07.05.1965
Sameinað þing: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

Aluminíumverksmiðja

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er alkunna, að fjölmargar þjóðir, sérstaklega smáþjóðir, sem eru að byggja upp atvinnulíf sitt á skömmum tíma, leitast við að ná til sín erlendu fjármagni, fá erlenda aðila til að byggja verksmiðjur eða atvinnufyrirtæki í landinu. Við þekkjum viðhorf Norðmanna í nágrenni okkar allt aftur til aldamóta og síðustu tilraunir þeirra til að auka þessa starfsemi, sem Trygve Lie hefur fengið að verkefni. Við vitum það, að margar þjóðir ganga svo langt í þessum efnum, að þær tryggja svo að segja hverjum, sem koma vill, margvísleg hlunnindi, þ. á m. tollfrelsi og oft algert skattfrelsi, t.d. til 10 ára. Við Íslendingar höfum byggt upp atvinnulíf okkar með mjög miklum þrótti undanfarna áratugi, en höfum þó ekki gripið til þessarar aðferðar. Við höfum fylgt þeirri leiðinni að tryggja okkur erlent lánsfé, en hleypa erlendum aðilum ekki inn í landið frekar.

Nú hefur verið mikið um það rætt undanfarið, hvort rétt væri að fylgja þessari stefnu áfram algerlega og undantekningarlaust. Þar eru sjálfsagt margar skoðanir og eru þeir menn til, sem vilja keppa að því takmarkalítið að ná erlendu fjármagni á allan mögulegan hátt inn í landið og hleypa útlendum fyrirtækjum hingað inn og mundu sjálfsagt telja það eðlilegt, að við gerðum það sama og margar aðrar þjóðir hafa gert, að setja löggjöf um slík mál, bjóða upp á viss hlunnindi þeim, sem koma vilja. Aðrir standa gersamlega á móti því að hleypa erlendum fyrirtækjum inn eða taka erlent fjármagn á þennan hátt. Á milli þessara tveggja sjónarmiða eru enn aðrir aðilar og í þeim flokki er Alþfl. Við höfum ekki talið rétt, að sett yrðu nein almenn ákvæði um innflutning á erlendu fjármagni, að það verði sett nein lagaleg skilyrði, sem mætti kalla ramma utan um slíkan innflutning. Hins vegar höfum við ekki talið rétt að útiloka algerlega, að þjóðin geti notað þessa leið til þess að koma upp nýjum atvinnugreinum, en við viljum, að það sé metið hverju sinni og ákvörðun tekin um hvert og eitt tilfelli. M.ö.o.: við teljum rétt að fara mjög varlega inn á þessa leið, að gæta þar ýtrustu varúðar.

Nú hefur verið um nokkurt árabil rætt um þann möguleika að koma hér upp erlendum alúminíumverksmiðjum. Hugmyndir um virkjun fallvatnanna eru gamlar og enginn getur neitað því, að ef Einari Benediktssyni og félögum hans hefði tekizt betur, en á horfðist, þeir hefðu komið upp stórvirkjun í Þjórsá og áburðarverksmiðju á árunum um og eftir 1920, hefðum við haft þar stóra atvinnugrein og getur enginn efazt um það, að við mundum vera komin langleiðis með að ná áhrifum útlendinganna alveg þar í okkar hendur, eins og á málum hefur verið haldið hér síðan.

Ástæðan til þess, að talað er um alúminíum, er fyrst og fremst sú, að það er orkufrek atvinnugrein og orkuna getum við haft. Mér virðist, að alúminíumiðnaður gæti orðið mjög góð viðbót við íslenzka atvinnuvegi, ný atvinnugrein, sem mætti hafa af margvíslegt gagn. Ég vil vara við því að ota hugmyndinni um nýja atvinnugrein gegn hinum eldri atvinnuvegum og gera úr þessu máli einhvers konar togstreitu, t.d. á milli sjávarútvegs, fiskiðnaðar og landbúnaðar annars vegar og þeirrar hugsanlegu nýju atvinnugreinar. Mér kemur ekki til hugar, að nokkur maður geti á það fallizt að tala um nýjar atvinnugreinar með erlendu fjármagni eða án þess, sem væru látnar ganga út yfir eðlilega þróun og öra þróun í höfuðatvinnuvegum þeim, sem eru fyrir. Og það er því að skemmta skrattanum og skaða sjálfa okkur og enga aðra, ef við fjöllum um það mál á þann hátt að tala um þetta sem togstreitu eða reyna að magna einhvers konar samanburð og kapp á milli atvinnuvega.

