07.05.1965
Sameinað þing: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Aluminíumverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur nýlega lagt fyrir þingið skýrslu um athugun á byggingu alúminíumverksmiðju á Íslandi, sem nú er til umr. á þessum fundi, á þskj. 635. Þessi skýrsla er fram lögð til þess að efna fyrirheit, sem ég hef gefið fyrir hönd ríkisstj. um það, að Alþ. verði látið fylgjast með í einu og öllu því, sem ríkisstj. hefur aðhafzt í þessu máli. Það mætti kannske telja, að ekki væri óeðlilegt, að ég fylgdi þessari skýrslu úr hlaði með nokkurri ræðu. En þegar hliðsjón er höfð af því, hvar störfum þingsins er komið, mun ég ekki gera það að neinu ráði, en vísa efnislega til sjálfrar skýrslunnar.

Ég vil vekja athygli á því, að meginmál þessarar skýrslu hafa hv. alþm. haft milli handa frá því í nóvember s.l., en þá voru öllum alþm. afhentar í trúnaði í bili þær skýrslugerðir, ýtarlegar skýrslur og grg. um það, sem gerzt hafði í alúminíummálinu. Síðan fengu þm. viðbótarskýrslur, sem fólu í sér grg. um þær viðræður, sem fram fóru eftir afhendingu þessara skýrslna í Zürich í desember s.l., en þá var haldinn fyrsti sameiginlegi fundur milli þriggja aðila, þ.e.a.s. fulltrúa ríkisstj., fulltrúa Swiss Aluminium og fulltrúa Alþjóðabankans. Skömmu eftir áramótin var svo framhaldsfundur þessara sömu aðila í Washington og nú ekki alls fyrir löngu fóru fram viðræður milli fulltrúa ríkisstj. og fyrirtækisins Swiss Aluminium hér í Reykjavík og fyrri hluti skýrslunnar fram að bls. 12 gerir nánari grein fyrir því, sem gerzt hefur í þessu máli frá því um miðjan nóv. s.l., og að hve miklu leyti málinu hefur þokað áfram í viðræðum milli þessara aðila síðan.

Í janúarmánuði tók ég upp viðræður við þingflokkana, stjórnarandstöðuna um þátttöku í þingmannanefnd til þess að undirbúa þetta mál fyrir þingið. Þá stóðu sakir þannig, að Framsfl. hafði gert um það ályktun í þingflokki sínum, að hann vildi athuga, hvort hægt væri að koma á með sómasamlegum kjörum eða góðum kjörum fyrir okkur, að hið erlenda fyrirtæki reisti hér alúminíumverksmiðju og fengi keypta til hennar raforku frá fyrirhugaðri stórvirkjun í Þjórsá. Aftur á móti hafði ég engar yfirlýsingar fengið um þetta beint frá fulltrúum Alþb. á þessum tíma, eftir að þeir fengu skýrslurnar í hendur, — en þessi ályktun Framsfl. var gerð, eftir að þeir höfðu kynnt sér málið í skýrslum, sem fyrir lágu, — en fyrirsvarsmenn flokksins og aðalmálgögn höfðu tekið mjög ákveðna afstöðu gegn málinu, eins og kunnugt er Ég skal ekki rekja þetta frekar, en það var mín skoðun þá, að það mundi ekki greiða fyrir framgangi málsins eða undirbúningi undir þingið, að fulltrúar Alþb., miðað við það, sem ég nú hef sagt, tækju sæti í þessari n., enda þótt þeir óskuðu eftir því og hóf því starfsemi sína þingmannanefnd til undirbúnings málinu skipuð fulltrúum þriggja flokka, þ. e. stjórnarflokkanna tveggja og Framsfl. með tveimur fulltrúum frá hverjum.

Fyrsti fundur þessarar n. var haldinn 9. febr., og n. hefur haldið 10 fundi síðan. Hún hefur fjallað allýtarlega um ýmsar greinar þessa máls og sé ég ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að rekja það frekar. Hins vegar er það svo, að eftir viðræðurnar, sem áttu sér stað hér í Reykjavík síðast, hef ég litið svo á, að nokkur þáttaskil væru í þessu máli, að það væri í raun og veru komið eða mundi komast af þeim umræðugrundvelli, sem það hefur verið á fram til þessa og á það stig, að freistað yrði að gera samninga við Swiss Aluminium um að byggja alúminíumverksmiðju á Íslandi. Ég vil árétta í þessu sambandi, að allt það, sem gerð er grein fyrir í skýrslu þeirri, sem hér liggur fyrir, er algerlega óskuldbindandi fyrir hvorn aðilann sem er, en lýsir því, sem fram hefur komið um viðhorf aðilanna og vilja í þessu máli fram til þess tíma.

