27.10.1964
Neðri deild: 7. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

22. mál, skipströnd og vogrek

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Í l. nr. 42 frá 1926 eru fyrirmæli um meðferð vogreks. Ef vogrek er meira en 200 kr. virði, skal lögreglustjóri auglýsa það í Lögbirtingablaði, en dómsmrh. sendir fyrirsvarsmönnum annarra ríkja hér á landi eitt eintak af auglýsingunni. Tilkallsmenn, ef einhverjir eru, skulu síðan gefa sig fram innan 6 mánaða. Komi enginn eigandi að vogreki, verður það eign fjörueiganda, sé það ekki 500 kr. virði, en sé það 500 kr. virði eða meira, skal það verða eign ríkissjóðs. Hér er meðferð vogreks samkv. þessum lögum miðuð við ákveðna upphæð í krónum hvað verðmæti snertir. Þessi ákvæði laganna hafa staðið óbreytt í 38 ár, þrátt fyrir það að verðgildi krónunnar hefur rýrnað geigvænlega á þessu tímabili. Ef einhvers staðar ræki t.d. planka á land, sem væri 3 x 6 tommur að gildleika og um 5 m á lengd, þá mundi hann falla undir þessi lagaákvæði um vogrek miðað við núverandi verð á timbri. Lögreglustjóri yrði þá að auglýsa plankann í Lögbirtingablaðinu og dómsmrh, að senda fyrirsvarsmönnum erlendra ríkja hér á landi auglýsinguna um gripinn. Síðan verða að líða 6 mánuðir, án þess að nokkur megi snerta við þessu rekaldi. Og ef þessi planki væri nú t.d. 500 kr. virði, væri það langur, þá á ríkissjóður spýtuna, ef ekki kemur réttur eigandi að henni á tilsettu tímabili.

Allir menn sjá, hversu fráleit þessi lagafyrirmæli eru orðin nú vegna rýrnunar á verðmæti þeirrar fjárhæðar, sem við er miðað í þessum 38 ára gömlu lögum. Með þessu frv. er aðeins lagt til að breyta þessum úreltu krónuupphæðum til nokkurs samræmis við núverandi verðgildi peninga. Hafi þessar fjárhæðir verið hæfilega ákveðnar fyrir 38 árum, er sýnilega þörf á að margfalda þær nú. Hins vegar geri ég það ekki að neinu kappsmáli, hvort þessar fjárhæðir, sem nefndar eru í l., eru margfaldaðar með eitthvað lægri eða eitthvað hærri tölu, en ég hef gert í þessu frv. Það er að sjálfsöðu matsatriði.

Á þessum fundi hér næst á undan var verið að ræða um breytingar á hegningarl., lagaákvæði nákvæmlega sama eðlis. Þar er þó ekki verið að breyta eldri ákvæðum, en 14 ára, en hér er ég að leggja til, að breytt verði, 38 ára gömlum ákvæðum. En ástæðurnar fyrir báðum þessum breytingum eru nákvæmlega þær sömu. Það eru breytingar á verðgildi peninganna.

Ég vænti þess, að það verði ekki að ágreiningsefni, þetta frv. og þarf ekki um það mörg orð. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til 2. umr. og hv. allshn.