07.05.1965
Sameinað þing: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

Aluminíumverksmiðja

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var s.l. miðvikudag, 5. maí, sem Alþb. barst í hendur sú skýrsla, sem nú er hér til umr. Einmitt þann sama dag voru liðin full 4 ár síðan ríkisstj. skipaði svonefnda stóriðjunefnd, en í þessari skýrslu er frá því greint, að ráðh. iðnaðarmála hafi á þeim tíma skipað sérstaka stóriðjunefnd, 5. maí 1961. Í þessi 4 ár hefur þetta stórmál ekki legið hér formlega fyrir Alþ., heldur hefur málið verið í höndum stóriðjunefndar og í höndum ríkisstj., en aðeins borið hér á góma á Alþ. í umr. utan dagskrár eða í fsp.-tíma, og hafa þá skiljanlega farið hér fram aðeins litlar umr. um málið. Og nú, þegar þessi skýrsla loksins kemur til Alþ., er eins og við vitum, komið að þinglokum, aðeins örfáir dagar eftir af þingtímanum og mörg og stór mál liggja fyrir þinginu, sem eðlilega taka hér talsverðan tíma enn við afgreiðslu, svo að í raun réttri er aðstaða harla lítil nú til þess, að Alþ. geti tekið á þessu máli eins og eðlilegt væri. Hætt er við, að umr. hljóti að markast af því, hve tíminn er orðinn naumur og málið er einnig lagt þannig fyrir Alþ. nú, að ekki er til þess ætlazt, að Alþ. taki neina afstöðu í málinu.

Ég tel, að öll meðferð af hendi ríkisstj. og stóriðjunefndar á þessu máli sé næsta furðuleg og vítaverð, því að hér er um slíkt stórmál að ræða, að það er vitanlega eðlilegt, að Alþ. fengi að fylgjast með slíku máli stig af stigi allan tímann, en væri ekki í rauninni haldið meira og minna óvitandi um það, hvað væri að gerast í málinu, allan þennan langa tíma, því að vissulega er það stórmál, þegar um það er rætt að breyta í grundvallaratriðum um stefnu þá, sem ríkt hefur í landinu í atvinnumálum, þar sem ráð er fyrir því gert, að gefa erlendum aðilum aðstöðu til þess að taka þátt og það í mjög ríkum mæli í atvinnurekstri í landinu sjálfu og þar sem gert er ráð fyrir því, að efnt verði hér til fyrirtækis, sem ráðgert er að muni kosta í byrjun um 2.500 millj. kr. og kallar á það, að ráðizt verði í virkjunarframkvæmdir, sem varla munu kosta undir 2.000 millj. kr.

Það er ekkert um það að villast, að lengi var það svo, að það var pukrað með þetta mál á bak við Alþ. Fréttir af stóriðjunefnd komu helzt úr erlendum blöðum og svo í einstaka tilfellum hér í innlendum blöðum frá einstökum nm. Engin tilkynning mér vitanlega var gefin út um skipun þessarar n. eða störf hennar lengi vel framan af. Ég tel, að þessi vinnubrögð séu í mesta máta óeðlileg og ólýðræðisleg og óþingræðisleg og því vil ég fyrir hönd Alþb. mótmæla þessum vinnubrögðum, eins og þau hafa fram komið. Og nú er gert ráð fyrir því, eins og fram kom hér í ræðu hæstv. iðnmrh., að að þessu stóra máli verði áfram staðið þannig, að það færist nú af viðræðu- og könnunargrundvelli yfir á samningagerð, án þess að Alþ. hafi tekið nokkra stefnumarkandi afstöðu í málinu. Það mun þó hafa verið ætlunin áður eða um það féllu orð frá hæstv. ríkisstj., þegar þetta mál bar hér á góma fyrir nokkru, að það væri ætlunin, að áður en teknir yrðu upp eiginlegir samningar við hina erlendu aðila varðandi þetta mál, yrði málið lagt fyrir Alþ. og Alþ. tæki sína ákvörðun um stefnu í málinu. Þetta tel ég mjög óeðlilega vinnuaðferð og óheppilega og ekki í samræmi í rauninni við réttar þingræðislegar reglur.

Kjarni þessa stóriðjumáls, sem nú er hér rætt um, er í stuttu máli sá, að gert er ráð fyrir því, að erlent auðfélag fái aðstöðu til þess að byggja hér sunnan Hafnarfjarðar alúminíumverksmiðju, sem framleitt getur um 60 þús. tonn af alúminíum á ári og áætlað er að kosti í kringum 2.500 millj. kr. og jafnframt er svo gert ráð fyrir því, að Íslendingar ráðist í stórvirkjun í Þjórsá, sem á að framleiða í kringum 210 þús. kw. og áætla má að muni kosta varla undir 2.000 millj. kr.

Mér hefur skilizt, að það séu einkum þrjú atriði, sem þeir menn, sem einkum mæla fyrir þessum framkvæmdum, tefla fram máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er því haldið fram, að með því að ráðizt verði á þennan hátt í þessar framkvæmdir, muni Íslendingar geta fengið í sinn hlut ódýrari raforku, en þeir geta fengið með öðrum hætti. Í öðru lagi er því haldið fram, að það verði allmikill beinn gjaldeyrislegur hagnaður fyrir Íslendinga af rekstri alúminíumverksmiðjunnar. Og í þriðja lagi er því haldið fram, að tilkoma alúminíumverksmiðjunnar í landinu muni breikka grundvöllinn undir atvinnulífi landsmanna og skapa aukið öryggi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Mér þykir nú rétt að fara nokkrum orðum um þessi atriði hvert um sig, eins og þau koma mér fyrir sjónir, því að satt að segja sýnist mér, að þessar röksemdir verði harla léttvægar, þegar þær eru athugaðar nánar, miðað við þau gögn, sem fyrir okkur liggja og eins og málið hefur helzt verið upplýst.

