10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þessar útvarpsumr. fara fram á sjötta ári þeirrar ríkisstj., sem kennir sig við viðreisn. Þegar ég lít í sjónhendingu yfir liðin viðreisnarár og frammistöðu ríkisstj., kemur mér í hug tilsvar Árna heitins Pálssonar prófessors: „Satt er það, þitt var ríkið, en hvorki mátturinn né dýrðin.“

Aðrir ræðumenn hafa þegar gert því skil, hvernig stjórnarstefnan hefur reynzt að því er tekur til fjármála, skattamála, dýrtíðarmála og skiptingar þjóðartekna milli þegnanna. Ég ætla að draga upp mynd af utanríkisstefnu núv. ríkisstj., varpa á það ljósi, hversu fátæklegur er metnaður hennar fyrir hönd Íslendinga, lítil reisn gagnvart erlendu valdi, kotungslegur bragur í skiptum við framandi þjóðir.

Ég nefndi utanríkisstefnu Íslendinga. Í raun hefur ekki verið um að ræða neina sjálfstæða íslenzka stefnu í utanríkismálum síðan við vorum ginntir til að varpa hlutleysinu fyrir borð, sátum fastir í neti herbandalags með framandi herstöð í eigin landi. Upp frá þeim degi, er hlutleysinu var fórnað, hafa æ fleiri mikils háttar ákvarðanir, sem varða utanríkismál, verið teknar á erlendum vettvangi af erlendum mönnum. Fyrstu árin eftir þau umskipti fullyrtu íslenzkir ráðamenn sitthvað um sjálfsákvörðunarrétt okkar, lýstu kokhraustir yfir ýmsu því, sem þeir reyndust síðar ekki menn til að standa við, þ. á m. að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. En þeir komust fljótlega að raun um, að þeirra var ekki valdið í slíkum efnum. Ýmsar ákvarðanir íslenzkra valdamanna hin síðari ár verða naumast skýrðar á annan veg en þann, að þeir telji sig bundna af samningum til þóknunar og hlýðni við erlenda aðila. Og nú gæta þeir tungu sinnar betur en áður. Þegar utanrrh. var að því spurður hér á Alþ. í fyrra, hvort leyfð yrði staðsetning kjarnavopna í landinu, svaraði hann því einu til, að fram á slíkt hefði ekki verið farið. Meira gat hann ekki sagt.

En svo háskalegt sem það er hverri þjóð að hafa látið fjötrast, getur hún átt ýmissa kosta völ, svo lengi sem hún heldur óskertum frelsisvilja sínum, metnaði og sjálfsvirðingu, en ekki heldur öllu lengur. Fátt er uggvænlegra en það, hversu íslenzkir ráðamenn í dag og fylgjendur þeirra hafa tamið sér að lúta lágt, þegar við erlent vald og erlent fjármagn er að tefla. Það er ömurleg staðreynd, að íslenzkir valdamenn skirrast ekki lengur við að troða fótum jafnt landslög sem siðferðilegan rétt eigin þjóðar til að verða við tilmælum eða kröfum utan að. Íslenzk menningarhelgi er að engu virt. Dátunum á Keflavíkurvelli er falið að beina áhrifamestu fjölmiðlunartækjum nútímans inn á gafl á þúsundum íslenzkra heimila. Og þetta er gert á svo ógeðugan hátt, að engu tali tekur. Fyrst var herliðinu leyfður útvarpsrekstur í landinu þvert ofan í skýlaus ákvæði íslenzkra laga. Og þó var enn laumulegar að farið árið 1961, þegar sama aðila var heimilað að fimmfalda orku sjónvarpsstöðvar, sem áður hafði einungis náð til vallarins, en spannar nú yfir allan þéttbýlasta hluta landsins. Þetta var gert á forsendum, sem reyndust alrangar. En svo mikið er blygðunarleysið, að þeir, sem bera ábyrgð á þessum verknaði og málgögn þeirra þreytast ekki á að fegra hann á allan hátt og lýsa blessun dátasjónvarpsins Íslendingum til handa. Sjálfur forsrh. hefur jafnvel gerzt svo smekklegur að lofsyngja þessa dásemd í þjóðhátíðarræðu 17. júní.

