03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að hér sé þarft mál og gott á ferðinni, þar sem er frv. til um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Þar er, eins og allir vita, ákaflega stór verstöð og íbúar landsins þar, sunnan landsins, leggja það mikið í þjóðarbúið, að þeir eigi það fyllilega skilið, að það sé sett upp sjómannafræðsla í Eyjum. En eitt finnst mér einkennilegt í þessu frv. og algerlega óviðeigandi og hefur það verið gert að umtalsefni áður af öðrum. Það er ákvæði 13. gr. frv. um, að kostnaður við stofnun skólans og rekstur greiðist úr bæjarsjóði Vestmannaeyja. Þetta finnst mér alveg furðulegt ákvæði. Ríkið rekur stýrimannaskóla í Reykjavík, og um hann eru sérstök lög, nr. 5 1955. Ríkið ber allan kostnað af þessum skóla. Fjárveiting til hans er sett í fjárlagafrv. og hefur verið í fjárl. áður.

Lögin um stýrimannaskólann í Reykjavík kveða á um markmið hans og skipulag, kennslu og próf, inntöku nemenda o. s. frv. og um kennara skólans og síðast eru ýmis ákvæði. Í þeim kaflanum eru í 17. gr. laganna fyrirmæli um námskeið, sem samgmrn. ber að fela skólastjórn stýrimannaskólans að láta halda á ákveðnum stöðum, einum í hverjum landshluta, þ.e.a.s. á Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjum. Á þessum námskeiðum á að veita þá fræðslu, sem þarf til þess að öðlast skipstjórnarréttindi samkv, lögum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Námskeiðin á að halda annað hvert ár á hverjum stað, þó eigi nema á tveim stöðum á sama árinu. Og niðurlag þessarar 17. gr. l. er þannig: „Kostnaður við námskeiðin greiðist úr ríkissjóði.“ Í samræmi við þetta er ætlað fé til þess að borga þennan kostnað á fjárlagafrv. nú og hefur verið þannig undanfarin ár. En hér er lagt fram frv. um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, sem mér skilst að eigi að veita heldur meiri fræðslu en unnt er að láta í té á þessum námskeiðum og flm. frv. setja í það ákvæði um það, að bæjarsjóður Vestmannaeyja skuli bera kostnað af stofnun og rekstri skólans. Hér er farið algerlega öfugt að. Ríkið hefur borið allan kostnað ekki einasta af stýrimannaskólanum í Reykjavík, heldur af námskeiðunum, sem haldin hafa verið úti um land. En nú á þessi kaupstaður, Vestmannaeyjakaupstaður, að bera kostnaðinn af hinum nýja stýrimannaskóla. Mér finnst þetta alveg furðuleg tillaga og fráleit.

Á síðustu áratugum hafa risið upp menntastofnanir víða um land. Fyrir utan barna- og miðskólana eru það héraðsskólar og gagnfræðaskólar, húsmæðraskólar, iðnskólar og menntaskólar eru nú tveir utan Reykjavíkur. Það var á sínum tíma mikið deilumál hér á Alþingi, fyrir tæpum 40 árum, hygg ég, hvort ætti að setja upp menntaskóla á Norðurlandi og það voru margir þar, sem höfðu mjög mikinn áhuga á því máli. En ég held, að þeim hafi aldrei dottið í hug að bera fram tillögu um það, að Akureyrarkaupstaður bæri allan kostnað af stofnun og rekstri menntaskólans þar. Ekki kom það heldur til álíta löngu síðar, þegar ákveðið var að setja á stofn menntaskóla á Laugarvatni, að ætla Árnessýslu eða Laugardalshreppi að bera kostnað af þeirri stofnun.

Ég tel, að það þurfi að ganga lengra í þá átt að dreifa skólastofnunum um landið og það á vitanlega ekki að láta einstök héruð bera kostnaðinn af slíku, ekki frekar en Reykjavíkurborg beri kostnað af skólum hér, eins og t.d. stýrimannaskólanum. Þetta er alveg fráleitt. Þess vegna er það ranglæti, ef það verður samþ. að láta Vestmannaeyjar bera kostnað af þessari stofnun. Það er ranglæti og Alþingi getur ekki verið þekkt fyrir slíkt. Þess vegna ber okkur að samþ. brtt. á þskj. 79 og ákveða, að ríkið, beri kostnaðinn af þessu eins og af stýrimannaskólanum í Reykjavík og eins og af öðrum hliðstæðum fræðslustofnunum, hvar sem þær eru á landinu.