10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég vil fyrst bjóða velkominn í stjórnarsess hinn nýja fjmrh., Magnús Jónsson. Hann er löngu þjóðkunnur fyrir góða vitsmuni, mikla starfsorku og einstaka samvinnulipurð. Vegna ólíkra viðhorfa hafa menn að sjálfsögðu ólíkar skoðanir á honum sem stjórnmálamanni, en um ágæta hæfileika hans efast enginn. Jafnframt vil ég þakka fyrrv. hæstv. fjmrh., Gunnari Thoroddsen, ekki einungis fyrir ánægjulegt samstarf innan ríkisstj. og samvinnu okkar fyrr og síðar, heldur og öll þau störf, sem hann hefur unnið í alþjóðarþágu. Hann hefur nú valið sér nýtt verksvið eftir að hafa í rúm 18 ár látlaust gegnt tveimur einhverjum ábyrgðarmestu og erfiðustu stöðum og tvímælalaust þeim argsömustu í íslenzku stjórnmálalífi. Hann hefur lengst notið og nýtur enn óskoraðs trausts okkar samflokksmanna sinna, þó að við höfum orðið að beygja okkur fyrir ákvörðun hans um tilbreytingu í starfi. Um stjórnmálaathafnir hans er og hefur verið deilt svo sem okkar allra, en um vinsældir hans ljúka allir upp einum munni og veit ég, að þingheimur allur óskar honum velfarnaðar í hans nýja starfi.

Þá vil ég óska einum mikilsvirtasta stjórnarandstæðingnum, hv. þm. Karli Kristjánssyni, innilega til hamingju með 70 ára afmæli hans, sem er í dag. Karl er einn þeirra, sem ánægja er að hafa samskipti við og þó áreiðanlega meiri ánægja að hafa hann með sér, en á móti, vegna orðheppni hans og mikillar málafylgju.

Núverandi stjórnmálaflokkar hafa í nær 51/2 ár óslitið farið saman með stjórn landsins. Þrátt fyrir þau mannaskipti, sem tímans straumur hefur haft í för með sér, má þess vegna segja, að núverandi stjórn hafi setið að völdum nokkuð á sjötta ár. Er það mun lengri órofinn stjórnarferill en áður þekkist, frá því að sjálfstæðið var endurheimt. Ríkisstjórnir hafa sjaldan setið hér lengur, en 2–3 ár og þá oftast slitnað upp úr með ósköpum. Sá stöðugleiki, sem skapazt hefur í stjórnarháttum á Íslandi með samvinnu Sjálfstfl. og Alþfl., er þess vegna alger nýlunda. Hann er því athyglisverðari, sem fyrir fáum stjórnum hefur verið spáð verr, en viðreisnarstjórninni í fyrstu. Mönnum er enn í fersku minni öll sú ógæfa, sem viðreisnarstefnan átti að leiða til. Spáð var móðuharðindum af mannavöldum, atvinnuleysi mörg þúsund manns, stöðvun í framkvæmdum, að hinir ríkari yrði ríkari og hinir fátæku fátækari, svo að einungis fá dæmi um allan ófarnaðinn séu nefnd.

Hver er nú dómur reynslunnar eftir þessi 51/2 ár?

Nú á dögum eru framfarir oft miðaðar við vöxt þjóðartekna. Hér eru fullnægjandi skýrslur um þær ekki til lengra aftur í tímann en frá 1945 og síðan. Út af fyrir sig er það og ærinn tími til samanburðar. Stríðsárin voru með öllu ósambærileg vegna sérstakra aðstæðna og áratugurinn næstur á undan, milli 1930–40, mesti blómatími Framsóknar, var örðugasti áratugur fyrir allan almenning á þessari öld. Þá hvíldi atvinnuleysi eins og mara yfir þúsundum manna í kaupstöðum og kauptúnum landsins og bændur héldust við með kreppulánum, þeir sem ekki flosnuðu upp og lentu í atvinnuleysingjahópnum á mölinni. Það er því lítil frægð að bera framfarir nú saman við hörmungarnar þá.