Við þurfum að nota raforkuna, hana getum við haft. En nú er komin til kastanna kjarnorka og okkur er tjáð, að innan fárra ára verði raforkuver knúin kjarnorku samkeppnisfær við vatnsaflið. Það hefur verið reynt að spyrja ýmsa erlenda sérfræðinga um álit þeirra á því, hve fljótt þetta muni gerast. Og margir þeirra, sumir, sem hér hafa verið á ferð, hafa talað um 4–5 ár. Aðrir tala um nokkru lengri tíma. En þess höfum við orðið vísir, að frændur okkar Norðmenn hafa miklar áhyggjur af þessu vandamáli og hafa einsett sér að virkja nú fljótlega það fossaafl, sem er ónotað og þeir geta við ráðið og reyna að afskrifa orkuverin, ef þess er nokkur kostur, á næstu 20–30 árum. Hugmyndin hjá þeim er sú, að þeir verði að vera við því búnir, að kjarnorkan bjóði betur, raforku ódýrari til iðnaðar, en fallvötnin geta gert, eftir rúmlega 20–30 ár, en þó muni mega hafa mikil not af vatnsorkunni, ef um er að ræða orkuver, sem hafa verið að verulegu leyti skrifuð niður.

Þetta sjónarmið verðum við að taka til greina, og það er vert að taka eftir viðhorfum Norðmanna, sem okkur standa næstir. Það getur farið svo, að ef við getum ekki notað vatnsorku okkar til iðnaðar í stórum stíl á næstu 2—3 áratugum, missum við alveg af þeim strætisvagni.

Í sambandi við það að hleypa erlendu auðfyrirtæki inn í landið, eru að sjálfsögðu fjölmargar hættur. En Íslendingar eru þjóð, sem hefur mjög sterka þjóðernistilfinningu og mikla árvekni í þeim efnum, eins og sjá má, heyra og lesa hér á hverjum degi og við megum ekki láta minnimáttarkenndina ráða þessum málum, heldur þurfum við að sýna árvekni og skynsemi. Þegar þess er gætt og þess verður einnig gætt, hve mikil áhrif erlendra fyrirtækja hafa verið á stjórnmál, fullveldi og félagsmál í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, þá held ég, að áhættan á því sviði sé ekki svo mikil, að það sé ekki rétt að taka hana í einu tilfelli. En hitt vil ég ítreka, að árvekni okkar megum við aldrei tapa á þessu sviði.

Ef til vili er ekki rétt að tala um það gagn, sem þjóðin muni hafa af væntanlegu alúminíumveri í krónum og aurum. Ef til vill verður það, sem við höfum bezt upp úr því fyrirtæki, tæknin, að með þessu opnum við braut inn á nýtt svið iðnaðar, eins og við höfum áður gert með verksmiðjum, sem voru stórar á okkar mælikvarða. Og ef við fáum inn í landið tæknikunnáttu og verkkunnáttu á sviðum, þar sem við höfum þá kunnáttu ekki, þá er til mikils að vinna og hinu er rétt að taka eftir, að ég hygg, að engin þjóð nú á dögum, sem hefur lífskjör eins og við eða vonir um lífskjör eins og við Íslendingar, láti sér detta í hug, að hún geti haldið uppi slíkum lífskjörum án þess að hafa iðnað og hraðvaxandi iðnað.

Staðsetning verksmiðjunnar er mikið og vandasamt mál og verður að taka þeim rökum, sem kunnáttumenn færa fram í þeim efnum. Virðist svo sem því miður sé ekki um þann möguleika að ræða, að þessi verksmiðja verði byggð norðanlands. Hins vegar hefur ríkisstj. skýrt frá þeirri hugmynd sinni, að hún muni leggja til, að meginið af þeim sköttum, sem þessi verksmiðja muni greiða, verði notað til þess að koma upp atvinnuvegum í dreifbýlinu og má þá vissulega gera ráð fyrir því, að verksmiðjan geti orðið að miklu gagni, því að sjálfsagt yrði hér um að ræða 1.000–1.500 millj. kr. á næstu 15–20 árum.

Mér finnst, að þessi hugmynd ætti að geta gengið eins langt og hægt er að ganga, að því er bezt verður séð í dag, til þess að sætta landshlutana um þetta mál. Það er hverju orði sannara, sem hér hefur komið fram, að slíkar framkvæmdir verður að athuga innan ramma efnahagskerfisins alls og má ekki líta á þær einangraðar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að gera mun sterkari og víðtækari áætlanir fyrir næstu ár, en hingað til hafa verið gerðar og þarf þá mjög að taka til athugunar, á hvern hátt hægt er að tryggja framkvæmd áætlananna betur, hvort það verður gert með einhvers konar áætlunarráði eða á annan hátt. Framkvæmdaáætlun þarf að sjálfsögðu að gera og um leið áætlun um vinnuafl. En að sjálfsögðu byggjast öll þessi áform fyrst og fremst á því, hve þjóðinni fjölgar ört, og 400–450 manna starfslið við þessa verksmiðju mundi vera rúm 10% af árlegri fólksfjölgun í landinu, eins og nú standa sakir. Ýmsir hagfróðir menn hafa varað við því, að ástandið á vinnumarkaðinum, sem við höfum búið við nú undanfarin ár, sé engan veginn tryggt og það mundi vera mjög óvarlegt af okkur að telja, að hin mikla atvinna, sem við höfum haft, sé árviss, án þess að neitt sé frekar um það hugsað. Það getur veil komið til, að raða þurfi framkvæmdum, láta einhverjar aðrar bíða meðan mestur mannfjöldi yrði við byggingu orkuversins og þessarar verksmiðju, og hygg ég þá, að framkvæmdir eins og skrifstofuhallir og verzlunarbyggingar mættu vera þar efst á borði. Hitt verður að sjálfsögðu að fara mjög varlega í, að draga úr framkvæmdum ríkisins eða láta slíkan tilflutning innan framkvæmdaáætlunar ganga yfir ríkissviðið eitt. Ástandið í þessu landi er miklu nær því að vera þannig, að ríkis- og bæjaframkvæmdir séu á eftir miðað við aðra hluta efnahagslífsins.

Það hefur verið gagnrýnt hér, að væntanlega muni alúminíumfyrirtækið fá að flytja inn vélar og tæki tollfrjálst. Ef þetta verður gert, eins og allar horfur eru á, tel ég, að þetta ætti að vera aðeins eitt skref í þeirri þróun, sem þegar er byrjað á, að reyna að draga úr þeirri tollbyrði, sem atvinnufyrirtæki okkar hafa orðið að bera. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Vestf., að íslenzk fyrirtæki mundu una því illa að þurfa að borga háa tolla af vélum og öðru, sem þau flytja til landsins, þegar þetta fyrirtæki fengi að flytja vélar inn tollfrjálst. Hins vegar er þegar stefnt í þá átt, við höfum á þessu þingi lækkað tolla á margvíslegum vélum og afnumið jafnvel á einstaka vélum og nú er gert ráð fyrir því í fyrsta sinn, að orkuverið fái að flytja inn sín tæki tollfrjálst. Ef við lítum á þessa mynd í heild, virðist þegar mega sjá hér stefnu í þá átt að létta þá byrði, sem íslenzk atvinnufyrirtæki hafa mátt bera vegna tolla á vélum, tækjum og öðru því, sem þau þurfa til starfsemi sinnar. Og þegar talað er um, hvernig íslenzk fyrirtæki standist samkeppni við erlend fyrirtæki, t.d. í iðnaði, er rétt að minnast þess, að þau munu vera fá í öðrum löndum, sem þurfa að byrja starfsemi sína með svo háum tollum sem hér hafa tíðkazt um áraraðir.