Núv. ríkisstj. hefur ekki látið sér nægja að halda sem fastast í herstöðina á Miðnesheiði, ásamt öllum þeim háska og allri þeirri smán, sem henni fylgir. Á liðnu ári gerði hún að vilja NATO og Bandaríkjanna samning um hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði, þar sem svo skal um hnútana búið, að þar geti orðið herskipastöð hvenær sem ráðamönnum Atlantshafsbandalagsins þóknast og þetta er gert án nokkurrar lagaheimildar, að Alþ. gersamlega fornspurðu og vitanlega að þjóðinni fornspurðri. Hún hefur aldrei fengið tækifæri til að segja hug sinn um þessi mál sérstaklega. En það mega hernámssinnar vita, að þeir Íslendingar eru margir og fer fjölgandi, sem krefjast brottfarar alls herliðs úr landi sínu. Um það bar ljóst vitni hinn geysifjölmenni útifundur, sem haldinn var hér í borg í gærkvöld að lokinni Keflavíkurgöngu.

Ein alvarlegasta afleiðing þess ósjálfstæðis gagnvart erlendu valdi, áróðri og peningum, sem núv, ráðamenn eru haldnir af, er vanmetakenndin, hin nagandi tilfinning fyrir eigin smæð og umkomuleysi. Það hefur oft verið næsta ömurlegt að heyra íslenzka ráðh. ávarpa þjóð sína undanfarin ár á hátíðum og öðrum merkisdögum og flytja henni þann boðskap, hversu örðugt sé fyrir okkur, svo fáa, fátæka og smáa, að halda hér uppi sjálfstæðu þjóðfélagi einir og óstuddir. Í líkingamáli tala þeir um fleytuna okkar smáu, sem sigil þurfi í vari við móðurskipið, eigi hún að forðast áföll á úfnu hafi. Reynt er að grípa hvert tækifæri til að komast í slíkt samflot. Allir muna fyrirganginn fyrir 2–3 árum, þegar stjórnarherrar töldu okkur eiga þann kost einan að renna inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Eins er í fersku minni hinn furðulegi landhelgissamningur við Breta frá 1961, gerður eftir að við höfðum unnið raunverulega sigur í landhelgisdeilunni. Þá afsöluðu íslenzk stjórnvöld rétti okkar til að ákveða sjálfir og einir, hvenær og með hverjum hætti við friðuðum landgrunnið fyrir ágangi erlendra veiðiskipa. Nú verða Íslendingar að sækja það undir Breta eða alþjóðadómstól, sem engin viðurkennd alþjóðalög hefur til að dæma eftir í slíku máli, hvað sé leyfilegt í þessum efnum. Og samningur þessi er með þeim endemum, að þar er ekkert uppsagnarákvæði. Mun það dæmalaust um milliríkjasamning.

Þegar Íslendingar þurfa nú sakir lífsnauðsynjar sinnar að friða landgrunníð eða a.m.k. tiltekna hluta þess, þorir ríkisstj, sig hvergi að hræra. Vitanlega er það brezki ókjarasamningurinn, sem gerir hana hikandi og deiga.

Viðhorf núv. ráðamanna til höfuðatvinnuvega þjóðarinnar markast eins og annað af vantrú og vanmetakennd. Kenning þeirra er sú, að Ísland sé svo harðbýlt, að torsótt verði að auka hér þjóðarframleiðslu og bæta lífskjör, nema gripið sé til annarlegra ráða. Í stað þess að beita sér fyrir kerfisbundnum aðgerðum til að nýta út í æsar vísindi, tækni, mannafla og tiltækt fjármagn og stóraukna framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði, er nú ofurkapp á það lagt að fá erlendan auðhring til að reisa hér stóriðjuver. Til þess að það megi takast, eru uppi ráðagerðir um að virkja fyrir hinn útlenda aðila ódýrasta orkugjafa landsins og veita honum mörg sérréttindi og fríðindi, sem íslenzkur atvinnurekstur hefur ekki notið og á ekki að fá að njóta. Hina síðustu daga hafa orðið miklar umr. á Alþ. um þessi stóriðju- og virkjunarmál, annars vegar skýrslu þá, sem lögð hefur verið fram um samningaumleitanir við svissneskt fyrirtæki varðandi alúminíumverksmiðju, hins vegar lagafrv. um virkjun Búrfells í Þjórsá, en í ráði er að selja alúminíumverksmiðjunni 3/5 hluta þeirrar raforku, sem þar fengist. Í gögnum, sem fyrir liggja og í umr, um málin hafa komið fram margvíslegar upplýsingar, sem miklu skipta og sjálfsagt er að gerðar séu alþjóð kunnar. Ég nefni fáein mikilvæg atriði.

