10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

Almennar stjórnmálaumræður

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. forsrh. fyrir hin hlýju og vinsamlegu orð hans í minn garð. Um leið óska ég hæstv. fjmrh. velfarnaðar í hinu nýja starfi.

Herra forseti. Það er hægt að búa til margvíslegar, ólíkar myndir með tölum, — myndir, sem út af fyrir sig eru ekki rangar, en geta verið villandi eftir því, á hvern hátt þær eru notaðar. Það gefur t.d. rétta mynd í samanburði að miða við sömu krónutölu, ef verðlag og kaupgjald er stöðugt, jafnt. En þetta verður villandi, þegar kaupgjald og verðlag er á mikilli hreyfingu.

Við skulum nefna eitt hugsað dæmi. Maður hefur haft 100 þús. kr. tekjur og borgar af þeim í útsvar 10 þús. kr., eða 10% af tekjum sínum. Nú skulum við segja, að hann kynni annað ár að hafa 150 þús. kr. og borgar þá 12 þús. kr. af því í útsvar, eða 8%. Útsvarið hefur hækkað að krónutölu, en lækkað í prósentum af tekjum hans. Með öðrum orðum er í rauninni hægt að segja með sanni, að útsvar þessa manns hafi samtímis bæði hækkað og lækkað. Þannig má nota tölurnar á margvíslegan hátt. Þetta sýnir, að menn verða við notkun talna að hafa í huga, á hverju er byggt, við hvað er miðað, hverjar eru forsendurnar, til þess að unnt sé að meta, hvort það er sambærilegt, sem verið er að bera saman.

Þegar við rennum augum yfir það, hvernig þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur Íslendinga hafa breytzt, má gera þann samanburð á margvíslegan hátt. Við skulum reyna að átta okkur á því, hverjar breytingar hafa þar á orðið síðustu 5–6 ár.

Ef við athugum málið fyrst í krónutölu, þá var þjóðarframleiðslan árið 1959 um 7.200 millj. kr. Á s.l. ári var hún um 17.100 millj. kr. Þjóðarframleiðslan hefur þannig aukizt í krónutölu um 137% á þessu tímabili. Ef við miðum hins vegar við fast verðlag, tökum þjóðartekjurnar 1959 og 1964 og umreiknum þær til verðlags 1960, hafa þær vaxið á þessu 5 ára tímabili um 34%. En ef við reiknum aukningu þjóðarteknanna á mann, er hún um 18%.

Þegar menn reyna að gera sér grein fyrir því, hversu miklar eru heildarálögur hins opinbera, þá er nú orðið algengt víða að miða við það, hve hár hundraðshluti þær eru af þjóðarframleiðslunni. Þá er átt við beina og óbeina skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

Árið 1963 tóku ríki og sveitarfélög hér á landi til sinna þarfa um 27% af þjóðarframleiðslunni. Árið 1964 var þessi hlutfallstala nokkru lægri, eða 25.6% . En berum okkur saman við nokkur nágrannalönd. Árið 1963 þegar hlutfall okkar var 27%, tóku Danir 29,4% af þjóðarframleiðslu sinni til opinberra þarfa, Bretar 32%, Vestur-Þjóðverjar og Norðmenn 38% og Svíar 41%.

Nú er það oft ekki aðalatriðið í augum manna, hvað er borgað í opinber gjöld, heldur hvernig þeir eru látnir borga það. Maður, sem á að greiða ákveðna upphæð til opinberra þarfa, verður oft gramur, ef hann á að snara henni út í beinhörðum peningum sem tekjuskatti eða útsvari. Málið mundi líta öðruvísi út, ef búið væri að koma á staðgreiðslukerfi og gjöldin væru tekin jafnóðum af launum manna og þeirra er aflað. En bezt virðist fólkið sætta sig við það, ef skattgjaldið er beinlínis innifalið í vöruverðinu sem söluskattur eða tollur.

Þetta er ekkert einsdæmi hér á landi. Þannig er þetta alls staðar. Yfirleitt er þróunin sú í grannlöndum okkar, í allri Norður- og Vestur–Evrópu, að menn vilja komast sem fyrst og sem mest burt frá hinum beinu sköttum og yfir í óbeina.

