05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

160. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Frsm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. nr. 66 17. júli 1946, um atvinnu við siglingar, liggur fyrir hv. d. á þskj. 359, er komið frá Ed. Efnisleg breyt. frá núgildandi l. er, að frv. gerir ráð fyrir, að ráðh. verði veitt heimild t samráði við skipaskoðunarstjóra að ákveða fjölda skipstjórnarmanna, þ.e. stýrimanna og vélstjóra á skipum, sem notuð eru til styttri siglinga, aðallega innan fjarða og flóa. Frv. þetta er flutt eftir beiðni h/f Skallagríms í Borgarnesi, en félag þetta rekur m/s Akraborg til fólks- og vöruflutninga milli Reykjavíkur og Akraness, en hún fer þó venjulega eina ferð á viku milli Reykjavíkur og Borgarness. Siglingar þessar eru nær eingöngu að degi til og tekur hver ferð skipsins milli Reykjavíkur og Akraness og aftur til baka 135–150 mínútur. Fastráðnir skipverjar eru 14 og 4 til afleysingar. Í þeim stuttu ferðum, er skipið fer, er ekki þörf á vaktaskiptum. Það má því segja, að engin þörf sé á að skylda útgerðina til að hafa eins marga skipstjórnarmenn og nú eru áskildir í lögum. Vinnutími þeirra, sem nú eru á skipi þessu, er ekki lengri en svo, að hóflegur verði talinn og í þessum stuttu ferðum er ekki þörf á vaktaskiptum.

Leitað hefur verið álíts nokkurra aðila um mál þetta, m.a. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Það mælir gegn frv., en fyrst og fremst á þeim forsendum, að nú standi yfir heildarendurskoðun á lögum, sem væntanlega verði lögð fyrir Alþ. það, sem nú situr. Fullyrðing þessi mun ekki að öllu leyti vera á rökum reist. Ljóst er, að ekki verður lagt fyrir þetta þing frv. um frekari breytingar á lögum þessum, þótt það sé eflaust rétt, að innan tíðar verði lög þessi endurskoðuð og þá sérstaklega til samræmis við lög um stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélstjóraskóla Íslands, en lög þessi hafa verið í endurskoðun og þær n., sem unnið hafa að þeirri endurskoðun, munu vera búnar að skila áliti.

Þá má geta þess, að m/s Akraborg er sá flóabátur hérlendis, sem veitir einna flestum þjónustu og mun farþegatala á s.l. ári hafa numið 39 þús. Fargjöld eru 120 kr. milli Reykjavíkur og Akraness. Þrátt fyrir þetta er Akraborg sá flóabátur, sem nýtur hæsta styrks á fjárl. Nemur hann 1.600 þús. og að auki 100 þús. til viðgerðar skipsins, klössunar á þessu ári. Það er því fyllilega tímabært að gera þær ráðstafanir, er dregið geta úr rekstrarhalla skipsins, þegar fullvíst er, að þær stefna ekki öryggi fólks eða skips í hættu.

Aðrir aðilar, sem leitað var til, eru meðmæltir frv. þessu. í umsögn skipaskoðunarstjóri ríkisins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. gerir ráð fyrir að heimila ráðh. í samráði við skipaskoðunarstjóra að ákveða fjölda skipstjórnarmanna á skipum, sem notuð eru til styttri siglinga, aðallega innan fjarða og flóa. Ég tel umrædda breytingu laganna réttmæta og mæli með, að hún verði samþykkt.“

Þetta var álit skipaskoðunarstjóra.

Sjútvn. þessarar virðulegu d. hefur rætt mál þetta, en á fundi þeim, sem ákvörðun var tekin, var Lúðvík Jósefsson ekki viðstaddur og Sigurður Jóhannesson mun gera grein fyrir afstöðu sinni við þessa umr. Aðrir nm. eru samþykkir frv., tveir þeirra, þeir Jón Skaftason og Pétur Sigurðsson með fyrirvara. Með vísun til þess, sem ég nú hef sagt, og nál. á þskj. 613 leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði samþ. og því vísað til 3. umr.