18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

Framkvæmd vegáætlunar 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég er ánægður með það, að hv. 3. þm. Vestf. er nú orðinn hér um bil sammála mér í sambandi við það mál, sem hér er um að ræða, og er auðheyrilegt á seinni ræðunni, að það er ekki mikið, sem á milli ber. Og hann telur, að það sé aðeins eitt, sem hann eigi eftir að fá upplýst af því, sem hann geti vænzt af mér að þessu sinni, þ.e. hvaða reglum hafi verið fylgt við endurnýjun bráðabirgðalánanna. Það hélt ég, að ég hefði verið búinn að segja hér áðan. Það var í samræmi við þær yfirlýsingar, sem ég gaf hér í hv. Alþingi, þegar við vorum að ganga frá vegáætluninni fyrir árið í ár. Ekki man ég, hvort hv. 3. þm. Vestf. var með kvíðboga fyrir því, að Vestfirðir þyrftu að greiða öll sín bráðabirgðalán, en áreiðanlega voru það einhverjir Vestfjarðaþm. og ég gæti trúað því, að hv. 3. þm. Vestf, hafi verið einn í þeirra hópi. Þá var það, sem ég gaf yfirlýsingu um, að það yrði heimilað að endurnýja bráðabirgðalánin um helming eða jafnvel 2/3 og það er þessi regla, sem hefur verið fylgt fyrir hvert kjördæmi og sum kjördæmi hafa þó greitt meira en 2/3, því að bráðabirgðalánin í heild hafa lækkað um liðlega helming. Ég held, að það sé ekkert leyndarmál að upplýsa alveg um það, hvar þessi lán eru, sem endurnýjuð hafa verið og ég fagna því, að hv. 3. þm. Vestf. meinti það ekki, sem ég hafði tilhneigingu til að lesa út úr hans fyrri ræðu, að við framkvæmd á endurnýjun lánanna hafi verið hlutdrægni beitt. Hann meinti það ekki og það er ágætt, vegna þess að það hefur ekki verið gert. Þess vegna væri ekkert því til fyrirstöðu að birta það. En framkvæmdin hefur verið þessi, að ekkert kjördæmi mátti endurnýja meira af bráðabirgðalánunum, en 2/3. Sum hafa endurnýjað að helmingi til, sum hafa komizt langt með að borga allt lánið. Og þau kjördæmi, sem skulduðu mest 1963, skulda einnig mest núna. Þess vegna þarf það ekki að vera undrunarefni fyrir hv. 3. þm. Vestf., eins og hann lét þó í ljós í fyrri ræðu sinni, að það væru 2 eða 3 kjördæmi, sem hefðu endurnýjað mest af bráðabirgðalánum. Þetta liggur ljóst fyrir. Vegna þess að þau skulduðu mest 1963, þá skulda þau mest í dag.