18.12.1964
Efri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Mér finnst, að hv. 4. þm. Norðurl. e. geti alveg sparað sér þessi stóryrði, sem hann er farinn að temja sér hér í umr. í d., og a.m.k. gefur meðferð þessa máls ekki minnsta tilefni til þessa orðbragðs. Ríkisreikningunum var útbýtt hér í þinginu í októbermánuði, áður en 1. umr. fjárl. fór fram. Að vísu fylgdu ekki aths. yfirskoðunarmanna þá með, þeir höfðu ekki lokið þeim. Hins vegar var svo ríkisreikningnum með þeim aths., svörum rn. og till. yfirskoðunarmanna útbýtt hér, að ég ætla, 7. des. eða fyrir 11 dögum. Það eru því alveg staðlausir stafir, að hér sé verið að þvinga mál fram með óeðlilegum hætti, þar sem þm. hafa þó haft þennan tíma til þess að athuga málið.

Varðandi aths. yfirskoðunarmanna vil ég benda á það, sem hv. frsm. meiri hl. tók einnig fram, að oft og tíðum áður fyrr hafa yfirskoðunarmenn vísað einstökum atriðum til aðgerða Alþingis, en í þetta skipti er ekki um neitt slíkt atriði að ræða. Þeir vísa ekki einu einasta atriði til aðgerða Alþingis. Nál., sem minni hl. fjhn. í Nd. skilaði, og brtt. eru eingöngu hótfyndni og að mestu leyti formsbreytingar um bókfærslu. Sumu af þessu er þegar svarað í hinum prentuðu svörum rn. með ríkisreikningnum, og öðru var svarað með grg., sem lesin var upp í Nd. frá ríkisbókara og ríkisendurskoðanda. Hins vegar finnst mér sjálfsagt, fyrst þess er óskað, að málið sé tekið út af dagskrá nú, og legg það til, að umr. sé frestað og málið tekið út af dagskrá.