30.03.1965
Efri deild: 60. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

78. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þessu var vísað til samgmn. til athugunar. Frv. felur í sér breytingar á l. frá 1957 um leigubifreiðar í kaupstöðum og kauptúnum, en þau lög snerta bæði fólksbifreiðar, sendiferðabifreiðar og vörubifreiðar. Á skipulagsháttum þeirra samtaka bifreiðastjóra, sem aka þessum tegundum bifreiða, fólksbifrefðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum, er nokkur eðlismunur. Hann er fyrst og fremst sá, að vörubifreiðastjórarnir eru ekki eingöngu staðsettir með tæki sín í kaupstöðum og kauptúnum, heldur einnig í dreifbýlinu, í sveitum landsins. Vörubifreiðastjórastéttin hefur því alltaf talið, að þessum lögum væri áfátt að því leyti, að þar skorti heimild til að takmarka fjölda leigubifreiða í sýslum og sveitum á hliðstæðan hátt og lögin heimila í kaupstöðum og kauptúnum með yfir 700 íbúa. Frv. miðar að því að bæta úr þessu og á þann hátt, að vörubifreiðastjórafélög, sem hefðu heilar sýslur að félagssvæði, mættu njóta takmörkunar að fengnum meðmælum viðkomandi sýslunefndar og hlutaðeigandi vörubifreiðastjórafélags. Nú er það hins vegar svo, að það eru ekki öll vörubifreiðastjórafélög í dreifbýlinu, sem hafa vinnusvæði, sem eru takmörkuð við sýslumörk, þó að það séu flest þeirra, enda er ekki ávallt hægt að koma því við. Atvinnuhættir og aðstaða er sums staðar með þeim hætti, að félagssvæðin markast ekki af sýslumörkum, t.d. eins og á Fljótsdalshéraði, í Hrútafirði og víðar.

Þegar n. athugaði þetta frv., komust nm. að þeirri niðurstöðu, að það væri út af fyrir sig eðlilegt að veita vörubifreiðastjórum í sveitum landsins sama rétt og þeir hefðu í kaupstöðum og kauptúnum, en hins vegar væri ekki alveg fullnægjandi að miða við sýslumörkin, eins og gert er í frv., heldur væri réttast að miða það fyrst og fremst við félagssvæði vörubifreiðastjórafélagsins án tillits til þess, hvort það næði yfir heila sýslu eða hluta úr einni sýslu eða tveimur. N. var því sammála um að gera þær breytingar á frv., sem felast í brtt. á þskj. 372, en þær ganga einmitt í þessa átt, eins og ég hef nú lýst. Það má að vísu bæta því við, að síðari brtt. er eingöngu um það að fella meginmál þessa frv. inn í ákvæði eldri laga og gefa þau út undir nýrri fyrirsögn, þar sem eldri lögin hétu lög um leigubifreiðar í kaupstöðum og kauptúnum, en nú ná lögin út um sýslurnar og er ekki rétt að hafa nöfnin kaupstaðir og kauptún í fyrirsögn, heldur kalla þetta bara lög um leigubifreiðar.

N. aflaði sér umsagna um málið frá Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, frá Vinnuveitendasambandi Íslands og frá Landssambandi vörubifreiðastjóra. Samband íslenzkra sveitarfélaga eða stjórn þess benti á, að hún teldi frá sjónarhóli sveitarfélaganna hæpið að lögbjóða frekari takmörkun á fjölda leigubifreiða til vöruflutninga frá því, sem þegar er í þeim efnum. Vinnuveitendasambandið vísaði í sinni umsögn fyrst og fremst til þess, að það hafi verið andsnúið þessari lagasetningu, er hún var gerð á sínum tíma og væri það enn, en setti sig ekki sérstaklega á móti þessari breyt. Þá bárust bæði n. og einnig til Alþingis áskoranir frá nokkrum vörubifreiðastjórafélögum um að samþ. þetta frv. Þær voru frá Mjölni í Árnessýslu, Bílstjórafélagi Suður-Þingeyjarsýslu, Vörubílstjórafélagi Skagafjarðar, Vörubifreiðastjórafélaginu Fylki í Rangárvallasýslu, Drífanda, félagi vörubifreiðastjóra í Norður- Þingeyjarsýslu og frá Vörubílstjórafélagi Ísfirðinga og Norður-Ísfirðinga. Og þá var að lokum umsögn Landssambands vörubifreiðastjóra, sem mælti eindregið með samþykkt frv., enda var frv. flutt eftir ósk stjórnar Landssambandsins.

Með þessum brtt., sem hér liggja fyrir á þskj: 372 og ég hef þegar lýst, mælti samgmn. einróma með því, að frv. yrði samþ.