11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eins og að undanförnu eru útvarpsumr. við þinglok. Er þetta venja, sem ekki verður út af brugðið. Það getur verið upplýsandi fyrir áheyrendur að fá þannig nokkurt yfirlit yfir gang mála á því þingi, sem er að ljúka, þótt frá þeim hafi verið skýrt áður í blöðum og útvarpi yfir þingtímann. En umr. snúast ekki alltaf um það, sem hefur gerzt á hv. Alþ., heldur oft um það, sem hefur ekki gerzt, en stjórnarandstæðingar halda fram, að ríkisstj. hafi í hyggju að gera þjóðinni til tjóns. Þannig var það fyrir kosningar 1963 fullyrt, að stjórnarflokkarnir ætluðu að láta Ísland gerast aðila að Efnahagsbandalagi Evrópu með þeim skilyrðum, sem gætu leitt til glötunar sjálfstæðis og tilveru Íslendinga sem sérstakrar þjóðar. Einnig var þá fullyrt, að ríkisstj. væri ákveðin í að framlengja fiskveiðaundanþáguna við Breta, sem gekk úr gildi 1. febr. 1964. Enn hafa ýmsir stjórnarandstæðingar fullyrðingar í frammi um viðleitni ríkisstj. til þess að kasta frelsi og hagsmunum landsmanna fyrir borð. Erlent fjármagn mega margir stjórnarandstæðingar ekki heyra nefnt. Það er í þeirra augum bölvaldur og ógnun við þjóðerni og frelsi, efnalegt og menningarlegt. Stóryrði, svo sem landráð og annað slíkt, eru viðhöfð hér í þingsölunum vegna frv. um stórvirkjun og umr. um stóriðju. Af ótta við, að svo gæti farið, að samningar takist við Swiss Aluminium um alúminíumbræðslu hér á landi, hafa Alþb.-menn ekki viljað samþykkja heimild til stórvirkjunar í Þjórsá heldur viljað takmarka heimildina við það, sem Íslendingar þurfa til eigin nota næstu árin. Þetta, sem hér er á minnzt, eru dæmi um öfgakenndan málflutning, sem er allt of algengur á sviði stjórnmálanna. Þannig er oft ruglað um fyrir fólki og því gert erfitt um vik að mynda sér rökstudda skoðun á málunum.

Frelsi þjóðarinnar er hornsteinn allra framfara og velgengni. Frelsi einstaklingsins til að velja og hafna er innsigli lýðræðislegs stjórnarfars. Í lýðræðisþjóðfélagi hefur hver kjósandi áhrif á úrslit kosninga. Þjóðin velur og ræður, hvernig Alþ. er skipað, hverjir fara með völdin milli kosninga. Það er því mikið í húfi, að almenningur fylgist með gangi þjóðmálanna og myndi sér sjálfstæða skoðun um framvindu þeirra.

Framsóknarmenn og Alþb.-menn reyna af veikum mætti að deila á núv. ríkisstj. fyrir vaxandi dýrtíð og annað, sem þeir telja, að betur mætti fara í þjóðlífinu. Lúðvík Jósefsson og Eysteinn Jónsson hrópuðu til þjóðarinnar í gærkvöld og óskuðu eftir auknu trausti, til þess að þeir gætu látið ljós sitt skína og fengið völdin. Það eru ekki mörg ár síðan framsóknarmenn og Alþb.-menn fóru með stjórn landsins. Flestir munu minnast þess giftuleysis, sem fylgdi vinstri stjórninni frá byrjun til enda. Fáir munu taka alvarlega gylliloforð þessara flokka, ef þeim væri gefið tækifæri til þess að mynda ríkisstj. að nýju. Till. hafa stjórnarandstæðingar gert í ýmsum málum á Alþ. Till. þessar hafa vissulega verið athugaðar, en ávallt reynzt neikvæðar og til lítils nýtar. Það er því ekki við að búast, að þeir, sem engin úrræði höfðu á árunum 1957 og 1958 við vandanum, hafi nú ráð undir hverju rifi til lausnar erfiðleikum, sem alltaf eru fyrir hendi og hver ríkisstj. verður að finna lausn á. Vinstri stjórnin gafst upp eftir rúmlega tveggja ára valdatíma. Þeir, sem gerst þekkja, vita, að það var gæfa Íslands, að hún sat ekki lengur.

Sjálfstæði þjóðarinnar var í veði vegna skuldasöfnunar erlendis. Gjaldmiðillinn var verðlaus. Traust þjóðarinnar var á glötunarbarmi.

