11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Þegar ég fór að velta því fyrir mér, um hvað ég ætti að tala á þeim mínútum, sem ég hef hér til umráða, tók ég fljótlega þá ákvörðun að nota þær ekki til þess að tala um dægurmálin, sem þingfréttirnar hafa nú fjallað um dag eftir dag margar vikur og dagblöðin hafa skrifað um dálk eftir dálk, enda hafa þessar útvarpsumr. að mestu leyti þegar snúizt um þau. Ég ákvað í staðinn að tala um eitt atriði, sem hefur grundvallarþýðingu í öllum stjórnmálaumr. og í allri stjórnmálaafstöðu hvers einasta manns, en er þó næstum aldrei rætt frá almennu sjónarmiði. En þetta er spurningin um, hvort það sé svonefnd hægri stefna eða vinstri stefna, sem núv. ríkisstj. fylgir, hvort það sé íhaldsstefna eða frjálslynd stefna eða svo að önnur orð séu notuð, hvort það sé afturhaldsstefna eða framfarastefna.

Sannleikurinn er sá og það hafa menn annars staðar í lýðræðisríkjum fyrir löngu gert sér ljóst, að varasamt og hæpið er að nota gömul orð og gamlar hugmyndir á tímum síbreytilegra aðstæðna. Þetta á ekki hvað sízt við um hin 150 ára gömlu orð: hægri og vinstri. Þegar þau voru mótuð, voru viðfangsefnin í þjóðfélagsmálum að sjálfsögðu allt önnur en þau eru nú í dag. Og áhugamál hægri manna hafa á ýmsum tímum og í ýmsum löndum verið jafnólík og áhugamál vinstri manna, þannig að jafnvel má segja, að hægri menn á sumum stöðum og á sumum tímum hafi oft meira sameiginlegt með vinstri mönnum á öðrum stöðum og öðrum tímum, en hægri mönnum og öfugt. Sú heildarmerking, sem margir telja orðin hægri og vinstri í þjóðfélagsmálum hafa, er nokkurn veginn hin sama og merking orðanna íhald eða afturhald annars vegar og frjálslyndi eða framfarastefna hins vegar. Og þó fer því víðs fjarri, að orðin séu alltaf notuð í þessari merkingu eða menn séu sammála um, að nota skuli þau í þessari merkingu.

Það er kunnara, en frá þurfi að segja, ekki hvað sízt úr stjórnmálaumr. hér á landi, að menn, sem telja sig hægri sinnaða, afneita því algerlega, að þeir séu íhaldssamir eða afturhaldssamir og telja svonefnda vinstri stefnu þvert á móti vera hið eina sanna afturhald, Svipað er orðið uppi á teningnum um alþjóðlegu orðin kapítalisma og sósíalisma sem heiti á hagkerfum eða þjóðfélagsstefnum. Það, sem menn eiga nú yfirleitt við, þegar menn tala um kapítalisma og sósíalisma, er talsvert frábrugðið því, sem menn áttu við fyrir einum mannsaldri. Sannleikurinn er sá, að það er meira en hæpið að ætla að lýsa afstöðu sinni til þjóðfélagsmála með því einu að telja sig t.d. hægri sinnaðan eða vinstri sinnaðan. Það getur jafnvel verið villandi og þeir, sem á slíkt hlusta, eru í rauninni engu nær um skoðanir þess, sem í hlut á.

Ef menn vilja nota einföld og almenn orð til þess að lýsa stjórnmálaskoðunum sínum og annarra, er einnig helzt hægt að nota orð eins og íhaldsstefna eða afturhaldssemi, frjálslyndi og framfarastefna eða umbótastefna og það er óspart gert hér á landi, ýmist til þess að hæla eða hallmæla. Þess vegna er ekki úr vegi að nota nokkrar mínútur til þess að athuga það, sem ríkisstj. hefur verið að gera og þó ekki síður hitt, sem hún ætlar að gera, í þessu ljósi.