Beinir skattar, þ.e. tekjuskattur og útsvar, námu 81/2% af þjóðartekjum okkar árið 1958, en 6.3% árið 1964. En með þeim þjóðum, sem ég nefndi áðan, eru beinu skattarnir stærri hluti af þjóðarframleiðslunni en hér, eða frá 11 upp í 18%.

Hér á landi hefur löngum sýnzt sitt hverjum um það, með hverjum hætti hið opinbera ætti að ná inn tekjum sínum. Um tíma einblíndu menn á aðflutningsgjöld með þeim afleiðingum, að þau voru orðin margfalt hærri hér, en þekktist í nokkru nágrannalandi og ólöglegur innflutningur í stórum stíl á fjölda vörutegunda. Þróunin er sú annars staðar, m.a. í viðskipta- og efnahagsbandalögum V.-Evrópu, að færa niður tolla. Að því sama höfum við Íslendingar stefnt undanfarin ár og verðum að halda því starfi áfram.

Fyrir 6 árum voru tekjuskattsgreiðendur hér á landi um 62 þús. talsins, en það voru um 79% af öllum framteljendum í landinu. Eftir skattalagabreytinguna 1960 hrapaði þessi tala úr 62 þús. niður í 15 þús., þannig að það ár voru það ekki nema 19% af öllum framteljendum, sem greiddu tekjuskatt. Eins og kunnugt er, hefur þróunin í launa- og verðlagsmálum verið sú hin síðustu ár, að áhrif hinna miklu tekjuskattsbreytinga 1960 hafa orðið minni, en til var ætlazt. Á s.l. ári voru tekjuskattsgreiðendur 33 þús., en samt sem áður og þrátt fyrir fólksfjölgun voru þeir ekki nema röskur helmingur af tölu þeirra fimm árum áður.

Sú stefna að draga úr beinu sköttunum á ekki einungis við tekjuskatt, heldur eigi síður útsvar, því að fyrir flesta skattborgara er tekjuskatturinn aðeins litill hluti á móti útsvarinu. Heildarupphæð útsvaranna er á valdi hverrar sveitarstjórnar. Stjórnarskrá okkar og löggjöf veitir sveitarstjórnunum sjálfstæði og þau ráða því að mestu sjálf, hversu mikið þau vilja taka í heild í útsvörum til sinna þarfa.

Það, sem löggjafinn hefur verið að gera undanfarin ár varðandi útsvarsmálin, er fyrst og fremst að skapa samræmi og festu í útsvarsálagningu. Áður gátu sveitarfélögin jafnað niður eftir efnum og ástæðum og voru þá mjög mismunandi reglur í hinum ýmsu sveitarfélögum. Nú er búið að lögfesta einn ákveðinn útsvarsstiga, sem þau öll verða að fylgja. Hins vegar hafa sveitarfélögin heimild til þess að veita afslátt frá þeim stiga eða leggja álag á hann. En heildarupphæð útsvaranna er á valdi sveitarfélaganna. Í annan stað hefur viðleitni hjá Alþingi og ríkisstjórn miðast að því að útvega sveitarfélögum nýja tekjustofna til þess að létta undir með þeim og gera þeim kleift að hafa útsvörin lægri, en þau ella mundu verða. Vil ég þar nefna hluta söluskatts, tolla og landsútsvar.

Frá stofnun Sambands ísl. sveitarfélaga hefur það verið baráttumál þeirra samtaka að koma á fót lánsstofnun fyrir sveitarfélögin til þess að greiða úr þörf þeirra fyrir stofnlán og rekstrarlán. Fyrir hálfu öðru ári var sett nefnd á laggirnar til þess að gera till. um það, hvernig bezt væri að leysa lánsfjármál sveitarfélaganna. Sú nefnd náði samstöðu um þá till., að stofnaður verði lánasjóður sveitarfélaganna. Þegar þessi stofnun verður að veruleika, mun hún verða lyftistöng fyrir sveitarfélögin og þörf sveitarfélaganna fyrir útsvarsálögur á eitthvað að minnka, þegar hagkvæm lán verða fáanleg til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda þeirra.

