11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Skaftason:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir hlustendur. — Það var grátbroslegt að heyra hæstv. menntmrh. harma það áðan, að fulltrúar atvinnurekenda, launþega og ríkisvaldsins ræddust ekki oftar við en raun ber vitni, því að ekki fara neinar sögur af því, að hæstv. ráðh. hafi beitt sér fyrir breytingum í þessum efnum, sem honum væri þó í lófa lagið og mér er tjáð, að enn þá hafi hæstv. ríkisstj. ekki haft neinn formlegan fund um launamálin við ofannefnd samtök í sambandi við endurnýjað júnísamkomulag og þó eru nú aðeins eftir 3 vikur af samningstímanum. Það var einn fremur athyglisvert að hlýða á ræður stjórnarliða í gærkvöld. Mátti af þeim helzt draga þær ályktanir, að flest væri í góðu gengi í þjóðmálunum nú, meiri vöxtur þjóðartekna undanfarandi ár, en nokkru sinni og í höfuðdráttum hefði hlutdeild launþega í vaxandi þjóðartekjum haldizt, nema lægst launuðu Dagsbrúnarverkamannanna. Sjálfur sjútvmrh. hélt langa ræðu og vann það einstæða þrekvirki, að minnast ekki einu orði á málefni sjávarútvegsins, fremur en væri sá atvinnuvegur ekki til né vandamál hans honum meira viðkomandi, en karlinum í tunglinu.

Heildarmyndin, sem stjórnarliðar brugðu upp í gærkvöld, var því fremur glæsileg og því lítil ástæða til að óttast um vinnufriðinn — eða hvað? — svo að eitthvert dæmi sé nefnt. En hvað þá um allar þær samþykktir, sem hvaðanæva berast frá launþegum og forustumönnum atvinnuveganna um óviðunandi ástand og kröfur um úrbætur? Eru þær tóm markleysa? Hver er eigin reynsla manna í þeim efnum? Því miður er sú glæsta mynd, sem upp var brugðið í gærkvöld, í grundvallaratriðum fölsk. Velmegun sú, sem margir búa við í dag, hvílir vægast sagt á mjög ótraustum grunni, því að sjálf undirstaðan er ótrygg. Á ég hér , við að sjálfsögðu höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sem berjast í bökkum og þá ekki sízt útflutningsatvinnuvegirnir og ótollverndaður iðnaður, sem keppir við innflutta iðnaðarvöru. Ætla ég hér á eftir að ræða málefni sjávarútvegsins, eftir því sem tíminn leyfir, og þá vantrú á getu hans, sem gagntekur nú hæstv. ráðh.

Samkvæmt skilgreiningu alþjóðlegra fjármálastofnana teldist Ísland í flokki með svonefndum þróunarlöndum, ef ekki væri fyrir þá staðreynd eina, að þjóðartekjur á íbúa eru hér langtum hærri, en þar gerist. Einhæfni atvinnuvega okkar og iðnþróun, sem hér er á byrjunarstigi, ef undan er skilinn fiskiðnaðurinn, marka okkur bás í hópi þróunarlandanna. Það er aðeins fyrir gífurlega framleiðni í fiskveiðum og öflugan fiskiðnað, að þjóðartekjurnar eru jafnháar hér og raun ber vitni, segir í hinum alþjóðlegu skýrslum. Þessi eina staðreynd sýnir vel mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðina alla. Vegni honum illa sökum aflaleysis ellegar óstjórnar í landsmálum, segir það strax til sín í lífskjörum þjóðarinnar, því að enginn sá atvinnurekstur er til í landinu annar, er aflað geti nauðsynlegs gjaldeyris, sem er forsenda innlendra framfara. Við ráðum ekki yfir sjálfu aflamagninu nema að óverulegu leyti. Þar eru sterkari öfl að verki. En stjórn málefna landsmanna er í höndum okkar sjálfra og þá fyrst og fremst ríkjandi stjórnar og þess þingmeirihluta, er hana styður hverju sinni.

Hvernig hefur nú stjórnarstefnan reynzt sjávarútveginum?

Megineinkenni stjórnarstefnunnar er æðisgengnari verðbólga, en hér hefur áður þekkzt og meiri, en í nokkru viðskiptalanda okkar. Enga atvinnuvegi leikur verðbólgan verr, en útflutningsatvinnuvegina, því að hið erlenda markaðsverð, sem er endurgjald útflutningsverðmætanna, lagar sig sjaldnast að innlendum framleiðslukostnaði, sem vex risaskrefum á verðbólgutímum.