Traust þjóðarinnar út á við hefur unnizt aftur. Í stað gjaldeyrisskulda á þjóðin nú 1.600 millj. í gjaldeyrisvarasjóði. Íslenzkur gjaldmiðill er skráður í erlendum bönkum, eins og gerist með öðrum sjálfstæðum þjóðum. Atvinnulífið, sem var að stöðvast á dögum vinstri stjórnarinnar vegna verðbólgu og ráðleysis hefur verið blómlegra en nokkru sinni fyrr og atvinnuöryggi meira en áður.

Þegar um stjórnmálin er rætt, má vissulega viðurkenna, að margt mætti betur fara, en raun ber vitni. Vissulega hefur verðlag hækkað á vörum og þjónustu. En ásakanir á hendur ríkisstj. eru tæplega réttmætar fyrir þær sakir. Meginástæðan fyrir þeim verðhækkunum, sem orðið hafa, er sú, að fjöldi manna í flestum stéttum þjóðfélagsins hefur með vaxandi kröfum um bætt kjör í ýmsu formi, aukin þægindi, meiri framkvæmdir og hækkað kaup ýtt undir verðhækkanirnar. Vegna aukinnar framleiðslu hafa verðhækkanirnar ekki orðið til þess að gera lífskjörin lakari en áður. Þvert á móti hafa kjör almennings síðustu árin farið batnandi. Tekjuaukning landsmanna í flestum stéttum hefur gert almenningi fært að láta meira eftir sér en áður var. Almenningur gerir hærri kröfur nú en fyrir 5–10 árum til margs konar þæginda. Má m.a. nefna bifreiðar, heimilisvélar, betra húsnæði og húsbúnað, betri fatnað og jafnvel ferðalög, sem áður voru ekki algeng.

Tekjuaukningin hefur leyft það, að vaxandi kröfum hefur í seinni tíð verið fullnægt mun betur, en almenningur gat gert sér vonir um fyrir fáum árum. Kemur þar fleira til, en hækkað kaupgjald. Þar er einnig um að ræða öruggari og jafnari atvinnu og margföldun á hvers konar greiðslum frá almannatryggingum til landsmanna á ekki sízt drjúgan þátt í því, að kjörin eru almennt betri nú, en fyrir fáum árum. Þetta eru staðreyndir, sem ætti ekki að þurfa að deila um, þótt oft sé kvartað um hækkað verðlag, opinber gjöld, sem mörgum finnst of há. Opinber gjöld hér á landi eru þó lægri en í nágrannalöndunum. Minni hundraðshluti af tekjum manna er nú greiddur til ríkis og sveitarfélaga, en var á dögum vinstri stjórnarinnar.

Þótt þetta sé sannleikurinn, er eðlilegt; að almenningur haldi þeirri stefnu ákveðið fram, að unnið verði að lækkun opinberra gjalda, að stefnt verði að hækkun kaups, eftir því sem atvinnuvegirnir þola, að unnið verði ákveðið að því að byggja upp atvinnulífið með aukinni tækni, sem getur komið almenningi til góða. Verði kröfunum haldið innan þeirra takmarka, sem efnahagskerfið þolir, er öruggt, að hér á landi eru meiri möguleikar, en víða annars staðar til þess að bæta lífskjörin með hverju ári.

Núv. ríkisstj. hefur unnið ákveðið að því að efla atvinnuvegina. Þannig hefur fiskiskipaflotinn verið stóraukinn. Fiskibátarnir eru nú mun stærri, en áður og búnir öllum nýtízku tækjum til veiðanna. Þess vegna hefur aflinn aukizt hin siðari ár. Ný veiðitækni hefur verið upp tekin, sem ekki hefði verið hægt að koma við án þess að endurnýja og stækka fiskiflotann. Síldar- og fiskimjölsverksmiðjur hafa verið byggðar, ný fiskiðjuver hafa verið reist og ýmislegt gert til þess að nýta aflann betur og gera hann verðmætari, þótt enn sé mikið átak eftir í því sambandi að vinna, bæði í verkun og markaðsöflun fyrir afurðirnar. Án fyrirhyggju og stækkunar fiskibátaflotans hefði ekki tekizt að auka þjóðarframleiðsluna eins og raun ber vitni.

Tekjuaukningin er til komin vegna mikils kostnaðar, sem útgerðin hefur lagt í. Það væri mikill barnaskapur að ætla, að öll tekjuaukningin væri nettóhagnaður fyrir þjóðarbúið, eins og oft má skilja af stjórnarandstæðingum, þegar þeir ræða þessi mál. Þótt tekjuaukningin hafi orðið mest í sjávarútvegi, ber að geta þess, að aðrir atvinnuvegir hafa einnig eflzt í seinni tíð. Má þar nefna landbúnaðinn, sem stendur nú traustar og betur að vígi en áður. Ræktunin hefur aukizt og aldrei meira en s.l. ár, bústofninn hefur aukizt, en hagur bænda fer nokkuð batnandi. Margs konar löggjöf hefur verið sett til þess að bæta aðstöðu landbúnaðarins.

