11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

Almennar stjórnmálaumræður

Helgi Bergs:

Gott kvöld, góðir áheyrendur. Ríkisstj. hefur stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar í algert óefni í mesta góðæri í manna minnum. Óvenjuleg aflabrögð hafa aukið þjóðarframleiðsluna um fimmtung á undanförnum 3 árum og hækkandi verðlag afurðanna á erlendum markaði hefur leitt til enn meiri aukningar þjóðarteknanna, sem hafa aukizt um fjórðung. Almennur vinnufriður í meira en heilt ár fyrir biðlund og fórnfýsi launafólks hefur stuðlað að aukinni framleiðslu. Öll ytri skilyrði till góðrar efnahagslegrar afkomu hafa verið eins og bezt verður á kosið. Í þessu einstaka góðæri mun öllum þorra manna hafa tekizt með mikilli vinnu að skapa sér sæmilega afkomu, en hvergi nærri eins góða og ytri skilyrði gáfu tilefni til.

Þjóðinni hefur orðið lítið úr miklu aflafé og er fróðlegt að kanna ástæður til þess. Hvert fara þessir auknu fjármunir? Ekki hefur afkoma atvinnurekstrarins batnað. Bændur búa við erfiðari hlut en áður, einkum þeir, sem staðið hafa og standa þurfa í framkvæmdum. Fiskframleiðendur hafa nýlega komið saman til fundar og ályktað, að rekstrargrundvöllur sé nú orðinn svo slæmur vegna dýrtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar, að til vandræða og stöðvunar horfi.

Iðnaðurinn hefur orðið fyrir barðinu á stjórnarstefnunni á þann hátt, að nú er mjög að honum þrengt vegna aukinnar samkeppni, en ríkisstj. hefur svikizt um að gera þær ráðstafanir, sem lofað var til þess að auðvelda iðnaðinum aðlögun að þessum aðstæðum.

Þannig fær atvinnureksturinn ekki of mikið í sinn hlut, en þvert á móti er hann illa settur. Hár fjármagnskostnaður, sem ríkisstj. beitir sér fyrir, er að vísu þungur baggi. En það kemur fleira til og ég vil nefna þrjár ástæður, sem ég tel, að eigi einna ríkastan þátt í því, að afkoma almennings batnar ekki meir, en raun ber vitni. Í fyrsta lagi hefur ríkisvaldið tekið til sín vaxandi hluta af tekjum manna, aðallega til þess að standa straum af óhóflegri opinberri eyðslu. Í öðru lagi hefur ríkt algert stjórnleysi í efnahagsmálum og fjárfestingarmálum þjóðarinnar. Í þriðja lagi skortir ríkisvaldið skilning á þeim endurbótum, sem fram þurfa að fara í efnahags- ag atvinnulífi okkar til þess að tryggja aukna framleiðslu án aukins vinnuframlags.

Þegar ríkisstj. lyppaðist niður með þvingunarlagafrv. sitt í nóvembermánuði 1963, sneri hún sér að því að ná sér niðri á launþegum með öðrum hætti. Í janúarmánuði 1964 voru lögð á þjóðina hundruð millj. í hækkuðum söluskatti, sem þá var hækkaður úr 3% í 51/2 %. Um mitt sumar voru sýndir stærri skattareikningar. en nokkru sinni fyrr. Og í des. voru menn krafðir um hundruð millj. í viðbót í hækkuðum sölusköttum, sem þá voru hækkaðir úr 51/2% í 71/2%. Á undanförnum 5 árum hefur söluskatturinn nífaldazt, úr 102 millj. kr., sem hann var 1960, í 923 millj. kr. skv. fjárl. 1965 og á sama tíma hefur tekju- og eignarskattur aukizt úr 97 millj. kr. í 375 millj. kr. eða fjórfaldazt.

Víst hefur ríkisstj. verið afkastamikil í því að smækka krónuna. En samt er hér um slíka margföldun á skattabyrðinni að ræða, að þess munu naumast dæmi áður í stjórnmálasögunni á svo skömmum tíma. Og ríkisstj. hefur ekki látið við þetta sitja. Varla hefur verið lagt fram nokkurt meiri háttar stjórnarfrv. á Alþ., svo að ekki hafi verið laumað inn í það ákvæðum um nýja skatta af einhverju tagi. Síðasta dæmi þessa eru breyt., sem gerðar voru á húsnæðismálalöggjöfinni skv. júnísamkomulaginu í fyrra, inn í það var á síðustu stundu skotið nýjum fasteignaskatti, sem fellur þungt á þá, sem staðið hafa sjálfir í því að byggja yfir sig íbúðir og eiga þær því án mjög mikilla skulda. Í frv. um skipulag rannsóknarmála var lætt inn ákvæðum um nýja skatta á iðnaðarvörur og á byggingarefni, að ógleymdum þeim sköttum, sem lagðir eru á atvinnuvegina í lögunum um stofnlánasjóðina, sem sett hafa verið á undanförnum árum, og svona mætti lengi telja.