Það er ljóst, að samningur við erlent auðfélag um byggingu og rekstur stóriðjuvers táknar grundvallarstefnubreytingu að því er tekur til atvinnurekstrar og hagnýtingar orkulinda á Íslandi. Það er ljóst, að af hálfu ýmissa ráðamanna hér er hin svissneska alúminíumverksmiðja aðeins einn liður í ráðagerðum um að ryðja erlendu auðmagni í stórum stíl braut inn í íslenzkan atvinnurekstur. Undirbúningsviðræður hafa farið fram um olíuhreinsunarstöð. Rætt er um erlent hlutafé í stór fiskiðjuver og fleiri atvinnugreinar. Til þess að ná hingað erlendu fjármagni á þennan hátt þarf að veita útlendingum margvísleg sérleyfi og önnur fríðindi. Þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hvílík áhætta er í því fólgin, að auðfélög, sem útlendir menn ráða og reka samkv. gróðasjónarmiðum sínum, verði áhrifaríkur aðili í íslenzku atvinnulífi. Slík stefnubreyting er sízt af öllu nauðsynleg. Hún er hreint glapræði. Sé rétt og skynsamlega á málum haldið, eru Íslendingar nú betur undir það búnir en nokkru sinni áður að stórefla atvinnuvegi sína, auka þjóðarframleiðsluna og bæta lífskjörin stig af stigi. Til þess þarf að vísu mjög auknar vísindarannsóknir, eflda tæknimenningu og verulegt fjármagn fengið eftir heilbrigðum og venjulegum lánaleiðum. Allt er þetta mjög vel fært, verði að því horfið með atorku og framsýni að leysa viðfangsefnin með slíkum hætti.

Ein helzta röksemd þeirra manna, sem nú vilja fyrir hvern mun ná samningum um erlent iðjuver til alúminíumvinnslu, er sú, að það auðveldi okkur Íslendingum framkvæmdir í virkjunarmálum. Sú staðhæfing er meira en hæpin, þegar þess er gætt, að rætt er um að selja til langs tíma og á mjög lágu verði ódýrustu raforku, sem við eigum völ á og þetta skal gert með fyrirframsamningi, sem gengið er frá löngu áður, en vitað er um kostnaðarverð virkjunarinnar. Þær kostnaðaráætlanir, sem fyrir liggja, taka ekkert tillit til óleystra vandamála, svo sem þess, hvernig dregið yrði úr eða komið í veg fyrir ísmyndun í Þjórsá. Svo getur hæglega farið, að óhjákvæmileg lausn þess kosti fremur hundruð, en tugi millj. kr. Lengi vel var því blákalt neitað, að þessi vandi væri yfirleitt fyrir hendi. Nú er það viðurkennt af öllum, en enginn veit nú, hversu kostnaðarsamt verður að ráða þar bót á. Virkjunarkostnaður við Búrfell í Þjórsá, sem áætlaður hefur verið 1.700 millj. kr., getur af þessum sökum einum hæglega farið upp í 2.000 millj. Þessi kostnaður er miðaður við kaupgjald og verðlag í landinu í dag. Nú tekur það 3–4 ár að framkvæma fyrri hluta verksins og 7 ár að fullvirkja Búrfell. Dettur nokkrum í hug, að kaupgjald og verðlag haldist hér óbreytt allan þann tíma? Síðustu 4 árin hefur byggingarkostnaður hækkað um 10% á ári. Það veit því enginn, hvað það orkuver, sem hér á að reisa á 7 árum, kemur til með að kosta. Svo mikið er víst, að það verður ekki 1.700 millj., heldur miklu hærri upphæð og þó ræða menn um það sem einstakan búhnykk að selja meiri hluta þessarar raforku erlendum aðila á föstu, mjög lágu verði, jafnvel undir framleiðslu kostnaðarverði miðað við 1.700 millj. kr. virkjunarkostnað. Íslendingum einum, sem fá 2/5 raforkunnar til eigin nota, er ætlað að standa undir öllum viðbótarkostnaði, taka á sig alla áhættuna, eins og hún leggur sig. Nú er þess enn fremur að gæta, að samkv. áliti sérfræðinga tvöfaldast raforkuþörf Íslendinga á hverjum 10 árum. Næstu 20 ár þurfum við því að virkja til eigin nota um 450 þús. kw. Af 210 þús. kw. virkjun við Búrfell fengjum við aðeins 84 þús. Hinu á að ráðstafa til alúminíumversins um 45 ára skeið. Nú telja sérfræðingar, að Búrfellsvirkjun sé hin ódýrasta, sem völ er á. Sé það rétt, eins og verður að ætla, táknar ráðstöfun þeirrar raforku í hendur erlendum aðila vitanlega það, að við verðum þeim mun fyrr að ráðast í dýrari virkjanir okkur sjálfum til handa.