Þegar framsóknarmenn voru síðast í stjórn, voru gerðar ráðstafanir til þess að hækka jarðræktarstyrk á býli, sem höfðu tún undir 10 ha. stærð. Árið 1963 var þetta mark hækkað upp í 15 ha. Árið 1964 var markið hækkað í 25 ha. Það er að vísu ekkert lokamark, en hefur ýtt mjög mikið undir ræktunina, enda eru a.m.k. 3.800 bændur, sem njóta þeirrar aðstoðar, sem þetta ræktunartakmark veitir. Framsóknarmenn láta stundum að því liggja, að eiginlega sé þeim að þakka sú löggjöf, sem hér um ræðir. En mikið hafa þeir breytzt síðan 1957, ef það ætti að taka alvarlega. Það er einkennandi fyrir framsóknarmenn, að þeir þakka sér allt það, sem ríkisstj, gerir til framfara og góðs fyrir atvinnuvegina, þótt það hafi verið fjarri þeim að gera nokkuð í þá átt, þegar þeir fóru með völdin.

Á þessu þingi voru samþ. ný jarðræktarlög, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn. Gert er ráð fyrir; að jarðræktarframlag verði eftirleiðis reiknað út eftir sérstakri jarðræktarvísitölu. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að allir bændur komi sér upp súgþurrkun og tryggi sig þannig gegn óþurrkunum. Framlag til súgþurrkunar hefur verið hækkað sérstaklega mikið, til þess að því marki verði náð, að heyfengurinn náist ávallt óskemmdur. Lög um landgræðslu og gróðurvernd voru einnig samþ. á þessu þingi. Er þetta merk löggjöf, sem unnið verður eftir skipulega, þannig að örfoka lönd verði grædd upp og eftirlit haft með því, að sá gróður, sem fyrir hendi er, verði ekki skemmdur. Lög um búfjárrækt voru afgreidd á þessu þingi. Stefna þau að því að auka tilraunir í þágu búfjárræktarinnar og gerist þess vissulega þörf. Vænta bændur góðs af þessum lögum. Þá voru einnig afgreidd á þessu þingi girðingalög, sem tryggja betur, en áður, að ræktuð lönd verði ekki fyrir ágangi. Framlag til girðinga er einnig nokkuð aukið með þessum lögum. Bændaskólarnir hafa verið efldir og er nú aðsókn að þeim meiri en nokkru sinni fyrr. Er það vel, þar sem bændum er nauðsynlegt að kynna sér hin ýmsu fræði, sem að landbúnaði lúta. Nútímabúskapur er vísindagrein, sem þarfnast þekkingar.

Framhaldsdeildin við búnaðarskólann á Hvanneyri verður aukin, þannig að námstíminn verður eftirleiðis 3 ár í stað tveggja áður.

Þótt framfarir í landbúnaðinum hafi orðið meiri, en áður á síðustu árum, eiga bændur auðvitað alltaf við vandamál að etja. Auknar framkvæmdir, stækkun búanna og vélvæðing, sem mjög hefur aukizt, þurfa aukið fjármagn. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur nú starfað aðeins í 3 ár. Þó er gert ráð fyrir, að eigið fé deildarinnar á þessu ári nemi milli 70 og 80 millj. kr. Ef d. hefði notið laganna um lengri tíma, svo sem 10–15 ár, væri hún öflug og gæti fullnægt lánaþörf landbúnaðarins. En skrýtnir voru útreikningar Ásgeirs Bjarnasonar hér áðan í sambandi við vextina. Þá er gert ráð fyrir fjáröflun til viðbótar, 50 millj. kr. á þessu ári til stofnlánadeildarinnar. Er það byggt á áætlun, sem stjórn Búnaðarbankans gerði um útlán deildarinnar miðað við talsverða aukningu frá s.l. ári, en þá voru útlánin um 110 millj. kr. Auk þess var gert ráð fyrir, að veðdeildin fengi 10 millj. kr. að láni á þessu ári.

Eysteinn Jónsson taldi, að bændur væru lítið ánægðir með sinn hag, eins og nú er komið. Meira mark verður tekið á þeim bændum, sem tala öfgalaust og af skilningi um málin, heldur en því, sem framsóknarmenn fullyrða í pólitísku augnamiði. Rétt væri fyrir Eystein að spyrja bændur að því, hvort þeir óski eftir sams konar stjórnarfari og svipaðri meðferð á málefnum landbúnaðarins aftur, eins og var, meðan Framsókn sat í ríkisstj. og fór með landbúnaðarmálin.

