08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

22. mál, skipströnd og vogrek

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um breyt. á lögum um skipströnd og vogrek, 24. og 25. gr. þeirra laga. Í 24. gr. laganna er nú mælt svo fyrir um vogrek, — en vogrek eru hlutir, sem rekur á land og ætla má, að séu eignarrétti undirorpnir, en óvíst um eiganda, — að ef vogrekið nemur yfir 200 kr., þá skuli lögreglustjóri auglýsa það með þeim hætti, sem hann telur bezt fallinn til þess að upplýsa, hver sé réttur eigandi, ef aftur á móti vogrekið nemur meira, þá skal auglýsa það í Lögbirtingi og skora á þá, sem gera tilkall til þess, að gefa sig fram innan 6 mánaða frá birtingu auglýsingarinnar. Jafnframt þarf svo að sjá til þess, að dómsmrh. sendi fyrirsvarsmönnum erlendra ríkja hér á landi eftirrit af þessari auglýsingu.

Í 25. gr. eru svo ákvæði um það, hvernig fer, ef enginn gefur sig fram innan þessara 6 mánaða og sannar eignarrétt á vogrekinu. Þá á að fara svo með það, ef það er meira en 500 kr. virði að frádregnum öllum áföllnum kostnaði, að þá á það að renna til ríkisins, en ef það nemur minna, þá fellur það til fjörueigandans.

Breytingin, sem hér er gerð, er sú að hækka þessar tölur, þannig að stað 200 kr. í 24. gr. komi 5 þús. kr., að það þurfi ekki, ef þessi breyting verður samþ., að auglýsa í Lögbirtingablaði vogrek, nema það nemi meira en 5 þús. kr. Ef það er minna virði, þá auglýsi lögreglustjóri það svo sem hann telur bezt henta. Og í 25. gr. eiga 500 kr. að breytast í 12 þús. kr., þannig að sé vogrekið meira virði en 12 þús. kr., þá á það hér eftir, ef þessi breyting verður samþykkt, að falla til ríkissjóðs, en ef það nemur minna, ef það er minna virði en 12 þús. kr., þá fellur það til fjörueigandans.

Nefndin hefur athugað þetta frv. og telur þessar breytingar, sem hér er um að ræða, eðlilegar með tilliti til þeirra verðlagsbreytinga, sem átt hafa sér stað, og leggur til, að það sé samþykkt.