Á síðustu 20 árum hafa hins vegar allir 4 flokkar á víxl tekið þátt í ríkisstj. í mismunandi samtökum, allir þurft að una við sætt og súrt, blítt og strítt, eins og verða vill, á meðan þeir voru við völd. Vegna fábreytni atvinnuvega okkar og þó einkum útflutningsins og þar með hversu við erum háðir veðurfari, aflabrögðum og verðlagi á einni vörutegund, þá er skiljanlegt, að meiri sveiflur séu á þjóðartekjum okkar, en flestra eða allra annarra. Einmitt þess vegna er okkur höfuðnauðsyn að fá fleiri og stöðugri atvinnuvegi, eins og nú er stefnt að með Búrfellsvirkjun og stóriðju. Hin mikla og mjög truflandi óvissa kemur glögglega í ljós, þegar þróunin á þessu 20 ára tímabili frá 1945–1965 er skoðuð. Þar eru snöggar breytingar, stundum fram á við, en einnig afleitir afturkippir.

Meðalvöxtur þjóðartekna á ári á þessu tímabili er 1.9% á mann. Á tímabilinu frá 1945 til 1960 var hann þó einungis 0.9% árlega á mann, og má segja, að vöxturinn smáaukist, eftir því sem á tímabilið líður. Þegar frá árinu 1956 til 1958 var hann 3.5% árlega á mann. Eftir að áhrifa viðreisnarinnar fór að gæta, verður greinilega meiri kraftur og stöðugleiki í vextinum. Á tímabilinu 1961–1964 var meðalvöxturinn á mann árlega 6.1% eða nærri tvöfalt meiri, en að meðaltali var frá árinu 1956 til 1958.

Ekki væri sanngjarnt að þakka þá breytingu, sem auðsjáanlega hefur orðið, eingöngu betri stjórnarháttum. Aflabrögð, veðurfar, verðlag, aukin tækni og þekking á göngu fiskstofna hafa öll sín áhrif, sem sjálfsagt er að viðurkenna. En jafnósanngjarnt væri að neita, að áhrif skynsamlegrar stjórnar efnahagsmálanna hafa haft sitt að segja, a.m.k. fær ekki með neinu móti staðizt það, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa stöðugt haldið fram, að stjórnarstefnan leiddi til stöðnunar allra framfara. Óhagganlegar tölur sanna allt annað. Vöxtur þjóðartekna og þar með eðlilegar framfarir hafa verið örari, en nokkru sinni fyrr og meiri en hinir bjartsýnustu þorðu að vona.

Sama er um fullyrðingarnar um atvinnuleysi. Í heild háir okkur nú vinnuaflsskortur, en ekki atvinnuleysi. Staðbundnir erfiðleikar, eins og af hafísnum nú, óhagstæðu veðurfari eða aflaskorti hafa að vísu sums staðar valdið atvinnuskorti um sinn. Endalaust má deila um, hvort brugðið hafi verið við af nægum röskleika, til að bæta úr þeim örðugleikum. Ef svo er ekki einhvers staðar, þá er að reyna að ráða bót á því. Er það auðveldara vegna hinnar almennu velsældar, sem í landinu ríkir. Vestfjarðaáætlunin er nú þegar vel á veg komin og lánsfé tryggt til byrjunarframkvæmda hennar. Þá hefur ríkisstj. og í undirbúningi löggjöf um framkvæmdasjóð strjálbýlisins, sem komi í stað atvinnubótasjóðs og mundi verða honum miklu öflugri.

En er það þá rétt, að almenn velsæld ríki meðal landsmanna? Því er oft haldið fram, að verkalýðurinn hafi ekki fengið sinn hluta af vaxandi þjóðartekjum. Nú er það auðvitað svo, að vaxandi þjóðartekjur koma m.a. af því, að lagt er í nýjan kostnað. Þekking, ný tæki og ný tækni, sem stórauka afla, fást að sjálfsögðu ekki kostnaðarlaust. Þess vegna mætti vel færa rök að því, að slíkt hlyti að hafa einhver áhrif á skiptingu þjóðarteknanna, svo að hlutur verkalýðsins yrði fyrir þá sök minni, en áður miðað við heildina, þótt hann færi vaxandi í sjálfu sér. En hefur raunin orðið sú, að verkalýðurinn hafi orðið afskiptur í hlutdeild vaxandi velmegunar á síðustu árum, svo að sú hlutdeild sé nú minni, en áður var?