Ég vík þá nokkuð fyrst að fyrstu röksemdinni um það, að eftir þessari leið muni landsmenn sjálfir fá ódýrari raforku, en líkur væru til, að þeir gætu fengið með öðrum hætti. Á það er auðvitað bent, að þetta skapi grundvöll fyrir því, að Íslendingar geti ráðizt í stærri raforkuvirkjanir og það er að sjálfsögðu rétt. Og einnig er á það bent, að stærri raforkuvirkjanir geti framleitt tiltölulega ódýrari orku, en minni virkjanir, og því verður vitanlega ekki neitað. En þetta er vitanlega ekki nóg til þess að tryggja það, að í þessu tilfelli fái Íslendingar ódýrari raforku með þessum hætti, en ef þeir hefðu valið sér aðrar leiðir í þessu máli. Hér er gert ráð fyrir því að selja meiri hlutann af þessari raforku frá hinu mikla raforkuveri Íslendinga, selja meiri hlutann af þeirri raforku, sem þar verður framleidd, til hins erlenda aðila með fyrirframsamningi til 25 ára og í rauninni gengið þannig frá samningum, að hann eigi að hafa möguleika til þess að kaupa þessa orku um 45 ára tímabil. Og þessi fyrirframsamningur á að byggjast á því, að raforkuverðið til þessa stóra kaupanda sé ákveðið fyrir fram, ekki miðað við kostnaðarverð virkjunarinnar, heldur miðað við áætlun, sem fyrir fram er gerð um það, hvað virkjunin muni kosta. Og við þessa útreikninga eiga svo Íslendingar að vera bundnir um langan tíma, við fast raforkuverð. Samkv. útreikningunum er gert ráð fyrir því, að hinum erlenda kaupanda verði seld raforkan á 10.75 aura hverja kwst., en það er miðað við upplýsingar, sem fram koma í þeim áætlunum, sem lagðar hafa verið fram, þ.e. líklega nokkuð undir beinu framleiðslukostnaðarverði, miðað við þær tölur, sem fram eru lagðar, að dómi þeirra manna, sem kunnugastir eru í sambandi við útreikning á slíkum áætlunum sem þessum. Ég hygg, að enginn reyni að halda því fram, að þetta verð sé hærra en svo, að það rétt aðeins standi undir beinu framleiðslukostnaðarverði miðað við það, að allar byggingaráætlanir standist. Nú eru þessir útreikningar miðaðir við verðlag, sem var á árinu 1964 og alveg er fyrirsjáanlegt, að ekki verður byrjað á þessum framkvæmdum í virkjuninni fyrr, en komið er alllangt fram á árið 1965. Á þessu tímabili hefur verðlag hækkað til muna og síðan er gert ráð fyrir því, að byggingarframkvæmdir muni taka kringum 3 ár. Ég dreg stórlega í efa, að það finnist nokkur í hópi alþm., sem leyfi sér að halda því fram, að það sé líklegt, að byggingarkostnaðarverð standi óbreytt allan þennan tíma. Það má þvert á móti telja nokkurn veginn alveg víst, að fenginni reynslu um langan tíma, að byggingarkostnaður hlýtur á þessu tímabili að hækka mjög verulega frá því, sem hann var á árinu 1964. Það er vitanlega erfitt að segja um, hve hann kemur til með að hækka mikið, en það má telja alveg víst, að hann muni hækka. Hverjum dettur t.d. í hug, að það muni ekki verða einhverjar talsverðar kauphækkanir í þeim samningum, sem nú standa fyrir dyrum á milli atvinnurekenda í landinu og launþegasamtaka? Ég hygg, að það búist allir við því. A.m.k. hefur maður séð það beint úr málgögnum ríkisstj. sjálfrar, að þau telja, að hjá slíku verði alls ekki komizt, að það verði að hækka kaupið allverulega. Og annar kostnaður í ýmsum myndum mun að sjálfsögðu fylgja á eftir, eftir því sem reynslan hefur verið. Og hver er svo það, sem býst í rauninni við því, að áætlanir um byggingarkostnað eins og þær, sem hér liggja fyrir, muni standast fullkomlega? Hefur ekki reynslan þvert á móti verið sú, að hliðstæðar byggingaráætlanir hafa allar hrunið í reynd, að byggingarkostnaðurinn hefur í öllum tilfellum farið langt fram úr því, sem áætlað var? Það hefði því vitanlega skipt mjög miklu máli, hefðu samningarnir um raforkuverðið til hins stóra kaupanda í þessu tilfelli verið byggðir á framleiðslukostnaðarverði, miðað við raunverulegan byggingarkostnað mannvirkisins, eins og hann var þegar orðinn, en ekki eins og hann var áætlaður, áður en fyrsta rekustungan var tekin. Og það að vera bundinn við slíkt verð, með föstum samningi langt fram í tímann, er alveg einstætt hér í okkar málum og ég hygg, að svo til enginn aðili, sem verzlar með sín framleiðsluverðmæti, mundi treysta sér hér á Íslandi til þess að gera hér slíka fyrirframsamninga.

Ég tel því engan vafa leika á því, — miðað við þá grg., sem fram hefur komið í þessu máli, að það er gert ráð fyrir því að selja meiri hluta raforkunnar eða um 126 þús. kw. af 210 á verði um alllangan tíma, sem er langt undir framleiðslukostnaðarverði, því að þannig er ætlað að ganga frá málunum, — að fari byggingarkostnaðurinn fram úr áætlun, skellur allur sá umframkostnaður á hluta landsmanna sjálfra.

Þá er augljóst á þeim áætlunum, sem fram eru lagðar, að það er ekki gert ráð fyrir því í áætlununum, að nein teljandi skakkaföll verði í rekstri þessa mikla raforkuvers, en þó hafa færustu sérfræðingar okkar í virkjunarmálum bent á það, að telja megi alveg víst, miðað við þær forsendur, sem fram eru settar, að um verulegar rekstrartruflanir hljóti að verða að ræða í þessu orkuveri, bæði vegna aurskriðs og ísrennslis og af því verði um lengri eða skemmri tíma að taka til varaaflstöðva, sem einnig er gert ráð fyrir að byggja, en þar sem framleiðslukostnaðurinn á hverju kw. af rafmagni er um það bil fimmfaldur við það, sem ráðgert er að selja hinum stóra kaupanda raforkuna á. Þurfi nú að grípa til varaaflstöðvarinnar þó nokkurn tíma, er augljóst, að þar verður um allþungan bagga að ræða fyrir Íslendinga sjálfa, sem þeir verða að rísa undir í þessu tilfelli.

Þá hefur einnig verið á það bent og nú þegar viðurkennt í því frv., sem lagt hefur verið fyrir um Landsvirkjunina, að það muni verða nauðsynlegt að grípa til sérstakra byggingarráðstafana fyrir ofan sjálfa virkjunina til þess að reyna að gera þetta mikla raforkuver öruggara í rekstri, en það annars mundi verða. Upplýsingar hafa hér komið fram um það, að ef ætti að byggja slíkt lón fyrir ofan, sem telja mætti öruggast, mundi það kosta 700 millj. kr. Vorum við upplýstir um það á sameiginlegum fjhn.-fundum nú fyrir nokkrum dögum. En jafnvel þótt ráðstafanir yrðu nú gerðar, sem yrðu ekki eins fullkomnar og dýrar og þetta, er augljóst, að hér er enn óframtalinn í sennilegum stofnkostnaði þessarar virkjunar mjög stór kostnaðarliður, sem hlýtur að skella á okkur fyrr eða síðar á þessu tímabili.

