19.12.1964
Efri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

91. mál, ríkisreikningurinn 1963

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það í sambandi við þetta mál nú, að mér þykir það leitt að þurfa að hlýða á hv. 10. þm. Reykv. halda afsökunarræðu eins og þá, sem hann nú var að halda, fyrir þeirri málsmeðferð, sem hér er í frammi höfð, því að ég get borið þessum hv. þm. það, að hann vill jafnan, eins og hann sagði, hafa góða samvinnu í hv. fjhn. um málsmeðferð, þótt menn séu þar ósammála, og það hefur einmitt tekizt að hafa um slíka hluti hið bezta samkomulag í þeirri nefnd. En maður bara finnur það, þegar þessi hv. þm. verður að halda slíka afsökunarræðu sem hann gerði hér, að það er ekki hann sjálfur, sem ræður ferðinni, heldur aðrir, sem leggja ekki jafnríka áherzlu á, að samvinna sé höfð um málsmeðferð, hvorki í n. né hér í hv. deild.

Ég hef svo aðeins því við að bæta út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í gær út af minni ræðu um þetta mál, að ég hefði getað sparað mér stóryrðin, því að hann hefði hlutazt til um, að málinu yrði frestað, að sá frestur er auðvitað ekki af því tagi, að það geti skipt nokkru máli í sambandi við gagnrýni mína. Hún stendur enn þá óbreytt, því að ég get í öllum atriðum vísað til þess, sem ég sagði um þessa málsmeðferð, og afstaða mín er því óbreytt. Ég get ekki tekið þátt í atkvgr. um þetta frv., teldi reyndar réttast, að þm. felldu frv. um samþykkt ríkisreikningsins, en eftir atvikum mun ég þó láta mér nægja að mótmæla málsmeðferðinni með því að sitja hjá.