Það er því engan veginn sannað og er sennilega alröng staðhæfing, að samningar um alúminíumverksmiðju séu hagkvæmir með tilliti til virkjunarmála okkar Íslendinga. Við getum leyst raforkumál okkar sjálfir, eins og við höfum gert fram að þessu. Við ráðum auðveldlega við 70 þús. kr. miðlunarvirkjun við Búrfell, ef það reynist hagkvæmasta lausnin, þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir.

Sú skýrsla, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. um viðræður og samninga við hinn svissneska alúminíumhring, leiðir margt athyglisvert og sumt furðulegt í ljós. Auðsætt er, að það eru Íslendingar, sem sækja fast að ná samningum fyrir alla muni. Svisslendingar fara sér hægt og ljá því aðeins máls á samningum, að þeim verði tryggt mjög lágt raforkuverð, margvísleg sérréttindi og fríðindi. Emil Jónsson ráðh. sagði hér áðan, að Norðmenn gerðu allt til að fá erlent fjármagn inn í landið. En ég fullyrði, að þeir hafa aldrei og munu naumast sæta þeim kostum, sem hér eru í boði. Samanburður, sem gerður hefur verið á nýlegum samningi þessa sama svissneska fyrirtækis og ríkisstj, vill semja við um alúminíumverksmiðju í Noregi, sýnir ljóslega, að hér er rætt um stórum verri kjör og óhagstæðari Íslendingum til handa, en Norðmenn tryggðu sér. Þó vakti sá samningur miklar deilur í Noregi sakir þess, hve óhagstæður hann þótti í ýmsum greinum.

Allt tal stjórnliða um stórhug og myndarbrag af þeirra hálfu í sambandi við þetta alúminíummál, er fleipur. Þar birtist í enn einni mynd hin gróna ótrú, sem núverandi ráðamenn hafa á þróunarmöguleikum íslenzkra atvinnuvega, vanmat þeirra á vilja og getu þjóðarinnar til að hagnýta landsins gæði. Í þessari afstöðu felst ekki stórhugur, heldur uppgjöf. Íslenzk þjóð þarf að láta valdhafana skilja, að hún er staðráðin í að nytja auðlindir sínar sjálf og ein. Hún þarf að láta þá skilja, að í öllum skiptum við erlenda menn, jafnt einstaklinga sem þjóðir, skal fylgja þeirri stefnu, sem sæmir fullvalda og sjálfstæðu ríki. Vilji valdhafarnir ekki hlíta þeim starfsháttum, ber þeim að víkja. — Góða nótt.