Þetta allt bendir að mínum dómi til þess, að það séu mjög litlar líkur til þess, að við munum fá lægra raforkuverð, meðan þessi samningur stendur, heldur en það raforkuverð hefur verið, sem við höfum búið við, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í frv., sem fjallar um Landsvirkjunina, að nú eigi að breyta til um stefnuna á verðlagningarmálum á rafmagni frá því, sem verið hefur og það játað, að það eigi að miða verðlagninguna við mun meiri álagningu, en hingað til hefur verið. Og það er einnig undirstrikað í þeim skýrslum, sem hér liggja fyrir, að fram hafi komið hjá þeirri lánastofnun, Alþjóðabankanum, sem mundi lána til þessara framkvæmda, að hann teldi nauðsynlegt, að Íslendingar yrðu við því búnir að geta hreyft til þetta rafmagnsverð og það greinilega til hækkunar. Ég tel því að það bendi þvert á móti allt til þess, að þessi röksemd um það, að Íslendingar muni á næstu árum fá ódýrari raforku í sinn hlut, sé röng, það muni þvert á móti standa þannig, að miklu meiri líkur bendi til þess, að ef semja á á þessum grundvelli, verði Íslendingar að taka á sig hækkun á rafmagnsverði, a.m.k. um allmörg ár, þar til virkjunin hefur verið að verulegu leyti borguð niður.

Þá vil ég einnig benda á annað atriði, sem er mjög athyglisvert fyrir okkur Íslendinga, þegar rætt er um að gera slíkan samning sem þennan. Okkur er sagt, að búast megi við því hér á landi eins og í öðrum löndum, að raforkuþörf landsmanna vaxi þannig, að notkunin muni um það bil tvöfaldast á hverjum 10 árum. Miðað við virkjað vatnsafl hér þýðir þetta það, að á næstu 10 árum þyrftu landsmenn sjálfir að fá viðbótarvirkjun, sem nemur 125 þús. kw. og síðan á næstu 10 árum þar á eftir þyrftu þeir að fá viðbótarvirkjun, sem nemur 25 þús. kw. á ári, eða samanlagt á 20 ára tímabili þyrftu Íslendingar eftir þessari reglu að ráðast í nýjar virkjanir, sem nema 375 þús. kw., en út úr stórvirkjuninni í Þjórsá er gert ráð fyrir, að Íslendingar fái í sinn hlut 84 þús. kw. Það er því sýnilegt, að þá verða eftir um 291 þús. kw. á næstu 20 árum, sem Íslendingar verða að leggja sér til með einhverjum hætti úr öðrum fallvötnum eða öðrum virkjunum á þessu tímabili. En þá er búið að ganga þannig frá málum, að við erum búnir að gera samning, sem mun væntanlega standa allt upp í 45 ár og binda með lágmarksverði hagstæðustu framleiðslu raforku, sem við áttum völ á, við erum búnir að selja hana á þessu lága verði til svona langs tíma fram í tímann, og vitanlega verða Íslendingar þá sjálfir að ráðast í óhagstæðari virkjanir á þessu tímabili fyrir sig, fyrir sína eigin notkun og búa á þessu tímabili við mun hærra raforkuverð, en þeir hefðu getað fengið í sinn hlut, hefðu þeir ætlað sjálfum sér þá virkjunina, sem var í rauninni hagstæðust, ef hún þá er það, þessi virkjun. En hún verður það a.m.k. fyrir þann erlenda aðila, sem á að fá þetta á þessu lága verði.

Þegar þetta er haft í huga, sýnist mér líka, að allt bendi til þess, að þessar ráðstafanir verði ekki til þess að tryggja landsmönnum sjálfum lægra raforkuverð, en þeir mundu geta fengið eftir öðrum leiðum. Ég tel því, að þessi röksemd sé með öllu röng hjá talsmönnum þessarar stóriðju, a.m.k. eins og að þessum málum er ætlað að standa.

En víkjum þá nokkrum orðum að þeim mikla gjaldeyrishagnaði, sem ráðgert er, að landsmenn verði aðnjótandi frá hinni miklu alúminíumverksmiðju. Í skýrslunni er því haldið fram, að hreinar gjaldeyristekjur Íslendinga muni verða á ári frá alúminíumverksmiðjunni á milli 300 og 350 millj. kr., en þó verði ekki nema í kringum 450 Íslendingar í þjónustu fyrirtækisins. Og svo er það reiknað út, að þetta muni þýða það, að Íslendingar hafi á þennan hátt í hreinum gjaldeyri, eins og það er orðað, um 650 þús. kr. á ári út úr hverjum vinnandi manni, sem vinnur í þessu fyrirtæki, en það sé tvöfalt meira, en landsmenn hafa nú út úr því vinnuafli, sem nú vinnur við fiskveiðar og fiskiðnað. Og svo er nokkur sundurliðun, sem fylgir þessu. Frá því er skýrt, að þessar gjaldeyristekjur muni þannig falla til, að fyrir selda raforku muni landsmenn fá um 103 millj. kr., í skattgreiðslu frá alúminíumverksmiðjunni muni landsmenn fá um 50 millj. kr. og fyrir vinnulaun 450 manna muni fást um 150–200 millj. kr. á ári, eða samanlagt 300–350 millj. kr.

Nú er hér auðvitað um alveg augljósa blekkingu að ræða. Í fyrsta lagi er auðvitað rangt að telja, að þær 103 millj. kr., sem landsmenn mundu fá fyrir selda raforku, þar sé um nettógjaldeyristekjur að ræða, vegna þess að það kemur auðvitað glöggt fram, að landsmenn verða að borga vegna þeirra lána, sem taka þarf til virkjunarinnar, alveg samsvarandi fjárhæð a.m.k. fyrstu árin öll, þar til orkuverið hefur verið greitt niður. Hér er því ekki um neinar nettógjaldeyristekjur að ræða. Þessi upphæð kemur til með að ganga út og inn í gjaldeyrissjóðnum og á vitanlega engan rétt á sér í þessari tölu, þar sem verið er að tala um hreinar gjaldeyristekjur af þessum viðskiptum. Hér er því um villu að ræða upp á 103 millj. kr. í þessum lið.