Um þetta hefur verið gerð ýtarleg rannsókn hjá Efnahagsstofnuninni og árangur hennar birtur í 13. hefti ritsins Úr þjóðarbúskapnum, sem út kom í febrúar 1964 og veit ég ekki til þess, að niðurstöður hennar hafi verið véfengdar, hvað þá að þeim hafi verið hnekkt. Þar eru teknar til athugunar atvinnutekjur kvæntra verka-, sjó- og iðnaðarmanna og hlutdeild þeirra í þjóðartekjum á tímabilinu 1948–1962 og er þá byggt á úrtaksathugunum og framtölum þessara stétta. Miðað er við þær tekjur, sem raunverulega var aflað, en ekki sjálfa kauptaxtana. Nú hafa framhaldsathuganir á sama grundvelli verið gerðar fyrir árin 1963 og 1964 og eldri tölur jafnframt endurskoðaðar í samræmi við síðustu endurskoðun þjóðhagsreikninga. Niðurstöður af athugunum, sem birtar voru 1964, eru þær, eins og í greininni stendur, að á árabilinu 1948–1962 hafi í höfuðdráttum hlutskipti launþega fylgt þróun þjóðartekna. Athuganir á árunum 1963 og 1964 leiða til hins sama.

Ef talan 100 er miðuð við árið 1948, fyrsta árið, sem gögn eru til um, þá var hlutfallið árin 1963 og 1964, bæði árin, 98:8, sem er mjög svipuð tala og t.d. á árunum 1957 og 1958.

Um þennan samanburð er þess að gæta, að hér er hvorki tekið tillit til opinberra starfsmanna né kvenna. Kaup beggja þessara starfshópa hefur hins vegar hækkað mun meira en annarra launþega og benda því þau gögn, sem fyrir hendi eru, ótvírætt til þess, að launþegar hafi hin siðari ár fyllilega haldið sínum hlut í vexti þjóðartekna. Þá vek ég aftur athygli á því, að hér er um að ræða raunverulegar tekjur, sem m.a. fást fyrir langan vinnutíma, en ekki kaupmátt tímakaups. Svipaða sögu segir athugun á svokölluðum ráðstöfunartekjum, en þær eru reiknaðar svo, að frá tekjum eru dregnir beinir skattar til ríkis og sveitarfélaga, en með þeim taldar beinar greiðslur frá þessum aðilum, svo sem fjölskyldubætur.

Frá því árið 1948 var þetta hlutfall ráðstöfunartekna og þjóðartekna hagstæðast fyrir launþega árið 1960, en óhagstæðast árið 1957 og aðeins litlu skárra árið 1958. Árið 1964 var það 95.2 miðað við 100 árið 1948, en komst niður í 90.6 árið 1957. Árið 1964 var þó nokkuð óhagstæðara, en næsta ár á undan. Ástæðan til þess var ekki sú, að skattur á lágtekjum hafi verið hærri árið 1964 en áður, því að svo var ekki, enda urðu þessir skattaliðir til þess að lækka vísitöluna sumarið 1964, en ekki hækka.

Sú skattahækkun, sem um hefur verið talað, spratt af því, að margar stéttir, einkum með hærri miðlungstekjur og hátekjur, hækkuðu mjög í tekjum árið 1963. Háum tekjum hafa lengi fylgt hlutfallslega hærri skattar, en af lágtekjum og hefur það hingað til verið talið sjálfsagt sanngirnismál. Fyrir þessu verða menn að gera sér grein, þó að það sé eitt vitni um stórbættan efnahag í landinu, að nú verða hlutfallslega miklu fleiri, en áður fyrir þessari stighækkun hinna beinu skatta. En um hæð skattanna í heild verður að segja, að meðan þeir eru að hundraðstali lægri en þeir voru áður fyrr, t.d. á valdadögum Framsóknar, þegar menn höfðu þó minni raunverulegar tekjur til þess að greiða skatta í og skattarnir eru einnig lægri hét, en í nágrannalöndum okkar, þá höfum við sannarlega ekki ástæðu til að kvarta yfir sköttum hér á landi, a.m.k. ekki þeir, sem er það alvörumál, að byggð eigi að haldast við um land allt og Ísland að halda sjálfstæði, því að hvorugt þetta verður gert, nema þetta kosti okkur hlutfallslega meira, en aðrar miklu mann fleiri þjóðir.

