10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

Almennar stjórnmálaumræður

Eysteinn Jónsson:

Gott kvöld. Það er eitt gleggsta einkennið á lélegri ríkisstj., sem illa tekst, að hún vill ekki ræða með rökum till. stjórnarandstæðinganna né málefnastöðuna efnislega, en heldur því þess í stað fram af því meira ofstæki sem verr stendur, að stjórnarandstaðan sé ábyrgðarlaus og till. hennar ómerk yfirboð ein saman.

Auðvitað er ríkisstj. okkar þessu marki brennd, enda líka nokkur vorkunn, þótt hún sækist ekki eftir því að útskýra, hvernig búskaparlag hennar hefur leitt til þess óskapnaðar, sem við búum nú við varðandi afkomu almennings og atvinnuvega eftir 5 glæsilegustu góðæri, sem íslenzka þjóðin hefur lifað á þessari öld, bæði af náttúrunnar hendi og varðandi viðskiptakjör út á við. Nálega hverri till. framsóknarmanna til úrbóta síðustu árin hefur úr þessum herbúðum verið mætt með hrópunum: yfirboð, ábyrgðarleysi, óframkvæmanlegt, en Framsfl. hefur eigi að síður barizt fyrir umbótamálum og lagt sig ótrauður fram um að skýra með rökum, á hver hátt þyrfti að breyta um stjórnarstefnu, til þess að betur farnaðist.

Þrjózka hæstv. ríkisstj. hefur á hinn bóginn verið með þeim endemum, að hún hefur látið lið sitt á Alþ. fella nálega hverja till. frá okkur, alveg án tillits til þess, um hvað þær fjölluðu. En við höfum aftur á móti haft þá vinnuaðferð að meta frv. ríkisstj. og till. eftir efninu og greitt atkv. með æðimörgum, en beitt okkur þeim mun ákveðnar á móti öðrum sem við töldum ganga í ranga átt. Læt ég heyrendur dæma um, hvor vinnuaðferðin, stjórnarinnar eða Framsfl. í stjórnarandstöðunni, er réttmætari og ábyrgari og þeim meira að skapi.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess hér, hvernig svo hefur farið um æðimargt af yfirboðunum, sem þeir hafa kallað, en nefna þó örfá dæmi.

Framsfl. hefur árum saman lagt til að lækka vextina og sýnt fram á, að fjármagnskostnaðurinn væri gerður óbærilegur framleiðslunni og þeim, sem eitthvað þyrftu að framkvæma. Ríkisstj. hrópaði: yfirboð og ábyrgðarleysi, þangað til, vaxtakostnaður af lítilli íbúð gleypti meira en hálf verkamannalaun annars vegar og engan veginn var hægt að koma saman framleiðsludæmi sjávarútvegsins hins vegar. Þá var loks látið nokkuð undan till. framsóknarmanna og vextir lækkaðir á íbúðalánum og afurðalánum, en mikil barátta samt framundan í vaxta- og lánamálum. Það var kallað yfirboð að vilja hækka jarðræktarframlagið meira, upp í 15 hektara túnstærð, en tekið upp litlu siðar og enn var kallað yfirboð að fara í 25 hektara og tekið upp litlu síðar.

Einar Ágústsson og fleiri framsóknarmenn fluttu í haust frv. um menntaskóla, þar sem heildarstefna var mótuð í þeim málum. Því var fálega tekið þá, en endurprentað fyrir nokkrum vikum og þá flutt sem stjórnarfrv. og gert að lögum á dögunum.

Framsóknarmenn hafa árum saman barizt fyrir jafnvægissjóði, sem hefði veruleg fjárráð og stuðlaði að framkvæmd nýrrar uppbyggingarstefnu eftir skynsamlegri áætlun og veitti öflugan stuðning í þeim landshlutum, þar sem hallað hefur undan fæti vegna fjármagnsskorts. Þessu frv. hefur verið vísað látlaust frá með þeim rökstuðningi, að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. gerði í þessu skyni, væru fullnægjandi. En byggðarlögum og heilum landshlutum hefur á hinn bóginn haldið áfram að blæða. En almenningsálitið hefur jafnt og þétt snúizt á sveif með framsóknarmönnum í þessari baráttu, ekki bara úti um land, heldur engu síður á þéttbýlissvæðunum við Faxaflóa, og ríkisstj. er líklega byrjuð að láta sig. Farið er, að því er virðist, að ræða í alvöru það, sem áður þóttu óþörf yfirboð og tekið var með kulda og gremju, ofstæki og skætingi. Það fór líka að fréttast hér, að í öðrum löndum væri verið að gera þetta og þótti þá víst frekar á þetta hlustandi. Það eru því farnar að koma sprungur í ísinn. Sú fyrsta er Vestfjarðaáætlunin, sem telja má árangur af þessari baráttu. E.t.v. er meira í vændum. Úr herbúðum stjórnarinnar heyrast andvörp um, að eitthvað verði að gera og nú síðast yfirlýsing um, að stofna eigi í haust framkvæmdasjóð strjálbýlisins og er það auðvitað, að finna verður nýtt nafn, því að sjóðurinn í frv., sem Framsfl. hefur flutt undanfarin ár og drepið hefur verið og kallað óþarft yfirboð, heitir sem sé jafnvægissjóður. Og nú síðast í dag var jafnvægisfrv. framsóknarmanna enn vísað frá, en nú með loforði um annað frv. í staðinn í haust.