Þá er um skattana frá verksmiðjunni. E.t.v. verða þeir í kringum 50 millj. kr. Það er að vísu algerlega óvíst, hverjir þeir verða, því að þær reglur, sem minnzt er á hér í skýrslunni, eru þannig, að mér sýnist nú, að skattarnir gætu hæglega flökt allmikið til. En segjum, að skattarnir verði um 50 millj, kr. á ári. Og þá kem ég að launaliðnum, fyrir 450 menn 150–200 millj. kr. á ári. Það þýðir, að það er ráðgert að borga í laun hverjum manni í fyrirtækinu 400–450 þús. kr. á ári. En þó er greinilega fram tekið í skýrslunni, að hér sé ekki um sérfróða menn að ræða. Á bls. 32 í skýrslunni segir:

„Hér er auk þess ekki um að ræða faglærða menn nema að litlum hluta, heldur fyrst og fremst ófaglærða menn, sem verksmiðjan mundi þjálfa til sérstakra starfa á svipaðan hátt og hefur átt sér stað í Áburðarverksmiðjunni og Sementsverksmiðjunni.“

Það er líka nokkurn veginn gefið mál. Við eigum ekki marga sérfræðinga í þessari framleiðslugrein. En hins vegar er með því reiknað í þessari tölu, meðan er verið að gylla fyrirtækið hér fyrir landsmönnum, að meðaltalslaun hvers vinnandi Íslendings í þessari verksmiðju verði á milli 400 og 450 þús. kr. Það mætti segja mér, að menn yrðu ekki tilbúnir til þess að gera samning um þetta, þegar farið verður að semja um kaupið. Ef hins vegar miðað yrði við í þessum efnum það, sem er auðvitað miklu líklegra, miðað við almenn launakjör nú í hliðstæðum verksmiðjum og er auðvitað það, sem við getum fyrst og fremst haldið okkur við, að við reiknuðum með því, að meðaltalskaup ófaglærðra manna væri í kringum 200 þús., gera það heldur í hærra lagi, yrði hér ekki um að ræða nema í kringum 90 millj. kr. í launatekjur á ári. Og væri þá þarna um að ræða gjaldeyristekjur upp á um það bil 140 millj. kr. á ári, en það mundi jafngilda, ef mennirnir, sem þarna ynnu, væru 450, um 300 þús. kr. á mann á ári. En til þess að gylla fyrirtækið fyrir landsmönnum í þeim áróðri, sem haldið hefur verið uppi, hefur vitanlega þótt sjálfsagt að reyna að mála það upp um leið, að sjávarútvegur okkar, fiskiðnaður og fiskvinnsla sé ekki nema hálfdrættingur og knapplega það á við slíkt ágætisfyrirtæki sem þetta, þar fáist ekki út úr hverjum vinnandi manni nema í kringum 300 þús. kr. á ári í þjóðarbúið. Þessi tala er algerlega úr lausu lofti gripin, fullyrði ég, vegna þess að það er ekki til nein statistik í landinu fyrir það, hvað raunverulega vinna margir menn sem heils árs menn, sem eingöngu gefa sig að bæði sjávarútvegi og fiskvinnslu í landinu. Hér eru tölur gripnar af handahófi til þess að reyna að fá ákveðið út úr dæminu, eins og í fleiri tilfellum í þessari skýrslu. En til gamans skal ég nefna það, af því að ég hef fyrir mér dæmi um eina tiltekna fiskiðnaðarverksmiðju og nýjar tölur frá henni, hvernig dæmin geta vissulega komið þar út í sjávarútvegi okkar. Þetta tiltekna fyrirtæki greiddi í opinber gjöld og í bein vinnulaun, svo að dæmið sé nú sett upp á sama hátt og gagnvart alúminíumverksmiðjunni, á árinu 20 millj. kr. í opinber gjöld til ríkis, bæjar og í beinar vinnulaunagreiðslur, en auk þess færði þetta fyrirtæki upp í hreinan hagnað 25 millj. kr., eða á sama hátt reiknað var hér um að ræða hagnað upp á 45 millj. kr. nettó fyrir þjóðarbúið. Og þegar búið var að breyta því starfsfólki, sem við þessa verksmiðju vann, í heils árs menn, er hér um knapplega 30 menn að ræða eða meðaltalsútkoma í þessu fyrirtæki jafngildir á þennan hátt ekki 300 þús., heldur 11/2 millj. á mann og ég fullyrði það, að miðað við þær aðstæður, sem við höfum búið við, væri lítill vandi fyrir íslenzka þjóðarbúið, miðað við þau tæki, sem við eigum í dag, eða ef við vildum t.d. taka hráefnið frá útlendingum, að leggja í fyrirtæki, sem þessu mundu skila.

Nei, við þurfum ekki að búa til blekkjandi útreikninga í sambandi við alúminíumverksmiðju, til þess að sanna Íslendingum neitt í þeim efnum, að þeir þurfi nú að yfirgefa eða flýja að meira eða minna leyti frá sínum aðalatvinnuvegi, vegna þess að hann sé annars flokks og það sé eitthvað annað, sem geti tekið honum fram hér á landi. En þetta fyrirtæki, sem ég nefni, varð svo auk þessa auðvitað að borga — ég fullyrði margar millj. kr. á einu ári í ríkissjóð gegnum tolla og önnur gjöld í sambandi bæði við rekstrarvörur sínar og í sambandi við framkvæmdir sínar. En alúminíumverksmiðjan á ekki að borga neitt af þessum gjöldum. Hún á að fá bara í stofnkostnaðinum einum saman eftir skýrslunni að dæma eftirgjöf, sem nemur 500 millj, kr., eða 20% af 2.500 millj. Hún á að fá eftirgjöf í tollum og öðru slíku upp á 500 millj. kr. eða það jafngildir öllum hinum margumtalaða skatti fyrirtækisins í 10 ár. Það gætu ýmis önnur fyrirtæki án efa sýnt allgóða afkomu, ef ætti að búa að þeim á hliðstæðan hátt og gert er ráð fyrir í sambandi við alúminíumverksmiðjuna. Og þetta fiskiðnaðarfyrirtæki, sem ég nefndi, mátti búa við það að borga rafmagnsverð nokkuð á aðra kr. kwst., enda er það ekki nema meðalverð það, sem við þurfum að borga fyrir rafmagnið frá rafmagnsveitum ríkisins úti á landi, en ekki 10.75 aurar, eins og gert er ráð fyrir að alúminíumverksmiðjan eigi að borga.

