16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

63. mál, kostnaður við skóla reknir sameiginlega af ríki og sveitarfélögum

Flm. (Oddur Andrésson):

Herra forseti. Frv. það til l., sem hér er tekið til 1. umr. í hv. þd., er flutt til þess að fá lögfest breytt orðalag þess kafla skólakostnaðarlaganna, er kveður á um greiðslu vinnulauna við matseld í heimavistum barna- og unglingaskóla skyldunámsins.

Með lögum nr. 94 23. júní 1936 er ákveðið, að laun ráðskonu í heimavistarbarnaskólum skuli greidd úr ríkissjóði. Þá þegar kemur fram á hv. Alþingi vilji til þess að jafna þann aðstöðumun, sem á því er, að ungmenni geti stundað nám frá eigin heimili eða verði að fara til vistar í skóla. Námsskyldu lauk þá með fullnaðarprófi á því ári, sem barn varð 14 ára og því ekki annar skóli en barnaskóli, til skyldunáms. Við endurskoðun fræðslulaganna 1946 er skólaskyldan lengd og náminu skipt þannig, að barnaskólanámi lýkur með barnaprófi á því ári, sem nemandinn verður 13 ára, en námsskyldu lýkur með unglingaprófi við 15 ára aldur. Um þetta segir í 11. gr. III. kafla l. nr. 48 7. maí 1946, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er hverjum, sem lokið hefur barnaprófi, að hefja gagnfræðanám og lýkur skyldunámi með unglingaprófi á því ári, sem nemandi verður 15 ára.“

Um kostnað við skólahald segir enn fremur í 51. gr. IX. kafla l. frá 29. apríl 1946:

„Hin lögskipaða fræðsla skólaskyldra barna í opinberum skólum veitist ókeypis. Laun fastra kennara greiðast samkv. launalögum og styrkur til stundakennslu samkv. síðari málsgr. 24. gr. Við heimavistarskóla greiðir ríkissjóður einnig laun ráðskonu svo og við heimangönguskóla borgun til bifreiðarstjóra skólabifreiðar.“

Þar sem skólahéruð hafa sameinazt um byggingu heimavistarskóla fyrir barna- og unglingafræðslu skyldunámsins, hefur verið talið eðlilegt, að ríkissjóður greiddi öll vinnulaun við matreiðslu. En þar sem heimavistum hefur verið komið upp við heimangönguskóla í þéttbýli fyrir unglinga skyldunámsstigs úr öðrum skólahéruðum í grennd, hefur þótt skorta lagaheimild til að ráða starfsfólk þar til matreiðslu á sama grundvelli, Hefur orðaval síðustu málsgr. 11. gr. skólakostnaðarlaganna þótt standa hér í vegi. Því er þetta frv. fram borið og telja flm. þess, að orðalagsbreyting sú, sem frv. kveður á um, sé eðlileg og réttmæt.

Ég leyfi mér því að leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.