10.05.1965
Sameinað þing: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir útvarpshlustendur. Tvennt er það, sem hverjum manni ætti að vera ljóst um þessar mundir. Annað er það, hversu ótryggt efnahagsástandið er sakir verðbólgunnar. Hitt er það, hversu veik ríkisstj. er og fálmandi í aðgerðum sínum. Það dylst ekki heldur, að ríkisstj. hefur misst trúna á sjálfa sig og er það vissulega mjög alvarlegt áfall, því að framan af stjórnartímabilinu skorti hana sízt mikillæti í orðum og lét gjarnan skammt stórra högga á milli.

Nú er skylt að gera ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi upphaflega haft einlægan ásetning um varanlegar úrbætur í efnahags- og stjórnmálum. En hitt er jafnvíst, að henni hefur mistekizt svo hrapallega, að lengra verður ekki komizt. Jafnvægisleysið í efnahagslífinu getur tæplega orðið meira en nú er. Ókyrrðin í kaupgjaldsmálunum má ekki meiri vera. Stjórnmálaástandið getur naumast orðið ótryggara.

Verðbólguþróunin hefur oft verið mikil og illviðráðanleg siðasta aldarfjórðung, en tólfunum hefur kastað síðustu 5 árin, því að á þessu stutta skeiði hefur verðbólguvöxturinn reynzt meiri en samanlagt á 15–20 árum áður. Þó er þess sérstaklega að minnast, að efnahagsaðgerðir ríkisstj., sem hófust í febrúar 1960, áttu alveg sérstaklega að leiða til verðbólgustöðvunar, enda voru aðgerðir þessar nefndar viðreisn efnahagslífsins. En sagan hefur hins vegar reynzt óljúgfróð um eðli þeirrar viðreisnar, enda tekur enginn sér þetta nafn í munn nema í háði. Þess vegna er það lýðum ljóst og raunar ríkisstj. sjálfri, að efnahagsaðgerðir 1960 og æ síðan voru ekki til þess lagaðar að hemja verðbólguna. Þvert á móti á efnahagsþróunin síðan 1960–61 að langmestu leyti rætur að rekja til þessara aðgerða. Þær hafa m.ö.o. haft þveröfug áhrif við það, sem til var ætlazt. Tíðar gengisfellingar, vaxtahækkanir og taumlaus skattheimta, svo að nokkuð sé nefnt, hefur komið meira róti á efnahagslífið, en því sé fært að þola, þó að ríkisstj. hafi að nafninu til fleytt sjálfri sér áfram á ávöxtum mikils sjávarafla og hagstæðra viðskiptakjara, sem einkennt hefur stjórnartímabilið. Annars er ástæða til að sakna þess í ræðu fráfarandi fjmrh., sem hér talaði áðan, að hann gerði enga grein fyrir hag og afkomu ríkissjóðs, sem þó hefði verið ástæða til á þessum tímamótum.

Eitt af því, sem verið hefur mest áberandi í fari ríkisstj., er þrálátt og meinlegt skilningsleysi á eðli íslenzkra atvinnuvega og þar af leiðandi á þörfum þeirra. Ríkisstj. hefur sótt fyrirmyndir og fyrirmæli, meira en góðu hófi gegnir, til erlendra þjóða og reynt að heimfæra efnahagslögmál auðvalds- og iðnaðarstórvelda upp á okkar sérstaka efnahagskerfi, sem grundvallast aðallega á sjósókn og kvikfjárrækt og iðnaði, sem bundinn er þessum frumþáttum atvinnulífsins og innanlandsþörfum fyrir neyzluvörur og atvinnu handa ört vaxandi þjóð. Þannig hefur ríkisstj. alltaf verið að reikna út og halda því að þjóðinni, að höfuðatvinnuvegir okkar séu svo ótraustir, að á þeim sé ekki hægt að byggja eðlilegan hagvöxt. Sem betur fer hefur þetta reynzt rangt. Hagvöxtur og framleiðslugeta aðalatvinnuvega okkar er út af fyrir sig ekki áhyggjuefni. Auðlindir landsins, fiskimiðin, ræktunarlandið og verksmiðjukosturinn, allt hefur þetta reynzt nýtilegt og sannað sem fyrr, að þetta eru og hljóta að verða meginstoðir undir atvinnulífinu og þeim efnahagslegu framförum, sem að er keppt. Þessir eru okkar íslenzku bjargræðisvegir. Á þá verðum við að treysta fyrst og fremst og að þeim ber að hlynna með ráðstöfunum, sem ætlandi sé, að verði þeim til eflingar, en ekki til niðurdreps.