Ég held því, að hér sé um algera blekkingu að ræða, þegar því er haldið fram, að alúminíumverksmiðjan sem slík muni færa í þjóðarbú okkar einhverja fjármuni, sem verulegu máli skipti í íslenzkum þjóðarbúskap. Ég held, að þar sé um alveg blekkjandi rökfærslu að ræða.

Þá er því haldið fram, að alúminíumverksmiðja í landinu mundi breikka atvinnugrundvöllinn í landinu og gera vanda þjóðarinnar í efnahagsmálum minni, en hann hefur verið. Auðvitað má segja það, að allar nýjar starfsgreinar breikki atvinnugrundvöll okkar. Auðvitað mundi það breikka atvinnugrundvöll okkar, ef við réðumst í það að fullvinna alla þá ull, sem við framleiðum í landinu og flytjum nú út óunna. Auðvitað mundi það breikka atvinnugrundvöll okkar, ef við færum að framleiða í landinu sjálfu svo að segja öll þau veiðarfæri, sem íslenzki fiskveiðiflotinn þarf á að halda. Auðvitað mundi það breikka atvinnugrundvöll okkar, ef við hefðum okkur í það að byggja hér innanlands meginhlutann af fiskiskipastól okkar sjálfir. Og þannig er þessu auðvitað varið með allar nýjar starfsgreinar og nýja starfsþætti. Allir hafa þeir einhverja þýðingu í þjóðarbúskapnum, misjafnlega mikla. En við eigum marga þætti, sem við eigum enn eftir að leysa og er nær okkur að leysa en þennan, sem hér er nú til umr.

En það, sem máli skiptir í þessum efnum, er það gífurlega vanmat á íslenzkum atvinnuvegum, sem sífellt gerir hér vart við sig og í vaxandi mæli nú í seinni tíð, þar sem í sífellu er klifað á því, að atvinnuvegir okkar séu ótraustir, óstöðugir, á þá megi ekki byggja, þó að reynslan sýni það, að okkar sjávarútvegur hefur t.d. ekki bilað, þegar litið er á heildina, svo að áratugum skiptir. Það er rétt, að einstakar greinar hans hafa bilað á vissum tímum, en þá hafa að jafnaði aðrar komið til, sem fyllt hafa í skarðið og fyllilega það. Og svo er vantrúin á Íslendinga sjálfa. Því er jafnvel haldið nú fram, að við getum ekki leyst raforkumál okkar með eðlilegum hætti, nema til komi sérstök aðstoð útlendinga eða þá því er haldið fram, að við séum svo fáir, við séum svo smáir og fáir, að við getum ekki verið sjálfstætt ríki, við verðum að hengja okkar doríu aftan í stóru skipin og af því þurfum við að ganga í einhverjar ríkjasamsteypur.

Það er þessi hugsunarháttur, sem er í sífellu á ferðinni og er vitanlega mjög eitraður í sambandi við alla framþróun í atvinnulífi okkar. Það er auðvitað engin hending, að aðalefnahagsráðunautar ríkisstj. héldu því mjög á lofti um það leyti, sem fyrstu fréttir bárust frá þeim, sem störfuðu í þessari stóriðjunefnd, — þeir héldu því á lofti, bæði erlendis og hér á landi, að meginástæðan til þess, að Íslendingar yrðu nú að leita annarra úrræða, m.a. með stóriðju, væri sú, að komið hefði í ljós eftir nákvæma athugun, að aðalatvinnuvegir landsmanna, eins og sjávarútvegurinn, gætu ekki aukið afköst sín um meira, en sem næmi 4.5% á ári, en það væri of litið til þess að standa undir eðlilegum hagvexti. Þessar yfirlýsingar liggja greinilega fyrir, bæði frá dr. Jóhannesi Nordal og Jónasi Haralz. Reynslan hefur auðvitað umturnað þessu gersamlega síðan, því að framleiðsluaukningin í sjávarútveginum hefur ekki verið að meðaltali 4.5%, hún hefur verið núna síðustu árin, 3 síðustu árin í röð, yfir 20% á ári, enda hefur reynslan sýnt það, að hagvöxtur okkar hér hin siðari ár hefur verið mun meiri ,en í öðrum nálægum löndum. Ekkert land í Vestur-Evrópu hefur jafnmikinn hagvöxt nú síðustu 3 árin og við hér á landi, — ekkert. Við höfum ekki þurft að leita eftir framkvæmdum sem þessum til þess að breyta þróuninni þar.

En jafnhliða því, sem ég tel, að haldið hafi verið fram í sambandi við þessi stóriðjumál, mjög villandi röksemdafærslum og ýmsar tölur hafðar í frammi, sem ekki fá staðizt, þá hefur verið dregin dul á þann vanda, þá hefur verið reynt að dylja fyrir landsmönnum þann mikla vanda, sem mundi fylgja í kjölfar slíkra framkvæmda sem þessara. Þegar t.d. hefur verið minnzt á þann vanda, sem hlyti að koma upp fyrir atvinnuvegi okkar, þegar á sömu þremur árunum á að ráðast í fjárfestingu hér á Suðvesturlandi, sem nemur um 4.500 millj. kr., að það mundi skapa mikinn vanda fyrir atvinnuvegi okkar varðandi vinnuafl, þá koma sérfræðingar þeir, sem ríkisstj. styðst aðallega við í þessum málum og segja: Þessi vandi verður ekki mikill, vegna þess að nú eru árgangarnir, sem inn eru að koma á vinnumarkaðinn, stærri en hinir, sem áður komu inn. Þetta leysist allt af sjálfu sér. — Árgangarnir, sem hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn, hafa vissulega farið stækkandi og munu áfram fara nokkuð stækkandi. En þeir hafa einnig farið stækkandi á undanförnum árum. En reynslan hefur bara sýnt það, að sífellt hefur verið vaxandi vinnuaflsskortur í landinu, þrátt fyrir stækkandi árganga, sem hafa verið að koma inn á vinnumarkaðinn og það er ofureðlilegt. Það er alveg útilokað með öllu, að við getum svo að segja frá ári til árs t.d. tekið á móti um 20% meiri afla, en við gerðum árið á undan, með jafnmörgum höndum. Það er alveg útilokað. Við höfum aðeins leyst það núna í bili með því að stórauka vinnutíma hvers og eins og með því að ganga svo langt í barna- og unglingavinnu, að við verðum allir að játa, að það er okkur til vansæmdar, því að það er ekki aðeins það, að það þurfi að sinna þessum mikla afla, það þarf vitanlega líka að byggja upp verksmiðjur og fyrirtæki, sem eiga að vinna úr þessum afla. Það þarf líka margar hendur til þess að koma þessum afurðum frá sér og það þarf að byggja margs konar verksmiðjur og geymsluhús varðandi alla þessa framleiðslu. Og þannig er þetta einnig í öðrum framleiðslugreinum þjóðarinnar. Það er alveg fyrirsjáanlegt, að ef ekki á að gera einhverjar opinberar ráðstafanir til þess að hefja framkvæmdir í landinu, þá verður á næstu árum vaxandi vinnuaflsskortur.