En hvað er það búið að kosta þjóðina, að felldar hafa verið tillögur framsóknarmanna í byggðamálunum ár eftir ár og hver eru líkindin til þess, að sú ríkisstj., sem fyrir því hefur staðið, taki þau mál þeim tökum, sem þarf, þótt ekki þyki annað fært núna en að gjalda þessu málefni a.m.k. nokkra varaþjónustu? Það spáir ekki góðu t.d., að samtímis og látið er í undanhaldið skína, eru opinberar verklegar framkvæmdir um land allt skornar niður um 20% og nú eru ráðgerðar framkvæmdir í stóriðjumálum, sem magna munu byggðavandamálið, ef fram ganga sem horfir.

Ég nefni þessi fáu dæmi af mörgum, sem til greina gætu komið, til að sýna, hvers eðlis það er, sem stjórnarflokkarnir hérna kalla yfirboð og ábyrgðarleysi og sem þeir fella holt og bolt, en neyðast síðan til að taka til greina, a.m.k. að einhverju leyti, þegar almenningsálitið kemur til liðs við stjórnarandstöðuna, sem raunar er nokkuð oft. Og sannleikurinn er sá, að beztur árangur hefur orðið í málefnabaráttunni, þegar samstaða hefur myndazt milli stjórnarandstæðinga og almannasamtakanna í landinu. Mætti nefna þess dæmi úr kjarabaráttunni og varðandi málefni atvinnuveganna: iðnaðarins, landbúnaðarins og sjávarútvegsins.

Ég nefni þessi dæmi um áhrif stjórnarandstöðu og einstök framfaramál til að sýna fánýti þessarar aðferðar, sem úrræðalítil og ofstækisfull ríkisstj. beitir gegn málefnalegri stjórnarandstöðu, sem hún finnur að hefur vaxandi áhrif. En ég nefni þessi dæmi á hinn bóginn ekki til þess að gefa í skyn, að nægilegt sé eða viðunandi, að ríkisstj., sem hefur í grundvallaratriðum ranga stefnu, neyðist endrum og eins til að beygja sig og samþykkja einstök mál, sem stjórnarstefnan hefur barizt fyrir og ekkert sýnir þetta betur en ástandið núna, en það er þannig orðið, að sú málefnalega gagnrýni, sem Framsfl. hefur frá öndverðu haldið uppi á stjórnarstefnuna, er nú ekki aðeins hans gagnrýni lengur fremur en fjölmargra annarra, hvar í flokki sem þeir hafa staðið.

Ríkisstj. hefur framkvæmt sína nýju stefnu í 5 ár. Hún er því ekki ný lengur, heldur þrautreynd við beztu skilyrði. Nýja stefnan átti að stöðva verðbólguna, afnema uppbótakerfið, lækka skattana og álögurnar, auka ráðdeild og sparnað og lækka skuldir þjóðarinnar við útlönd. Var sagt, að menn yrðu að taka á sig kjararýrnun og fórnir til þess að lækka skuldir þjóðarinnar út á við og koma efnahagsmálunum í lag. Var alveg sérstök áherzla lögð á, að menn tækju vel verulegum fórnum, því að horfast ætti í augu við allan vandann í einu, eins og einn af ráðh. orðaði það. Með steigurlæti var farið hæðnisorðum um þá, sem vildu leysa vandamál í áföngum. Stórátak, það dugði ei minna. Koma öllu í rétt horf með snöggu taki og úr því væri öllu borgið og kæmi af sjálfu sér. Þetta voru kenningarnar og fyrirheitin. En framkvæmdin, hver hefur hún orðið?