Ef litið er á tekjuöflunarmál hins opinbera í heild, kunna menn að spyrja: Ef talið er, að lækka beri beinu skattana og að lækka þurfi tollana, hvar á hið opinbera þá að taka tekjur sínar? Eins og ég vék að, hefur þróunin í mörgum löndum gengið meir og meir í áttina frá beinum sköttum til óbeinna skatta. Og hvað snertir óbeinu skattana hafa þeir færzt yfir í það form að vera skattur á neyzlu í einhverju formi, á innlend viðskipti. Þeir eru ýmist lagðir á vöruna á hverju viðskiptastigi, við framleiðslu, heildsölu, smásölu o.s.frv., þannig að varan verður margskattlögð eða þeir leggjast aðeins á eitt viðskiptastig, þ.e. framleiðslu, heildsölu eða smásölu. í fyrra dæminu er talað um fjölstigaskatt, í hinu síðara um eins stigs skatt.

Við Íslendingar höfum reynt flestar þessar aðferðir. Árið 1960 var eftir rækilega athugun valinn smásöluskattur, þ.e. söluskattur á síðasta stigi viðskipta. Var þá stuðzt við reynslu okkar sjálfra, en einnig við reynslu grannþjóða, fyrst og fremst Norðmanna og Svía.

Á síðustu árum hafa menn fengið vaxandi áhuga á nýju kerfi viðskipta- eða söluskatts, sem þykir réttlátara og sanngjarnara en þau kerfi, sem hingað til hafa verið notuð. Þetta er það, sem á Norðurlandamálum er kallað Merværdiskat, en hefur hér verið kallaður verðauka- eða virðisaukaskattur. Þessi skattur er greiddur af þeim verðmætisauka, sem verður á vörunni á hverju framleiðslu- eða sölustigi. Á framleiðslustigi er greitt af mismun á söluverði hinnar framleiddu vöru og innkaupsverði hrávaranna, á síðari stigum af söluverði og innkaupsverði. Í framkvæmd er það þannig, að sá, sem selur vöru, innheimtir af henni skatt hjá kaupanda hverju sinni, en í lok innheimtutímabilsins má hann draga frá þeim skatti þann skatt, sem hann hefur sjálfur áður greitt af innkeyptum vörum. Við skulum nefna dæmi. Framleiðandi kaupir hráefni á 100 þús. kr., selur fullunnar vörur fyrir 250 þús. kr. Ef skatturinn er 10%, hefur hann greitt af hrávörukaupunum 10 þús. kr. í skatt. Af þeim, sem hann selur hinar framleiddu vörur sínar, tekur hann 25 þús. kr. í skatt, en frá þeim má hann draga þær 10 þús., sem hann sjálfur var áður búinn að greiða vegna hráefniskaupa, en mismuninum ber að skila. Samanlögð verðmætisaukning á hverju viðskiptastigi, sem varan fer um, svarar til smásöluverðs.

Kostir þessa kerfis eru taldir þeir helzt: 1) Að það veldur yfirleitt ekki tvísköttun og þess vegna ekki misrétti milli fyrirtækja. 2) Það er talið auðveldara að hafa eftirlit með því, að skatturinn komi til skila, þar sem rekja má viðskiptin stig af stigi og segja má, að kerfið hafi innbyggt eftirlit í sjálfu sér. 3) Með því að dreifa innheimtunni á fleiri stig, en eitt, verður skattgreiðslan ekki eins tilfinnanleg og ef skatturinn væri innheimtur allur t.d. á lokastigi.

Í Danmörku og í Svíþjóð hafa farið fram ýtarlegar athuganir og rannsóknir á þessu skattakerfi með það fyrir augum, að þessi lönd taki það upp hjá sér. Talið er líklegt, að Danir lögleiði það hjá sér bráðlega. Svíar hafa gefið út mikið rit um þetta mál, þar sem það er rakið rækilega. Sú nefnd, sem fjallaði þar um málið, mælti einróma með þessu nýja skattkerfi, en þing og stjórn Svíþjóðar hafa ekki enn tekið endanlega afstöðu til þess.

Einnig hefur þetta verið mjög á döfinni innan Efnahagsbandalags Evrópu og er talið, að innan tíðar muni það lögleitt í þátttökuríkjum þess.

Eftir þær tilraunir, sem gerðar hafa verið hjá okkur Íslendingum í áratugi um fyrirkomulag óbeinna skatta, væri æskilegt, ef unnt væri að finna upp kerfi í stað þeirra, sem fyrir eru, sem er laust við ýmsa þá annmarka, sem hin fyrri hafa. Ég hef fyrir nokkru falið ráðuneytisstjóra fjmrn. að kynna sér allt þetta mál og semja um það álitsgerð og till.