Nú er bent á það í þessari skýrslu, að ráðið eigi að vera það, að ríkisstj. semji sérstaka framkvæmdaáætlun yfir framkvæmdir ríkisins á þessum þremur aðalbyggingarárum þessara mannvirkja og þar eigi að gera ráðstafanir til þess að draga úr framkvæmdum ríkisins, eins og það er orðað. Jú, úr hvaða framkvæmdum ríkisins á þá að draga á þessum tíma? Vitanlega eru það skólabyggingar, sjúkrahúsabyggingar, vegagerð í landinu, hafnargerð. Þetta eru aðalþættirnir í framkvæmdum ríkisins. Það getur þá ekki verið á kostnað annarra, en þessara þátta. Og einn þáttinn enn getur ríkið ráðið miklu um, en það eru almennar íbúðarbyggingar. Á einum stað í skýrslunni er beinlínis vikið að því, að á þessum árum, frá 1965 til 1968, sem ætlað er að byggja þessi mannvirki, muni byggingariðnaður landsmanna sjálfra þurfa að taka við um þúsund mönnum til viðbótar, bara vegna eðlilegra þarfa landsmanna. En orð eru sem sagt látin liggja að því, að það muni verða tök á því að spara

nokkurt vinnuafl á þessum lið, svo að hægt sé að hallvika til vinnuafli handa þeim, sem ætla að ráðast í þessar miklu framkvæmdir.

Ég tel, að formælendur þessa máls villi um fyrir þjóðinni sem heild varðandi þetta vandamál. Vandamálið er allt annað og miklu meira, en þeir vilja vera láta.

Þá er einnig það vandamál, sem hlýtur að koma upp í sambandi við, þessar framkvæmdir, þegar gengið er út frá því að veita hinum erlenda aðila sérstök fríðindi í Íslenzku atvinnulífi, sem aðrar atvinnugreinar landsmanna eiga ekki að verða aðnjótandi. Það er vitanlega alveg útilokað annað, en að þetta muni skapa margvísleg vandamál, því að þetta fyrirtæki ætlar sér vitanlega að keppa við önnur fyrirtæki í landinu um vinnuafl, en önnur fyrirtæki þurfi að borga alla tolla og gjöld til ríkisins og búa við allt aðrar kringumstæður. Þau eiga að borga samkv. lögum allmikið af framleiðslu sinni í alls konar sjóði, sem tilheyra landsmönnum sjálfum, eins og stofnlánasjóði og annað slíkt, en hinn erlendi aðili á að sleppa við þetta allt saman, en eigi að síður nýtur hann réttinda í landinu og getur keppt við þessa innlendu aðila. Hér vitanlega hljóta að rísa upp margvísleg vandamál alveg óhjákvæmilega, sem ekkert þýðir að loka augunum fyrir. Og þó að menn nefni það sem eitthvert töfraorð í þessum efnum, að það megi mynda í kringum verksmiðjuna fríhöfn, þar sem ýmsar atvinnugreinar landsmanna geti fengið að búa við sams konar fríðindi, sérstaklega alls konar framleiðsla, sem tengd yrði alúminíum, þá vitanlega dregur það ekki úr vandanum, heldur hlýtur það að auka vandann, þegar farið er að skapa slíkt misrétti á milli þeirra, sem standa í íslenzkum atvinnurekstri.

En hinn vandinn, sem vitanlega hlýtur þó að koma upp og ég tel langalvarlegasta vandann í sambandi við þetta mál, — það vandamál hefur ekki heldur fengið að koma fram fyrir landsmenn á þann hátt, sem eðlilegt hefði verið í sambandi við hlutlausa skýrslu, því að með því að taka upp þá nýju stefnu að leyfa erlendum auðhring að taka þátt í atvinnurekstri í landinu er vitanlega verið að gerbreyta um stefnu í okkar atvinnu– og efnahagsmálum frá því, sem áður hefur verið. Við höfum haldið mjög fast á því í ýmsum greinum, og hjá okkur hafa gilt sérstaklega ströng lagaákvæði, sem miðað hafa að því að koma í veg fyrir það, að útlendingar gætu búið við sömu kjör og landsmenn sjálfir í atvinnurekstri okkar, en um leið og búið er að veita einum aðila þessi réttindi, koma auðvitað aðrir á eftir. Það getur ekki öðruvísi farið, enda er þegar farið að fitja upp á því. Í þessari skýrslu er sagt frá því, að hinn erlendi alúminíumhringur sé þegar kominn í samband við íslenzka iðnrekendur um samstarf þeirra á milli, svo að það er gert ráð fyrir framhaldi og við munum eftir því, að lengi var hér samhliða þessu máli annað um það, að hér yrði efnt til byggingar á olíuhreinsunarstöð, sem útlendingar áttu að eiga mestan hlutann í. Og ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um það, að verði þetta skref stigið, muni erlendir aðilar koma á eftir og ágirnast það af okkar verðmætum, sem ég tel dýrmætast, sem er einmitt aðstaðan til fiskveiða frá landinu og til fiskvinnslu í landinu sjálfu.

