29.04.1965
Efri deild: 75. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

160. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn., var nefndin a.m.k. ekki á einu máli um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. leggur hins vegar til, að frv. verði samþ.

Í grg. fyrir málinu er það tekið fram, að frv. þetta sé flutt að beiðni stjórnar h/f Skallagríms í Borgarnesi, en það rekur, sem kunnugt er, farþegaskipið Akraborg, sem nú er svo til eingöngu í farþegaflutningum á milli Reykjavíkur og Akraness. Skipið fer aðeins eina ferð í viku til Borgarness, enda hefur þróunin orðið sú, eins og raunar á öllum samgönguleiðum, að þar sem ferðin tekur styttri tíma landleiðina, sigra bílarnir og sjóferðir leggjast niður. Þessu er á annan veg farið um samgöngur á milli Reykjavíkur og Akraness. Það tekur allt að því helmingi lengri tíma að fara landleiðina heldur, en með góðu skipi. Þá er einnig svo komið, að mestur hluti af þeim vörum, sem fluttar eru milli Reykjavíkur og Akraness og Borgarfjarðar eru fluttar landleiðina með bifreiðum og þykir það á ýmsan hátt hagfelldara. Á leiðinni Akranes–Reykjavík eru hins vegar mjög miklir fólksflutningar með Akraborginni og hafa þeir farið sívaxandi. Er farþegatalan um 39 þús. á ári, sem er miklu hærri farþegatala, en dæmi eru til um á nokkru öðru farþegaskipi, sem nú er í innanlandssiglingum. Fargjald er nú 120 kr. aðra leiðina og þykir það allþungur skattur. Samt sem áður er rekstrargrundvöllur skipsins svo tæpur, að við borð lá, að félagið gæfist upp við að halda ferðum áfram.

Það er skoðun stjórnar Skallagríms, að þeir gætu sparað verulega í útgerðarkostnaði, fengju þeir heimild til þess að fækka skipverjum, en nú eru fastráðnir 14 menn, auk þess 4 til afleysinga.

Samvn. samgm., sem í eru nm. samgmn. beggja þd., hefur á hverju ári fengið rekstrarreikninga hinna ýmsu flóabáta, sem styrks njóta úr ríkissjóði. Það hefur verið samhljóða álit nefndarmanna, að ekki verði hjá því komizt að veita Skallagrími vegna Akraborgar hæsta styrk, sem n. mælir með að veittur sé. Á þessu ári er styrkurinn 1.600 þús. kr., en auk þess sérstakur 100 þús. kr. styrkur vegna klössunar, sem framkvæmd hefur verið nú nýlega. Þrátt fyrir þennan mikla fjárstyrk er svo komið, að stjórn félagsins sér fram á óviðráðanlega fjárhagserfiðleika, verði ekki fallizt á að heimila, einhverja fækkun á skipstjórnarmönnum, eins og frv. þetta felur í sér.

Nefndin leitaði umsagnar um málið hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, skipaskoðunarstjóra og fékk auk þess upplýsingar frá stjórn Skallagríms. Allir þessir aðilar að undanskildu Farmannasambandinu mæla með samþykkt frv. Í umsögn Farmannasambandsins kemur m.a. fram, að lög þessi séu í endurskoðun og þess vegna væri eðlilegt að doka við með afgreiðslu þessa máls. Ég hef snúið mér til siglingamálaráðh. og spurzt fyrir um það, hvort slík endurskoðun ætti sér stað, og fengið þær upplýsingar, að svo væri ekki.

Herra forseti. Ég sé ekki að svo komnu máli ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en legg til, að frv. verði samþ. og því síðan vísað til 3. umr.