Við skulum nú reyna að gera okkur grein fyrir því, hvort fremur sé hægt að kenna störf og fyrirætlanir ríkisstj. við afturhald eða framfarir.

Ef við lítum fyrst á almenna stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, hver hefur hún þá verið? Hún hefur verið sú að hafa raunhæft gengi á krónunni og láta alla útflytjendur og innflytjendur sitja við sama borð, þ.e.a.s. alla útflytjendur fá sama verð fyrir þann erlenda gjaldeyri, sem þeir afla og alla innflytjendur greiða sama verð fyrir þann gjaldeyri, sem menn þurfa að nota og kappkostað hefur verið að ákveða þetta gengi þannig, að enginn svartur markaður og ekkert brask sé í viðskiptum með hinn erlenda gjaldeyri. Þetta hefur tekizt síðan 1960, en áður hafði gengisskráningin verið meira og minna röng og ávallt meiri og minni svartur markaður með gjaldeyri í 30 ár. Er ekki rétt að telja þetta til framfara?

Í atvinnumálum yfirleitt hefur ríkisstj. stuðlað að öflun nýrra og fullkomnari framleiðslutækja og bættri tækni, einkum á sviði sjávarútvegs, enda hafa fiskiskipakaup og fjárfesting í sjávarútvegi aldrei verið meiri í sögu Íslendinga, en undanfarin ár. Er kannske ekki rétt að telja öflun nýrra framleiðslutækja og bætta tækni til framfara?

Í viðskiptamálum hefur ríkisstj. beitt sér fyrir afnámi hafta og auknu frjálsræði í innflutningsverzlun. Hefur þetta haft í för með sér stórbætt vöruúrval fyrir neytendur og mjög aukin skilyrði til fjölbreytni í daglegri neyzlu almennings. En samhliða afnámi innflutningshafta og leyfisveitinga hefur ekki aðeins skaðlegur vöruskortur horfið, heldur alls konar brask og svartamarkaðsviðskipti. Hefur það kannski verið afturhaldssemi að vilja ekki viðhalda hinum óhagkvæmu og gerspilltu viðskiptaháttum haftabúskaparins, heldur breyta til og taka upp sams konar viðskiptahætti og nú tíðkast í öllum nálægum löndum?

Í gjaldeyrismálum hefur einnig verið unnið að því að koma á sem mestu frjálsræði og veita þeim, sem þurfa á erlendum gjaldeyri að halda, sem frjálslegustu skilyrði til þess að kaupa hann á lögákveðnu verði. Hefur það kannski verið íhaldssemi að vilja ekki halda í gamla gjaldeyrisleyfakerfið og gömlu gjaldeyrisskömmtunaraðferðirnar, sem tíðkuðust áður fyrr? Þá hefur stjórn peningamálanna verið við það miðuð að koma í veg fyrir greiðsluhalla í utanríkisviðskiptunum og safna gjaldeyrisvarasjóði til þess að auka efnahagsöryggi þjóðarinnar út á við og endurreisa lánstraust hennar. Hefði kannske átt að halda í gömlu stefnuna í peningamálum, sem hafði það í för með sér, að á hverju einasta ári, síðan stríðinu lauk, hafði verið halli í greiðsluviðskiptum þjóðarinnar við útlönd þangað til árið 1961? Af því að núverandi ríkisstjórn gerbreytti um stefnu í peningamálum og efnahagsmálum yfirleitt 1960 hefur tekizt að safna gildum gjaldeyrisvarasjóði í fyrsta sinn á því 20 ára tímabili, sem liðið er sían síðari heimsstyrjöldinni lauk. Er hægt að kalla þá róttæku stefnubreytingu, sem hefur haft slíkar afleiðingar í för með sér, afturhaldssemi?