Af því, sem nú hefur verið sagt, sést, að þegar litið er á þróun hvort heldur atvinnutekna eða ráðstöfunartekna kvæntra sjó-, verka- og iðnaðarmanna í landinu, þá hafa þeir haldið sínum hlut, hin síðari ár í þjóðartekjum og sízt verið á þá gengið, t.d. miðað við það, sem var á árunum 1957 og 1958, hinum gullna tíma vinstri stjórnarinnar.

En hvað um kaupmátt tímakaupsins? Fær það staðizt, sem iðulega er haldið fram, að honum fari síhrakandi? Er það rétt, sem segir í ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík hinn 1. maí s.l. og hljóðar svo:

„Almenn hækkun verðlags og stórauknar álögur skatta og útsvara valda því, að júnísamkomulagið hefur ekki náð tilgangi sínum, svo að rauntekjur verkafólks á tímaeiningu hafa enn rýrnað.“

Þetta stóð í 1. maí- ávarpi. Nauðsynlegt er, að menn átti sig til hlítar á því, hvort þessi fullyrðing fær staðizt. Ef hún er rétt, þá er skiljanlegt, að menn séu ófúsir til þess ð gera að nýju svipað samkomulag og gert var í júní í fyrra. En ef fullyrðingin byggist á misskilningi, þá horfir málið allt öðruvísi við.

Þegar talað er um það, að kaupmáttur tímakaups hafi rýrnað hin síðari ár, er oft vitnað til lægsta taxta Dagsbrúnar og sagt, að kaupmáttur hans hafi farið minnkandi þrátt fyrir hækkað kaup í krónum. Þessi samanburður er raunar ærið hæpinn, þegar af því, að 1. taxti Dagsbrúnar nær nú til einungis fárra verkamanna miðað við það, sem áður var. Flestir verkamenn eru nú komnir í aðra flokka og hafa fengið hlutfallslega meiri hækkanir. Enn meira máli skiptir, að í þessum útreikningum er oftast miðað við neyzluvöruvísitöluna, en hún er aðeins hluti vísitölu framfærslukostnaðar, sem verkalýðsfélögin sjálf hafa samið um, að skuli leggja til grundvallar kaupvísitölunni. Á s.l. sumri óskaði ríkisstj. mjög eftir því, að þessi vísitala framfærslukostnaðar yrði tekin til endurskoðunar og endurskoðun lokið hið bráðasta. Óhætt er að segja, að verkalýðsfélögin hafi ekki verið sérstaklega fýsandi, að endurskoðunin færi fram, þó að þau settu sig ekki á móti henni. Hvað sem um það er, þá er það víst, að um framfærsluvístöluna hefur verið samið af sjálfri verkalýðshreyfingunni og aðrir fremur, en fulltrúar hennar hafa talið hana ófullnægjandi mælikvarða. Enn er á það að líta, að sá tími, sem valinn er og sagt, að kaupmættinum hafi hnignað frá, er yfirleitt villandi, því að þá var ekki um neinn fastan, varanlegan kaupmátt að ræða, heldur einungis bráðabirgðaástand af alveg sérstökum ástæðum.

