11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

Almennar stjórnmálaumræður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Við hæstv. menntmrh, vil ég aðeins setja fram eina spurningu út af heimspekilegum hugleiðingum hans um vog og mál. Hefur starf stjórnarinnar aukið réttlætið í garð hins vinnandi manns, aukið frelsi hans af erfiði lífsins? Svarið er: Nei. Og vegin á þeirri þýðingarmestu vog verður stjórnarstefnan léttvæg fundin.

Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, hafði hér í gærkvöld mörg fögur orð um allt, sem hann vildi gera til þess að leysa kaupgjaldsvandamálin í vor. En það er hægara um að tala en í að komast. Hver eru verk þessarar hæstv. ríkisstj. í þessum málum? Hafi það nokkurn tíma átt við um nokkra ríkisstj., að hún flyti sofandi að feigðarósi, á það við um þessa ríkisstj. og hennar framferði í vetur. Það var samið vopnahlé í stéttabaráttunni fyrir ári og rennur út 5. júní. Valdhafarnir voru áminntir um að nota þennan tíma vel, svo að ekki þyrfti að koma til harðvítugra vinnudeilna. En þessu hefur í engu verið sinnt. Svikin um skattleiðréttingar síðasta árs, skattalögin nýju og söluskattshækkunin eru órækustu dæmin um blindni valdhafanna. Fegurst mælti þó forsrh. í gærkvöld um nauðsyn á styttingu vinnutíma, um góðan vilja ríkisstj. í því efni. Frv. frá Alþb., frá forseta Alþýðusambands íslands um vinnuvernd og vinnutímastyttingu hefur legið fyrir þessu þingi í allan vetur. Ekkert hefur fengizt gert. Svo hraksmánarleg meira að segja er framkoma ríkisstj., að þegar hún sjálf flytur stjórnarfrv. um barnavernd og styttingu vinnutíma barna og unglinga og þm. í Nd. samþykkja það svo að segja einróma, lætur ríkisstj. málið drepast í Ed., svo að ekki einu sinni börnum og unglingum er hlíft við þeim vitskerta vinnuþrældómi, sem hér viðgengst og eyðileggur heilsu þeirra og hefur orðið mörgum börnum að bana á undanförnum árum. Barnavinnan er smánarblettur á Íslandi, sem vekur hneyksli, hvar sem til þess spyrst úti um heim. Hinn óhóflega langi vinnutími verkamanna er einstakur í sinni röð í allri Evrópu og á eingöngu rót sína að rekja til vægðarlausrar launakúgunar undanfarinna ára. Ríkisstj. hefur góð orð um að aflétta vinnuþrældómnum. Forsrh. samþykkti að skipa n. í vinnutímamálið fyrir tæpum 4 árum, en í verki neita valdhafarnir launþegum þessa lands um þau sjálfsögðu réttindi, sem verkalýður annarra landa býr við, 8 stunda vinnudag með daglaunum, er tryggi góða afkomu. Það er táknrænt fyrir þennan anda skilningsleysis og kúgunar, þegar hæstv. forsrh. hótaði hér í gærkvöld afnámi vísitölutryggingar á kaup, ef grunnkaupshækkunin yrði meiri, en skammsýnum efnahagssérfræðingum þætti mátulegt, sem hún auðvitað verður. M.ö.o.: þegar verkamaðurinn með 2.700 kr. kaup á mánuði ákveður að stórhækka sitt kaup, er lögbannshnefinn á lofti, en þegar dýrtíðin er aukin, t.d. húsaleiga fyrir 3 herbergja íbúð í Reykjavík er sett upp í 7 þús. kr. á mánuði, þá má ekki snerta við því, þá er það og annað slíkt hið helga frelsi okurs og arðráns, frelsi peninganna og gróðans og það skal traðkað í svaðið, frelsi verkamannsins, frelsi fólksins til sómasamlegs lífs. Og ríkisstj. virðir ekki viðlits frv. okkar þm. Alþb. um byggingu leiguhúsnæðis til þess að gera eignalitlum lágtekjumönnum yfirleitt kleift að búa í mannsæmandi húsnæði.

