18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

156. mál, sala dýralæknisbústaðar í Borgarnesi

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. flytur þetta frv. að beiðni hæstv. landbrh., og eins og tíðast mun vera, þegar n. flytja frv. að beiðni ráðuneytanna, áskilja einstakir nm. sér rétt til að hafa óbundnar hendur í afstöðu sinni til frv.

Frv. felur það í sér að heimila ríkisstj. að selja gamla dýralæknisbústaðinn við Gunnlaugsgötu 21 í Borgarnesi. Þetta mun vera gamalt hús og óhentugt, sem þarfnast mikilla endurbóta og þegar rn. buðust kaup á nýlegu og vönduðu húsi í Borgarnesi, þá varð það að ráði, að þetta hús var keypt til nota fyrir dýralæknisembættið.

Það segja mér kunnugir menn, að það verð, sem nú þegar hefur verið boðið í þennan gamla dýralæknisbústað, sé mjög hagkvæmt, en það er, eins og stendur í grg., 615 þús. kr.

Frv. er, eins og ég sagði, flutt af n. og legg ég til, að því verði vísað til 2. umr.