16.03.1965
Neðri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

151. mál, sala landspildna úr Garðatorfunni og þriggja jarða

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt í sambandi við þetta, sem ég vildi biðja þá n. að athuga, sem þetta mál fer til. Þegar ríkið selur svona jarðir eða landspildur eða jarðarparta, þá finnst mér rétt, að því fylgi þau skilyrði, að viðkomandi hreppur megi ekki selja þetta aftur, þannig að það sé tryggt, að það varðveitist í eign hreppsins og að þær lóðir, sem lagðar eru undir hús og slíkt, verði eign hreppsins áfram. Við vitum það allir, sem höfum vaxið upp í þéttbýlinu á Íslandi, hvað það er dýrmætt, að bæirnir eigi sjálfir þær lóðir, sem þeir byggjast á og þetta er regla, sem við eigum að framkvæma. Þetta er regla, sem Alþingi hefur raunar þegar slegið fastri með því að gera sérstakar ráðstafanir til að heimila bæjum að eignast þau lönd, sem bæirnir byggjast á, að þar sem þéttbýli er að verða mest á Íslandi, eins og hér í nánd við Reykjavík, er þetta náttúrlega alveg sérstaklega nauðsynlegt. Ég vildi aðeins skjóta þessu fram, um leið og þetta mál fer til nefndar.