En þessi sama ríkisstj. sem sýnir verkalýðshreyfingunni ekkert annað en mjúkmált skilningsleysi og svo hnefann, þegar til kastanna kemur, lætur hins vegar erindreka sína tala við erlenda auðhringa og þá er eitthvað annað uppi á teningnum. Þá er allt til reiðu: sérréttindi, skattfrelsi, tollfrelsi, söluskattsfrelsi, ódýrt rafmagn, öryggi um að arðræna Ísland og Íslendinga í 25–40 ár, eins og það væri ekki nóg komið af sérréttindum skattfrelsis og skattsvika, sem íslenzk burgeisastétt nú nýtur. Sú ríkisstj., sem í heilt ár, hefur látið undir höfuð leggjast að semja við þær starfandi stéttir, sem skapa allan auð þessa lands, lætur hins vegar fulltrúa sína þeysast um allar álfur til samninga við erlenda auðdrottna, sem girnast íslenzkar auðlindir og vilja afla sér hér einkaréttinda, sem hinir innfæddu eiga hins vegar ekki að fá að njóta. Stefna þessi er ljós og gamalkunn: kúgun gagnvart alþýðu inn á við, undirlægja við auðdrottna út á við.

Þessi ríkisstj. undirbýr að hefja hér að nýju tímabil erlendrar nýlendudrottnunar. Alþjóðlegur auðhringur á að fá hér einkaaðstöðu til arðráns íslenzkra auðlinda og íslenzkur almenningur á í hækkuðu rafmagnsverði og þyngri sköttum að bera tapið af því að veita þessum alúminíumhring hér sérréttindi fram yfir alla landsbúa. Að vísu er í 78. gr. stjórnarskrárinnar bannað að lögleiða sérréttindi, sem bundin séu við aðal, nafnbætur og lögtign, en það er hvergi bannað að binda þau við mikinn auð. Og nú verður það Alþjóðabankinn í Washington, sem lætur ráðh. sína í Reykjavík veita útlendum auðmönnum þau sérréttindi á Suðurnesjum, sem kóngurinn í Kaupmannahöfn veitti aðalsmönnum og einokunarkaupmönnum undir handarjaðri Bessastaðavaldsins forðum daga. Það er ætlunin að bæta atvinnulegu hernámi ofan á það, sem fyrir er.