Verðbólgan hefur aldrei vaxið með meiri hraða, en síðan nýja stefnan var innleidd, sem fólgin var í samdrætti lána, frystingu lána, vaxtahækkunum, álagaflóði og látlausum ráðstöfunum til að koma á og viðhalda kjaraskerðingu. En allt þetta átti að stöðva verðbólguna og koma á jöfnuði í efnahagslífinu. Dýrtíðarvöxturinn hefur á hinn bóginn orðið nálega fjórum sinnum örari ,en árin á undan og hafa menn uppgötvað það nú eftir á, að þeir bjuggu þá við tiltölulega hóflegan dýrtíðarvöxt samanborið við þetta öngþveiti.

Uppbótakerfið hefur ekki verið afnumið, en stendur í fullum blóma í mörgum myndum, en mest þó í margföldum niðurgreiðslum á vöruverði innanlands, til þess að allar afleiðingar verðbólgustefnunnar komi ekki beint inn í framleiðslukostnaðinn. En slíkar niðurgreiðslur eru í eðli sínu hliðstæðar útflutningsuppbótum og í rauninni hinn endinn á sama prikinu. Skuldir við útlönd hafa ekki lækkað, heldur vaxið gífurlega og heildarskuldir umfram innstæður erlendis eru mörg hundruð millj. hærri en þær voru í árslok 1958, en ekki lægri og allt löðrandi í lánum til stutts tíma og meira en nokkru sinni fyrr. Hafa þó engin stórfyrirtæki verið reist á þessum árum. Í stað þess að lækka skattabyrðina hafa álögur verið þyngdar látlaust og við þetta beitt hinni furðulegustu hugkvæmni.

Ríkisstj. vill nú orðið fá nálega 4 milljarða í ríkissjóð eða meira en fjórfalt það, sem var fyrir 6 árum og er kannske enginn gleggri vottur, en þetta um algert gjaldþrot stjórnarstefnunnar. Nýr skattur nálega með hverjum straumi. Ég nefni dæmi um aðfarirnar. Söluskattur margfaldaður, beinir skattar látnir hækka með verðbólgunni, svo að úr varð hneykslið á síðasta ári, sem ekki sýnist eiga að lagfæra, ofboðsleg hækkun útsvara vegna verðbólgunnar, hækkun fasteignagjalda, ríkisábyrgðarskattur, bændaskattur, launaskattur, eignarskattur á fasteignir og er þetta þó sízt tæmandi talið, því að auk þess hafa alls konar gjöld fyrir þjónustu verið hækkuð gífurlega. Ekki er því að heilsa, að hér sé um gamlar lummur að ræða, því að kvörnin malar enn. Á nokkrum mánuðum hefur verið bætt við nýjum álögum upp á 400 millj. Allt þetta álagaflóð er svo sumpart gert í því skyni að hafa greiðsluafgang í ríkisbúskapnum og vinna þannig gegn verðbólgunni: En nú heyra menn allt í einu utan úr borginni, að eftir allt álagaflóðið og niðurskurð framkvæmdanna vanti enn peninga í ríkissjóð. Alþ. fær á hinn bóginn engar skýrslur um ríkisbúskapinn, en látlaust heimtaðir meiri peningar í hina botnlausu hít.

Þannig er í fáum orðum sorgarsagan um þann þátt viðreisnarinnar, sem skyldi lúta að lækkun skatta og álagna og aukinni ráðdeild í stað þeirrar óráðsíu, sem áður átti að hafa viðgengizt.

Sá eini þáttur viðreisnarinnar svokölluðu, sem haldizt hefur gegnum þykkt og þunnt, það er kjaraskerðingin, sem innleidd var, enda var því lofað, að hún skyldi ekki standa. Er það í samræmi við aðrar efndir af hálfu núv. ríkisstj., þar sem allt fer öðruvísi en lofað var. Um það þarf ekki að deila, því að það liggur glöggt fyrir, að kaupmáttur almennra daglauna hefur minnkað síðan 1958 og útúrsnúningar í því sambandi eru ósæmilegir. Þrátt fyrir stórauknar þjóðartekjur vegna metafla og nýrrar tækni og hagstæðara verðlags hefur þetta skeð og sjálfur forsrh. var áðan að sýna fram á það, hvað þjóðartekjurnar hefðu vaxið mikið. En menn leita sér undankomu með því að vinna sífellt lengra fram á nóttina. Mun þetta nálega einsdæmi meðal lýðræðisþjóða og sýnir þá furðulegu niðurstöðu, að veik ríkisstj skuli geta komið slíkri kjaraskerðingu fram við þessi skilyrði og viðhaldið henni þrátt fyrir allsterk stéttarsamtök. Reynir nú enn á, hvort þetta er hægt til frambúðar. En reynslan er nú orðin svo glögg, að fáum ætti að dyljast, að ný, varanleg og heilbrigð stefna í kjaramálu , þar sem bætt kjör fylgja auknum þjóðartekjum, verður ekki tryggð, nema þessari ríkisstj. verði komið frá.