Í félagsmálum hafa á undanförnum árum orðið meiri breytingar, en nokkurn tíma áður á jafnlöngu tímabili. Bætur þær, sem almenningur hlýtur hjá almannatryggingunum, hafa meira, en fjórfaldazt á nokkrum árum. Hver er sá, sem telur þetta ekki til umbóta? Opinber stuðningur við húsbyggingar almennings hefur verið aukinn mjög. Lánveitingar til íbúðabygginga hafa aldrei verið hærri, en nú á þessu ári og hafa á undanförnum árum hækkað mun meira, en byggingarkostnaður. Eru þetta ekki framfarir?

Framlög til skólamála hafa verið aukin og eru nú miklu hærri, en nokkru sinni fyrr. Fjárframlög til skólabygginga hafa sexfaldazt á undanförnum 6 árum. Gagngerar breytingar hafa verið gerðar á skólakerfinu á ýmsum sviðum og margs konar ný löggjöf sumpart þegar verið sett og sumpart undirbúin um gagngera nýskipun íslenzkra skólamála. Ég geri ráð fyrir, að fáir muni kalla þetta íhaldssemi.

Á ýmsum öðrum sviðum menningarmála hafa verið gerðar miklar breytingar. Alþ. var í gær að samþykkja umfangsmikla löggjöf um algera endurskipulagningu íslenzkra rannsóknarmála. Sett hafa verið lög um vísindasjóð og aukinn stuðning við íslenzka námsmenn, og margs konar stuðningur við listir og listamenn hefur verið aukinn. Ákvarðanir hafa og verið teknar um stórfellda eflingu háskólans. Eru þeir kannske einhverjir, sem kalla þetta afturhaldssemi?

Miklar umbætur hafa verið gerðar í samgöngumálum, bæði að því er snertir vinnubrögð á sviði vegamála og að því er snertir fjárveitingar til þeirra, sem aldrei hafa verið meiri en nú. Ég vona, að það geti talizt til framfara. Og aldrei hefur verið unnið að stórfelldari framkvæmdum í sjúkrabyggingum, en einmitt núna. Er hægt að draga í efa, að slíkt teljist til umbóta?

Ég skal ekki nefna fleiri dæmi um það, sem stjórnmálaflokkarnir hafa verið að vinna að. Það væri öfugmæli að telja þessi atriði, sem ég hef rakið stuttlega, bera vott um íhald eða afturhaldssemi. Allar þessar ráðstafanir bera ótvíræðan vott um framfarahug og umbótastefnu.

En hvað er þá að segja um fyrirætlanir ríkisstj., verkefnin, sem hún hefur undirbúið og ætlar að vinna að?

Í dag voru samþ. á Alþ, lög um mestu framkvæmdir í rafmagnsmálum, sem Íslendingar hafa nokkru sinni efnt til. Ráðgerð er þreföldun á rafmagnsframleiðslu þjóðarinnar. Þetta verður vonandi ekki talið bera vott um afturhaldssemi. Ríkisstj. hefur haldið áfram að athuga skilyrði til þess, að komið verði á fót stóriðju í landinu í samvinnu við erlenda aðila, sem hafa yfir að ráða þeirri tækniþekkingu og því fjármagni, sem nauðsynlegt er, en okkur skortir. Samningar allir verða þó að sjálfsögðu háðir því, að íslenzkra hagsmuna sé gætt. Það verður varla talið til afturhaldssemi að vinna að því, að Íslendingar gerist iðnaðarþjóð í ríkara mæli.