Eitt af þeim málum, sem undanfarin ár hafa verið til athugunar í fjmrn., er sú hugmynd, hvort breyta skuli mynt og taka upp stærri mynteiningu, en nú er. Árið 1961 var þeim Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra, KIemenz Tryggvasyni hagstofustjóra og Sigtryggi KIemenzsyni ráðuneytisstjóra falið að athuga þetta mál og semja um það greinargerð og till. Niðurstaða þeirra varð sú, að þeir mæla eindregið með því, að í þessa breytingu verði ráðizt. Eins og kunnugt er, hafa Frakkar og Finnar gert slíka breytingu með því að strika tvö núll aftan af, þ.e.a.s. taka upp einn franka og eitt mark í stað hundrað áður.

Embættismennirnir þrír leggja til, að hafinn verði undirbúningur að því að taka upp nýja mynteiningu, tíu sinnum stærri en núgildandi krónu. Aðalrökin fyrir breytingunni eru þessi: Með stærri mynteiningu mundu allar myntir undir tíu aurum falla niður og með því sparast verulegur kostnaður af útgáfu tiltölulega dýrrar smámyntar. Í því sambandi má upplýsa, að það kostar a.m.k. 17 aura að búa til einseyring og 47 aura að búa til fimmeyring. Verulegt hagræði og vinnusparnaður mundi fást með stærri mynt og niðurfellingu eins aukastafs úr öllum peningaupphæðum. Breyting í verðmætari einingu mundi hafa góð sálræn áhrif og stuðla að breyttri afstöðu til verðgildis krónunnar, sem mjög hefur rýrnað vegna verðbólguþróunar s.l. áratugi.

Íslendingar hafa jafnan verið stolt þjóð, og er ekki líklegt, að það mundi vekja þægilega stolts- og þjóðernistilfinningu í brjóstum manna, þegar íslenzka krónan væri orðin verðmesta krónan á Norðurlöndum.

Þetta mál er á athugunarstigi, en eftir rækilega athugun hef ég sannfærzt um, að það væri rétt spor að breyta mynteiningu okkar þannig, að hún verði tíu sinnum verðmeiri.

Við heyrum það á hverju ári, þegar fjárlög eru á ferðinni, að nú hafi verið lögð fram hæstu fjárlög í sögu landsins. En þegar þjóðarframleiðslan hefur meira en tvöfaldazt í krónutölu, þá er kannske ekki rökrétt að álykta, að upphæðir fjárlaga eða fjárhagsáætlanir sveitarfélaga geti staðið í stað eða jafnvel lækkaðað krónutölu. Þrátt fyrir það að fjárlög hafi hækkað í krónutölu svo sem raun ber vitni um, eru þau samt lægra hlutfall af þjóðarframleiðslunni en áður. Rétt er og að hafa í huga, að af því fé, sem ríkissjóður innheimtir af borgurunum, fer röskur helmingur aftur beint til borgaranna. Árið 1962 voru tekjur ríkissjóðs um 2.650 millj., en af þessari upphæð fóru 1.416 millj. í greiðslur til almannatrygginga, atvinnuveganna, í niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur. Ríkið innheimtir þetta fé og skilar því aftur. Ríkið er að þessu leyti tæki til tekjumiðlunar.

Tvo fjárlagaliði vildi ég gera hér að umtalsefni vegna þess, hve mjög þeir hafa hækkað og hve þýðingarmiklir þættir þeir eru í félagslegum umbótum hins íslenzka þjóðfélags. Þessir tveir þættir eru almannatryggingar og skólamálin.