Alvarlegra upplausnarástand ríkir í efnahagsmálum og atvinnumálum, en nokkru sinni, síðan dýrtíðar- og óðaverðbólgudansinn hófst fyrir alvöru árið 1960. Enginn treystir á þetta lengur og ríkisstj. er úrræðalaus. Í dag er það skattur, á morgun uppbætur, næsta dag niðurskurður framkvæmda, en allt er jafnóleyst eftir sem áður.

Verðbólguframkvæmdir soga til sín skipulagslaust fjármagn og vinnuafl. Vegna rekstrarfjárskorts eru atvinnuvegir í úlfakreppu, geta ekki vélvæðzt né hækkað kaup sem þyrfti né keppt um nauðsynlegt vinnuafl. Fjárfestingin verður óhagstæðari þjóðarbúinu með hverju missiri sem líður í þessu ráðleysi og afleiðingin segir svo til sin framvegis í minni þjóðartekjum og lakari afkomu framleiðslu og almennings, en efni standa til. En hver eru svo úrræði hæstv. ríkisstj.? Engin. Þetta sama áfram. Enn reynt að draga athyglina frá því, hvernig komið er, með linnulausum áróði um stóriðju hér, sem verið sé að ganga frá og helzt er gefið í skyn að öllu muni bjarga.

Það er ein af ávirðingum hæstv. ríkisstj., að hún hefur ekki komið í verk byggingu nýrra raforkuvera og er því orðinn tilfinnanlegur raforkuskortur, sem veldur tjóni, en þó æðilangt í land, að úr rætist, því að slík mannvirki verða ekki reist á einum degi. Ríkisstj. virðis vera haldin þeirri vanmáttarkennd, að Íslendingum sé orðið um megn að koma upp fullnægjandi orkuverum, nema stóriðja fylgi með og hún verði að vera á vegum útlendinga. Hefur stjórnin því fléttað þetta saman og glímt við lengi og sá dráttur orðið mjög til tjóns. Loks nú á elleftu stundu í raforkumálum hefur ríkisstj. talið sig knúða til að slíta þessi mál í sundur í bili a.m.k. og lagt fyrir frumvörp um virkjun Þjórsár við Búrfell, stækkun Laxárvirkjunar og línur út frá henni, þ. á m. til austurlands, en Austfirðingar eiga ríkisstjórnarloforð fyrir þeirri línu, sem þeir munu gang eftir að verði haldið. Kemur í ljós, að virkjun Þjórsár við Búrfell er ekki meiri en svo, að vel hentar Íslendingum á næstunni án stóriðju og áfangar hentugir að stærð. T.d. yrði sá fyrsti, 70 þús. kw., ekki meiri en svo, að innan tveggja til þriggja ára þar frá er líklegt, að sá næsti yrði að koma, þ.e. upp í 105 þús. kw. og svo koli af kolli. Búrfellsvirkjun er því ekki meira átak fyrir þjóðina nú en Sogsvirkjunin á sinni tíð og þó raunar miklu minna átak tiltölulega. Sogsvirkjanir voru vel við vöxt á sinni tíð. Það er Búrfellsvirkjun líka, en rétt við hóf, þegar með skynsamlegri bjartsýni er litið fram á veginn. Afstaða til alúmínbræðslu blandast ekki inn í virkjunarmálin á Alþingi núna, því að stóriðju erlendra aðila verður ekki komið upp á grundvelli landsvirkjunarlaganna. Til þess að hún komi til greina, þarf sérstök lög og þau raunar fleiri en ein.

Ríkisstj. hefur nú látið uppi á Alþingi, hvernig umleitanir hennar um stóriðju standa, en áður höfðu þm. fengið að vita sumt af því, sem nú kemur fram.

Framsóknarmenn hafa frá fyrstu tíð fylgt þeirri meginstefnu, að erlent fjármagn ætti að taka að láni, en Íslendingar reka atvinnufyrirtæki í landinu sjálfir. Tel ég meiri ástæðu til að leggja áherzlu á þetta nú, en jafnvel oftast áður, því að ég vantreysti núv. stjórnarflokkum til að fylgja fram þessari stefnu. Byggi ég það á þrálátum ráðagerðum um olíuhreinsunarstöð útlendinga hér til dæmis og beinni þátttöku útiendinga í margs konar atvinnurekstri, svo sem fiskiðnaði o.fl. Framsóknarmenn hafa frá fyrstu tíð gert ráð fyrir því, að undantekningar gætu komið til greina frá þessari meginstefnu, ef um væri að ræða brýnt verkefni í þjóðarþágu, sem ekki yrði með öðru móti leyst. Yrðu þá að vera sérstök lög hverju sinni og sérstakir samningar og tryggilega frá öllu gengið.