En látum allt þetta vera og miðum við kaupmátt 1. taxta Dagsbrúnar og neyzluvöruvísitöluna og tökum árið 1959, sem var verkalýðnum hagstæðara í þessum efnum en mörg undanfarin ár. Ef við teljum, að kaupmátturinn hafi þá verið 100, komst hann samkv. þessari reikningsaðferð ofan í 84.1 á árinu 1962. Síðan hefur hann aukizt og þá mest eftir að júnísamkomulagsins fór að gæta. Aukningin samkv. þeim tiltölulega lágu kauphækunum, sem þá urðu, er mun meiri en samkv. allri kaupbyltingunni 1963. Fyrsta marz s.l. var hann 88.2 gagnstætt 84.1 á árinu 1962. Hér er þess vegna um ótvíræðan bata að ræða. Engum, sem þetta skoðar hlutlaust, getur dulizt, að júní-samkomulagið var verkalýðnum að þessu leyti hagkvæmara, en kaupstríðið árið 1963. Fullyrðingin í ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík fær þess vegna með engu móti staðizt, jafnvel þótt miðað sé við þær hæpnu forsendur, sem ég áður rakti. Um þetta óska ég ekki, að menn hafi mín orð ein, heldur bið alla ábyrga menn að kynna sér hvað satt og rétt er, því að hér er allt of mikið í húfi, til þess að ágizkanir og hleypidómar eins eða neins megi ráða.

Hitt er svo enn sannað mál, að þessi útreikningur, sem miðaður er við 1. taxta Dagsbrúnar og neyzluvöruvísitöluna er, eins og ég sagði, ærið hæpinn. Ef miðað er við Dagsbrúnarmenn í heild og framfærsluvísitöluna, sem verkalýðsfélögin sjálf hafa samið um, þá var kaupmátturinn hinn 1. marz 1965 104.3 og hefur því hækkað frá árinu 1959, þvert ofan í það, sem oft er látið í veðri vaka. Ef víðtækari samanburður er gerður og litið á umsamið tímakaup verkafólks og iðnaðarmanna og framfærsluvísitöluna, sést, að kaupmátturinn hafði nú hinn 1. marz hækkað í 110.6, kaupmáttur tímakaups iðnaðarmanna hefur aukizt í 115.8 og verkakvenna að meðaltali í 119 miðað við 100 árið 1959. Hér hafa lögin frá árinu 1961 um launajöfnuð kvenna og karla skorið úr.

Þessar tölur, sem ég vitna til samkv. heimild Efnahagsstofnunarinnar, sýna allt aðra mynd af þróuninni, en tíðast er haldið að mönnum. Engu að síður gefa þær til kynna, að missmíði er á. Um það er ekki að villast, að eiginlegir verkamenn hafa orðið aftur úr. Þeir hafa einungis haldið sínum hlut í vexti þjóðartekna með því að auka vinnutíma sinn úr hófi, samtímis því, sem sumar aðrar stéttir hafa getað stytt hann. Hér komum við að mestu meinsemd í efnahags- og atvinnulífi okkar nú. Hana verður að bæta. Í júnísamkomulaginu var stigið fyrsta skrefið í þá átt. Það var einungis eitt skref, sem kom ekki að tilætluðum notum, m.a. vegna þess, að aðrar stéttir, bæði innan Alþýðusambandsins og bændur, hafa ekki viljað una því, að verkamenn fengju styttan vinnutíma, án þess að þessar stéttir, sem allt öðruvísi stendur á um og sumar hafa þegar fengið stórlega styttan vinnutíma, fengju hlutfallslegar hækkanir — og þó í rauninni meiri en verkamenn fengju. Þær stéttir, sem þegar hafa tryggt sér viðhlítandi vinnudag, verða að sætta sig við það, að ráðstafanir verði gerðar til þess að stytta vinnudag verkamanna, án þess að þeir missi við það af kaupi og án þess að aðrar stéttir noti það sem tylliástæðu til eigin kjarabóta. Ella mundu kjarabæturnar étnar upp fyrir öllum og verðbólguþróunin enn mögnuð óheillaöflum þjóðfélagsins einum til gagns. Hér verða menn að hafa kjark til að gera upp á milli, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og þeir, sem með löggjafarvaldið fara, að svo miklu leyti sem til þess atbeina kemur.