Eitt helzta verkefni alla ríkisstjórna á Íslandi eftir síðari heimsstyrjöldina hefur einmitt verið það að berjast við þetta vandamál. Með gengisfellingum, skattaálögum og uppbótargreiðslum og svipuðum ráðstöfunum hefur verið reynt að jafna þann mun, sem verðbólgan hefur skapað á milli innlends framleiðslukostnaðar og markaðsverðs útflutningsatvinnuvegann, og koma þannig í veg fyrir, að þeir stöðvist. Í dag er þetta vandamál sennilega stærra, en oftast áður og skilningur hæstv. ríkisstj. ábyggilega minni en áður. Þessa staðhæfingu er skylt að rökstyðja.

Uppbygging fiskiðnaðarins er eitt af stærstu verkefnum okkar á komandi árum. Vinna þarf miklu meira þann afla, sem á land berst, en tekizt hefur til þessa. Til þess að það geti orðið, þarf mikið fjármagn, hagstæð lán og skipulega fjárfestingu. Verðbólgan hindrar eðlilega sparifjármyndun í landinu og skapar því lánsfjárskort. Sjálfsagt er, þegar þannig er ástatt, að ríkisvaldið tryggi verulegan hluta hins takmarkaða lánsfjár til undirstöðuatvinnuveganna. En það brýtur í bága við frelsisboðskap hæstv. ríkisstj. og gengur í berhögg við hagsmuni valdamikilla manna í Sjálfstfl. í verzlunar- og þjónustustétt. Þess vegna gerist það, að á sama tíma og fjármunamyndunin í fiskiðnaði lækkar úr 179 millj. kr. árið 1962 í 138 millj. kr. 1964, hækkar fjármunamyndunin í verzlunar- og skrifstofuhúsnæði úr 110 millj. kr. 1962 í 139 millj. kr. 1964. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að tölurnar um fjármunamyndunina 1964 eru áætlunartölur, sem geta breytzt eitthvað. Þannig metur þá stjórnarstefnan meir byggingu verzlunarhallanna við Suðurlandsbraut í Reykjavik, en byggingu fiskvinnslustöðvanna víðs vegar um landið. Þess vegna gerist það enn fremur, að á sama tíma og vextir í landinu eru almennt lækkaðir verulega á hvers kyns lánum, nær sú vaxtalækkun ekki til lána úr aðalstofnlánasjóði sjávarútvegsins, fiskveiðasjóði, sem þó fær mestallt fjármagn sitt frá þessum atvinnuvegi með útflutningsgjaldi á útfluttar sjávarafurðir. Þess vegna gerist það, að rekstrarlán til útgerðarinnar hafa ekkert hækkað undanfarandi 5 ár þrátt fyrir stóraukinn útgerðarkostnað og að engin lánastofnun er til í landinu, sem lánar eyri til veiðarfærakaupa. Þess vegna gerist það við setningu nýrra tollskrárlaga, að tollar á algengustu vinnuvélar sjávarútvegsins eru ákveðnir frá 10% upp í 35%, á sama tíma og vélar til kísilgúrverksmiðju, sem framleiða á til útflutnings, eru algerlega felldir niður. En einmitt nýjar og afkastamiklar vinnuvélar, t.d. í fiskiðnaðinum, gætu vegið á móti vinnuaflsskortinum þar, sem gerði hann færari um að greiða hærra kaup og þannig stytt hinn óhóflega langa vinnutíma fólksins, sem þar vinnur. Þess vegna gerist það enn fremur, að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. tryggir íbúðalánakerfinu 260–270 millj. kr. árlegar tekjur, sem í sjálfu sér er lofsvert, tilkynnir hún af nokkru yfirlæti, að stofnlánadeild sjávarútvegsins séu tryggðar 40 millj. kr. til útlána í fiskiðnaðinn allan, þ. á m. síldarverksmiðjur. Ekkert af þessu fjármagni er nýtt fé til þessara atvinnugreina, heldur endurlánaðar innborganir af eldri lánum, sem þegar eru bundin í þessari atvinnugrein.

Þessi dæmi um skilningsleysi valdhafanna á þýðingu sjávarútvegsins fyrir afkomu þjóðarinnar ganga ekkert síður fram af mörgum stjórnarstuðningsmanninum og þá fyrst og fremst þeim, er gerst til þekkja, heldur en okkur í stjórnarandstöðunni. Þannig ályktaði landsfundur útvegsmanna og fiskverkenda, haldinn í Reykjavik 21. apríl s.l., m.a., að breytingar verði að gera á afkomumöguleikum útvegs og fiskverkunar, þannig að sjávarútvegurinn geti aftur öðlazt verðskuldaðan sess í efnahagskerfinu sem megin undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, eins og þar segir og fjarri fer því, að stjórnarandstæðingar einir stæðu að þeirri samþykkt, það sá ég sjálfur.