Á Þingvallafundi framsóknarmanna 1919 var ályktað t.d. um varfærni í þessum efnum, en léð máls á einum slíkum sérleyfissamningi til reynslu, sem aldrei kom til. Auðvitað hefur þessi varfærnislega afstaða framsóknarmanna alltaf verið talin ámælisverð af einhverjum úr hópi andstæðinganna og einkum þó óljós. Er þeim þá ýmist legið á hálsi fyrir að vilja ekki fyrir fram sverja gegn öllu af þessu tagi, hvernig sem ástatt er, eða fyrir hitt, að gína ekki við öllu skilyrðislaust og opna allar gáttir fyrir útlendingum. Þessu tökum við öllu með ró, því að við vitum, að það skortir aldrei álas hvatvísra öfgamanna í þeirra garð, sem þræða vilja vandrataðasta götu meðalvegarins. Framsóknarmenn hafa bráðum 50 ára æfingu í því að halda jafnvæginu á vandförnum leiðum.

Í tilefni af stóriðjuáætlunum ríkisstj. útfærði miðstjórn Framsfl. nú í marzmánuði nokkru nánar en áður afstöðuna til stóriðjusamninga, en þingflokkurinn hafði áður látið uppi það álít, að rétt væri að athuga möguleika á alúmínverksmiðju, enda á vegum framsóknarmanna áður fyrr grennslazt eftir möguleika á þess konar.

Á aðalfundinum var rifjuð upp meginstefnan, sem ég var að lýsa, í samræmi við það, sem ályktað hefur verið af og til í flokknum í nálega 50 ár. En síðan var vikið að því sérstaka máli, sem fyrir liggur og viðhorfinu núna. í því sambandi var lögð megin áherzla á að slíkt stórmál yrði ekki afgreitt nema sem liður í heildaráætlun í framkvæmda- og efnahagsmálum og ekki séu tiltök að hefja þær framkvæmdir við þá verðbólguþróun og vinnuaflsskort, sem Íslenzkir atvinnuvegir búa nú við. Enn fremur, að hið erlenda fyrirtæki njóti engra hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi, lúti í einu og öllu íslenzkum lögum og raforkusala til þess standi a.m.k. undir stofnkostnaði virkjunar að sínu leyti. Og loks, síðast, en ekki sízt, að slík stóriðjuframkvæmd gæti stuðlað að lausn byggðavandamálsins, en á það hefur Framsfl. lagt höfuðáherzlu, frá því að þetta mál kom fyrst á dagskrá.

Vík ég nú örstutt að því, sem fyrir liggur og gerzt hefur í málinu.

Það hefur engar undirtektir fengið enn þá að staðsetja verksmiðju við Eyjafjörð eða annars staðar utan þess svæðis, sem mest dregur þjóðina til sín, svo að stórfellt vandamál er orðið. Helzt er að sjá sem fyrirhuguð staðsetning hafi verið ákveðin löngu áður en þm. fengu nokkuð um þessi mál að vita. Dettifossvirkjunin hefur einhvern tíma snemma í málinu verið lögð til hliðar á þeim grundvelli, að Svisslendingar væru ófáanlegir til að reisa 60 þús. tonna verksmiðju, en hennar þyrfti við til þess að fá raforkuverðið nægilega niður. En nú er allt í einu sagt, að Svisslendingar vilji ekki reisa minni verksmiðju en 60 þús. tonna, eða mátulegt fyrir Dettifoss. Þetta gerbreyti viðhorfinu og gerir nauðsynlegt að endurskoða staðsetningarmálið frá grunni.

Sagt er, að Svisslendingar vilji ekki enn sem komið er borga meira en 21/2 mill, sem kallað er, fyrir rafmagnið, en Norðmenn munu fá 3 mill eða 20% meira. Vægast sagt er allhæpið um hagnað af sölu rafmagns fyrir fram fyrir fast verð úr orkuveri, sem á að byggjast hér á næstu sjö árum eða svo, því að óðaverðbólga ræður hér ríkjum og upplausnarástand í efnahagsmálum og engar áætlanir nokkuð að marka við slík skilyrði.