Í 25 ár hafa hervöld engilsaxnesku stórveldanna beitt þjóð vora ofbeldi og refjum, svikið gagnvart henni gefin heit, ógnað henni með herskipum sínum og innrásarher, knúið hana til afsláttar á réttindum til lands og sjávar. Í tæp 25 ár hefur land vort verið víghreiður fyrir peningavald Bandaríkjanna, þessa fjármálafursta, sem senda nú heri sína og morðdreka út um allan heim, gegn hverri þeirri þjóð, sem berst fyrir frelsi sínu og hyggur á þjóðfélagslegar umbætur á lífskjörum alþýðufólks. Í þessi 25 ár hefur íslenzk verkalýðshreyfing og róttækir verkamenn og bændur Íslands undir forustu Sósfl. og samherja hans háð hina nýju sjálfstæðisbaráttu gegn amerísku hervaldi með kerfisbundinni þjóðspillingu þess. Nú hyggst alúmínhringurinn fjárfesta hér 2.500 millj. kr. í alúmínverksmiðju í Straumsvík syðra. Auðhringurinn hyggst með aðstoð Alþjóðabankans fá Íslendinga til þess að taka að láni yfir 1.200 millj. kr. einungis til þess að virkja handa honum. Raunverulegar tekjur þjóðarinnar af rekstri þessa hrings gætu í hæsta lagi orðið um 140 millj. kr. eða eins og af 10 vélbátum, en þær gætu líka orðið engar, ef vinnuaflið til verksmiðjunnar er tekið frá útflutningsframleiðslunni. Hins vegar mundi vafalaust ekki á það skorta, að molar af gróðaborði hringsins hrytu til ýmissa útvaldra. Vonin um slíkt setur þegar mark sitt á Morgunblaðið. Þessi auðhringur mundi samstundis verða voldugasta afl í íslenzku atvinnulífi. 2.500 millj, kr. fjármagn í höndum þessa eina aðila er miklu meira fjármagn, en allt það auðmagn, sem öll atvinnurekendastétt Íslands á sjálf. Í öllum sjávarútvegi lands vors, útgerð og fiskiðnaði, er allt fjármagn nú að meðtöldu lánsfé undir 3.000 millj. kr. og þótt allur iðnaður annar væri meðtalinn, nær fjármagn Íslendinga í atvinnurekstri ekki 6.000 millj. kr. En auðhringnum finnst þau kjör, sem samningamenn ríkisstj. bjóða honum upp á nú þegar, slík kostakjör fyrir sig, að hann vill tryggja sér landrými til stækkunar verksmiðjunnar upp í 160 þús. smál. framleiðslu, sem mundi þýða allt að 7.000 millj. kr. fjárfestingu af þeirra hálfu, en gæti þýtt, ef valdhafar Íslands álpuðust inn á þessar brautir, fjárfestingu frá Íslands hálfu, er næmi yfir 3.000 millj. kr., einvörðungu fyrir hringinn. Þessi auðhringur yrði skjótt áhrifaríkasta aflið í íslenzkum stjórnmálum, tryggði sér blöð, menn og flokka til þess að gæta hagsmuna sinna og tryggja efnahagsleg völd sín.

Ísland hefur nú í tvo áratugi verið frjálsast allra landa Vestur- og Norður-Evrópu af erlendu auðmagni. Með því illa verki að hleypa alúmínhringnum inn í landið yrði hér alger umbylting, sem gerði Ísland háðast allra landa Evrópu, erlendu auðmagni. 50% alls fjármagns í aðalatvinnulífinu yrði erlent, þar sem útlent fjármagn í iðnaði Noregs t.d. er aðeins milli 5 og 10%. Þess vegna er alil önnur og miklu meiri hætta á ferðinni hér heldur en þar. Hér er því verið að brugga fjörráð íslenzku frelsi.

Hinir fornu Grikkir sögðu, að sú borg væri auðunnin, þar sem asni klyfjaður af gulli kæmist inn um borgarhliðin. Það er nú verið að leggja tauminn á asnann. E.t.v. mun einhver spyrja: Er okkur ekki nauðugur einn kostur að ganga að skilmálum auðhringsins og Alþjóðabankans, af því að við fáum hvergi lán til eigin rafvirkjana annars? Því er til að svara, að jafnvel þó að við fengjum hvergi lán, sem þó mun auðvelt að útvega, gætum við Íslendingar virkjað handa okkur sjálfir. 70 þús. kw. stöð við Búrfell mundi líklega kosta um 900 millj. kr. Árleg fjárfesting okkar er nú 5.000 millj. kr. eða á 3 árum 15 þús. kr. millj. Og okkur er engin skotaskuld að leggja fram 900 millj. kr. af þessum 15 þús. í Búrfellsvirkjun, ef heildaráætlun er gerð og framkvæmd um fjárfestingu lands vors. Það væri því barnaleikur að borga okkar eigin Búrfellsvirkjun niður á nokkrum árum, ef þörf gerðist. Aðeins meðfram Suðurlandsbraut í Reykjavík milli Nóatúns og Grensásvegar eru nokkrir bílasalar og fleiri að byggja 16 verzlunarhallir, sem munu kosta uppkomnar um 500 millj. kr. Svona er fénu kastað í braskið í skjóli skipulagsleysisins, en þjóðinni síðan talið trú um, að hún verði að ofurselja erlendum auðhringum auðlindir sínar til þess að geta fengið okurlán til rafvæðingar. En ríkisstj. skellir skollaeyrum við öllum frv. okkar þm. Alþb. um áætlunarbúskap, sem Íslandi er brýn þörf á. Þar eru höfð fögur orð, eins og hjá hæstv. menntmrh. áðan, en er ekki gerður nokkur skapaður hlutur.

