03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta koma hér fram við þessa umr. til upplýsingar, að þegar þetta mál var rætt í bæjarstjórn Vestmannaeyja og afgreitt þar, eins og fram kemur í grg., þá lá það alveg ljóst fyrir, að bæjarstjórn tekur á sig þá kvöð að greiða allan stofnkostnað og rekstrarkostnað við þennan fyrirhugaða skóla, ef til hans yrði stofnað. Um þetta varð enginn ágreiningur í bæjarstjórn, og voru þar allir á einu máli um þetta grundvallaratriði.

Á móti þessu kemur það í 12. gr., að við gerum ráð fyrir um yfirstjórn skólans, að 4 af 5 stjórnendum skólans verði kosnir af bæjarstjórn Vestmannaeyja, en formaðurinn verði stjórnskipaður, sem auðvitað þýðir, að yfirstjórn skólans verður í höndum þeirra fulltrúa, sem bæjarstjórnin á hverjum tíma tilnefnir. Við töldum það eðlilega afleiðingu af þessari samþykkt okkar og þessari grein í frv., að við sjálfir stæðum undir kostnaði af skólahaldinu og stofnun þess.

Ég vil einnig láta það koma fram hér, að allur kostnaður við stofnun skólans hefur þegar verið lagður fram, sumpart úr bæjarsjóði Vestmannaeyja og sumpart með frjálsum framlögum áhugamanna um málið heima í héraði.