Verksmiðjuiðnaðurinn er yngsta grein atvinnulífsins hér á landi og hefur vaxið hröðum skrefum undanfarna áratugi og átt meginþáttinn í að taka við þeirri öru fólksfjölgun, sem orðið hefur í landinu. Gildi iðnaðarins felst ekki sízt í því, að hann hefur reynzt þessa megnugur. Getur hver maður séð, hvers virði það eitt út af fyrir sig er fyrir tilvist þjóðarinnar. En iðnaðurinn hefur einnig stuðlað að stóraukinni framleiðslu og nýtingu innlendra hráefna og aukið með því verðmæti sjávarafla og búsafurða og þannig orðið frumframleiðslunni og þeim, sem að henni starfa, ómetanleg aðstoð.

En hvernig er þá búið að verksmiðjuiðnaðinum undir ríkjandi stjórnarfari? Því má svara með orðum iðnrekendanna sjálfra og iðnverkafólksins, sem á hag sinn og atvinnu undir þessari starfsemi. Það er samdóma álít þessara aðila, að óvissa ríki um framtíð margra greina íslenzks iðnaðar og þessi óvissa stafar fyrst og fremst af aðgerðum ríkisstj. í tolla- og verzlunarmálum: Hjá ríkisstj. hefur vegið þyngra á metunum að auka skyndilega innflutning erlendrar iðnaðarvöru, en að treysta hag sambærilegs iðnaðar í landinu sjálfu og því er svo komið, að alls óvíst er, hversu fer um ýmsa innlenda iðnaðarstarfsemi í næstu framtíð. Stefnubreytingar er því þörf í málefnum iðnaðarins, eins og svo margs annars í þjóðmálum okkar, ef ekki á verra af að hljótast. Að sjálfsögðu er ekki fram á það farið að vernda iðnaðinn óskorað og um alla framtíð með höftum og háum innflutningstollum á erlendum iðnaðarvörum. En eigi að síður verður að taka tillit til þeirra aðstæðna, sem hér hafa lengi verið í uppbyggingu iðnaðarins og þess sérstaklega gætt, að skyndileg breyting á innflutnings- og tollamálum leiði ekki til þess, að innlendur iðnaður verði ósamkeppnisfær, áður en ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að hann geti lagað sig að breyttum aðstæðum og samkeppnisaðstöðu. Þess vegna ber nú, áður en rýmkað er um innflutning erlendra iðnaðarvara, að tryggja iðnaðinum aðgang að hagstæðum stofnlánum og auknum rekstrarlánum, færa niður aðflutningsgjöld af vélum og hráefnum til iðnaðar og efla leiðbeiningar- og hagræðingarstarfsemi og veita sérstakt fjármagn með hagstæðum kjörum til framleiðniaukningar. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að fyrir Alþ. liggur nú sem oft áður till. frá framsóknarþm. um það, að Seðlabankinn endurkaupi hráefna– og afurðavíxla af iðnaðinum, en ríkisstj. hefur enn ekki léð máls á samþykkt hennar, hvað sem síðar kann að verða. Hversu gagnlegur sem frjáls innflutningur kann að vera í sjálfu sér, má þó ekki gleymast, að á fleira er að líta í því sambandi. Innflutningsfrelsið verður þjóðinni ekki að gagni, ef það leiðir til samdráttar í lífvænlegum innlendum iðnaði. Og langmest af iðnaði okkar er einmitt af því tagi, ef rétt er að honum búið, auk þess sem hann er nauðsynlegur til þess að taka við mestum hluta hinnar öru fólksaukningar.

Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir geta ekki orðið uppbót fyrir þann iðnað, sem ríkisstj. er nú sem óðast að drepa niður, a.m.k. ekki þann iðnað, sem byggður hefur verið upp á Akureyri og annars staðar norðanlands, því að ekki er annað sýnna en ríkisstj. ætli með aðgerðum sínum í stóriðjumálum og iðnaðarmálum almennt að lama uppbyggingu Akureyrar og koma í veg fyrir nauðsynlega eflingu hennar á sviði atvinnu- og menningarmála. Tal stjórnarflokkanna nú um framkvæmdasjóð strjálbýlisins, sem fái fé sitt m.a. af hagnaði og sköttum af alúminverksmiðju í Straumsvík, er lítils virði móti þeirri röskun, sem hver stórframkvæmdin af annarri á suðvesturhorni landsins hlýtur að hafa í för með sér og skal þó sannarlega ekki gert litið úr nauðsyn slíks sjóðs, enda er það eitt af höfuðbaráttumálum Framsfl. Eins og síðustu upplýsingar um stóriðjumálin liggja nú fyrir, er ful ástæða til að krefjast endurskoðunar á öllu málinu, t.d. að því er varðar virkjun Dettifoss, enda er margt, sem bendir til þess nú, að Dettifossvirkjun sé hagstæðari, en fram kom í fyrstu skýrslum ríkisstj. í þessu máli.

Ríkisstj., sem í fyrstu var bólgin af mikillæti og þóttist hafa ráð við hverjum vanda, er nú bæði ráðvillt og hikandi í aðgerðum sínum. Í öllum meginatriðum hefur hin upphaflega stefna, eins og hún var túlkuð, beðið skipbrot. Verðbólgan hefur aldrei vaxið örar en í tíð núv. ríkisstj. Kaupgjaldsmálin hafa aldrei verið ótryggari. Skattrán hefur viðgengizt og náði hámarki á síðasta skattári og litlar líkur til, að á því verði breyting. Óbeinir skattar margfaldast með hverju ári sem líður og tekjuskattur er ótæpt innheimtur þrátt fyrir gefin loforð um að fella hann niður af almennum launatekjum. Hluti launamanna af þjóðartekjunum vex ekkert, þrátt fyrir aukna þjóðarframleiðslu og stórbætt viðskiptakjör. Málefni þeirra landshluta, sem eiga, í tímabundnum atvinnuerfiðleikum, hafa verið látin reka á reiðanum og væri sannarlega æskilegt, að í þeim efnum gætti meiri „röskleika“, — svo að notuð séu orð hæstv. forsrh. í ræðu hans hér í kvöld, — heldur en verið hefur til þessa.

Það er aðeins eitt, sem ekki breytist. Ríkisstj. lafir enn í völdum. Stjórnarherrarnir virðast kunna það eitt, sem þarf til þess að hanga á naumum meiri hl. á Alþ., þó að þeir hafi fyrir löngu misst taumhald á stjórn landsins og glatað trausti hjá þjóðinni og ekki getur slíkt talizt stjórnvizka, heldur einber þrjózka. Auðvitað er ekkert sjálfsagðara, en að sú ríkisstj. segi af sér, sem komin er í málefnaþrot, enda er það beinlínis eðli lýðræðislegra stjórnarhátta, að þannig sé að unnið. Í stjórnmálum eiga menn að standa eða falla með verkum sínum. Þess er því e.t.v. enn að vænta, að núv. hæstv. ríkisstj, segi fljótlega af sér og skulu það verða mín síðustu orð hér í kvöld, að sú ráðabreytni mundi sízt verða Íslands óhamingju að vopni. — Góða nótt.