11.05.1965
Sameinað þing: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Jóhann Hafstein iðnmrh., sem talaði hér áðan, var ánægður með þá staðreynd, að víða á landinu stendur atvinnulif með blóma, og hann má vera ánægður. Víða er jafnvel stöðugur skortur á vinnuafli. Á eftir bætti ráðh. við í hálfkæringi: Atvinnuleysisdraugurinn, hvaða Móri er nú það? — En svo var eins og hann rankaði allt í einu við sér. Það var eins og hann rámaði í að hafa heyrt þess getið, að einhvers staðar á landinu væri nú erfitt um atvinnu.

Atvinnuleysisdraugurinn, hvaða Móri er nú það? Því munu ýmsir landsmenn geta svarað af reynslu dagsins í dag. Meðan meira góðæri gengur yfir þjóðina, en nokkru sinni hefur þekkzt í íslenzkri sögu, ríkir kreppuástand í heilum landshlutum. Illt var ástandið á Norðurlandi í fyrravetur og verra var það í vetur. Atvinnuleysisdraugurinn er ekki aðeins á vestanverðu Norðurlandi, þótt þar sé ástandið verst, heldur hefur hann nú víkkað út veldi sitt um allt Norðurland og hluta Vestfjarða.

Fyrir réttu ári, hinn 11. maí, voru eldhúsdagsumr. á Alþingi. Mér er það minnisstætt, að Jóhann Hafstein flutti þá lokaræðuna fyrir Sjálfstfl. Þá var helzt að sjá, að hinn norðlenzki draugur hefði vitjað ráðh. í draumi og þá vantaði ekki tafarlaus úrræði. Eitt hið seinasta, sem ráðh. sagði í ræðu sinni, var þetta: „Í dag hef ég ákveðið nefndarskipun til þess að athuga, hvað hægt sé að gera til þess að auka iðnað í þeim kaupstöðum og kauptúnum, þar sem atvinna er ónóg.“ Jóhann Hafstein skipaði n. til að friða Norðlendinga. Hún átti að gera till. um úrræði í atvinnumálum. N. hóf þegar störf, ferðaðist víða, hélt marga fundi og skilaði ýtarlegu áliti til Alþingis, skömmu eftir að þingstörf hófust í haust. Um það bil, sem n. skilaði áliti sínu, bar ég fram fsp. á Alþingi til Jóhanns Hafsteins um það, hverjar af till. n. ríkisstj. hygðist taka upp á arma sína og framkvæma. Jóhann Hafstein var tregur til svars, sagði að málið væri í athugun og hálfpartinn snupraði mig fyrir að spyrja um málið, fyrirspurnin væri ótímabær og ríkisstj. yrði að fá frið til að hugsa sig um.

Jóhann Hafstein hefur haft góðan tíma til að hugsa í vetur. Þingstörf hafa gengið seint og þunglega. Oft hef ég séð Jóhann Hafstein í þungum þönkum, en ekki hef ég orðið var við árangurinn. Alúmínbræðslan við Hafnarfjörð á hug hans allan.

Hvað ætlar ríkisstj. að taka til bragðs vegna ástandsins í atvinnumálum Norðlendinga? Lengi hafa menn beðið eftir svarinu og ekki fékkst það fram í þessum umr. Hið eina, sem fram kom hjá ráðh. áðan, var loforð um, að stofnaður yrði sérstakur framkvæmdasjóður fyrir dreifbýlið. Ekki vil ég lasta, að slíkur sjóður verði stofnaður. En ég vil minna á, að fyrir eru í landinu tugir af sjóðum og lánastofnunum, sem gætu lánað fé til atvinnueflingar, þar sem þess er þörf, ef þeir aðeins fengju að lána. Við höfum atvinnubótasjóð, atvinnuleysistryggingasjóð, iðnlánasjóð, fiskimálasjóð og ótal aðrar stofnanir. Það vantar ekki sjóðina. Það, sem vantar, eru ákvarðanir. Það vantar viljann.

Það er seinasta afrek ríkisstj., að á elleftu stundu stöðvaði hún till. um aðstoð við byggingu dráttarbrautar á Siglufirði. Till. var þá komin langleiðina gegnum þingið og aðeins vantaði herzlumuninn, því að allshn. mælti einróma með samþykkt hennar. En þá lét ráðh. kippa henni út af dagskránni.

Í fyrra voru samþ. till. um, að ráðh. skyldi athuga um byggingu tunnuverksmiðju á Skagaströnd og fóðuriðnaðarverksmiðju á sömu slóðum. Ekkert hefur frétzt af þessum málum, þau virðast gleymd og grafin í skrifborðsskúffu ráðh., heimagrafreit stjórnarráðsins fyrir slík málefni.

Hvað væri þá unnt að gera, ef vilji væri fyrir hendi — eða er þetta kannske óleysanlegt vandamál? Nýlega samþykkti Alþingi þáltill., sem flutt var af okkur Birni Jónssyni, þar sem skorað er á ríkisstj. að beita sér fyrir skipulögðum síldarflutningum til þeirra staða, sem búa við erfitt atvinnuástand. Þessa ályktun ber ríkisstj. að framkvæma með myndarbrag, en ekki að salta hana í tunnu, eins og stundum vill henda.