Framlög ríkissjóðs til lífeyris- og sjúkratrygginga hafa hækkað frá árinu 1959 úr 77 millj. upp í 543 millj. kr., eða um sjöfaldazt. Fjölskyldubætur voru áður ekki greiddar með fyrsta og öðru barni, en eru nú greiddar með öllum börnum og upphæð bótanna á hvert barn hækkar. Hjón með tvö börn fengu fyrir 1960 engar fjölskyldubætur, en fá nú 6 þús. kr. Hjón með þrjú börn fengu áður 1.165 kr., en nú 9 þús. Þá er elli- og örorkulífeyrir. Hjón, sem árið 1959 fengu 15.900 í lífeyri, fá nú 43.400. Felldur var niður munurinn á fyrsta og öðru verðlagssvæði, en á öðru verðlagssvæði voru bótagreiðslur áður töluvert lægri. Þeir, sem þar búa, fá því nú sömu greiðslur og á fyrsta verðlagssvæði, þannig að hækkunin er miklu meiri á öllum tryggingum hjá íbúum annars verðlagssvæðis. Þá má nefna afnám skerðingarákvæðanna svokölluðu. Ef gamalt fólk, sem komið var á ellilífeyri, eða fólk, sem hafði slasazt og fékk örorkubætur, vann sér eitthvað inn annars staðar, voru þær tekjur áður dregnar eftir vissum reglum frá bótagreiðslum. Nú eru þessar skerðingarreglur ekki lengur til.

Skólamálin eru annar meginþáttur, sem hefur haft veruleg áhrif á fjárlög til hækkunar. Til byggingar barnaskóla, gagnfræðaskóla, héraðsskóla, húsmæðraskóla og iðnskóla var árið 1958 varið 14.4 millj. kr. úr ríkissjóði, en í ár 119.2 millj. og rekstrarkostnaður þessara skóla hefur hækkað frá árinu 1958 úr 65.9 millj. upp í 263 millj.

Það er mikilvægt, að hið mikla fé, sem varið er til skólanna, nýtist sem bezt, bæði að því er snertir stofn- og rekstrarkostnað. Mikilvægast er þó, að sú menntun, sem skólarnir veita, samsvari þeim kröfum, sem breyttar og breytilegar þjóðfélagsaðstæður gera til þeirra, en breyttar þjóðfélagsaðstæður kalla stöðugt á þróun og umbætur í skóla- og menntamálum. Þar getum við hagnýtt okkur margt af reynslu annarra þjóða og aðhæft okkar staðháttum, þó að við þurfum fyrst og fremst að byggja á okkar eigin reynslu og sögu.

Ég vil leggja á það áherzlu, að það er orðin

aðkallandi nauðsyn að koma á fót skipulegum, vísindalegum rannsóknum í skóla- og menntamálum okkar Íslendinga og því fyrr því betra.

Þegar við Íslendingar byggjum upp þjóðfélag okkar, notfærum vísindi, tækni, komum upp nýjum stofnunum, bætum þjónustu og kjör, þá verðum við jafnan að hafa í huga, að í sambandi við allar slíkar fjárfrekar framkvæmdir og umbætur þarf að framkvæma það vandasama mat, hvað er æskilegt að gera og hvað unnt að gera. Undirstaðan undir því, hvað unnt er að gera, er burðarþol þjóðfélagsins, þ.e. atvinnuvegirnir, sem allt byggist á. Það er ekki nóg að segja: Það er æskilegt að stofna þessa stöðu eða koma þessari stofnun á fót, — og Þetta gera aðrar þjóðir. — Það er ekki víst, að 180 þús. manna þjóð geti gert það sama og 180 millj. þjóð. Allt veltur hér á undirstöðunni. Við verðum að byggja á bjargi, en ekki sandi. Ef of mikið er lagt á útflutningsatvinnuvegina, sem eiga í harðri samkeppni við erlendar þjóðir, þá er verið að heimta meira, en burðarþol þjóðfélagsins leyfir.

Menntamálin, tækni og vísindi verða eitt aðalviðfangsefni íslenzku þjóðarinnar á næstu árum. Það verður að búa vel að vísindum og vísindamönnum, búa þeim kjör, sem eru boðleg og við hæfi þjóðarinnar, — kjör, sem samrýmast burðarþoli hins íslenzka þjóðfélags.

Vandi stjórnmálamanna er þessi: að meta hvað er æskilegt og hvað er unnt og í hvaða röð framkvæmdir og umbætur eigi að koma.

Góðærum fylgja, oft örðug ár. Framsækni og varúð verða að haldast í hendur, ef vel á að fara. Fyrir litla þjóð má svo lítið út af bera. En með þessi meginatriði, sem ég minntist á, í huga, verður að sækja með opnum augum og einbeittum hug til æ betra og réttlátara þjóðfélags, til blessunar í bráð og lengd fyrir land og lýð.