Raforkuverið gæti alveg eins kostað 2.500 millj. eins og 1.700, sem áætlað er, eða hver veit hvað. Byggingarkostnaður mun t.d. hafa hækkað um 40% á síðustu fjórum árum.

Ég sé ekki betur en gerbreytt ástand í efnahagsmálum sé alger forsenda þess, að hægt sé að gera svona samninga.

Alúmínveri er ekki ætlað að sitja við sama borð og aðrir varðandi skatta og útsvar og aðrar álögur. Allar álögur á verið mega ekki fara yfir 50% af ágóða í 45 ár, eins og nú liggur fyrir og fyrirtækið óháð því, hvernig álögur breytast á Íslandi. En eftir því sem ég bezt veit, hafa hliðstæð fyrirtæki í Noregi lotið norskum lögum um þessi efni.

Tollfrelsi algjört er fyrirtækinu ætlað og verður úr því mikið misrétti, nema miklar breytingar séu gerðar á tollalöggjöfinni hér og afnumdir tollar á vélum og byggingarefni.

Orkuver og stóriðjuver eru samanlagt stórfelldar framkvæmdir og telur stóriðjunefndin það mikið vandamál. Magnast það þó um allan helming, ef verið er staðsett þar, sem það eykur sogkraftinn, sem dregur fólkið á einn stað á landinu með þvílíkum hætti, að allir telja nú þegar með meiri vandamálum þjóðarinnar við að fást. Ekki minnkar svo þessi vandi, ef verða á úr leyfðum framkvæmdum Bandaríkjamanna í Hvalfirði, sem hljóta að þurfa talsverðan mannafla.

Þessar miklu framkvæmdir, miðað við okkar staðhætti, verða ekki slitnar úr sambandi við aðrar framkvæmdir landsmanna, heldur hafa þessar framkvæmdir þvert á móti þau áhrif, að allar áætlanir um aðrar framkvæmdir í landinu yrði að gera með tilliti til þeirra. Og hvaða viðfangsefni blasa þá við? Íslenzka atvinnuvegi vantar vinnuafl. Mikið er um áætlanir varðandi eflingu þeirra, sem betur fer, en erfitt um framkvæmdir, m.a. vegna vinnuaflsskorts.

Íbúðabyggingar eru á eftir, vegagerðir, hafnagerðir, skólabyggingar, sjúkrahúsbyggingar og framkvæmdir varðandi rannsóknir og vísindi langt á eftir þörfinni, en í álítsgerð stóriðjunefndar er þó einmitt ráðgert, að opinberar framkvæmdir verði að víkja og byrjað strax að skera niður framlög til þeirra.

Ef ekki ætti gersamlega að snarast, yrði að auka framkvæmdir úti um land til að toga á móti sterkara suðurfalli en nokkru sinni, ef svo mætti segja. Þyrfti þar meira fjármagn til en þennan sjóð, sem ráðgerður er af skatttekjum versins, sem enginn veit raunar hverjar verða, nema lágmarkið þekkjum við — 8 millj.

Auðvitað er mér ljóst, að vinnuaflsskorturinn og öngþveiti í framkvæmdamálum stafar að verulegu leyti og raunar mestu af verðbólgunni og stjórnleysinu í efnahags- og fjárfestingarmálum landsins. Handahófs- og verðbólgufjárfestingin sogar til sín fjármagn og vinnuafl og margt mætti leysa, ef skynsamlega væri á þeim málum tekið. En verður verðbólgufjárfestingin látin víkja? Verður ráðin bót á því ástandi, sem verðbólgunni veldur og tekin upp skynsamleg stjórn á fjárfestingunni? Eða verður haldið áfram að fórna hagsmunum atvinnuveganna á altari verðbólgunnar og svo opinberum framkvæmdum og íbúðarbyggingum og öðru slíku og þær fórnir þá hreinlega auknar eftir þörfum vegna stóriðju, ef til hennar kemur? Svo mikið er víst, að ef vel ætti að fara, yrði að taka þessi mál býsna ólíkum og allt öðrum tökum, en gert er nú.

Þetta ætti að nægja til að sýna fram á, að það er ekki marklaust fjas, þegar framsóknarmenn segja, að ekki sé hægt að marka afstöðuna í stóriðjumálinu, nema meta margt annað æði veigamikið um leið og þá ekki sízt, hvað annað yrði gert í fjárfestingarmálum þjóðarinnar.

