17.12.1964
Efri deild: 32. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1963, sem liggur hér fyrir, hefur verið afgreitt frá Nd. Reikningnum hefur verið útbýtt fyrir nokkru með aths. yfirskoðunarmanna, svörum rn. og till. yfirskoðunarmanna.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja niðurstöður þessa reiknings, þar sem það var gert nýlega við l. umr. fjárl., að öðru leyti en því, að á bls. 34 er yfirlit um greiðslujöfnuð ríkissjóðs á því ári, og það kemur í ljós, að greiðsluafgangur var á árinu 139 millj. samkv. þeim reglum, sem ríkisbókhaldið notar, en 124 1/2 millj. eftir þeim reglum, sem Seðlabanki Íslands notar.

Yfirskoðunarmenn hafa yfirfarið reikninginn að vanda, aths. þeirra eru í færra lagi, og engu atriði er af þeirra hálfu vísað til aðgerða Alþingis, eins og verið hefur alloft áður.

Það nýmæli er í frágangi þessa frv., að mjög ýtarlegt efnisyfirlit er á bls. 288—296, sem ætti að verða mjög til hægðarauka fyrir alþm. og aðra, sem vilja fletta upp vissum atriðum í reikningnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um frv. fleiri orðum að sinni, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.