetta skyldi vera vísitala framfærslukostnaðar, en þetta var tekið út úr frv. í d., og það eru engar upplýsingar um það í frv. eða í nál., eins og nú er komið, hvaða vísitölu á þarna að nota. Ég hef að vísu ekki hirt um að flytja brtt. við þetta og má kannske finna að því, en það er vegna þess, að í hv. Ed. skýrði frsm. svo frá, að hér væri átt annaðhvort við byggingarvísitölu eða framfærsluvísitölu, en skv. frv. á hæstv. ríkisstj. að ráða því alveg, hvaða vísitölu hún notar, og ég lít svo á, að eftir þessar upplýsingar í hv. Ed. sé ekki við því að búast a.m.k., að um aðrar vísitölur verði að ræða.

Annað efnisatriði í þessari brtt. minni er um vextina. Í lögum um ferðamál segir, að ráðherra ákveði vexti af þeim lánum, sem ferðasjóður lánar út, en í þessari brtt. minni er svo fyrir mælt, að vextir skuli ekki vera hærri en 4%. Það hefur verið kenning hæstv. ríkisstj., þegar hún hefur andmælt vaxtalækkun í landinu, að því aðeins að lán séu vísitölutryggð, sé eðlilegt að lækka vextina og ég ætla, að það hafi verið í samningum, sem hæstv. ríkisstj. gerði við verkalýðssamtökin í vor um lán til íbúðabygginga, sem hafi verið ákveðið, að vextir skyldu lækkaðir hér um bil um helming, niður í 4%, af því að lánin eiga að vera vísitölutryggð. Það er því í fullu samræmi við þennan samning, sem gert er með þessari brtt., að lækka vextina, um leið og lánin eiga öll að vera vísitölutryggð. Ég man ekki eftir neinu dæmi um það, að þessir háu vextir eigi að haldast áfram, þrátt fyrir að lánin eiga að öllu leyti að vera bundin vísitölu. Mér sýnist það vera alveg í ósamræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fram allt fram að þessu, að ekki megi lækka vextina af þessum lánum, eftir að slík vísitölubinding er á þau sett.