Þegar á þetta stig málsins var komið eftir síðustu viðræður og að því marki, sem mótast í efni þessarar skýrslu og hv. þm. hafa kynnt sér og þegar þar við bætist, að Framsfl, hafði tjáð sig með ályktun þingflokks síns vilja gera úrslitaathugun á möguleikunum til þess að gera samninga um byggingu alúminíumverksmiðju hér á landi. Alþfl. í miðstjórnaryfirlýsingu lýsti yfir hinu sama í vetur ekki alls fyrir löngu og hliðstæð yfirlýsing var gefin af landsfundi Sjálfstfl. nú nýverið, þá taldi ég einsætt, að miðað við þær niðurstöður, sem nú lægju fyrir, væri verkefni fram undan að freista þess, hvort hægt væri að ná viðunandi samningum. Það, sem fram undan er, er þess vegna að gera sér grein fyrir því og taka upp samningaviðræður við fyrirtækið Swiss Aluminíum. Það mundi verða gert með þeim hætti, að reynt yrði að gera uppkast að samningi um almenna aðstöðu rekstrarfélags hér á landi, sem yrði íslenzkt félag, en Swiss Aluminium ætti, eins og kemur fram í skýrslunni, frv. að raforkusölusamningi við væntanlega stjórn Landsvirkjunar og öðrum sérsamningum, sem væntanlega þarf að gera, bæði í sambandi við aðstöðu, land og höfn og annað slíkt og ef um þetta getur náðst samkomulag milli fulltrúa aðila á sumri komanda, yrðu slík samningsuppköst og samningsfrv. lögð fyrir Alþ, til þess að fjalla um, samþykkja eða synja á næsta hausti.

Ég taldi eðlilegt á þessu stigi málsins, að þm. fengju aðstöðu til þess að kynnast nokkru nánar af eigin raun rekstri alúminíumverksmiðju og hafði því í huga, að þeir, sem eru í þmn., færu í slíka kynnisferð, bæði til Noregs, þar sem Swiss Aluminium rekur alúminíumbræðslu í samvinnu við Norðmenn og Norðmenn einir reka alúminíumbræðslur, þar sem nú stendur yfir módelrannsókn í sambandi við ísmyndanir í Þjórsá og einnig heimsæktu aðalstöðvar Swiss Aluminium í Zürich og fengju í því sambandi aðstöðu til þess að kynnast málum þar og rekstri þeirra á alúminíumbræðslum í nágrenni, sem þeir hafa í Suður- Sviss, Frakklandi og Ítalíu. En þegar málið var komið á þetta stig, taldi ég eðlilegt;. að fulltrúar frá Alþb. væru einnig aðilar að slíkri athugun mála og það hefur nú orðið samkomulag milli mín og þingflokks Alþb., að þeir tilnefni tvo menn í þmn. eins og hinir flokkarnir. Þetta mundi þýða það, að þingflokkarnir allir hefðu aðstöðu til þess að fylgjast stig af stigi með samningagerð í þessu máli fram til þess, að þingið kemur saman í haust, hafa aðstöðu til þess að bera sig saman við sína þingflokka og þar af leiðandi standa betur að vígi, en ef slík samningsuppköst, sem eru kannske bæði nokkuð flókin og mikil, lægju aðeins fyrst fyrir þeim á hausti komanda.

Ég fagna því, að umr. fara nú fram um þessa skýrslu. Þær munu geta leitt til þess, að hv. þm. fái aðstöðu til þess að tjá sig um málið, enn fremur að koma fram aths. og koma fram með leiðbeiningar, sem kynnu að vera til góðs við áframhaldandi athugun á þessu máli.

Eins og ég sagði í öndverðu, ætla ég ekki að eyða tíma þingsins núna til þess að fjalla efnislega meira um málið og verð að láta nægja í því sambandi að vitna til efnis skýrslunnar, en vona að öðru leyti, að þær umr., sem hér eiga eftir að fara fram, geti orðið þessu máli til gagns og þeim, sem fjalla um það hér á eftir, bæði til leiðbeiningar og athugunar.