Ég skal ekki fara að rifja upp gamlar deilur, en ég minni á það, að bæði vorið 1962 og í samningaumleitunum í desember 1963 leitaðist ríkisstj. við að ná samningum um sérstakar kjarabætur þeim lægst launuðu til handa. Um þetta fékkst þá ekkert samkomulag og tilraunin, sem með júnísamkomulaginu var gerð, tókst miður en skyldi vegna síðari kröfuhörku annarra. Hefðu aðrir launþegar þó átt að kunna að meta þau hlunnindi, sem þeim voru veitt með verðtryggingu launa, lengingu orlofs og stórauknu fé til íbúðabygginga og lækkun vaxta á íbúðarlánum, svo að nokkur hin almennu meginatriði júnísamkomulagsins séu nefnd. Um þýðingu þeirra fyrir afkomu manna bið ég hvern og einn að skoða eigin hug og reynslu.

Af skiljanlegri stjórnmálaertni er því haldið fram öðru hverju, að andi júnísamkomulagsins hafi verið rofinn með skattálagningu sumarið 1964 og hækkun söluskatts um áramótin. Hvorugt fær staðizt. Skattstigar, sem á var lagt eftir sumarið 1964, voru ákveðnir og samþykktir nokkrum vikum fyrir júnísamkomulagið og urðu lægri á lágtekjum, — ég legg áherzlu á orðið lágtekjur, — en ráð hafði verið fyrir gert í þeim ríkisreikningum, sem lagðir voru til grundvallar júnísamkomulaginu. Söluskatturinn var óhjákvæmilegur til þess, að unnt væri að halda áfram niðurgreiðslum á landbúnaðarvöruverði, sem ákveðnar voru haustið 1964 og enginn hélt þá fram að brytu á móti júnísamkomulaginu.

Á hitt minni ég, sem segir í lokaorðum þessa margnefnda samkomulags:

„Samkomulagið um þau atriði, sem að framan greinir, er háð því skilyrði, að samningar náist milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, er gildi til ekki skemmri tíma en eins árs og feli ekki í sér neina hækkun grunnlauna á því tímabili.“

Þetta voru lokaorð júnísamkomulagsins. Ég ásaka engan fyrir, að svo hefur farið um efndirnar á þessu ákvæði sem raun ber vitni. Ég minni einungis á, að af hálfu ríkisstj. var því aðeins fallizt á verðtryggingu kaupgjalds, að sú forsenda stæðist, sem í lokaorðunum er skýrt tekin fram og verði í sumar grunnkaupshækkanir, sem stefni efnahagsjafnvægi í voða, verður að sjálfsögðu að taka verðtrygginguna til endurskoðunar að nýju, því að ríkisstj. mun ekki eiga aðild að neinum þeim samningum eða ákvörðunum, sem jafngilda gengislækkun. Hún hefur ásett sér að varðveita gengi krónunnar og mun ekki hverfa frá þeim ásetningi. Þess verður vart, að einhverjir, sem ætla sér að hagnast fjárhagslega eða stjórnmálalega á gengisfellingu, breiða nú út þann orðróm, að hún sé yfirvofandi. Ég vara menn við að trúa þessum orðrómi, hvað þá að taka hann sér í munn, því að með slíku ganga þeir erinda skemmdarverkamanna og hjálpa til við þeirra illu iðju.