Ég hef með þessu sýnt fram á, að stóriðjuplön ríkisstj. og efnahags- og fjárfestingarmál landsins þarf að endurskoða frá rótum. Við höfum aldrei farið dult með það, að við vantreystum ríkisstj, til þess að halda á málefnum landsins í skiptum við útlendinga. Ég minni á tvö dæmi: Hvalfjarðarmálið og sjónvarpsmálið. Um frammistöðu ríkisstj. í hersjónvarpsmálinu segir t.d. aðalritstjóri eins stjórnarblaðsins og einn af alþm. stjórnarliðsins, sem ber í raun og veru meðábyrgð á þessu: „Þetta mál er ein andstyggileg sjálfhelda,“ stendur í Alþýðublaðinu 20. jan. s.l. og enn fremur, að von sé, að hugsandi mönnum ógni það ástand; eins og hann kemst að orði. En sá ráðh., sem þessu stýrði og stýrir ásamt félögum sínum í ríkisstj., sagði Alþ., þegar búið var að leyfa þetta, en ekki framkvæmt, að langdrægni hersjónvarpsins ykist ekki um meira en innan við 10 km við stækkunina. 25–30 þús. Íslendingar geta víst á hverju kvöldi séð á sjónvarpsskerminum, hversu mikið er að byggja á þeim upplýsingum, sem ríkisstj. lætur sér sæma að gefa sjálfu Alþingi.

Nálega allir finna og játa, að stefna ríkisstj. hefur gersamlega gengið sér til húðar og ríkisstj. hefur glatað trausti fjölmargra þeirra , sem gjarnan hefðu viljað geta treyst henni áfram. Þetta finnur stjórnin og setur það mark sitt á hana í vaxandi mæli. Einstaka sinnum hafa ráðh. sig þó enn upp í að halda því fram , að viðreisnin hafi tekizt að einhverju leyti. En þá spyrja menn: Átti þetta þá að verða svona? Og menn eiga heimtingu á, að ríkisstj. svari þessari spurningu afdráttarlaust. Og þori hún ekki að svara henni játandi, viðurkenni hún ósigur sinn.

Það þýðir ekkert fyrir ráðh. að kenna óbilgjörnum kaupgjaldskröfum um, hvernig komið er, því að hægt er að sanna, svo að ósæmilegt er um að deila, að kauphækkanirnar hafa komið á eftir verðhækkunum allan tímann og ríkisstj. hefur tekizt það eitt af meiri háttar formum sínum að koma á almennri kjaraskerðingu og viðhalda henni fram á þennan dag.

H. C. Andersen fannst það gefast illa að ganga um fáklæddur, en þykjast vera prúðbúinn. Þetta ætti ríkisstj. að athuga og draga af því réttar ályktanir. Forsrh. telur það stundum helzt til gildis ríkisstj., hve vel hafi tekizt að standa vörð um verðgildi krónunnar og gerðist um það fjölorður á stóra fundinum þeirra sjálfstæðismanna nú nýlega. En allir aðrir finna, að mætti krónan mæla, mundi hún biðja um vernd gegn þessum vini sínu , því að grálegar hefur krónan aldrei verið leikin, en af þessari ríkisstj., sem er komin vel á veg með að gera hana að tíeyringi og ekkert lát enn á dýrtíðarflóðinu.

Það kveður nú orðið svo rammt að gjaldþroti stjórnarstefnunnar, að tæpast kemur svo saman fundur, sem ekki er undir flokksfargi stjórnmálaflokkanna, að ekki sé krafizt nýrrar stefnu.

Fólk úr öllum flokkum á kjararáðstefnu lýsir yfir því, að mikill árlegur vöxtur þjóða framleiðslu, mjög batnandi viðskiptakjör og tækniframfarir réttlæti fullkomlega raunhæfar kjarabætur og telur, að þær séu mögulegar án verðbólguþróunar, enda komi ný stefna til. Iðnrekendur benda á þrönga kosti og sýna fram á, hvernig lánapólitík, vaxta- og tollapólitík ríkisstj. leika iðnaðinn, standa í vegi fyrir eðlilegri þróun hans og valda beinum samdrætti í sumum greinum. Bændasamtökin gera grein fyrir því, hvernig verðbólgustefna stjórnarinnar hefur grafið undan verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, lánakjörin verið færð til verri vegar og dregið skipulega úr stuðningi við þessa þýðingarmiklu atvinnugrein. Sjávarútvegsmenn gera á fundi kröfu um stefnubreytingu, til þess að sjávarútvegurinn geti aftur, eins og þeir orða það, öðlazt verðskuldaðan sess og þannig verði búið að útgerð og fiskverkun, að þessar greinar geti boðið svipuð launakjör og aðrar og keppt við þær. Og fyrst og fremst er bent á nýja lánapólitík til að bæta úr rekstrarfjárskortinum og fjármagn fáist til vélvæðingar og tæknibreytingar, svo að hægt sé að keppa á innlendum og erlendum mörkuðum og borga betra kaup.