Þá er ég þeirrar skoðunar, að brýn þörf sé breytinga í skatta- og tollamálum. Mesta þjóðfélagsmisréttið, sem nú viðgengst á Íslandi, er fólgið í því, að borgararnir eru ekki jafnir fyrir skattalögunum. Margir greiða skatta og útsvar af hverjum eyri, sem þeir afla sér, en margir greiða ekki skatta og útsvar nema af hluta tekna sinna. Þetta verður að breytast. Mér er vel ljóst, að það getur ekki orðið í einu vetfangi og ekki er sama, með hverjum hætti nauðsynlegu réttlæti er komið á í þessum efnum. En ríkisstj. hefur unnið að því og mun vinna að því að koma á slíku réttlæti. Ætli ekki megi telja það til umbótaviðleitni? Í tollamálum Íslendinga er og þörf róttækra breytinga. Tollana þarf að lækka í áföngum, enda hafa Íslendingar hæstu tolla, sem þekkjast í nálægum löndum. Tollgæzluna þarf og mjög að efla. Skyldu einhverjir telja það til afturhaldssemi að koma skipun íslenzkra tollamála í svipað horf og tíðkast hjá helztu viðskiptaþjóðum okkar?

Og enn vil ég nefna eitt verkefni, sem mjög er nú unnið að á vegum ríkisstj., en það er áframhaldandi endurskipulagning skólakerfisins. Á næstunni mun efnt til vísindalegrar athugunar á skyldunáminu. Næsta Alþ. mun fjalla um algera nýskipun iðnfræðslunnar, en tími hefur ekki unnizt til þess að afgreiða frv. um það efni, sem nú liggur fyrir þinginu. Og athugun á endurskipulagningu menntaskólanámsins mun væntanlega lokið, áður en langt um líður. Þá eru og skólamál dreifbýlisins til sérstakrar athugunar. Ég á ekki von á því, að menn telji þessa viðleitni bera vott um sérstaka afturhaldssemi.

En eru þá engar afturhaldsskoðanir uppi í íslenzkum þjóðmálum um þessar mundir? Jú, auðvitað. Þær eru ávallt uppi, á öllum tímum og í öllum þjóðfélögum og er í raun og veru ekki við öðru að búast. Nú í dag eru afturhaldssömustu skoðanirnar, sem uppi eru hér á landi, fólgnar í því að telja ekki tímabært fyrir Íslendinga að stíga stór spor áleiðis í áttina til iðnaðarþjóðfélags á Íslandi með stórfelldri rafvæðingu, nýrri stóriðju, víðtækri eflingu íslenzks sjávarvöruiðnaðar sem og alls annars iðnaðar, sem hér hefur vaxtarskilyrði við heilbrigðar aðstæður og eflingu frjálsra viðskipta. Íhaldssömustu mennirnir á Íslandi í

dag eru þeir, sem harma þá stefnu í efnahagsmálum, sem löngum var fylgt hér á landi á áratugunum 1930–1960, og vilja taka hana upp aftur, mennirnir, sem hafa ekki nægan skilning á nauðsyn Íslenzkrar iðnþróunar á grundvelli tækniframfara og vélvæðingar, mennirnir, sem vilja beita ríkisvaldinu til þess að halda verndarhendi yfir alls konar óarðbærum smárekstri í iðnaði, verzlun og þó einkum og sér í lagi í landbúnaði, en slík vernd kostar nú íslenzka skattborgara mörg hundruð millj. kr. á ári.

Einna gleggst koma íhaldssjónarmiðin fram hjá þeim mönnum, sem geta ekki hugsað sér neinar verulegar breytingar á stefnunni í landbúnaðarmálum, þótt framleiðslukostnaður íslenzkra sauðfjárafurða sé nú orðinn helmingi hærri, en útflutningsverð þeirra og framleiðslukostnaður íslenzkra mjólkurafurða þrisvar sinnum hærri, en útflutningsverð þeirra.

