03.12.1964
Neðri deild: 23. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

29. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um þetta frv., undirstrika það, sem fram kom í ræðu hv. frsm. fyrir málinu, að um það var rætt í sjútvn., að þótt ekki yrði fjallað um kostnaðinn við skólahaldið öðruvísi en lagt er til í frv. núna, þ.e.a.s. að Vestmannaeyjakaupstaður beri kostnaðinn af skólanum, þá töldu nm. í sjútvn., að það mál hlyti að koma til athugunar, þegar fyrir lægi niðurstaða af þeirri endurskoðun á sjómannafræðslunni, sem nú á sér stað. Þá yrði það tekið til athugunar, á hvein hátt sjómannaskólinn í Vestmannaeyjum yrði felldur inn í fræðslukerfi sjómannafræðslunnar.

Ég verð að segja, að mér finnst það næsta furðulegur málflutningur að heyra það hér á Alþingi, að það megi enginn annar en sjálft ríkið bera kostnað af skólahaldi, ekki einu sinni aðilar, sem beinlínis hafa þegar lagt fram peninga til slíks, eins og hv. 3. þm. Sunnl. upplýsti, að Vestmanneyingar hefðu þegar gert að því er stofnkostnað varðaði og eins gagnvart rekstrarkostnaðinum, sem þeir ætla sjálfir að greiða, a.m.k. þennan fyrsta vetur, sem skólinn starfar, sbr. frv. Ég get ekki séð, að það sé neitt furðulegt eða óviðeigandi við þetta. Hins vegar er þarna um lofsvert framtak að ræða, sem á að taka útréttri hendi, en ekki hafna því, eins og hv. framsóknarmenn hafa verið að gera í umr. um þetta mál.