Eindreginn vilji ríkisstj. er að tryggja góða afkomu allra og beita sér fyrir að bæta hag hinna verst settu. Þar kem ég aftur að lengd vinnutímans. Er þá framkvæmanlegt að stytta hann hjá þeim, sem helzt þurfa? Í þessu tjá engin skyndistökk, eðlileg þróun er öllum hollust. Eins og atvinnuvegum okkar er háttað, þá mun hér ætíð þurfa að halda á skorpuvinnu öðru hverju. En slík skorpuvinna á ekkert skylt við það, að menn þurfi að vinna 60 stundir á viku eða þar yfir allan ársins hring til þess að fá í sig og á. Menn hafa fyrir löngu lært, að slík vinnubrögð skila ekki meiri afrakstri en sá vinnutími, sem vísindalegar athuganir hafa sýnt, að er hæfilegur. Nauðsynlegri breytingu hjá okkur frá áratugalangri rangþróun verður ekki áorkað nema á nokkrum tíma. Einmitt til undirbúnings því hefur n. starfað að málinu allt frá því snemma árs 1962. Hún var kosin samkv. einróma ályktun Alþ, hinn 18. des. 1961, er hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til að rannsaka, á hvern hátt verði með mestum árangri komið á átta stunda vinnudegi meðal verkafólks. Skal nefndin framkvæma athugun á lengd vinnutíma verkafólks eins og hann er nú og áhrifum hans á heilsufar, vinnuþrek og afköst svo og hag atvinnurekstrar. Á grundvelli þessara athugana skal n. gera till. um ráðstafanir til breytinga á vinnutilhögun og rekstrarfyrirkomulagi atvinnufyrirtækja, er gætu stuðlað að styttingu vinnudags verkafólks án skerðingar heildarlauna og að aukinni hagkvæmni í atvinnurekstri. Skulu till. miðast við að vera æskilegur samningagrundvöllur milli stéttarfélaga verkafólks og samtaka atvinnurekenda. N. skal enn fremur gera till. um, hvernig löggjafinn geti stuðlað að ákvörðun um eðlilegan hámarksvinnutíma. N. skal kveðja sér til ráðuneytis fulltrúa Alþýðusambands Íslands. Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og aðra fulltrúa hagsmunasamtaka, eftir því sem þörf er á. Hún skal einnig hafa heimild til að láta fara fram sérfræðilegar athuganir, sem nauðsynlegar eru að mati hennar.“ Svo mörg voru þau orð.

Í júnísamkomulaginu í fyrra var um vinnutímann farið eftir bráðabirgðatillögum n. Nú mun hún hafa samið heildartillögur um lausn þessa mikla vandamáls ásamt grg. Ríkisstj. hefur enn ekki borizt álít n. og því ekki átt kost á að athuga till. hennar, sem munu vera til skoðunar hjá verkalýð og vinnuveitendum.

Ég hef þegar áður oftar en einu sinni lýst því, að hér sé um að ræða eitt mikilsverðasta umbótamál, sem lausnar bíður nú og ég vil ítreka þá sannfæringu mína að þessu sinni. Ég vil og mun leggja mig fram um að stuðla að því, að þessi umbót geti átt sér stað og komi þeim að gagni, sem hennar eiga að njóta. Ég býð af heilum hug fram samvinnu mína og ríkisstj. til þess að stuðla að samningum við verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur, þar sem þetta sé aðalatriði, jafnframt því sem ég lýsi þeirri eindregnu sannfæringu minni, að þeir, sem nú þegar hafa lífvænleg kjör og meira en það án þess að þurfa að leggja á sig óhæfilega langan vinnutíma, eiga að sjá sæmd sína í að doka við um kröfugerð, á meðan bætt er úr þeirri missmíð, sem allir hljóta að játa að á hafi orðið.

Samningar um þetta hljóta að verða meginuppistaða nýs júnísamkomulags, ef það kemst á. Hvort því tekst að ná, skal ég ekki um segja, en víst er, að ríkisstj. mun leggja sig alla fram um, að svo megi verða. Þó að fulltrúar Alþýðusambandsins telji ekki nógu langt gengið, hefur ríkisstj. og Alþingi nú þegar komið verulega til móts við óskir þeirra í skattamálum og mun í sambandi við samningsgerð enn athugað, hvort lengra sé hægt að ganga. Þá munu með opnum hug verða teknar upp viðræður nú næstu daga um nýjar ráðstafanir í húsnæðismálum.

Að almennum kauphækkunum vill ríkisstj. hins vegar því aðeins stuðla, að þær komi launþegum að gagni, þ.e.a.s. að þær setji jafnvægi í efnahagsmálum ekki úr skorðum og knýi fram gagnráðstafanir.

Leggjumst á eitt um að bæta úr bersýnilegum göllum og höldum vinnufriði, svo að unnt verði að tryggja öllum landsins börnum sanngjarna hlutdeild í gæðum landsins og af akstri þeirra og tóm gefist til að hagnýta þau betur en nú, öldum og óbornum til ævinlegra heilla. — Góða nótt.