Þótt það sé eindregið skoðun mín, að mjög mörgu hafi miðað í rétta átt hér á Íslandi á undanförnum árum, er það hins vegar víðs fjarri mér að telja, að allt sé hér eins og það ætti að vera. Mér er það ekki síður ljóst en öðrum, að mörgu er hér ábótavant. Ef ég ætti að nefna þann þátt þjóðfélagsmálanna, þar sem ég teldi endurbætur brýnastar, mundi ég hiklaust nefna skipan launamálanna og verðlagsmála landbúnaðarins. Það, sem farið hefur aflaga undanfarin ár, er fyrst og fremst, að ekki hefur tekizt að stöðva víxlverkanir kaupgjalds og verðlags. Í júnísamkomulaginu í fyrra tókst að ná verulegum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni með sameiginlegu átaki ríkisstj., launþegasamtaka og atvinnurekendasamtaka.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að undirstrika, að ekkert verkefni í íslenzkum þjóðmálum er nú brýnna, en vinna að því, að hliðstætt samkomulag náist aftur í júní n.k. Það er einlægur vilji og ásetningur ríkisstj. að stuðla eftir mætti að því, að slíkt megi takast. Mikilvægasta kjarabótin fyrir launþega yfirleitt væri nú, án efa, stytting vinnudagsins, sem er óhæfilega langur. Að þessu meginverkefni ætti fyrst og fremst að vinna og fleira kemur auðvitað til greina. Launþegar verða að sjálfsögðu að gæta þess að spenna bogann ekki svo hátt, að hann bresti í hendi þeirra. Og atvinnurekendur verða að skilja, að launþegar eiga rétt á fullri hlutdeild í aukinni þjóðarframleiðslu. Hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja sem fullkomnast félagslegt réttlæti í þessu sambandi og eyða allri hugsanlegri tortryggni með því að greiða öllum aðilum aðgang að sem beztum upplýsingum um allt, sem máli skiptir. Í þessu sambandi finnst mér það koma fyllilega til athugunar, að komið verði á reglubundnu, skipulegu samstarfi milli ríkisvalds, launþegasamtaka, bændasamtaka og atvinnurekenda, þar sem ávallt lægju fyrir beztu fáanlegar upplýsingar um þróun þjóðarbúskaparins, afkomu launþega, bænda og atvinnufyrirtækja og þar sem unnt væri að ræða stefnuna í efnahagsmálum hverju sinni. Það er í raun og veru algerlega óviðunandi, að ríkisvaldið, launþegasamtökin og atvinnurekendur ræðist aldrei við nema í sambandi við yfirvofandi kaupdeilur og að verðlagsmál bænda skuli yfirleitt ekki rædd í því sambandi, heldur aðeins einu sinni á ári á haustin. Allir þessir aðilar ættu að vera í stöðugu sambandi hver við annan allt árið um kring, kynnast sjónarmiðum hver annars og reyna að ná samkomulagi um það, sem á milli ber.

Mér er óhætt að fullyrða, að ríkisstj. hefur einlægan áhuga á því að hafa sem bezt og nánast samstarf við launþegasamtökin og þá að sjálfsögðu einnig við bændasamtökin og atvinnurekendasamtökin. Við getum ekki ráðið bót á því ófremdarástandi, sem því miður hefur verið í kaupgjalds- og verðlagsmálum okkar Íslendinga um áratuga skeið, nema allir þessir aðilar leggist á eitt.

Ríkisstj. mun ekki láta neina pólitíska fordóma torvelda heilbrigt samstarf við verkalýðshreyfinguna, bændasamtökin né atvinnurekendasamtökin. En allir þessir aðilar verða þó að minnast þess og skilja það, að í lýðræðisríki er það hlutverk meiri hl. Alþ. og ríkisstj. að stjórna landinu og bera ábyrgð á því gagnvart þjóðarheildinni, að efnahagskerfið fari ekki úr böndum öllum stéttum til tjóns í bráð og lengd. En það er ríkisstj. ljóst, að þeim mun nánari sem tengslin eru milli stéttasamtakanna og hennar, þeim mun meiri líkur eru á, að landsstjórnin fari vel úr hendi. Og það ætti að geta verið einlæg ósk okkar allra, að svo mætti takast. — Góða nótt.