Rafvæðingu sveitanna verður haldið áfram og hraðað, eftir því sem föng eru á, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

Um samgöngumál mætti ýmislegt segja. Vegalög hafa verið afgreidd. Vegáætlun til 4 ára var samþ. á þessu þingi. Gert er ráð fyrir að vinna að vegamálum á næstu 4 árum fyrir um 1.400 millj. kr. Á árinu 1965 er gert ráð fyrir að vinna fyrir 365 millj. kr. Þess má geta, að á árinu 1958, þegar vinstri stjórnin var við völd, voru framlög til vegamála 83 millj. kr. Vegagerðarvísitalan hefur hækkað síðan um 76%, en framlög til vegamála um 340%. Það fer illa á því, þegar stjórnarandstæðingar tala um, að litlu fé sé varið til vegamála. Það er þó rétt, að vegirnir þurfa mikið fé og meira fé, en þeir hafa fengið. Fyrir því er fullur skilningur í ríkisstj.

Framlög til flugvalla eru á árinu 1965 28.5 millj, kr. Þar af er nokkur hluti lánsfé, sem unnið verður fyrir á þessu ári. Á árinu 1958 var varið til flugvalla 5.8 millj. kr. Má af því sjá, að miðað við það eru framlög til flugvalla rífleg nú, þótt viðurkenna megi, að þau séu allt of lítil.

Í póst- og símamálum hafa margs konar endurbætur verið gerðar og er nú unnið að því að koma sjálfvirkum síma sem víðast um landið.

Framkvæmdir á vegum ríkisins á árinu 1969 munu nema um 1.700 millj. kr. og eru það mestu framkvæmdir á einu ári, sem unnar hafa verið á vegum hins opinbera. Stjórnarandstæðingar kvarta undan því, að frestun hefur verið gerð á nokkrum framkvæmdum. En með tillíti til þess, hversu atvinna er mikil í landinu og framkvæmdirnar meiri, en nokkru sinni áður, er ástæðulaust að sakast um, þótt að því hafi verið horfið að fresta nokkrum framkvæmdum. Ef það hefði ekki verið gert, varð að afla ríkissjóði tekna með nýjum sköttum. En það vildi ríkisstj. ekki leggja til, að gert væri. Það er mál út af fyrir sig, að stjórnarandstæðingar hafa ekki aðrar till. fram að bera en þær, sem leiða til stóraukinna útgjalda, en láta sér í léttu rúmi liggja, hvort nokkrar tekjur fást til þess að standa undir útgjöldunum.

Merkustu þingmálin, sem Alþ. fjallaði um að þessu sinni, eru virkjunarmálin. Lög um Landsvirkjun eru afgreidd og einnig heimildarlög um virkjun í Laxá í Þingeyjarsýslu. Laxárvirkjunarlögin eru í samræmi við óskir Laxárvirkjunarstjórnar og bæjarstjórnar Akureyrar. Undanfarin ár hafa víðtækar rannsóknir farið fram í virkjunarmálum. Hafa miklar fjárupphæðir verið veittar til rannsóknarmálanna. Það er því rangt, sem stjórnarandstæðingar halda fram, að minni fjárveitingar til raforkumála hafi verið hin síðari ár, heldur en áður. Hitt er það sanna, að tugum milljóna hefur verið varið í virkjunarrannsóknir, en áður en núv. ríkisstj. tók við völdum, var aðeins litlu fé varið í því skyni. Víðtækar rannsóknir eru undirstaða virkjana. Á s.l. vetri var svo komið í rannsóknarmálum, að ekki var vandi að velja virkjunarstað fyrir næstu virkjun. Sérfræðingar eru nú sammála um, að Þjórsá við Búrfell sé hagstæðust til virkjunar, hvort sem orkusamningur verður gerður við stóriðjufyrirtæki eða einungis virkjað fyrir notkun landsmanna. Með lögum um Búrfellsvirkjun er heimilað að virkja 210 þús. kw. Virkjunin verður gerð í áföngum, mismunandi stórum. Verði virkjað aðeins fyrir Íslendinga verður 1. áfanginn 70 þús. kw., næsti áfangi 35 þús. kw. og svo áfram, eftir því sem þörf krefur. Verði reist alúminíumverksmiðja, sem fær orku frá Búrfellsvirkjun, verður 1. áfanginn 105 þús. kw. Virkjun 1. áfanga verður lokið í árslok 1968, verði byrjað með 70 þús. kw., en á miðju ári 1969, verði stærri áfangi tekinn. Þó er gert ráð fyrir, að ein vélasamstæða verði tekin í notkun í árslok 1968, þótt stærri áfanginn verði tekinn í fyrstu. Áætlað er, að hver kwst. frá Búrfeilsvirkjun kosti 8.6 aura, eftir að virkjunin er fullgerð. Meðalverð á kwst. frá Sogsvirkjun og Laxárvirkjun er nú 20 aura kwst. Verði byrjað með að virkja 70 þús. kw. án alúminíumverksmiðju, verður rafmagnið talsvert dýrara í fyrstu, en á 16 ára tímabili reiknast sú virkjun mun hagstæðari, en smærri virkjanir eða sem nemur 360 millj. kr. á tímabilinu. Talað hefur verið um, að byggingarkostnaður virkjunarinnar geti hækkað verulega á byggingartímanum. Þess ber að geta, að vinnulaun eru ekki stærsti hlutinn í byggingarkostnaðinum. Vélar og efni munu vera um 75%, en vinnulaun aðeins um 25%. Auk þess er gert ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði í áætluninni, eins og ávallt er gert við slíkar áætlunargerðir.