Í öðru lagi mætti flytja bolfisk, slægðan og ísaðan, á Norðurlandshafnir að vetrarlagi og þyrfti þá að velja góðan stað, t.d. landshöfnina á Rifi, til að taka við fiski, slægja hann til bráðabirgða og koma fyrir í flutningaskipi. Aðalvinnan færi þá fram í frystihúsi norðanlands.

Í þriðja lagi mætti koma á fót ýmiss konar iðnaði, eins og margoft hefur verið bent á. Ef tekið væri 200 millj. kr. lán, sem notað væri til atvinnueflingar, þar sem ástandið er verst, yrði þegar í stað gerbylting í atvinnulífi Norðlendinga. 200 millj. eru þó minna, en tíundi hluti af kostnaði við raforkuverið, sem framleiða á raforku til útlendinga undir kostnaðarverði og vafalaust yrðu þetta arðbærari fyrirtæki fyrir þjóðina.

Þannig mætti lengi telja. En sofandaháttur ríkisstj. í þessu efni er dýrkeyptur fyrir þjóðina. Þess verður áþreifanlega vart, að á Íslandi eru að myndast skörp skil á milli landshluta hvað atvinnumál snertir, líkt og landamörk þjóða í milli. Með því að vanrækja algerlega uppbyggingu atvinnulífsins úti um land, en hlaða niður allri fjárfestingu í einn landshluta og bæta svo risavaxinni alúminíumverksmiðju ofan á allt saman, er ríkisstj. að skipta landinu í tvö þjóðfélög. Þetta verður ekki járntjald milli norðurs og suðurs og ekki heldur bambustjald. Hér á að rísa alúmíntjaldið, tjaldið, sem skilur á milli taps og gróða, milli atvinnulífs og atvinnuleysis.

Þessum stjórnmálaumr., sem kenndar eru af gömlum sið við eldhúsið, fer nú senn að ljúka. Eins og eðlilegt er, er það ríkisstj., verk hennar og áform, sem athyglin beinist að. Ráðherrarnir standa með svuntuna á maganum og dásama eldamennsku sína. Þeir kynna fyrir þjóðinni þann mat og drykk, sem þeir hafa verið að brasa og brugga ofan í landsmenn hér á Alþingi í vetur og sýna henni kræsingarnar, sem á að fara að stinga inn í ofninn. Síðan fara ráðherrarnir nokkrum orðum um ágætt innræti sitt og aðra kosti, lýsa sanngirni sinni og góðmennsku, sáttfýsi, einstökum stórhug og hjálpsemi við lítilmagna þjóðfélagsins.

Þegar litið er á meginviðhorf ríkisstj. og gerðir, hvert skyldi þá vera sterkasta einkennið í fari hennar? Er það réttlætiskenndin alkunna í garð allra stétta, stórhugur framkvæmdamannanna eða hin nýræktaða sáttfýsi Bjarna Benediktssonar? Eða er það kannske úrræðaleysi og sviksemi, eins og sumir segja?

Það er skoðun mín, að þrátt fyrir ýmis einkenni, sem oft heyrast nefnd, bæði ógeðfelld og fögur, sé þó eitt auðkenni öðrum skýrara. Þetta afgerandi sérkenni ríkisstj. er minnimáttarkenndin, vantrúin á getu þjóðarinnar til að standa á eigin fótum, vantrúin á hæfni landsmanna til að byggja einir upp íslenzkt atvinnulíf, vantrúin á vilja þjóðarinnar til að halda sjálfstæði sínu gagnvart erlendum þjóðum eða hvers konar útlendum hagsmunahópum. Það var eitt fyrsta verk ríkisstj. að semja af Íslendingum ein mikilvægustu réttindi þeirra. Áður höfðu Íslendingar óbundnar hendur um útfærslu landhelginnar eins og aðrar þjóðir. Með frumkvæði sínu voru Íslendingar meðal forustuþjóða í landhelgismálum og markviss stefna þeirra hafði stórfelld áhrif til góðs á þróunina á þessu sviði alþjóðaréttar, þar sem engin lög eða alþjóðasamningar ríkja. Sú stefna leiddi tvívegis til sigurs, fyrst 1952, síðan 1958, enda þótt Bretar gerðu nokkrar misheppnaðar tilraunir til að hafa áhrif á stefnu okkar með valdbeitingu. Eftir samninginn við Breta vorum við ekki lengur frjálsir gerða okkar. Minnimáttarkenndin leiddi til þess, að Íslendingar verða hér eftir að lúta duttlungum gerðardóms í málefni, sem dæmt yrði ekki samkv. lögum, heldur eftir frjálsu mati erlendra dómara. Þetta veit Birgir Finnsson, sem talaði hér áðan um till. þeirra Hannibals Valdimarssonar og Sigurvins Einarssonar, en reynir nú að bjarga sér frá sannleikanum með fánýtu hjali um athugun og ónógan undirbúning.