Erlendir auðhringar hafa leitað fyrir sér í þessum efnum hér í nálægum löndum. Fyrst kom sér þar fyrir í Noregi stórfyrirtækið Findus með erlendu fjármagni og fékk að reisa þar mikla fiskvinnslustöð og naut nokkurra sérréttinda þar í landi. En það kom brátt að því, að einn af stærstu auðhringum veraldarinnar setti sig í samband við þennan auðhring, sem var af minna taginu, þótt hann væri stór á norskan mælikvarða og hinn mikli svissneski auðhringur Nestle eignaðist 80% af hlutafé Findus í Noregi og stofnað var nýtt risafyrirtæki þar. Norðmenn hafa þegar átt í miklum innanlandsvandamálum í sambandi við tilkomu og rekstur þessa fyrirtækis og þetta fyrirtæki hefur ekki aðeins reynt að hagnýta sér aðstöðuna í Norður-Noregi, það hefur einnig komið sér fyrir með sína fiskvinnslu í Kanada og ég efast ekkert um það, að þetta mikla auðfyrirtæki mundi auðvitað leita til langsamlega bezta staðarins í þessum efnum, hingað til Íslands, ef þessi auðhringur teldi, að hér væru möguleikar á að fá aðstöðu. Og þegar fyrsta skrefið hefur verið stigið í þessa átt og ef til dæmis að taka þessi stóri auðhringur leitaði nú hingað og segði við núverandi stjórnarvöld: Eigum við ekki að byggja á Íslandi þrjú eða fjögur risafiskvinnslufyrirtæki? Við eigum nóg fjármagn, við eigum sterka og mikla söluaðstöðu í sambandi við dreifingu á vörunum, við höfum í okkar þjónustu kunnáttumennina, vísindamennina og við erum tilbúnir að byggja þessar fiskvinnslustöðvar, leggja fram allt fjármagnið. Við fáum væntanlega sömu aðstöðu og hið svissneska alúminíumfirma fær. — Ég efast ekkert um, að þessi hringur mundi glaður bjóða í upphafi: Ég skal borga ykkur a.m.k. 5 eða 10% hærra verð fyrir fiskinn, en nokkur gerir á Íslandi nú. — Og hvað mundu þá íslenzk stjórnarvöld gera? Er það eitthvað alvarlegra að taka við góðum peningum frá slíkum aðila sem þessum og þá fyrir fisk, en að taka við peningum frá alúminíumhring fyrir raforku og aðra aðstöðu? Þessir aðilar kunna til verka alveg eins í þessari grein og í sambandi við alúminíumframleiðsluna. Þeir vita, að leiðin er sú: Það þarf að útvega sér rétta og góða umboðsmenn í landinu sjálfu, þeir þurfa að hafa einhverja valdaaðstöðu, það er hægt að bjóða þeim sæti m.a. sem íslenzkum ríkisborgurum í stjórn hins mikla fyrirtækis og það hlýtur að vera hægt að gera vel við þessa aðila í ýmsu formi. Og ég spyr um það: Þegar Íslendingar hafa tekið á þennan hátt upp nýja stefnu í atvinnumálum sínum og þeir stæðu frammi fyrir slíku tilboði sem þessu, sem allar líkur benda til, að gætu komið fram, mundu þá íslenzk stjórnvöld segja: Nei, þetta getum við ekki samþykkt. Það er aðeins hið svissneska alúminíumfirma, sem fær þennan rétt? — Ég treysti því ekki.

Ég vil taka annað dæmi, sem ég hygg, að sé einnig mjög nærri því að geta orðið hvenær sem er, þegar þessi stefnubreytinger tekin. Ég vil taka hið brezka auðfyrirtæki Unilever, sem sérstakan áhuga hefur á öllum fiskolíum, eitt hið stærsta í þeirri grein í öllum heiminum. Við framleiðum nú hér yfir 100 þús. tonn af fiskolíum á ári. Við erum þegar orðinn girnilegur staður fyrir þá, sem áhuga hafa á þessari vöru. Ef þessi hringur kæmi og segði við íslenzk stjórnarvöld: Leyfið mér að reisa lýsisherzlustöð á Íslandi, ég hef peningana, ég hef sérfræðingana, ég hef alla aðstöðuna, ég skal borga ykkur a.m.k. 5 eða 10% hærra verð, en þið hafið fengið fyrir þessa vöru hingað til, — hvað verður þá gert? Ég held, að eftir að fyrsta skrefið er stigið, sé hætta á því, að annað og þriðja og fjórða skref verði einnig stigin. Menn fara ekki að gera mikinn mun á því, hvort hinn góði peningur kemur úr þessari átt eða annarri. En ég hygg hins vegar, að það verði litið eftir af íslenzku efnahagslegu sjálfstæði, eftir að tveir eða þrír stórir auðhringar hefðu spannað þannig yfir megingreinar íslenzks atvinnulífs, eins og yrði, ef þetta yrði samþykkt. Ég held, að þá réðum við, úr því sem komið væri, harla litlu.

Ég held því, að þegar tekin er slík grundvallarstefnubreyting sem þessi, verði alþm. að átta sig fyllilega á því, hvað raunverulega er verið að samþ. Það þýðir ekki að stilla þessu máli á þann hátt, sem sumir áróðursmenn fyrir málinu hafa gert, að lengi var það svo, að menn töluðu um: Ja, hér er aðeins um 30 þús. tonna verksmiðju að ræða, 250 Íslendingar eiga að vinna í 30 þús. tonna verksmiðju, þetta er svo sem ekkert, skyldi landið fara á höfuðið, þó að við gerðum þetta? En nú er auðvitað komið í ljós, að hér er ekki aðeins um 30 þús. tonna verksmiðju að ræða. Hún er strax komin upp í 60 þús. tonn og í skýrslu þeirri, sem hér liggur fyrir til umr., er frá því skýrt, að fyrirtækið vilji fá sér útmælt land og lóð, ekki fyrir 60 þús. tonna, heldur fyrir 160 þús. tonna verksmiðju. Svo er einnig skýrt frá því, að fyrirtækið geri sig ekki ólíklegt að vilja reisa aðra verksmiðju upp á 60 þús. tonn á Norðurlandi. Það er þegar farið að minnast á þetta í upphafi málsins. Og það er líka byrjað að minnast á hinar greinarnar. Það er ekki langt siðan það birtist í Morgunhlaðinu mjög athyglisverð grein frá dr. Jóhannesi Nordal. Reyndar var greinin þannig, að það var aðalritstjóri blaðsins, Eyjólfur Konráð, sem þar hafði viðtal við dr. Jóhannes Nordal, því að þar virtust áhugamálin mjög falla saman. En efnið var það, að seðlabankastjórinn sagði, að hann teldi, að eitt af því allra nauðsynlegasta, sem nú þyrfti að gerast í íslenzkum fiskkiðnaði, það væri að afla mikils erlends áhættufjármagns í fiskiðnaðinum, það þyrfti að koma hér upp miklu stærri heildum, en nú væru hér fyrir, og hann hefði þegar verið í sambandi við erlenda lánastofnun, sem mundi senda fulltrúa hingað til landsins nú á næstunni til þess að ræða sérstaklega um það að láta af hendi, mikið erlent fjármagn, sem ætti að vera áhættufjármagn, þ.e. hlutafé í vissu formi í íslenzkan fiskiðnað. Auðvitað er enginn vafi á því, hvað á eftir muni koma í þessum efnum. Og það er þetta, sem er kjarni þessa máls. Spurningin er sú: Á með glaprökum að reyna að leiða menn inn á þessa hættulegu braut með því að villa um fyrir þeim, hvað mikið muni vinnast og hvað hér sé um miklu dýrmætari atvinnugreinar að ræða en þær, sem við eigum sjálfir fyrir í landinu? Á með því að draga hulu yfir þau miklu vandamál, sem hér munu fylgja í kjölfarið, að villa mönnum á þennan hátt sýn og lokka þá hér inn á alveg nýja stefnu og raunar nýja þjóðmálaþróun í landinu?