Enn hefur ekki verið virkjað á Íslandi nema liðlega 2% af virkjanlegu vatnsafli. Það er mikið atriði, að þjóðin geti notað auðlindir landsins, sem eru því aðeins verðmætar, að þær séu teknar til nota. Stórvirkjun í Þjórsá markar tímamót, sem munu leiða til þess, að iðnaður eflist í landinu. Innlendur iðnaður er þegar mikilsverður og veitir þúsundum manna atvinnu. Þessa atvinnugrein ber að efla. Ódýr og nægileg raforka er skilyrði til þess, að svo geti orðið. Jafnframt því, að þetta er haft í huga, ber að halda áfram samningaumleitunum við Svisslendinga um alúminíumverksmiðju.

Menn verða að gera sér grein fyrir því, að stórvirkjun við Þjórsá og alúminíumverksmiðja eru tvö mál. Þótt ekki takist samningar um alúminíummálið, verður Þjórsá virkjuð,og sérfræðingar eru sammála um, að það sé hagstæðasta virkjunin, einnig þótt ísskriðið sé haft í huga. Stórvirkjunin gerir það mögulegt að gera orkusölusamning við Svisslendinga, ef við viljum og hagstæðir samningar eru í boði. Það er barnalegt að segja í dag: Ég er á móti því, að alúminíumverksmiðja verði byggð á Íslandi. — Það er ekki heldur tímabært að segja á þessu stigi, hvort sjálfsagt er að vera því samþykkur, að svo skuli gert. Svör við því verða ekki gefin, fyrr en vitað er, hvernig samning Íslendingar geta fengið um þetta mál. Það er enginn vafi á því, að samningurinn gæti orðið þannig, að alúminíumiðnaður hér á landi mætti verða hin mesta lyftistöng fyrir þjóðarbúið og til þess að gera atvinnulífið öruggara og fjölbreyttara. Fólkinu fjölgar og atvinnu verður að tryggja fyrir alla. Það er skylda Alþ. og ríkisstj. að hafa fyrirhyggju í því efni og gera sér grein fyrir því, að um 4.000 ungmenni á 18 ára aldri koma árlega á vinnumarkaðinn næstu árin. Aðeins fjölbreytni í atvinnulífinu tryggir ört vaxandi þjóð arðbæra vinnu og góð lífskjör. Við sjálfstæðismenn höfum gert okkur grein fyrir, að hér er nokkur vandi á höndum, sem er þó vel yfirstiganlegur, ef skilningur og fyrirhyggja er viðhöfð.

Til þess að byggja upp trausta atvinnuvegi þarf að vera jafnvægi í efnahagsmálunum. Þjóðin þarf að skilja, að kröfurnar eiga að vera innan þess ramma, sem gjaldmiðillinn þolir. Á það reynir á vori komanda, hvort skilningur verður fyrir því að tryggja öllum landsins börnum góða afkomu. Með nýju júnísamkomulagi, gagnkvæmum skilningi launþega og vinnuveitenda geta efnahagsmálin þróazt á æskilegan hátt. Þá mun byggingar- og framfarastefnan, sem núv. ríkisstj. hefur fylgt, sigra og þjóðinni verða tryggð efnaleg og menningarleg velgengni. Setjum markið hátt. Vinnum að því að nýta auðlindir landsins og efla atvinnulífið öllum landsins börnum til velfarnaðar. Góða nótt.