Það kemur að vísu engum á óvart, að mikið þurfi til, til þess að standa að þeirri eyðslu og óráðsíu, sem Halldór E. Sigurðsson gerði ýtarlega grein fyrir hér í gær og ég skal ekki endurtaka. En þó hefur ekki allt þetta fé farið til þess. Það er einnig reynt að réttlæta skattheimtuna með nauðsyn þess að taka fé úr umferð og safna greiðsluafgöngum, sem sagt er að komi í veg fyrir verðbólgu, þó að erlendir efnahagssérfræðingar virðist nú orðnir sammála um, að jafnvægi í efnahagsmálum verði ekki náð með ráðstöfunum í peningamálum einum saman. En það er eftirlætiskenning stjórnarliða, enda ætti raunar reynsla okkar undanfarin ár að kenna okkur þetta.

Á þeim fjórum árum, sem ríkisstj. hefur setið og ríkisreikningar eru til um, hefur skattheimtan orðið slík, að innheimtar hafa verið 690 millj. kr. umfram fjárl., rekstrarhagnaður ríkissjóðs hefur farið 466 millj. kr. fram úr áætlun og orðið 946 millj. og greiðsluafgangur hefur samtals verið 365 millj. kr. Þjóðina munar um minna en þetta.

En þó að þannig hafi flætt út úr öllum ílátum fjmrh., hefur dýrtíðin vaxið meira, en nokkru sinni í tvo áratugi. Rétt er það að vísu, sem fram kom hjá Jóni Þorsteinssyni í gær, að þessi ríkisstj. á ekki Íslandsmet, það á minnihlutastjórn Sjálfstfl. frá 1942 og það met verður vonandi aldrei slegið.

Nú hvísla stjórnarliðar því í þingsölunum, að afkoma ríkissjóðs sé lakari á árinu 1964, sem reikningar hafa enn ekki verið birtir um. Því verður þó varlega trúað, þar sem ríkisstj. hefur neitað að leggja fram gögn um það í fjhn. Ed. þrátt fyrir áskoranir, og fráfarandi fjmrh. var hljóður um það hér í gær, þó að menn hafi búizt við því, að hann gerði grein fyrir því, hvernig hann skilur við, þegar hann afhendir kassann eftir 51/2 ár. En sé það rétt, að svo sé málum komið samfara stóraukinni skattheimtu, sýnir það aðeins það eitt, að þessari ríkisstj. er ekki trúandi fyrir fjármunum þjóðarinnar. Og nú hefur stjórnin ákveðið að skera niður opinberar framkvæmdir, fé til skóla, sjúkrahúsa, samgangna og annarra nauðsynlegustu framkvæmda um 1/5, til þess að hvort tveggja geti haldið áfram í senn, eyðslan og bruðlið og söfnun afganga í Seðlabankanum.

En jafnvel Seðlabankanum ofbýður skattheimtan og hann hefur varað ríkisstj. alvarlega við. Í ritstjórnargrein í Fjármálatíðindum, málgagni Seðlabankans, sem út kom í haust, segir m.a. að „ekkert þjóðfélagskerfi sé svo sterkt, að ekki sé nauðsynlegt að gæta hófs í skattlagningu, ef forðast á alvarlegar afleiðingar ofsköttunar í formi efnahagslegs tjóns og spillingar.“ Og enn fremur segir þar um beinu skattana: „Það virðist nú almennt álítið, að þær skattareglur, sem í gildi eru, hafi bæði leitt til hærri skattabyrða á launþegum en þeir vilja sætta sig við og jafnframt því hafi stórfellt ranglæti átt sér stað vegna útbreiddra skattsvika. Augljóst virðist, að úr þessu verður ekki bætt nema með verulegri lækkun beinna skatta.“ Um óbeinu skattana segir: „Skattheimtan á þessum sviðum er áreiðanlega þegar komin nærri og sums staðar yfir þau takmörk, sem heilbrigðri skattheimtu eru sett.“

Þetta er ótvíræð aðvörun, sem verður ekki með neinu móti misskilin. En ríkisstj. hefur látið hana sem vind um eyrun þjóta og hefur síðan hækkað söluskattinn stórlega og í stað þess að lækka beinu skattana, hefur hún nú ákveðið að hækka þá enn úr 260 millj. kr. í fyrra og í 375 millj. kr. skv. fjárlögum þessa árs. Skattgreiðendur munu sannreyna það á komandi sumri, að hjá ríkisstj. hefur engin hugarfarsbreyting átt sér stað í skattamálum þrátt fyrir fögur fyrirheit á s.l. hausti. Öll þessi mikla skattheimta hefur átt drjúgan þátt í því að koma í veg fyrir, að almennar, raunhæfar kjarabætur gætu átt sér stað.