En með þessu er sagan ekki öll sögð, þó að ærin sé þegar. Ofan á verðbólguerfiðleika og lánsfjárskort útvegsins, sem fylgir stjórnarstefnunni, bætast hvers kyns opinberar álögur og kröfur úr öllum áttum. Um þetta skrifaði Haraldur Böðvarsson útgerðarmaður á Akranesi í Morgunblaðið 16. marz s.l. mjög athyglisverða grein, sem allir ættu að lesa með athygli, hafi þeir ekki þegar gert það. Hann segir þar m. a., að þótt útgerðarklárinn sé stólpagripur, sem alla tíð hafi borið þunga bagga, sé nú að því komið, að drápsklyfjarnar séu að sliga hann. Enn fremur segir hann, að ástandið sé orðið mjög ískyggilegt og hætta á, að þessi atvinnurekstur lognist út af fyrr en varir, ef svo haldi fram sem horfir. Það, sem mér finnst einna athyglisverðast við þessa grein, er, að hún skuli einmitt skrifuð af Haraldi Böðvarssyni, því að almennt mun atvinnurekstur hans vera talinn í fremstu röð um aðstöðu alla og stjórn. Sé ástandið í atvinnurekstri hans jafnerfitt og hann lýsir, sem ég vil alls ekki véfengja, hvað má þá segja um aðra, sem lakari aðstöðu hafa og rekstur? Hvað má enn fremur hugsa um þá stjórnarstefnu, sem leiðir til þessa ástands í höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar í mesta góðæri til sjávarins og við hagstæðari viðskiptakjör en íslendingar hafa oftast búið við? Ég læt hverjum og einum eftir að fella dóm um það.

Ég hef enga löngun til að gera hlut hæstv. ríkisstj. og stefnu hennar lakari, en efni standa til, enda hygg ég, að allt það, sem ég hef á undan sagt, styðjist við gild rök. Hitt veldur áhyggjum, að horfa upp á sívaxandi erfiðleika undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar, sem öll okkar afkoma byggist endanlega á. Þrátt fyrir stóraukna framleiðni í sjávarútvegi og landbúnaði, leitar hvorki fólkið né peningarnir í þá atvinnuvegi. Ýmis þjónustustörf, sum nauðsynleg, önnur ekki og milliliðastarfsemi virðast hafa meira aðdráttarafl og borga hærra kaup fyrir styttri og þægilegri vinnu. Það eru vissulega takmörk fyrir því, hvað slíkt getur gengið lengi. Hið marglofaða frelsi, sem hæstv. ríkisstj. segist berjast hvað mest fyrir, getur ekki talizt æskilegt nema að vissu marki. Leiði það til stórfelldrar aukningar á hvers kyns milliliðastarfsemi, óhóflegs kostnaðar við yfirbyggingu þjóðfélagsins, sem undirstöðuatvinnuvegirnir fá ekki undir risið, á ríkisvaldið að skerast í leikinn. Ég hef t.d. oft spurt sjálfan mig og aðra, hvaða nauðsyn beri til þess, að í innflutningsverzluninni vinni þúsundir manna í mörg hundruð fyrirtækjum, á sama tíma og útflutningsverzlun landsmanna er rekin af örfáum aðilum með fámennu starfsliði, borið saman við innflutningsverzlunina. Svipaðrar spurningar má spyrja varðandi margvísleg þjónustufyrirtæki útvegsins, sem öll virðast græða vel og þannig mætti áfram spyrja.

Herra forseti. Tími minn er nú á enda. Segja má, að deilur um fortíðina setji of mikinn svip á stjórnmálaumr. hér á landi. Þær skipta þó nokkru máli, af því að af reynslunni eigum við að geta lært og forðazt endurtekningar stærstu mistakanna. Framtíðin hlýtur þó að verða aðalinntak frjórrar stjórnmálabaráttu. Í því sambandi langar mig til þess að vitna í ummæli Winstons Churchills, þau er hann viðhafði, er hann tók við forustu lands síns úr hendi mistakamannsins Chamberlains á erfiðri stundu. Hann sagði þá: „Við skulum ekki byrja deilur um nútíð og fortíð, því að þá eigum við á hættu að glata framtíðinni.“

Íslendingar þurfa á fáu meira að halda nú, en eindrægni og betri samvinnu um málefni sín. Til þess að það geti orðið, þarf sterka og réttláta ríkisstj., sem sameinað getur sem flest hin stríðandi öfl um ákveðna stjórnarstefnu. Núv. hæstv. ríkisstj. er allsendis ófær um að veita þá forustu, þótt ekki væri fyrir aðra sök en þá eina, að hún styðst við lítinn meiri hluta landsmanna, sem fer minnkandi. Þegar þar á ofan bætist, að flest aðalstefnumál hennar hafa snúizt í höndum hennar, má fullyrða, að forusta hennar sé vonlaus. Þráseta hæstv. ríkisstj, leysir því engan vanda, heldur skapar marga nýja. Þess vegna á hún að segja af sér sem fyrst. — Góða nótt.