Með þeim samningum, sem nú eru í undirbúningi um sérréttindi alúmínhringsins á Íslandi, mundi sú stjórnarstefna ná mámarki sínu að gera peningana og peningavaldið að drottnara íslenzks mannfélags, en þrengja að sama skapi kosti hins vinnandi fólks, annaðhvort með óhóflegum vinnuþrældómi eða fátækt og skorti ella. Þessum smánarsamningum þarf að afstýra. Það hefur aldrei verið hátt risið á íslenzkri burgeisastétt. En með allri stefnu sinni nú virðast valdhafar hennar stefna markvisst að því að umhverfa því manngildi, sem verið hefur aðall vor Íslendinga frá

upphafi, í peningagildi. Það er máske táknrænt, að þegar einn af unglingum þeim, sem Heimdallarskríllinn fékk í fyrradag til að gera aðsúg að hernámsandstæðingum og m.a. að ráðast að Jóhannesi úr Kötlum, af því að hann hafði lesið upp ættjarðarljóð, — þegar hann fékk sitt tiltal frá fullorðnu fólki, þá svaraði strákurinn: „Já, en okkur var svo vel borgað fyrir það.“

Íslendingar. Við siðgæðisleysi brasksins og peningadýrkunarinnar og ofstæki auðvaldstrúarinnar er verið að vega að því, sem þjóð vorri hefur verið helgast, manngildinu. Áhangendur taumlausrar auðhyggju eru að gera íslenzka þjóð að umskiptingi. Gegn þessu þarf þjóðin að rísa og það mun hún gera. Það sýndi hin glæsilega Keflavíkurganga og útifundurinn á sunnudaginn. Það sannar samtaka kröfugerð allra verkalýðssamtaka. Alþýðan og æskan munu hnekkja auðdrottnuninni og hernámsspillingunni á Íslandi. Fyrsta skrefið til þess er, að alþýðan rísi nú öll upp í vor og varpi af sér því oki óhóflegs vinnutíma, sem er orðið jafnóþolandi og og atvinnuleysisins var forðum. Það verður tafarlaust að stytta hinn raunverulega vinnutíma með stórfelldri kauphækkun. Verkamenn Íslands eiga kröfu á því að lifa góðu lifi á 8 tíma vinnudegi. Atvinnulífið ber það auðveldlega. En ef óstjórn skammsýnnar atvinnurekendastéttar þolir það ekki, er það óstjórnin, sem verður að víkja, en ekki lífshagsmunir þeirrar alþýðu, sem auðinn skapar.

Það mun hrikta í braskkerfi hinnar efnahagslegu óstjórnar, þegar verkalýðssamtökin nú leggja til atlögu að útrunnu því vopnahléi, sem braskarastéttin hefur ekki haft vit á að nota. Og það liggur í augum uppi, að í þeirri atlögu verður knúin fram stórfelld kauphækkun, sumpart í þeim samningum, sem samtökin gera, en sumpart í því óskipulagða kapphlaupi atvinnurekenda og annarra um einkakauphækkanir og yfirborganir, sem þegar einkenna mikinn hluta atvinnumarkaðarins og munu óhjákvæmilega færast yfir hann allan, ef nátttröll Vinnuveitendasambandsins eiga að ráða viðbrögðum ríkisstj., eins og þau hafa illu heilli gert allan þennan vopnahlésvetur. Til þess að tryggja samtökunum fullan sigur þarf verkalýðurinn að skapa sér algera einingu í hagsmunabaráttunni. Og þá einingu eru verkalýðssamtökin nú að smíða. Það var gerð vesældarleg tilraun til þess að spilla þeirri einingu hér í gærkvöld af Jóni Þorsteinssyni. Hann klykkti hér út með nokkrum andkommúnistískum harmagráti og bölbænum, svo sem vænta mátti af þessu steinblinda náttrölli í Alþfl., sem komið er í andstöðu við allan þorra flokksbræðra sinna. Af hverju heldur Jón Þorsteinsson, að Alþfl. sé minnsti flokkur á Íslandi, þegar samsvarandi flokkar eru þeir stærstu á Norðurlöndum? Af því að ofstækismenn af tagi Jóns Þorsteinssonar hafa ráðið of miklu í honum og hafa rekið úr honum beztu menn hans, eins og Héðin Valdimarsson og Hannibal Valdimarsson, varaformann og formann Alþfl., þegar þessir foringjar flokksins risu upp og vildu koma á samstarfi við verkalýðsflokkana. Af hverju heldur Jón Þorsteinsson, að Sósfl. og Alþb. séu forustukraftar Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar, en ekki Alþfl? Af því að Alþfl. hefur látið menn af tagi Jóns Þorsteinssonar véla sig inn á brautir gerðardóma, gengislækkana og annarra kúgunarráðstafana gegn verkalýðnum, — ráðstafana, sem áður fyrr ollu því, að Alþfl. fór úr ríkisstj., eins og 1938 og 1942.

En nú rís sú alda í Alþfl., sem mun knýja fram samstarf við verkalýðsflokkana um róttæka pólitík og ofstækis- og afturhaldsmenn eins og Jón Þorsteinsson mun daga uppi eins og nátttröll gagnvart rísandi einingu alþýðunnar. Íslenzkur verkalýður mun sníða sér sína einingu undir átökin í vor, ekki einingu þrælsins, sem þolir möglunarlaust svipuhögg dýrtíðarinnar, ekki einingu undirlægjuskaparins undir erlent auðvald, ekki einingu um vinnuþrældóm, launakúgun og réttleysi, heldur þá einingu frjálsra verkamanna, sem láta ekki bjóða sér 50–70 stunda vinnuviku, heldur knýja fram núverandi árstekjur með 8 stunda vinnudegi.

Það eru nú liðin 10 ár, síðan íslenzkur verkalýður vann í 6 vikna verkfallinu vorið 1955 einn sinn stærsta sigur og felldi þá raunar um leið þá helmingaskiptastjórn gróðans, sem íhaldið og Framsókn hafði setið saman í 6 ár. Þá stóðu Sósfl. óg Alþfl. saman að þeim sigri og það sýndi sig, eins og mun sýna sig enn, að Íslandi verður ekki stjórnað gegn verkalýðnum, þegar til lengdar lætur.

Nú leggur íslenzkur verkalýður til atlögu á ný, öll stéttin sameinuð um kröfur sínar. Ef svo fer, eins og nú virðist, að ekki sé lengur til neinn sá kraftur í íslenzkri borgarastétt sem áður, en of seint er orðið hafi víðsýni, þor og vald til að semja sómasamlega við verkalýð og aðra launþega landsins, á alþýðan einskis annars úrkostar en berjast, unz sigur er unninn. Og verði þá gerð alvara úr hótunum um lögbann, gengislækkun eða nýja verðbólguöldu, sannar það öllum verkalýð og öllum launþegum Íslands, að hin faglega kaupgjaldsbarátta ein saman nægir ekki til sigurs. Pólitísk eining alþýðunnar verður þá einnig að skapast og knýja fram þá nýju þjóðlegu og róttæku stjórnarstefnu, sem Ísland þarf á að halda til þess að tryggja mannsæmandi lífskjör alþýðu, reisn íslenzkrar menningar, sjálfstæði og hlutleysi Íslands og yfirráð vor Íslendinga einna yfir öllum auðlindum lands vors og atvinnutækjum. — Góða nótt.