Og svo er það skipulagsleysið og handahófið í fjárfestingarmálum. Allt of mikið af fjárfestingunni miðast við það eitt að græða á verðrýrnun peninganna. Engin þjóð, sem við höfum spurnir af í nágrenni okkar, telur sig geta verið án löggjafar til þess að geta haft hemil á verðbólgufjárfestingunni nema við og höfum við þó sýnu ríkari ástæðu til þess en aðrir, þar sem við búum við verðbólguóstjórn.

Það eru ekki bara hyggileg vinnubrögð, heldur líka óhjákvæmileg nauðsyn að raða niður fyrir sér verkefnum sínum og ráðast í það fyrst, sem mest kallar að í þjóðarþágu. Slík vinnubrögð eiga ekki síður við um búskap þjóðarheildarinnar, en búskap hvers einstaklings. Ef við höldum áfram að láta kylfu ráða kasti í fjárfestingarmálunum, þá mun enn fara svo, að okkur verði lítið úr miklum fjármunum og verðbólgan eyði sívaxandi hluta þeirra.

Það er sorgleg staðreynd, sem lýsir betur en flest annað, þeirri óstjórn, sem ríkt hefur í efnahagsmálum, að launþegar skuli ekki hafa getað bætt kjör sín nema með síaukinni vinnu í eindæma árferði og við vaxandi þjóðarframleiðslu og hækkandi afurðaverð. Ef nokkurt vit ætti að vera í slíkri niðurstöðu, þá ætti skýringin að vera sú, að sá vöxtur þjóðarframleiðslu, sem orðið hefur á síðustu árum, hafi krafizt að sama skapi aukinnar vinnu, en afköst og framleiðni hafi ekki aukizt að marki. Og þeir, sem sífellt eru að tala um vinnuaflsskortinn eins og forsrh. hér í gær, hljóta að vera þeirrar skoðunar, að svo sé. En vinnuaflsskortur er ekki vandamálið, heldur misnotkun vinnuaflsins. Okkur vantar ekki vinnuafl, heldur betri tæki, betra skipulag, svo að við getum afkastað meiru, en við gerum nú.

Við bætum ekki kjör okkar með því að vera fleiri um að skipta þeim verðmætum, sem skapast, heldur með því að framleiða meira með jafnmörgum höndum. En við búum við þá ógæfu að hafa ríkisstj., sem kýs heldur að loka fjármuni þjóðarinnar inni í bankahólfum en afla þeirra véla og framleiðslutækja, sem þjóðina skortir til þess að geta aukið framleiðslu sína án aukins vinnuframlags.

Við verðum eins og aðrar þjóðir, sem búa við fulla atvinnu, að leggja megináherzlu á að taka tæknina í þjónustu okkar í sem allra ríkustum mæli og eftir föngum að efla þá þætti atvinnuuppbyggingarinnar, þar sem vélar og tækni skapa mikil framleiðsluverðmæti með sem minnstu vinnuafli. Með þeim hætti einum getur þjóðin stóraukið tekjur sínar án þess að leggja alltaf á sig meiri og meiri vinnu. En til þess þarf að nota fjármagn þjóðarinnar og hafa það í umferð.

Verðbólga og dýrtíð og bruðl og skattheimta, sem mun talin til eindæma, — þetta er myndin af þessari ríkisstj., sem geymast mun um langan aldur og vonandi reynast þjóðinni víti til varnaðar. En ríkisstjórn, sem í mesta góðæri í mannamynnum stefnir málefnum þjóðarinnar í ónýtt efni, er ekki líkleg til að vera þeim verkefnum vaxin, sem við stæðum frammi fyrir, ef náttúruöflin yrðu okkur ekki jafnhliðholl og verið hefur um hríð.

Þjóðin hefur fengið nóg af taumlausri dýrtíð, óhóflegri skattlagningu, eyðslu og óráðsíu, samfara niðurskurði á nauðsynlegum opinberum framkvæmdum. Vinnubrögð þingmeirihl. í vetur og sérstaklega nú síðustu vikurnar taka af öll tvímæli um það, að ríkisstj. er úrræðalaus og uppgefin. Af henni er einskis að vænta til framdráttar okkar þjóð. — Góða nótt.