20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

163. mál, dýralæknar

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til 2. umr., er flutt af okkur 4 þm. úr Austurlandskjördæmi og Norður- landskjördæmi eystra.

Fyrir því var gerð nokkur grein við 1. umr. hér í hv. d. og ég mun því ekki fara mörgum orðum um þetta.

Landbn. d. hafði mál þetta til athugunar, sendi það til umsagnar yfirdýralæknis og það barst umsögn frá honum, þar sem hann telur rétt, að frv. verði samþ., en bendir þó á, að eins og nú standa sakir sé nokkur skortur á dýralæknum, m.a. séu nú 5 héruð, þar sem dýralæknir er ekki starfandi. Það er þess vegna óséð, hvort í bráð verði lið að þessu fyrir þau byggðarlög, sem þarna eiga hlut að máli. En um það er ekki ágreiningur, að það séu full rök fyrir því, að sérstakur dýralæknir sé starfandi á þessu svæði. Aðstaðan er mjög erfið fyrir þá dýralækna, sem nú eiga að þjóna þarna, vegna mikilla fjarlægða.

Ég ætla sem sagt ekki að fjölyrða meira um málið. Nefndarálítið liggur fyrir á þskj. 472 og n. var sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ.