15.12.1964
Neðri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

96. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til, að stofnað sé nýtt prófessorsembætti við Háskála Íslands, prófessorsembætti í lífeðlisfræði. Nú annast sami prófessor kennslu og rannsóknir í lífeðlisfræði og lífefnafræði, en talið er nauðsynlegt að skipta þessu embætti þannig, að sinn hvor prófessorinn annist kennslu og rannsóknir í hvorri greininni um sig, enda sé það í raun og veru einum manni um megn að annast kennslu og rannsóknir í jafnvíðfeðmum greinum og hér er um að ræða. Við aðra háskóla mun nú orðið óþekkt, að sami prófessor hafi á hendi kennslu í báðum þessum greinum.

Ríkisstj. ákvað þegar í haust að leggja þetta frv. fyrir hið háa Alþingi og gerði því ráð fyrir fjárveitingu til þess að launa prófessorinn í fjárlfrv. fyrir árið 1965. Auk þessa er í fjárlfrv. gert ráð fyrir 500 þús. kr. fjárveitingu til stofnkostnaðar lífeðlisfræðideildar við læknadeildina.

Háskólinn hefur samið áætlun um fjölgun prófessora við stofnunina næstu 10 árin, en sú áætlun er til rækilegrar athugunar í menntmrn. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir stofnun þriggja embætta á þessu ári, prófessorsembættis í lífeðlisfræði við læknadeildina, prófessorsembættis í réttarsögu við lagadeild og prófessorsembættis í ensku við heimspekideild. Er þetta frv. því í samræmi við áætlun þá, sem fyrir liggur af háskólans hálfu um fjölgun prófessorsembætta við stofnunina.

Ég tel rétt að kynna hv. þm. þessa áætlun í aðalatriðum, þar eð ég tel brýna nauðsyn bera til þess að efla háskólann mjög verulega nú þegar og á næstu árum, ekki aðeins með fjölgun kennaraembætta, heldur einnig með bættri aðstöðu til kennslu og rannsókna.

Þegar háskólinn var stofnaður 1911, urðu stúdentar hans 45. Nú á þessum vetri stunda um 925 stúdentar nám við háskólann, og enginn vafi er á því, að í vændum er stórfelld fjölgun á stúdentum háskólans. Má gera ráð fyrir því, að stúdentatala þrefaldist á næstu tveim áratugum. Tala kandidata frá háskólanum hefur að sjálfsögðu einnig farið mjög vaxandi. Á þessu ári hefur háskólinn brautskráð 74 kandidata, og skiptast þeir þannig á deildir: Guðfræðideild 1, læknisfræði 19, tannlækningar 6, lyfjafræði lyfsala 3, lögfræði 3, viðskiptafræði 11, íslenzk fræði 2, nám til B.A .prófs 11, íslenzka fyrir erlenda stúdenta 1 og verkfræðideild 11.

Á undanförnum áratugum hefur verið tekin upp kennsla í ýmsum nýjum kennslugreinum við háskólann. Haustið 1940 var hafin kennsla í verkfræði, og hefur deildin brautskráð 7 kandidata og 183 fyrrihlutaprófsmenn, sem síðan hafa haldið áfram námi erlendis. Haustið 1941 var hafin kennsla í viðskiptafræðum, og hefur deildin nú brautskráð 179 kandidata. Haustið 1942 hófst kennsla til B.A.-prófa og hafa alls 123 stúdentar lokið því prófi, en kennslusvið hefur smám saman verið aukið. Haustið 1945 var hafin kennsla í tannlækningum, og hafa alls 50 kandidatar lokið fullnaðarprófi í tannlækningum. Haustið 1957 hófst síðan kennsla í lyfjafræði lyfsala, og hafa alls 5 lokið prófi þar.

Nú eru starfandi við háskólann 36 prófessorar, 26 dósentar, 27 aukakennarar og 6 sendikennarar, eða samtals 95 kennarar. Þeir skiptast þannig á deildir, að í guðfræðideild eru 3 prófessorar, 1 dósent og 1 aukakennari, í læknadeild 10 prófessorar, 17 dósentar og 13 aukakennarar, í lagadeild 4 prófessorar og 2 aukakennarar, í viðskiptadeild 3 prófessorar, 2 dósentar og 2 aukakennarar, í heimspekideild 10 prófessorar, 3 dósentar, 6 aukakennarar og 6 sendikennarar og í verkfræðideild 5 prófessorar, 3 dósentar og 3 aukakennarar.

Veruleg fjölgun hefur orðið á prófessorum, dósentum og aukakennurum undanfarin ár. En betur má þó, ef duga skal, þ.e.a.s. ef háskólinn á að vera fær um að gera hvort tveggja: taka við hinni gífurlegu aukningu stúdenta, sem tvímælalaust er í vændum, annars vegar og svo hins vegar að bæta kennsluna frá því, sem verið hefur, og gera hana mun fjölbreyttari og efla rannsóknarstörf sín á ýmsum sviðum.

Þá skal ég í fáeinum orðum gera grein fyrir tíu ára áætlun þeirri, sem háskólinn hefur gert um kennarafjölgun. Er þar gert ráð fyrir stofnun 32 nýrra prófessorsembætta á næstu 10 árum, og skiptast þau þannig á deildir háskólans: Guðfræðideild 2. læknadeild 7, lagadeild 3, viðskiptadeild 1, heimspekideild 4 og verkfræðideild 15, eða samtals 32. Áætlunin gerir ráð fyrir fjölgun annarra kennara sem hér segir: Læknadeild 33, lagadeild 5, viðskiptadeild 2, heimspekideild 4 og verkfræðideild 5, eða samtals 49. Samtals er því gert ráð fyrir 81 nýjum kennara við háskólann næsta áratuginn. Á einstök ár dreifist áætlunin þannig, að á fyrsta ári er gert ráð fyrir stofnun eins prófessorsembættis í læknadeild í lífeðlisfræði, prófessorsembættis í réttarsögu í lagadeild og í ensku við heimspekideild, á öðru árinu eða 1965 prófessorsembætti í mannkynssögu í heimspekideild, á árinu 1966 2 embættum í læknadeild og embætti í þjóðhagfræði við viðskiptadeild og dönsku við heimspekideild, 1967 embætti í refsirétti við lagadeild, 1968 embætti í kennimannlegri guðfræði við guðfræðideild, 1969 þrem embættum í læknadeild, 1970 embætti í fjármunarétti við lagadeild, 1971 embætti í almennri heimspeki við heimspekideild, 1972 4 prófessorsembættum í læknadeild og að lokum 1973 prófessorsembætti í siðfræði við guðfræðideild.

Í sambandi við þessa tíu ára áætlun um kennarafjölgun við háskólann er þess að geta, að hún tekur eingöngu til þeirra deilda, sem nú starfa við háskólann. En uppi eru ráðagerðir um að auka verksvið háskólans á ýmsum sviðum, bæði að því er snertir kennslu og rannsóknarstörf. Í því sambandi vil ég fyrst og fremst láta þess getið, að undanfarin ár hefur verið unnið að undirbúningi þess, að allir þeir, sem gerast vilja framhaldsskólakennarar; geti sótt fullgilda háskólamenntun til Háskóla Íslands, bæði á sviði tungumála og annarra hugvísinda og á sviði raunvísinda, og sé sú menntun fullkomlega sambærileg þeirri, sem krafizt er af framhaldsskólakennurum í nálægum löndum. Á því hefur því miður verið mikill misbrestur hér, að framhaldsskólakennarar hafi átt kost á æskilegri framhaldsmenntun, og tel ég sjálfsagt, að stefnt sé að því, að allir framhaldsskólakennarar verði háskólamenntaðir menn, sem átt hafi kost á því að hljóta menntun sína í Háskóla Íslands. Virðist þetta ekki hvað sízt vera sjálfsagt, eftir að verksvið Kennaraskóla Íslands var aukið, hann gerður að stúdentaskóla, auk þess sem hann heldur áfram að mennta kennara fyrir barnaskólana. En jafnhliða því að háskólinn tæki að sér að sjá framhaldsskólunum fyrir háskólamenntuðum kennurum, ætti kennaraskólinn að hafa aðstöðu til þess að veita þeim, sem ætla að starfa eða eru starfandi við barnaskólana, framhaldsmenntun í sérgreinum kennarastarfsins, þ.e.a.s. framhaldsmenntun á kennaraháskólastigi. Ef af þessum ráðagerðum yrði, mundi verksvið háskólans stóraukast og kennarafjöldi hans þurfa að aukast enn umfram það sem getur í 10 ára áætlun háskólans.

Þá er og nauðsynlegt að taka, áður en langt um líður, upp kennslu og rannsóknir í nýjum greinum við háskólann, og ber þá fyrst og fremst að nefna náttúrufræði og almenn þjóðfélagsvísindi. Mundi það þá einnig kalla á nýja kennslukrafta til viðbótar 10 ára áætluninni. Ég held, að slíkar hugmyndir um vöxt og eflingu háskólans séu ekki aðeins raunhæfar, heldur mjög gagnlegur. Almennur skilningur á því, að einmitt bókvitið verður látið í askana, fer nú svo mjög vaxandi, og ég þykist mega gera ráð fyrir því, að tillögum um fjölgun kennaraembætta við háskólann og eflingu hans að öðru leyti verði vel tekið á hinu háa Alþingi og þeim muni verða fagnað meðal þjóðarinnar.

Ég vona, að þetta frv. fái greiða afgreiðslu hér í hinni hv. d. Ég hefði helzt kosið, að hægt yrði að auglýsa hið nýja embætti svo tímanlega, að nýi prófessorinn gæti tekið til starfa á vormissirinu næsta ár.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.