18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

Framkvæmd vegáætlunar 1964

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur svarað sumu af því, sem ég var að spyrja um og ég er þakklátur honum fyrir það. Og það er vitað mál, að það er ekki hægt að krefjast þess af honum að svara öllu, sem menn kynnu að vilja fá að víta. En hann talaði þó í þeim dúr, að ég hefði verið að gagnrýna það, að unnið hefði verið fyrir lánsfé í Reykjanesbraut, Siglufjarðarvegi, Þrengslavegi o.fl. Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh. Eða heldur hann, að ég fari að gagnrýna það, að notuð sé lánsheimild, sem ég hef sjálfur verið með að samþ.? Það er ekki það, sem ég var að gagnrýna, heldur hitt, að mér sýnist, að það eigi að vera í vegaskýrslu grg. yfir þetta, en ekki í vegáætlun fyrir næstu 4 ár. Og mér er ekki ljóst, hvernig það getur heyrt undir vegáætlun næstu 4 ára, hvað er búið að gera. Ég held, að það sé fyrst og fremst í vegaskýrslunni, sem þetta á að standa. Og það er ekkert annað sem ég er að fara fram á, heldur en það, að hún geri grein fyrir því, sem búið er að gera. Vegáætlunin næsta gerir grein fyrir því, sem á að gera. Og það er þess vegna, sem ég er að benda á þetta, því að þetta er fyrsta skýrslan og verður því til fyrirmyndar.

Hæstv. ráðh. hefur svarað því, sem ég spurði um Ólafsvíkurveg og útboð á þeim vegi og það kom í ljós, sem ég gizkaði á, að það var aðeins hluti af veginum, sem var boðinn út, og er það fullnægjandi svar. Þá segir hæstv. ráðh., að það hafi verið endurnýjuð gömul lán, af því séu skuldirnar núna svona. Og hann benti á, að það gæti verið hagur í því að ljúka einhverjum vegarkafla. Þetta er rétt hjá honum. Það er hagræði að því að hætta ekki við verk, þegar lítið skortir á að ljúka því. En það er vel hægt að taka í vegáætlun að heimila einhverja upphæð til slíks, svo að það sé líka í samræmi við vegáætlun. En það er ekki það, sem ég var að gagnrýna. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., ég gagnrýndi sum bráðabirgðalánin, þ.e.a.s. þar sem fjárveitingar voru til þess að greiða gömlu skuldirnar upp að fullu, en tekin eru ný lán, án þess að séð verði, að það hafi verið aðkallandi. Hann veit það alveg eins vel og ég, að ætlunin með vegal. er að afnema það form að vinna í vegagerð í landinu fyrir lánsfé, sem ríkisstj. heimilaði, án þess að það kæmi til Alþingis, að unnið skyldi fyrir slíkt fé. Þetta er skýrt tekið fram í vegalögunum, að þessari reglu skuli fylgt. Og af því er ég að gagnrýna það, að til einstakra vega hafi verið veitt lán, þótt fjárveiting væri til að ljúka gömlu lánunum að fullu. Samt eru veitt lán aftur og það há, án þess að það hafi verið aðkallandi, því að það leysir engan sérstakan vanda að taka lán núna og eiga að greiða það að fullu á næsta ári. Það hraðar að vísu um eitt ár, en það verður ekki hægt að koma fastri reglu á þetta, nema ákvæðum vegal, sé fylgt. Og ég skil líka hæstv. ráðh. svo, að hann sé sammála mér um það, að þessum ákvæðum vegal. verður að fylgja og um þetta varð samkomulag, þegar vegal. voru sett, á milli allra flokka, að taka upp þá reglu. En mér sýnist, að henni hafi ekki verið fylgt nema að parti til á þessu ári. Ég spurði hæstv. ráðh. um það, hvaða reglu hefði verið fylgt um að heimila slíka lántöku, en hann hefur ekki svarað því. Hefur einhverjum héruðum verið neitað um vegaframkvæmdir fyrir slík bráðabirgðalán og ef það er, eftir hvaða reglu var farið á þessu ári um það að heimila lán eða neita um lán,

Ég get vel fallizt á það með hæstv. ráðh., að frekari upplýsingar í þessum efnum komi til greina við umr. um vegáætlun. En ég vil endurtaka að lokum og það viðurkenndi hann, að það sé full þörf á að gagnrýna hina fyrstu vegaskýrslu, til þess að þær verði sem fullkomnastar í framtíðinni. Og ég er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir það, hve vel hann hefur tekið undir það, að í vegaskýrslunni skuli verða framvegis sundurliðun á ráðstöfun viðhaldsfjárins, einnig sundurliðun á því fé, sem fer til snjómoksturs í landinu og á hvaða vegum er krafizt mótframlags heiman frá úr héraði og hvar ekki. Í snjómokstur hafa farið allmargar millj. kr. á undanförnum árum, þó að það sé minna nú tvö s.l. ár, en áður vegna tíðarfars, en þetta voru allmiklar upphæðir til skamms tíma og það er ekki nema sjálfsagt, eins og hæstv. ráðh. líka sagði, að þm. fái fullnægjandi grg. yfir það.

Ég sé ekki, að það skorti neitt að ráði á þær upplýsingar, sem ég óskaði eftir hjá hæstv. ráðh. nú, sem hægt er annars að krefjast af honum svona fyrirvaralaust, nema ef það væri helzt það, sem ég nefndi, hvort einhverjum héruðum hefði verið neitað um bráðabirgðalán, og eftir hvaða reglum hefði verið farið um þá hluti.