Ég efast ekkert um, að það eru til þeir menn í landi okkar, sem líta þannig á, að það sé mesta vandamál, hvað atvinnurekendurnir á Íslandi, t.d. í sjávarútvegi og ýmsum öðrum greinum, séu margir, hvað það sé erfitt að eiga við þá. Maður heyrir því meira að segja fleygt hér stundum, hvað liggi við, að þeir hundrað eða um það bil hundrað hraðfrystihúseigendur, sem eru til í landinu, það sé svo mjótt á milli þeirra og ýmissa annarra ekki góðra kröfugerðarmanna, að þeir stilli sér jafnvel upp í kröfufylkinguna með hinum lægst launuðu gegn sjálfu ríkisvaldinu, það sé ekki allt of gott að eiga við þessa aðila. Og þeir menn eru á þeirri skoðun, að það færi miklu betur á því, að það væru bara tveir, þrír eða fjórir verulega stórir erlendir aðilar með rétta umboðsmenn, sem hefðu með þessi mál að gera. Þá væri kannske hægt að láta þær skila fullum arði, hinar kapitalísku efnahagskenningar, sem er verið að reyna á landsmönnum núna. Þá gæti kannske staðizt í framkvæmd að nota þessar formúlur, þó að þær passi ekki á íslenzkt efnahagslíf eins og það er nú í dag. Það eru efalaust til þeir menn í okkar landi, sem vilja á þennan hátt grundvallarbreytingu í okkar atvinnu- og efnahagslífi. En ég dreg mjög í efa, að það sé meiri hluti landsmanna, sem er á þeirri skoðun. Það held ég, að sé ekki. Ég held, að þeir verði blekktir inn á þessa braut, verði hún ofan á.

Ég vil svo að lokum draga fram nokkur meginatriði af því, sem ég hef verið að segja í athugasemdum mínum og krítik á málið, eins og það liggur fyrir, sem þá jafnframt er hin almenna afstaða okkar Alþýðubandalagsmanna í þessum málum.

Í fyrsta lagi mótmælum við þeim vinnubrögðum, sem við höfð hafa verið í þessu mikla máli. Við teljum, að það hafi verið lengst af pukrað með þetta mál og upplýsingum hafi verið haldið fyrir Alþ. og að enn eigi raunverulega að starfa að þessu máli á ólýðræðislegan og óþingræðislegan hátt með því að leggja nú út á samningabrautina í svona stóru máli, án þess að Alþ. hafi tekið stefnumarkandi afstöðu í málinu.

Í öðru lagi teljum við, að gefnar hafi verið að verulegu leyti rangar upplýsingar í þessu þýðingarmikla máli, bæði viðvíkjandi hugsanlegum fjárhagslegum ávinningi af alúminíumverksmiðjubyggingunni og rekstrinum og eins varðandi virkjunarmálin og varðandi verð á rafmagni.

Í þriðja lagi teljum við, að það sé alveg augljóst, að miklar og hættulegar afleiðingar hljóti að verða af fjárfestingu hér suðvestanlands upp á 4.500 millj. kr. á þriggja ára tímabili, eins og nú er ástatt í okkar atvinnu- og efnahagsmálum. Við teljum, að þetta muni leiða af sér truflanir í okkar atvinnulífi og okkar atvinnurekstri yfirleitt og mjög óheppilegar afleiðingar í sambandi við þróun byggðarinnar í landinu.

Í fjórða lagi teljum við, að hætturnar af því, að erlent einkafjármagn fái þá aðstöðu, sem hér er ráðgerð í íslenzku atvinnu- og efnahagslífi, séu gífurlega miklar með sérstöku tilliti til þess, sem búast má við um framhaldið.

Í fimmta lagi bendum við á, að það er ekkert, sem rekur okkur Íslendinga út í alla þessa áhættu, eins og málin standa nú. Afkoma okkar er tiltölulega góð, framleiðsla þjóðarinnar er vaxandi og mikil og þjóðartekjur okkar eru fyllilega sambærilegar við þjóðartekjur annarra þjóða.

Í sjötta lagi teljum við það síður en svo, nokkurn stórhug, að vilja ráðast í þessar framkvæmdir á þessum grundvelli. Þvert á móti teljum við, að verði ráðizt í þessar framkvæmdir á þessum megingrundvelli, sem hér hefur verið markaður og samkv. þeim áætlunum, sem hér liggja fyrir, bendi þetta til uppgjafar hjá forustumönnum þjóðarinnar. Hitt sýndi miklu frekar stórhug landsmanna, að virkja fyrir landsmenn sjálfa og það á myndarlegan hátt, þ.e. að snúa sér að því að efla iðnað landsmanna sjálfra, snúa sér að því að bæta við nýjum starfsgreinum, sem við augljóslega bæði ráðum við og þurfum á að halda í atvinnulífi okkar.

Og í sjöunda lagi teljum við, að Alþ. þurfi að taka þetta mál, eins og það er nú komið, föstum tökum, að það þurfi að efna til nýrra rannsókna í þessum málum, nýrra athugana á öllum staðreyndum, þar sem hagsmunir Íslendinga sjálfra eru settir efst, en ekki alltaf miðað við þarfir og óskir og hagsmuni erlendra aðila, þar sem miðað verði við það að leysa okkar raforkumál út frá okkar hagsmunasjónarmiðum og atvinnumál okkar á sama hátt og að alveg sérstaklega verði við það miðað að ljá ekki erlendum gróða- eða auðfélögum fangastað á íslenzku atvinnulífi, þannig að þau geti náð meginþráðunum í sínar hendur, áður en við vitum af, en það álítum við skipta hvað mestu máli að forðast það á allan hátt, að erlendir auðhringar nái hér úrslitaáhrifum í íslenzku atvinnulífi.