Nokkuð hefur verið rætt um þær skattareglur, sem menn hallast helzt að í sambandi við væntanlegt alúminíumfyrirtæki. Nú er talað um að skattleggja fyrirtækið ekki á venjulegan hátt með því að láta það telja fram til skatts og leggja síðan á það að undangenginni athugun, heldur taka upp sérstakan skatt á hvert tonn af málmi, sem framleiddur yrði eða fluttur út. Þessi skattur yrði að sjálfsögóu að miðast við, hvað menn telja, að mundi koma út úr íslenzkum skattalögum. Það, sem út úr dæminu kæmi, væri svipað, þótt við veldum þessa aðferð. En ástæðan fyrir því, að menn hallast að þessari leið, er ekki aðeins það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austf:, að það sé mikið og erfitt verk fyrir skattyfirvöld okkar að skoða allan rekstur í svo stóru fyrirtæki. Það er ekki höfuðatriði, heldur hitt, að við verðum að muna eftir því, að við erum að skipta við hring og þessi hringur, eins og svo að segja allir alúminíumhringarnir, sem ráða lögum og lofum í þeirri framleiðslugrein, ræður yfir allri framleiðslukeðjunni, frá því að krýolítið er grafið úr jörðu suður í Frakklandi eða Afríku og þangað til pottar og pönnur koma út úr síðustu verksmiðjunni. Hringurinn mundi því geta ráðið verðinu á hráefninu, sem flutt yrði inn til okkar og hann mundi líka geta ráðið verðinu, sem greitt er fyrir málminn, þegar hann er fluttur héðan burt. Og ég hygg, að Norðmenn, sem hafa af þessu mikla reynslu, hafi gefið Íslendingum þau einlægu ráð að taka upp þetta skattakerfi, ef þess væri nokkur kostur, hafa einmitt bent á það, að reynsla Norðmanna er sú, að það erfiðasta í viðskiptum við erlend félög er einmitt þetta í iðnaði eins og alúminíumframleiðslu, að það er svo erfitt að hafa stjórn á fjárreiðum þeirra, þegar þau eru að skipta við sjálf sig, bæði það, sem flutt er inn og það, sem flutt er aftur út. Þetta er höfuðástæðan, fyrir því, að menn hafa heldur hallazt að þessari leið. Að vísu mundu þá skattarnir ekki breytast, ef skattalögum væri breytt hér innanlands, nema á þeim tímum, sem samið er um endurskoðun, og er það raunar eitt mikilvægasta atriðið í öllum samningunum, sem fram þurfa að fara í sumar og sem rúmust ákvæði um endurskoðun, ekki aðeins á sköttum, heldur á rafmagnsverði og fleiri atriðum.

Alþfl. hefur, eins og ég sagði í upphafi máls míns, fylgt þeirri stefnu að leyfa ekki innflutning á erlendu fjármagni almennt, en taka ákvörðun um hvert og eitt tilfelli. Þessi stefna þýðir það, að flokkurinn vill ganga inn á þessa braut af ýtrustu varkárni, en ekki útiloka það, að við getum í einstökum tilfellum haft mikil og góð not af því að beita þessari leið, eins og margar aðrar þjóðir hafa haft. Þess vegna er nú eðlilegt, að haldið sé áfram samningum og ég hygg nú raunar, þó að ávallt megi deila um meðferð mála, að hér hafi ein ríkisstj. lagt spilin á borðið öllu ljósar, en venja er um slík mál hjá öðrum þjóðum, þar sem það mun vera tiltölulega sjaldgæft t.d., að höfuðatriði slíkra samninga séu yfirleitt birt og sumir samningarnir eru alls ekki birtir opinberlega. Ég sé enga aðra leið en þá; að framkvæmdavaldið gangi til samninga, geri samninga og leggi þá síðan fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar: Það er sú leið, sem yfirleitt er höfð um alla samninga, sem snerta erlenda aðila og verður þingið þá að hagnýta sér hvort tveggja; að framkvæmdavaldið er frá því sprottið og hluti af því í raun og veru og svo hitt, að þingið hefur óumdeilanlega rétt til þess að hafna samningunum eftir á, ef því sýnist svo. Þar að auki hefur ríkisstj. boðið upp á það, að þmn. mætti vera til ráðuneytis og fylgjast nákvæmlega með samningunum í sumar og hygg ég, að varla verði betur um búið sambandið milli þings og stjórnarframkvæmda í máli sem þessu. Ég hygg, að við getum hér stofnað til nýs atvinnuvegar, sem ekki megi undir neinum kringumstæðum og muni ekki ganga út yfir þá atvinnuvegi, sem fyrir eru eða draga á nokkurn hátt úr eðlilegri þróun þeirra. Ég hygg, að við getum haft gagn af því að nota erlent fjármagn á þessu takmarkaða sviði, en að við verðum að fjalla um þau mál öll af ýtrustu varkárni, sérstaklega í samningunum, enda mun ekki aðeins fyrirhugað, að Íslendingar sitji fyrir okkar hönd við það samningaborð, heldur að ráðnir verði lögfræðingar einhvers staðar frá þriðja ríki, sem eru vanari slíkum samningagerðum, en jafnvel þeir, sem mest hafa um þær fjallað hér innanlands. .Ég efast ekkert um, að það verði margvíslegir erfiðleikar á leið okkar í þessu máli. Þau eru fá, málin, sem eru nokkurs virði, þar sem ekki þarf að glíma við meiri eða minni erfiðleika. En það er til mikils að vinna í þess máli. Það er nokkur áhætta, sem um er að ræða. En að vandlega yfirveguðu máli og eins og það lítur út í dag, samningar eru þó ekki lengra komnir, en raun ber vitni, tel ég rétt að taka þá áhættu og treysti því, að vel muni fara og þjóðin muni njóta góðs af þessari framkvæmd, þegar fram líða stundir.