Hvað felst í þessum og þvílíkum álitsgerðum frá fólki úr öllum flokkum? Kröfur um nýja stjórnarstefnu og þungur áfellisdómur um þá stefnu, sem fylgt hefur verið, og framkvæmd hennar. Stjórnarstefnan hefur ekki læknað verðbólgu, því að hún hefur vaxið tröllaskrefum. En stjórnarstefnan hefur komið niður á almenningi í kjararýrnun og komið niður á framleiðslunni í sívaxandi rekstrarfjárskorti, sem lamar fyrirtækin, gerir eðlilega tækniþróun óframkvæmanlega og erfitt að verða við eðlilegum og sjálfsögðum launakröfum miðað við þarfir manna og vöxt þjóðarteknanna. Þetta hafa framsóknarmenn bent á sem höfuðkjarna þessara mála frá fyrstu tíð.

En hvað verður um peningana? Hvers vegna fer þetta svona við þessi skilyrði og vaxandi þjóðartekjur? Fjármagnskostnaður framleiðslunnar og almennings hefur vaxið gífurlega. Óstjórnlegur verðbólgugróði þeirra, sem mest hafa peningaráðin, sogar til sín auknar fjárhæðir á kostnað framleiðslu og starfandi fólks. Afar mikil sóun verðmæta verður vegna handahófs- og eyðslufjárfestingar, sem verður því umfangsmeiri sem þetta stendur lengur og tiltrúin minnkar. En sú fjárfesting framleiðslunnar og almennings, sem mestu skiptir vegna afkomunnar, verður undir í samkeppninni og út undan. Það er því engin tilviljun, að sífellt bætist í þann fjölmenna hóp, sem krefst nýrrar stefnu og nýrra viðhorfa. Veltur mjög á því á næstunni, að nægilega mikill hluti þess mikla fjölda í öllum stéttum, sem sér, að við svo búið má ekki standa og það verður að breyta til, leiti samstarfs við Framsfl. til þess að knýja fram stefnubreytingu.

Í kjaramálum verður að snúa blaðinu alveg við og rétta hlut manna eðlilega miðað við þjóðartekjur með því, að kaupgjald hækki meira en verðlag, enda sé atvinnuvegum gert kleift að borga meira kaup og til þess eru hér öll skilyrði, ef rétt er að farið.

Það verður að knýja fram nýja lána- og vaxtapólitík og skynsamlegar ráðstafanir í tollamálum og öðrum málefnum framleiðslunnar, sem m.a. miðist við að rífa sig fram úr vandanum með aukinni vélvæðingu, tækni og hagkvæmari rekstri, en þetta kostar peninga. Það er ekki hægt að gera þetta án fjármagns og þeim peningum verður að veita í þennan farveg með viðráðanlegum kjörum, því að þeir eru til, peningarnir, það sýna þjóðartekjurnar.

Það verður að gera ráðstafanir til þess, að sú fjárfesting, sem mesta þýðingu hefur fyrir framleiðsluna og almenning, sitji í fyrirrúmi, en verði ekki látin víkja fyrir því, sem minni þýðingu hefur, eins og nú á sér stað í stórum mæli.

Það þýðir ekki að halda því fram, að þeir, sem álykta um þessa stefnu úr öllum flokkum í frjálsum félagssamtökum landsins, séu ábyrgðarlausir yfirboðsmenn, sem ekkert vit hafi á því, sem þeir eru að tala um og vilji illa, eða segja mönnum að þegja. Reynslan úr nálægum löndum segir sína sögu og talar skýru máli um það, að menn eiga ekki að sætta sig við þann kost, sem menn búa við hér nú.

Sjálft þingræðið og raunar lýðræðið byggist á því, að ríkisstjórnir hafi stefnu, sem þær standa eða falla með, ella verður stjórn landsmálanna valdabrask eitt valdanna vegna og afleiðingarnar óbætanlegt tjón. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki skilja þetta til fulls eða hafa sig í að draga af ástandinu réttar ályktanir. Með þrásetu sinni þrátt fyrir getuleysi gerir hún því mikinn skaða og vaxandi. Hafi hún haft tækifæri til að rétta sig við og gera gagn, er það liðið hjá fyrir löngu og því gæti hún bezt þjónað þjóð sinni með því að fara, svo að tækifæri gæfist til að gera þjóðmálin upp og nauðsynleg þáttaskil orðið. — Góða nótt.