Minnimáttarkenndin hefur ráðið stefnunni í utanríkismálum Íslendinga frá stríðslokum. Í stað þess að standa óháðir og hlutlausir í hernaði var Íslendingum troðið í hernaðarbandalag. Brynjaðir í bak og fyrir með flugstöð á Miðnesheiði, flotastöð í Hvalfirði er Reykvíkingum ætlað á síðkvöldum að sökkva sér niður í bandaríska morðmenningu. Nú er röðin komin að alþjóðlegum auðhringum. Íslendingar, sem á kreppuárum lyftu grettistökum í raforkumálum, eru nú sagðir svo aumir og vesælir, að þeir geti ekki séð sér fyrir rafmagni af eigin rammleik. Enn verða útlendingar að hlaupa undir baggann. Það er hið sanna um stórhug og bjartsýni ríkisstj. Sem betur fer verður þess áþreifanlega vart, að jafnvel ýmsum stjórnarsinnum ofbýður hin nagandi minnimáttarkennd, sem birtist í undirlægjuhætti ráðandi manna gagnvart útlendum húsbændum. Allir helztu menntamenn stjórnarflokkanna eru í uppreisn vegna sjónvarpsmálsins, svo að jafnvel ritstjóri Alþýðublaðsins, Benedikt Gröndal, einn helzti talsmaður bandaríska sjónvarpsins fyrir nokkrum árum, sá sig neyddan til þess að lýsa því yfir í vetur, að þetta mál væri ein andstyggileg sjálfhelda og bæri hiklaust að skrúfa fyrir bandaríska sjónvarpið, þegar það íslenzka kæmist í gagnið.

Þessa dagana er þess minnzt, að Ísland hefur verið hernumið land í 25 ár. Menningarvika hernámsandstæðinga, sem haldin var af þessu efni, var tákn um óbugaðan vilja íslenzkra listamanna og menntamanna til að varðveita, umskapa og endurnýja íslenzku menninguna í harðri samkeppni við afleiðingar hernámsstefnunnar. Skáld og rithöfundar, tónlistarmenn og leikarar, 36 íslenzkir myndlistarmenn, svo að dæmi séu nefnd, — framlag þessara listamanna talar sínu máli. Og sjaldan eða aldrei hefur mótmælaganga hernámsandstæðinga frá herstöðinni í Keflavík verið glæsilegri en nú. Þeir 270 andstæðingar hernámsins, sem gönguna hófu, sáu árangur erfiðis síns, þegar þeir hurfu eins og dropar í mannhafið, sem kom til móts við þá og fylgdi göngunni úr Hafnarfirði og Kópavogi. Þrátt fyrir hina einstæðu áróðursaðstöðu Bandaríkjamanna á Íslandi er mótstöðuaflið óbugandi, mergurinn í íslenzkri þjóðmenningu óbrotinn og sterkur sem fyrr. Þessu fékk forsrh. áþreifanlega að kynnast á sunnudagskvöldið, þar sem hann stóð á svölunum heima hjá sér og horfði á þúsundirnar streyma yfir Öskjuhlíðina á leið til mótmælafundar í Lækjargötu. Útifundurinn var tvímælalaust einn hinn fjölmennasti, sem sézt hefur í Reykjavík og jafnframt einn eftirminnilegasti fyrir alla viðstadda, andstæðurnar furðulega sterkar, annars vegar mannhaf þúsundanna, einbeittur hópur friðsamra borgara, hins vegar æpandi, öskrandi Varðbergspiltar með grjótið og fúleggið að vopni. Aldrei hafa skrílslæti yngstu deildarinnar í Heimdalli verið með slíkum eindæmum. Við skulum gæta þess, að fyrir fáum árum var þetta algerlega óþekkt fyrirbrigði. Nú, þegar Bjarni Benediktsson er búinn að koma því svo fyrir, að bandarískir glæpamenn og slagsmálahetjur eru gestir á þúsundum íslenzkra heimila hvert einasta kvöld, segja uppeldisáhrifin þegar til sín. Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn segir um þennan lýð í viðtali við Tímann í morgun: „Nálægt 200 manns, mestmegnis unglingar, bæði strákar og stelpur, en einnig nokkrir fullorðnir menn.“

Ég spyr nú að lokum: Hvort er sjálfur uppalandinn, Bjarni Benediktsson, óánægður eða stoltur, þegar 200 skipulagðir stríðsmenn úr Heimdalli vaða um götur bæjarins með grjóti og eggjakasti á friðsama borgara og berjast trylltir við lögregluna fram á rauða nótt, svo að suma verður að rota með lögreglukylfum, en aðra að setja í járn?

Góðir Íslendingar, tvær stefnur, tvö tákn blasa við sjónum: annars vegar hin glæsilega menningarvika hernámsandstæðinga, listahátíð ársins, hins vegar hinn æpandi skríll, merkisberi hernámsstefnunnar. Við skulum geyma í minni þessar tvær táknmyndir frá því um síðustu helgi. Bak við þær er sannarlega fólgin merkileg saga, sem draga má lærdóm af. Góða nótt.